Á miðvikudag fór fram heil umræða á Alþingi, undir liðnum fundarstjórn forseta, sem snérist um ásakanir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að upplýsingum sem lagðar höfðu verið fyrir þverpólitíska samráðsnefnd um losun hafta hefði verið lekið í fjölmiðla. Í nefndinni sitja fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi. Sigmundur Davíð sagði að trúnaðarbrestur hefði orðið eftir fund samráðsnefndarinnar í desember og í kjölfarið hefði upplýsingagjöf verið breytt þannig að þeir sem sitja í nefndinni fái í raun ekki lengur upplýsingar um hvað sé að gerast.
Stjórnarandstöðuþingmenn höfðu spurt forsætisráðherra hvort búið væri að ákveða að notast við stöðugleikaskatt í næstu skrefum í átt að losun hafta og sagði Sigmundur svo vera. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði það vera „fyndið“ þar sem samráðsnefndin ætti að funda tveimur dögum síðar þar sem átt hafi að fara yfir stór álitamál sem tengdust þeirri leið með sérfræðingum. Það væri fyndið að fara í samráð ef búið væri að ákveða leiðina.
Sigmundur Davíð sagði að fulltrúum flokka hafi verið haldið upplýstum í gegnum samráðsnefndina. „Hins vegar dreg ég enga dul á það að það setti töluvert strik í reikninginn þegar að eftir einn slíkan fund var farið að dreifa upplýsingum til fjölmiðla og farið í viðtöl jafnvel til þess að lýsa því sem gerðist á þessum fundi og í raun og veru dregin upp á margan hátt röng mynd af því. Það varð til þess að menn hlutu að endurskoða hvernig upplýsingagjöf á þessum fundum væri háttað,“ sagði forsætisráðherra.
Stjórnarandstaðan tók þessum ásökunum forsætisráðherra vægast sagt illa og upphófst mikil hitaumræða. Á meðal þeirra sem stigu í pontu var Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hann hafði með sér fréttaskýringu sem birtist í Kjarnanum þann 8. desember 2014, sama dag og samráðshópurinn fundaði síðast. Ásmundur Einar sagði að í þeirri fréttaskýringu væri því lýst nákvæmlega sem fram hefði farið á umræddum fundi. Það væri grafalvarlegt að þessum upplýsingum hefði verið lekið. Ræðu Ásmundar Einars má sjá hér að neðan.
Tvær áætlanir
Í fréttaskýringunni sem Ásmundur Einar vísaði til kom fram að tvær áætlanir sem tengjast losun fjármagnshafta hefðu verið kynntar fyrir samráðsnefndinni í hádeginu þennan sama dag, 8. desember 2014. Önnur áætlunin snýst um að knýja eigendur aflandskróna til að skipta eignum sínum yfir í skuldabréf í erlendum myntum til meira en 30 ára á afslætti. Sú áætlun kallast Project Slack. Hin áætlunin snýst um að leggja flatan útgönguskatt á allar eignir sem vilja yfirgefa íslenska hagkerfið. Slíkur skattur myndi leggjast jafnt á innlendar sem erlendar eignir, en ekkert var rætt um hversu hár skatturinn ætti að vera. Síðar kom í ljóst um sá skattur hefur hlotið nafnið stöðugleikaskattur.
Í fréttaskýringunni kom einnig fram að á fund samráðsnefndarinnar hefðu komið Glenn Kim, formaður framkvæmdastjórnar um losun fjármagnshafta, og Lee Buchheit, fyrir hönd lögfræðistofunnar Cleary Gottlieb Steen & Hamilton, sem er einn helsti ráðgjafi stjórnvalda í málinu.
Fréttaskýring í Morgunblaðinu 18. nóvember
Þótt fréttaskýring Kjarnans hafi vissulega verið ítarleg, og lýst því sem fram fór á fundinum, þá liggur fyrir að upplýsingar um þessar tvær áætlanir sem þar voru kynntar höfðu birst í fjölmiðlum nokkrum dögum áður. Nánar tiltekið 20 dögum áður.
Þann 18. nóvember 2014 birtist í Morgunblaðinu mjög ítarleg, upplýsandi og góð fréttaskýring eftir Hörð Ægisson um málið. Hér er hægt að lesa stutta frétt byggða á skýringunni. Þar sagði meðal annars: „Til stendur að leggja sérstakan skatt vegna allra greiðslna slitabúa föllnu bankanna úr landi til erlendra kröfuhafa. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er gert ráð fyrir því fyrirliggjandi tillögum ráðgjafa stjórnvalda um losun fjármagnshafta að útgöngugjaldið verði 35%.
Mun gjaldið einnig ná til aflandskróna eigu erlendra aðila eftir að þeim verður skipt skuldabréf erlendri mynt til mjög langs tíma. Skatturinn, sem er eitt af þeim þjóðhagslegum skilyrðum sem þarf að hafa til hliðsjónar við veitingu undanþágna frá höftum, verður settur til að tryggja að jafnræðis sé gætt við tilslökun höftum. Enginn greinarmunur er gerður innlendum eða erlendum eignum slitabúanna enda séu allar greiðslur til erlendra kröfu- hafa háðar takmörkunum vegna reglna um fjármagnshöft.
Þrátt fyrir að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um hver skattprósentan verður hún gæti hugsanlega orðið hærri en 35% er ljóst að slitabúin þyrftu að greiða samtals mörg hundruð milljarða króna gjald til ríkisins hyggist þau inna af hendi greiðslur yfir landamæri til kröfuhafa. Bókfært virði eigna slitabúa Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans (LBI) nam tæplega 2.600 milljörðum króna um mitt þetta ár. Erlendir aðilar eiga 94% allra krafna hendur búunum.“
Í fréttaskýringunni kom einnig fram að vinnuheiti annarrar áætlunar framkvæmdastjórnar stjórnvalda um losun hafta sé „Project Slack“.
Tveimur dögum fyrir fund samráðsnefndarinnar birti Morgunblaðið aðra fréttaskýringu þar sem útfærsla þessara tveggja áætlanna var útskýrð frekar. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt „Project Slack“ yrði útgöngugjald aflandskrónueigenda þannig að þeir yrðu „þvingaðir“ til að skipta krónueignum sínum á afslætti yfir í skuldabréf í erlendri mynt til meiri en 30 ára.
34 fréttir um útgönguskatt í aðdraganda fundar
Allt sem kom fram í fréttaskýringu Kjarnans 8. desember 2014, sem Ásmundur Einar veifaði úr ræðustól Alþingis sem sönnun þess að leki hefði átt sér stað, hafði því efnislega komið fram áður.
Auk þess voru skrifaðar 34 fréttir í íslenska fjölmiðla á milli 18. nóvember og fram að miðnætti 7. desember þar sem minnst var á svokallaðan útgönguskatt. Tvívegis hafði verið skrifað um „Project Slack“, í fréttaskýringum Morgunblaðsins 18. nóvember og 6. desember sem minnst er á hér að ofan. Augljóst er því að búið var að leka upplýsingunum um áætlanirnar sem kynntar voru á fundinum mörgum dögum áður en þær voru nokkru sinni kynntar fyrir þeim sem sitja í samráðshópi um losun hafta.
Það er vert að ítreka að umfjöllun Morgunblaðsins um áætlanirnar var mjög góð og upplýsandi. Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttaskýringarnar var einfaldlega að vinna sína vinnu, að nýta sér tengslanet til að ná í upplýsingar og koma þeim á framfæri við lesendur sína. Eins og góðir blaðamenn gera.
Það er nánast án undantekninga þannig að þegar einhver býðst til að leka upplýsingum þá hefur sá hinn sami, eða að minnsta kosti telur sig hafa, einhverja hagsmuni af því að upplýsingarnar komist í almenna umræðu. Blaðamenn vita þetta og þurfa að meta efni lekans sjálfstætt áður en þeir ákveða að gera fréttir byggðar á þeim. Það þarf að meta hvort upplýsingarnar séu fréttnæmar og hvort þær sýni heildarmynd, eða bara brot af henni.
Í þessu tilfelli er augljóst að allir góðir blaða- og fréttamenn hefðu nýtt sér upplýsingarnar sem Morgunblaðið var með undir höndum í nóvember 2014 með sama hætti og blaðið gerði. Um er að ræða útfærslu á lausn á stærsta hagsmunamáli íslensks samfélags í dag og efnið átti sannarlega erindi við almenning. Þetta var stórfrétt.
En þegar búið er að fjalla um hluti opinberlega þá eru þeir...opinberir. Það er ekki hægt að leka sömu upplýsingunum tvisvar. Það er því einhver annar en þeir fulltrúar allra flokka sem sitja í samráðsnefnd um losun hafta sem bera ábyrgð á lekanum, enda voru þeir ekki upplýstir um efnið sem var andlag hans fyrr en 20 dögum eftir að það birtist í Morgunblaðinu.