Bréfritari Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins segir að Ríkisútvarpið (RÚV) hafi leikið stórt hlutverk í búsáhaldarbyltingunni svokölluðu, meðal annars með því að útvarpa skilaboðum mótmælenda um hvar tilteknir embættismenn byggju með fjölskyldum sínum og hvatningum ónafngeindra forsvarsmanna mótmælanna um að koma með búsháhöld á þau. „Þar sem enginn raunverulegur ábyrgðarmaður var nefndur til sögunnar voru þetta hvatningar Ríkisútvarpsins sjálfs. Þess utan verður því vart trúað að nokkur nafngreindur einstaklingur hefði fengið ríkisútvarp til að koma slíkum boðskap á framfæri.“
Markmið byltingarinnar hafi verið að eyðileggja vinnufrið á Alþingi og að reyna að yfirtaka það með valdi ef annað dygði ekki til að koma ríkisstjórninni frá. „Munaði aðeins hársbreidd að varnir þingsins yrðu brotnar á bak aftur. Þinghúsið var grýtt, með eggjum, grjóti og saur (!),“ segir í bréfinu, sem birtist í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins í dag.
Bréfritarinn, sem að öllum líkindum er ritstjórinn Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra og seðlabankastjóri, telur að eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum af vinstri stjórninni sem síðast sat sé RÚV „smám saman að komast í sama stuð.“ Þar minnist hann sérstaklega á mótmæli sem fóru fram gegn ríkisstjórninni á 17. júní.
Segir ekki upplýst hverjir fjármögnuðu búsáhaldarbyltinguna
Í Reykjavíkurbréfinu segir að enn hafi ekki verið að fullu upplýst hverjir fjármögnuðu og skipulögðu byltingartilraunina sem reynd var að mati höfunda þess í mótmælunum mánuðina eftir hrun. Vísbendingar liggi þó fyrir um hvort tveggja þótt ekki séu þær nánar tilgreindar í bréfinu.
Bréfritarinn segir að stjórnarandstöðuflokkar þess tíma hafi tekið virkan þátt í að ýta undir að málfrelsið innan þinghússins hafi ekki fengið að njóta sín. Við það hafi bæst að þingmenn hefðu haft ærna ástæðu til að óttast um öryggi sitt. „Hvergi í hinum vestræna heimi væri svo helg stofnun látin vera jafn berskjölduð og þarna var. Ríkisútvarpið, sem kallar sig í heimildarleysi „RÚV“, útvarpaði beint gífuryrðum, smánaryrðum og árásum á einstaklinga, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Og það kom margoft á framfæri tilkynningum um að „forsvarsmenn“ mótmælanna hvettu fólk til að mæta á Austurvöll og hafa með sér búsáhöld, t.d. pönnur. Þar sem enginn raunverulegur ábyrgðarmaður var nefndur til sögunnar voru þetta hvatningar Ríkisútvarpsins sjálfs. Þess utan verður því vart trúað að nokkur nafngreindur einstaklingur hefði fengið ríkisútvarp til að koma slíkum boðskap á framfæri.
Fyrst og fremst vildu „aðstandendur“vóeirðanna gera þingið óstarfhæft og láta þingmenn, lögreglumenn og fjölskyldur þeirra skynja að öryggi þessa fólks og tilvera þingsins væri í mikilli hættu. Og Ríkisútvarpið lét ekki þessa aðkomu duga.
Það útvarpaði skilaboðum ræðumanna og "skipuleggjandans" um það hvar tilteknir embættismenn byggju með fjölskyldum sínum.“
RÚV þjónustar mótmælendur sérstaklega
Í Reykjavíkurbréfinu segir að eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum af fyrstu hreinu vinstristjórninni sé RÚV smám saman að komast í sama stuð. „Fáeinum dögum fyrir þjóðhátíðardaginn sagði Ríkisútvarpið frá því, að mótmæli væru fyrirhuguð á Austurvelli á 17. júní, þegar forsætisráðherra heldur ræðu sína, forseti leggur blómsveig að standmynd Jóns Sigurðssonar, fjallkonan flytur ljóð og kór syngur ættjarðarlög, þar með talinn sjálfan þjóðsönginn. Ríkisútvarpið sagði að 3.000 manns hefðu þegar „boðað komu sína“ eins og verið væri að ræða um 50 ára afmæli einhvers. Í fréttum á þjóðhátíðardaginn var því haldið fram að svipaður fjöldi og „boðað hefði komu sína“ hefði mætt til að mótmæla. Heimildir Morgunblaðsins segja á hinn bóginn að 1.200-1.500 hafi verið á Austurvelli. Þar af voru um 500 eða tæplega það sem voru með háreysti og dólgshátt.
Margt fólk hætti auðvitað við að fara til athafnarinnar, ekki síst fjölskyldur með börn, vegna hótana um að hinni hátíðlegu athöfn yrði hleypt upp.
Þeir sem höfðu samband við Morgunblaðið voru undrandi og sárir yfir þessari smán, sem fáeinir gerðu þjóðinni á hennar helsta hátíðisdegi.
Hvergi í hinum lýðræðislega hluta heimsins er það innifalið í málfrelsi eða réttinum til að koma mótmælum sínum og sjónarmiðum á framfæri, að eyðileggja megi fundi eða hátíðarstundir fyrir öðrum.
Ríki og borg hafa í 70 ár sameinast um að minnast þjóðfrelsisbaráttunnar, þjóðhetjunnar og fagna hinu íslenska lýðveldi. Ein og hálf klukkustund hefur verið tekin frá fyrir slíka athöfn. Það er allt og sumt. Það er ömurlegt að hópur fólks taki sér rétt til að eyðileggja slíka stund fyrir þjóðinni. Heimskan og vankunnáttan var svo afhjúpuð þegar vísað var til hins annálaða prúðmennis Jóns forseta sem fordæmis fyrir þessum skrílslátum.
Og sérlega dapurlegt var að eina stofnun landsins, sem Alþingi segir að starfi í þjóðarþágu, Ríkisútvarpið, skuli hafa látið eftir sér að þjónusta þennan hóp sérstaklega. En það er kannski dapurlegast að svo skuli komið að það framtak þess hafi í rauninni ekki komið nokkrum manni á óvart.“