Mynd: Birgir Þór

„Meiri tortryggni og reiði innan Sjálfstæðisflokksins en ég átti von á“

Benedikt Jóhannesson hefur verið fjármála- og efnahagsráðherra í fimm mánuði. Hann segir að Bjarni Benediktsson hafi ekki lokað á markaðsleið í sjávarútvegi í stjórnarmyndunarviðræðum, að krónan sé alvarlegasta viðfangsefni ríkisstjórnarinnar og að hann sjái enga möguleika í Brexit fyrir Ísland. Þá segir hann að engir baksamningar hafi verið gerðir í dómaramálinu.

Fyrstu mán­uðir nýrrar rík­is­stjórnar hafa að mörgu leyti verið storma­sam­ir. Hún er með minni­hluta atkvæða á bak við sig, með ein­ungis eins manns meiri­hluta og mælist með 30 pró­sent stuðn­ing, sem er for­dæma­laust svona skömmu eftir að ný rík­is­stjórn tekur við. Þá hefur athygli fjöl­miðla, og ekki síður stjórn­ar­and­stöð­unn­ar, verið á þeim málum sem rík­is­stjórnin er ekki sam­stíga um og þá sýni­legu bresti sem eru til staðar milli stjórn­ar­liða vegna þeirra mála. Nægir þar að nefna t.d. flug­völl­inn í Vatns­mýr­inni, aukin virð­is­auka­skatt á ferða­þjón­ustu, áherslur í sjáv­ar­út­vegs­málum og Evr­ópu­sam­bands­mál. Nú síð­ast kastað­ist í kekki vegna til­lagna starfs­hóps á vegum fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins um aðgerðir gegn skattsvik­um, sem fólu meðal ann­ars í sér að banna fimm og tíu þús­und króna seðla. 

Bene­dikt Jóhann­es­son, for­maður Við­reisnar og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, upp­lifir stöð­una samt sem áður ekki þannig að stjórn­ar­flokk­arnir séu ósam­stíga né að hans flokk­ur, Við­reisn, hafi gefið mikið eftir þegar samið var um rík­is­stjórn­ar­sam­starf. Sam­starfið innan rík­is­stjórn­ar­innar hafi verið mjög gott frá upp­hafi. „Ég upp­lifi þetta ekki þannig. Í stjórn­ar­sátt­mál­anum náðum við fram mjög mörgum af okkar mál­um. Auð­vitað eru þau ekki öll komin fram enn þá og ég veit ekki hvort þau muni öll ná í gegn á end­an­um. En mörg af þessum málum sem við vorum með á dag­skrá komust í gegn og það eru ekki  mál sem ég man eftir að hinir flokk­arnir voru að heimta að ná í gegn sem okkur fannst ógeð­felld.“

Bene­dikt segir að hann hafi ekki haft miklar vænt­ingar til starfs stjórn­mála­manns­ins þegar hann ákvað að hella sér út í stjórn­mál. Þ.e. hann hafði ekki gengið með þann draum í mag­anum síðan að hann var barn að verða ráð­herra, en segir að sá hluti starfs­ins, að vera fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, sé svip­aður og að reka fyr­ir­tæki, sem Bene­dikt gerði ára­tugum sam­an. „Það má segja að þetta sé þrí­þætt starf sem ég gegni: ég er for­maður Við­reisn­ar, alþing­is­maður og ráð­herra. Mér finnst mjög gaman að vera for­maður Við­reisnar og ráð­herra. En það er þetta alþing­is­manna­starf­ið, sá hluti þess sem fer fram í þingsöl­un­um, þar sem menn eru tölu­vert að setja upp leik­rit, það finnst mér svo­lítið leið­in­legt. Sér­stak­lega þegar það kemur frá mönnum sem eru almennt vand­aðri stjórn­mála­menn. En ég þoli það alveg. Og það er mjög gaman að vinna í ákveðnum mál­um. Ég veit að mörgum finnst hlut­irnir gerast hægt, en það tekur stundum tíma að vinna þá almenni­lega. Það hefur líka komið mér á óvart hvað það er góð sam­vinna um marg­t.“

Hann seg­ist ekki hafa hugsað mikið um það hversu lengi hann ætli sér að vera for­maður Við­reisnar né hversu lengi hann ætli að ílengj­ast í stjórn­mál­um. „Ég var 25 ár í skóla, 30 ár í við­skipta­líf­inu, og hugsa að ég verði ekki mikið lengur í póli­tík.“

Óbil­girni þjappar hópnum saman

Við­reisn varð til í kjöl­far þess að hópur Evr­ópu­sinna yfir­gaf Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Á meðal þeirra var Bene­dikt. Það gerð­ist eftir að rík­is­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks og Fram­sóknar lagði fram þings­á­lykt­un­ar­til­lögu um að draga umsókn Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu til baka. Hóp­ur­inn taldi for­víg­is­menn Sjálf­stæð­is­flokks­ins hafa lofað því í aðdrag­anda þing­kosn­inga árið 2013 að umsóknin yrði ekki dregin til baka nema að und­an­geng­inni þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu. Þegar á reyndi taldi Bjarni Bene­dikts­son, for­maður flokks­ins, það vera „póli­tískan ómögu­leika“ að standa við það lof­orð.

Við­reisn bauð fram í síð­ustu kosn­ing­um, fékk 10,7 pró­sent atkvæða og sjö þing­menn. Og eftir langar stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­ur, þar sem reynt var að mynda nær allar teg­undir af rík­is­stjórnum á grund­velli nið­ur­stöðu kosn­ing­anna, varð úr að Við­reisn og Björt fram­tíð náðu saman við Sjálf­stæð­is­flokk.

Bene­dikt við­ur­kennir að það hafi komið honum á óvart hversu mikil tor­tryggni hefði verið í garð Við­reisnar innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins eftir kosn­ing­arnar og segir að hann hafi fundið vel fyrir henni. „Það var meiri tor­tryggni og reiði innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins en ég átti von á. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn bætti bæði við sig fylgi í kosn­ing­unum og þing­mönnum og ég hefði skilið það betur ef þeir hefðu tapað þing­mönnum sem hefðu allir farið yfir til Við­reisn­ar. Það var samt ekki þannig. Menn höfðu varan á sér í sam­skiptum til að byrja með. Mér finnst það hins vegar hafa snar­batn­að. Fólk er auð­vitað að kynn­ast bet­ur. Svo finnst mér þetta líka þannig að eftir því sem árás­irnar verða óbil­gjarn­ari á ákveðna aðila þá þjappar það hópnum svo­lítið sam­an. Ég tel að síð­asta mán­uð­inn hafi sam­starfið innan þings­ins verið mun smurð­ara en það var í upp­hafi. En menn hafa orðið varir við þessar yfir­lýs­ingar manna innan stjórn­ar­liðs­ins um hin og þessi mál.“

Telur að höf­uð­málin þok­ist áfram

Áherslur Við­reisnar fyrir síð­ustu kosn­ingar voru skýr­ar. Flokk­ur­inn sagð­ist standa fyrir kerf­is­breyt­ingar í sjáv­ar­út­vegi og land­bún­aði, frjáls­lyndi, breytta pen­inga­stefnu og alþjóða­sam­vinnu sem í fólst meðal ann­ars vilji til að ganga í Evr­ópu­sam­band­ið. Ljóst er að þessar áherslur ríma illa við höf­uð­á­herslur Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Þor­steinn Páls­son, fyrr­ver­andi for­maður þess flokks og nú áhrifa­maður innan Við­reisn­ar, sagði nýverið í aðsendri grein á Kjarn­anum að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefði nán­ast ein­ungis lagt áherslu á það í stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræðum að lækka skatta, en ann­ars breyta sem fæstu.

Bene­dikt er samt sem áður á þeirri skoðun að það þok­ist í öllum þessum málum og telur Sjálf­stæð­is­flokk­inn ekki jafn ósveigj­an­legan og margir virð­ast halda. Hann von­ast til að breyt­ingar í t.d. sjáv­ar­út­vegs­málum náist á þessu kjör­tíma­bili og telur það alls ekki úti­lokað póli­tískt séð. „Í sjáv­ar­út­vegs­málum er búið að skipa þessa nefnd sem Þor­steinn Páls­son stýrir og hugs­unin er að ná sátt um sjáv­ar­út­veg. Ég hef lagt mikla áherslu á að við reynum að vera með mark­aðsteng­ingu að ein­hverju tagi. Í við­ræð­unum voru Við­reisn og Björt fram­tíð bæði á þeirri skoð­un. Þar kom skýrt fram hjá Bjarna Bene­dikts­syni að hann vildi ekk­ert loka á þá leið. Hann sagð­ist ekki sann­færður um mark­aðs­leið­ina en vildi skoða hana vel. Ég held að það sé mik­il­vægt fyrir sjáv­ar­út­veg­inn sjálfan að finna leið þar sem næst góð sam­staða.“

Hann seg­ist sann­færður um að það verði gerðar breyt­ingar í land­bún­að­ar­mál­um. „Ég hef engan rætt við sem er ánægður með land­bún­að­ar­samn­ing­inn eins og hann er núna. Þar get ég nefnt afurð­ar­stöðv­arn­ar, bænd­ur, neyt­end­ur. Þar er Þor­gerður [Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra] búin að setja fram frum­varp til kynn­ingar um breytta stöðu Mjólk­ur­sam­söl­unnar og að rjúfa ein­angr­un­ina. Svo er í far­vatn­inu inn­flutn­ings­samn­ingur við Evr­ópu­sam­bandið sem stó­r­eykur toll­kvóta. Því miður hefur hann enn ekki tekið gildi. Ég á líka von á því að Hæsti­réttur muni kom­ast að þeirri nið­ur­stöðu von bráðar að leyfi­legt verði að flytja inn hrátt kjöt. Ég held að þetta allt saman muni breyta neyt­enda­vit­und­inni. Að við verðum ekki lengur að horfa ein­hliða bara á fram­leið­endur heldur á fram­leið­endur og neyt­endur í þessum mál­u­m.“

Krónan alvar­leg­asta við­fangs­efnið

Þriðja stóra mál Við­reisnar eru hin enda­lausu átök við gjald­mið­il­inn, íslensku krón­una. Utan þess að ganga í Evr­ópu­sam­bandið lagði flokk­ur­inn til að mynt­ráð yrði stofnað og pen­inga­stefn­unni þar með breytt. Bene­dikt segir að eng­inn stjórn­mála­flokkur tali nú gegn stöðugra gengi. Við­reisn hafi verið eini flokk­ur­inn sem hafi bent á aðra leið en að skipta um gjald­miðil til að ná því. Þegar hafi verið skipuð nefnd, undir for­mennsku Ásgeirs Jóns­son­ar, sem á að leiða vinnu stjórn­valda við end­­ur­­skoðun á umgjörð pen­inga­­mála- og gjald­miðla­­stefn­unnar í land­inu. Hún á að skila af sér á þessu ári.

Bene­dikt segir að hann myndi ekki slá hend­inni á móti því að skipta um gjald­mið­il. Alþekkt sé að hann hafi þá skoðun að Íslandi yrði best borgið með því að ganga í Evr­ópu­sam­bandið og taka upp evru. Hinn póli­tíski raun­veru­leiki sé þó sá að það er ekki ger­legt sem stend­ur. „Ég hef talið að mynt­ráð gæti orðið ásætt­an­legri lausn en sú sem við búum við. Það er ekk­ert þannig að maður geti sagt að ein­hver lausn leysi allan okkar vanda. En ef við værum með stöðugra gengi þá væri meiri stöð­ug­leiki í atvinnu­líf­inu.

Benedikt væri mjög til í að taka upp evru og ganga í Evrópusambandið, en hann veit að pólitiskur raunveruleiki gerir það ekki kleift sem stendur.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar ég lagði til mynt­ráð þá lagði ég til að festa gengi krón­unn­ar. Að það væri mjög vafa­samt að útflutn­ings­at­vinnu­vegir myndu ráða við lægra verð á evru en 130 krón­ur. Svo fór það niður í 125 á kjör­dag, var orðið 118 þegar við loks­ins tókum við og fyrir skemmstu fór það niður í 110 krón­ur, þótt krónan hafi aðeins veikst síðan þá. Ein­hverjir eru að spá því að gengið gagn­vart evru geti farið í 100 krón­ur. Þetta er rosa­lega alvar­legt mál og þetta er aðal­við­fangs­efni okk­ar. Ég hef sagt að eitt af því sem hægt væri að gera væri að lækka vexti. En það er ekki mitt að ákveða heldur pen­inga­stefnu­nefndar Seðla­bank­ans.

Þetta er alvar­leg­asta málið sem við stöndum frammi fyr­ir. Ef ekki væri fyrir okkur í Við­reisn þá væri engin vinna í gangi. Það væri eng­inn að skoða þetta. Við erum búin að vaða í að aflétta höft­um. Búin að borga niður helm­ing­inn af erlendum skuldum rík­is­ins til þess að reyna að létta á og færa fjár­magn til útlanda. Við höfum verið að þrýsta á líf­eyr­is­sjóð­ina að fjár­festa erlend­is. Þetta eru allt aðgerðir gegn styrk­ingu krón­unn­ar.“

Engin tæki­færi í Brexit

Við­reisn varð til, líkt og áður seg­ir, vegna óánægju Evr­ópu­sinna innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Bene­dikt felur það ekki að hann myndi óska þess að Ísland væri komið nær því að ganga í sam­band­ið. Það sé hins vegar þannig að þrír flokkar á þing, Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Fram­sókn og Vinstri græn, séu á móti aðild og saman hafi þessir þrír flokkar meiri­hluta. „Mér finnst það vega að full­veld­is­rétti þjóð­ar­innar að við séum með auka­að­ild að ESB sem gerir það að verkum að við verðum að taka upp lagaum­hverfið en höfum ekki atkvæð­is­rétt. En það er mín skoð­un. Ef ein­hverjum líður betur að vera í banda­lagi án þess að hafa áhrif, þá verður maður bara að sætta sig við þann póli­tíska raun­veru­leika. En mér þætti meiri reisn í því að við værum full­gildir aðil­ar.

Á Alþingi er stór hluti þeirrar lög­gjafar sem við tökum upp Evr­ópu­lög­gjöf og mér sýn­ist það, nú þegar við fylgj­umst með þessu miklu nánar en áður, að þetta sé hin skyn­sam­leg­asta lög­gjöf. Og sé yfir­leitt hag­stæð neyt­endum og umhverf­inu og inni­halda mörg þeirra gilda sem eru okkur flestum eðl­is­læg.“

Aðrar breytur flæki líka málin í dag, sér­stak­lega áform Breta um að ganga úr Evr­ópu­sam­band­inu, hið svo­kall­aða Brexit. Bret­land er mik­il­væg­asta útflutn­ings­ríki Íslands og því gíf­ur­legir hags­munir í húfi fyrir Ísland að þeir hags­munir verði ekki fyrir skaða í úrsagn­ar­ferl­inu. Bæði Guð­laugur Þór Þórð­ar­son utan­rík­is­ráð­herra og Lilja Alfreðs­dóttir, sem sat á þeim ráð­herra­stóli á undan hon­um, hafa sagt opin­ber­lega að þau sjái tæki­færi fyrir Ísland í Brexit.

Bene­dikt er þeim algjör­lega ósam­mála. „Ég sé svo sann­ar­lega ekki tæki­færi í Brexit. Sú aðgerð er ekk­ert nema and­stæð okk­ur. Okkar sam­skipti við Bret­land núna við­skipta­lega eru þannig að við erum með allt sem að við þurf­um. Við erum með sams­konar við­skiptaum­hverfi, tollaum­hverfi sem er afar jákvætt og það eru engar hömlur á flutn­ingi milli land­anna. Það eru engin tæki­færi í Brexit fyrir Ísland. En það skiptir máli fyrir okkur hvernig Bretar lenda þessu máli. Ef þeir gengu í EES þá væru þeir með allt það sem þeir telja vera ókosti. Myndu þurfa að taka upp allt lagaum­hverfið og það yrði frjáls flutn­ingur fólks sem Brex­it-­nið­ur­staðan vill ekki.“

Við­reisn hefur ekki riðið feitum hesti frá fylgiskönn­unum und­an­farna mán­uði, sér­stak­lega eftir að flokk­ur­inn sett­ist í rík­is­stjórn. Nú mælist fylgið svo lítið að ef kosið yrði í dag væri Við­reisn á mörkum þess að ná inn manni. Fram undan eru sveita­stjórn­ar­kosn­ingar á næsta ári og lengi hefur legið fyrir að Við­reisn ætl­aði sér árangur á þeim vett­vangi líka. Bene­dikt stað­festir að til standi að bjóða fram í flestum stærri sveit­ar­fé­lög­um. „Ég reikna með því að víð­ast hvar verði það í okkar nafni. En ég veit ekki alveg hverjir verða í fram­boði fyrir Við­reisn. Ég les mest um það í blöð­un­um. Stundum verða þó slíkir sam­kvæm­is­leikir spá­dómar sem upp­fylla sig sjálfa.“

Mik­il­vægt fyrir þjóð­arsál­ina að vita hver á banka

Í mars var til­kynnt um að þrír vog­un­ar­sjóðir og fjár­fest­inga­bank­inn Gold­man Sachs hefðu keypt stóran hlut í Arion banka, og ættu kaup­rétt á við­bót­ar­hlut sem myndu gera hóp­inn að meiri­hluta­eig­anda í bank­an­um. Kaupin hafa verið gagn­rýnd harð­lega fyrir ógagn­sæi þar sem ekki liggur fyrir hverjir séu end­an­legir eig­endur þeirra sjóða sem eru að kaupa kerf­is­lega mik­il­vægan við­skipta­banka á Íslandi. Bene­dikt fagn­aði kaup­unum opin­ber­lega þegar til­kynnt var um þau en hefur síðan lagt áherslu á að eign­ar­haldið verði skýrt.

Ég ætla mér ekki að halda neinum leyni­upp­lýs­ingum um eign­ar­haldið og hef engar upp­lýs­ingar aðrar en þær sem eru opin­ber­ar. Ég held að það skipti miklu máli að þetta verði upp­lýst, ef menn ætla að verða leið­andi eig­endur í einum af stærstu bönk­unum á Íslandi, hverjir standi á bak við. Ég er ekk­ert þar með að gefa í skyn að þarna séu ein­hverjir „lund­ar“ þarna, að ein­hver sé að skýla sér bak við „lunda­grímuna“. Það skiptir hins vegar máli að við fáum full­vissu um að svo sé ekki.

Eftir því sem menn best vita þá eru þetta raun­veru­legir erlendir aðil­ar. En við skulum ekki gleyma því að það var líka sagt varð­andi Hauck & Auf­häuser, þegar sá banki keypti i Bún­að­ar­bank­anum. Það var skoðað bæði af Fjár­mála­eft­ir­lit­inu og Rík­is­end­ur­skoð­un. Þar vorum við blekkt. Ég held að það skipti því mjög mik­il­vægt fyrir heil­brigt við­skipta­líf og þjóð­arsál­ina að þetta liggi fyr­ir.“

Fjármála- og efnahagsráðherra segir að það sé mikilvægt fyrir þjóðarsálina að endanlegt eignarhald á bönkum liggi fyrir.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Það eru ekki bara vænt­an­legir eig­endur Arion banka sem eru faldir á bak við sjóði. Fjöl­margir sjóðir í stýr­ingu íslenskra sjóð­stýr­inga­fyr­ir­tækja eru stórir eig­endur í skráðum íslenskum hluta­fé­lög­um. Bene­dikt seg­ist vera þeirrar skoð­unar að það eigi að vera hægt að rekja hverjir raun­veru­legir eig­endur hlut­deild­ar­skír­teina þeirra sjóða séu líka. „Ég hef sagt það í ræðu á Alþingi og sagði það áður en ég var kos­inn á þing og sú skoðun mín hefur ekk­ert breyst. Ég held að engar skoð­anir mínar hafi breyst eftir að ég kom á þing.“

Vill ekki tjá sig um stöðu dóms­mála­ráð­herra

Á loka­dögum síð­asta þings kom upp mál sem setti sam­fé­lagið á hlið­ina, skipan 15 dóm­ara í Lands­rétt. Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra vék frá til­lögu hæf­is­nefndar sem hafði kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að nákvæm­lega 15 af þeim 33 sem sóttu um hefðu verið hæf­astir í stöð­urnar 15. Hún mat 24 hæfa, fjar­lægði fjóra af upp­runa­lega list­anum og setti aðra fjóra inn, sem höfðu ekki verið taldir hæf­astir af hæf­is­nefnd. Málið tók yfir síð­ustu daga þings­ins og skipan dóm­ara var á end­anum afgreidd í bull­andi ágrein­ingi eftir flokkslín­um. Tveir þeirra sem hæf­is­nefnd vildi skipa, en hlutu ekki náð fyrir augum dóms­mála­ráð­herra, hafa höfðað mál gegn rík­inu og vilja að ákvörð­un­inni verði hnekkt.

Aðspurður um hvort honum þyki málið hafa verið nægi­lega vel unnið segir Bene­dikt mik­il­vægt að taka fram að Við­reisn hafi lagt áherslu á að þegar verið væri að skipa nýjan dóm­stól þá ættu kynja­hlut­föll að vera sem jöfn­ust. Þau hafi ekki verið það sam­kvæmt upp­runa­legu mati nefnd­ar­innar en voru orðin það þegar ráð­herra lagði fram sína til­lögu. „Ég held að þetta mat upp­runa­legu nefnd­ar­innar hafi örugg­lega ekki verið yfir gagn­rýni hafið frekar en nokk­urt annað mat af þessu tagi. Þau hefðu getað gert ráð­herr­anum lífið auð­veld­ara ef þau hefðu sagt: Það eru þessi 20, sem eru hæfust. Svo kom­ast þau að því að ein­hver sé hæf­ari en annar með Excel-út­reikn­ingum upp á mun um þrjá þús­und­ustu. Það hafa margir ásakað mig um að búa í Excel-skjali. og Excel hentar ágæt­lega í suma hluti. Rík­is­fjár­mál til dæmis og fjár­lög. En ég er ekki vissu um að það sé besta tækið þegar verið er að meta hæfi dóm­ara.“

En lögin eru eins og þau eru óháð því hvað þér finnst um þau. Finnst þér málið hafa verið nægj­an­lega vel unnið og að ráð­herr­ann hafi rök­stutt sinar breyt­ingar nægj­an­lega vel?

„Mér fannst hann vera með mál­efna­leg rök. Það má hins vegar alveg segja það að þetta kom mjög seint inn.  Það var engum að kenna. Þetta vannst svona. Ég er ekki viss um að það sé heppi­legt að gera þetta með þessum hætti. Ég sá engan þing­mann fagna því að fá að takast á við dóm­ara­mál­ið. En við verðum hins vegar að gera það. Ég get alveg sagt það að það voru engir bak­samn­ingar eða nokk­urt slíkt í þessu. Við sögðum í febr­úar að við myndum ekki sætta okkur við tíu karla og fimm kon­ur. Það væri and­stætt okkur grund­vall­ar­sjón­ar­mið­um. Og það stendur enn.“

Aðspurður um hvort Sig­ríði verði stætt sem dóms­mála­ráð­herra ef þau mál sem höfðuð hafa verið tap­ist er svar fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra: „Ég ætla ekki að tjá mig um það.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal