Auglýsing

Ég á ótal börn með enn fleiri mönn­um. Sú stað­reynd er ekk­ert leynd­ar­mál, þvert á móti hefur hún aflað mér alþjóð­legs alræmis. En engar áhyggj­ur, ég er sjúk­lega fín mamma og hreint úrvals barns­móð­ir. Ég leyfi börn­unum mínum að umgang­ast feður sína jafn mikið og mig, algjör­lega ótil­neydd. Aug­ljós­lega þarf ég þess ekki en ég er bara eitt­hvað svo fín stelpa. Örlát og rétt­sýn. Ég tek líka ákvarð­anir um tóm­stunda­iðkun barna minna og annað slíkt í sam­ráði við pabbana, þótt allir viti að úrslita­valdið liggur hjá mér, lög­heim­il­is­for­eldr­inu. Sem ég, mamman, er. Eðli­lega. Svo rukka ég ekki einu sinni með­lag, spáið í mér. 

Nú haldið þið kannski að það sé bara eðlilegur hlut­ur, í ljósi þess að ég og feðurn­ir ­deilum upp­eld­inu jafnt sem og öllum kostnaði, en ég skal segja ykkur að svo er hreint ekki. Sýslumaður harðneit­ar að krossa í slíkan kassa svo ég verð, lögum samkvæmt, að skrá annað hvort ein­falt eða tvöfalt meðlag. Ég vel síðan bara að inn­heimta það ekki. Öðling­ur­inn ég. Reyndar fæ ég barnabæturnar óskertar fjórum sinnum á ári og eng­inn fylgist með því hvort ég eyði þeim í börnin eða Jörjakka, en hvað um það. Ég er samt óvenju fín týpa. Einu sinni flutti ég með börnin til Rauf­ar­hafnar og pabbi þeirra gat ekk­ert sagt við því þar sem ég er jú lögheim­il­is­for­eldrið, en ég, þessi eðalpía, borgaði undir þau farið til­ hans einu sinni í mánuði þrátt ­fyrir að kerfið ger­i ráð fyrir að hann ­borgi slíkt. Því ég má taka ákvörðun um að flytja með börnin þvert yfir landið og ef hann og börnin vilja endi­lega halda því til streitu að hitt­ast ætti hann, lögum samkvæmt, að standa undir þeim kostnaði.

Þessir barnsfeður gera sér enga grein fyrir sinni einstöku lukku. Ég leyfi börnunum að elska þá alveg ­jafn mikið og mig, þrátt fyrir alla þeirra augljósu galla. Kannski er það hrein firra að vera svona ligeglad og framúrstefnu­leg. Vin­konur mínar eru margar hverjar alveg gáttaðar á mér. Aldrei gætu þær til dæmis aðfanga­dag án barn­anna sinna, segja þær. Börn eiga jú að ver­a heima hjá sér á jólun­um. Dæma mig ögn fyrir að kom­ast ógrátandi í gegnum slíka raun. Allt þetta um­ber ég fyrir sakir barn­anna og almenns réttlætis. Ég hlýt að vera ein­hvers konar feminísk neohippuð móðir Ter­esa. Nóbelinn strax.

Auglýsing

Kannski hætti ég sam­t einn dag­inn að vera svona næs. Hún er jú langt í frá sjálfgef­in, öll þessi ljúfmennska. Að leyfa börnun­um að fara í svona langar heimsóknir, eða umgengni, til feðra sinna. Því börn búa ekk­ert hjá feðrum sínum, þau fara þangað í umgengni. Kannski þornar á end­anum brunnur gæsku minnar og ég ákveð að rukka meðlag. Þið vitið, ef mig vantar allt í ein­u bara pen­ing eða ef feðurn­ir p­irra mig mjög. Því meðlag er hægt að rukka aftur í tímann. Takk snilldar kerfi fyrir að halda svona mikið með mér.

Að öllum líkind­um þekkja flestir fráskild­ir ­for­eldrar þann veru­leika sem hér birt­ist. Þið hin ­sem vitið ekki alveg hvaðan á ykkur stendur veðrið, vel­komin í Mæðraveldið. Það er undra­land þar sem ekk­ert er alveg eins og það virðist vera. Hér ríða húsum­ risa­vaxnar Lísur sem illa ráða við stærð sína og traðka því niður eigin afkvæmi og feður þeirra sem enga grein gerðu sér fyrir því að skilnaður við barnsmóður væri kanínuhola niður í þvíumlíkt rugl. Lísurnar eru þó ekki endi­lega vond­ar, þær eru bara allt of stórar. Þær urðu þannig við að drekka úr ann­ars aflögðum brunni hinna ódrep­and­i staðalímynda og kunna ekki að minnka sig aft­ur. Allt borg­ar­skipu­lag hér í Mæðraveld­in­u er enda hannað með til­lit­i til hinna ofvöxnu Lísa. Á víð og dreif standa vegvísar að því er virðist kyn­lausra orða á borð við umgengn­is­for­eldri og lögheim­il­is­for­eldri, orða sem þegar betur er að gáð eru kirfi­lega steypt í ævagamlan grunn kynjaðrar hefðar sem seint hagg­ast. Vegvísar þessir leiða menn inn í óskilj­an­lega hringiðu torga sem láta Valla­hverfið í Hafn­arfirði skamm­ast sín. Á aðaltorg­in­u blikkar síðan risa­vaxið neon­skilti sem á er letrað HAGUR BARNS­INS og þótt það hafi ­upp­runa­lega verið sett þarna til að vísa þeim villtu veg­inn þjónar það í dag fremur því hlut­verki að blinda veg­far­endur og hylja hinn skýra ásetn­ing sæluríkis­ins. Það er ákveðinn retró fíling­ur í loft­inu hér, smá sixtís stemm­ing og margir njóta þess. Börnin héðan ramba þó fremur ringluð út í lífið, enda ríma reglur og hefðir hér í Mæðraveld­inu illa við það sem tíðkast í veröldinn­i ­sem við tekur og við köllum í dag­legu tali nútíma.

Síðastliðinn mánudag­ur, 25. apríl, var alþjóðadag­ur ­for­eldraútskúfun­ar. Honum er ætlað að vekja ­at­hygli á því ofbeldi sem felst í því að hindr­a, beint eða óbeint, umgengni barns og for­eldr­is. Mörg slík mál hafa á und­anförnum miss­erum poppað upp í fjölmiðlum, við súpum hveljur og hneyksl­umst á vanhæfu kerfi sem leyfir slíku að viðgangast og svo ger­ist ekk­ert. Pott­ur­inn er víða hrein­lega í maski hvað réttind­i ­barna til jafnra og eðlilegra sam­skipta við for­eldra sína varðar. Að því sögðu vona ég og trúi að slík erkitil­felli séu und­an­tekn­ing­in. Ég þekki afar fáar konur sem vilja ala upp föðurlaus börn. Ég þekki hins vegar ótal konur sem vilja föður á kant­in­um, hlýðinn vissu hlut­verki í upp­eld­in­u en þægur á básnum sínum. Hann á ekki að heimta of mikla ráðdeild, því mamman veit hvað er barni sínu fyrir bestu. Ef föður og ­barni dugar ekki sá tak­markaði tími sem móðir og sýslumaðurinn vinur hennar telur hæfilegan til eðlilegrar tengsla­mynd­unar er föður holl­ast að geta sannað sitt ein­staka for­eldraágæti eins og um starfsviðtal væri að ræða, ann­ars getur hann gleymt því að ver­a ­met­inn til jafns á við móður hvað hæfni varðar.

Þessi pist­ill er því til vin­kvenna minna og frænkna, til mín og minna, til allra Lísanna sem ljóst og ­leynt viðhalda úreltu kerfi sem engum þjónar nema þeirra eigin mæðraegói en skaðar sjálfs­mynd ­barns sem á rétt á báðum ­for­eldrum sínum. Egói sem kannski er ekki einu sinni þeirra eigið, heldur arf­leifð samfélags sem gerði ráð fyrir að eðli kvenna ákvarðaðist af móðurástinn­i, karllægs skipu­lags sem tamdi konur með umönnun­arkröfunni og hélt þeim þannig stilltum á sínum stað. Þannig er umrætt ójafnrétti bara enn ein birt­ing­ar­mynd þeirrar kynjuðu skekkju sem aflagar samfélag okk­ar. Mæðraveldið er skil­getið afkvæmi feðraveld­is­ins.

Feður eru á engan hátt verr í stakk búnir til að mynda sterk og náin tengsl við börn sín og gegna mik­ilvægu umönnun­ar­hlut­verki í lífi þeirra. Þeim er bara úthlutaður svo lítill tími til þess ­arna, gerðir horn­reka í samfélag­i ­sem að öðru leyti æpir á jafnrétti í hvívetna. Hlut­verk þeirra er að kitla afkvæmi sín um helg­ar. Hagur barns­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiKjaftæði
None