Mannréttindi eru tiltekin lagaleg réttindi sem er viðurkennt að eru öllu fólki svo mikilvæg að þjóðir heims hafa komið sér saman um að öll ríki verði að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að allir fái notið þessara réttinda, alltaf og alls staðar.
Grundvallarmannréttindi eru skilgreind í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 og skýrð og útfærð í mannréttindasamningum sem ríki heims hafa fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Dæmi um mikilvæg mannréttindi eru rétturinn til að njóta frelsis, hafa skoðanir og tjá þær, stunda nám og atvinnu og hafa aðgang að heilsugæslu og að njóta þessara mannréttinda og annarra lagalegra réttinda til jafns við aðra en fá ekki verri tækifæri til þess vegna tiltekinna einkenna eða stöðu, s.s. kynþáttar, kynferðis, trúarbragða eða fötlunar.
En það er eins með mannréttindi og önnur lög að þau eru brotin. Sumir eru heiðarlegir og fara að lögum, aðrir brjóta lög ef þeir telja sig hafa persónulegan ávinning af því og komast upp með það. Sum ríki taka mjög alvarlega þá skyldu sína að tryggja öllum mannréttindi, önnur vanrækja það eða reyna að komast hjá því. Og á sama hátt og sá sem er heiðarlegur nýtur virðingar og trausts annars fólks í samfélaginu nýtur ríki sem virðir vel skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum virðingar og trausts annarra ríkja í alþjóðasamfélaginu.
Evrópuráðið og eftirlit með mannréttindum
Það er ekki til nein alheimslögregla sem bregst við þegar ríki brjóta alþjóðleg mannréttindalög á fólki. Þess vegna hafa ríki samið um að fela fjölþjóðlegum stofnunum að fylgjast með hvernig einstök ríki standa sig við að tryggja fólki þau mannréttindi sem þau hafa skuldbundið sig til að gera. Evrópuráðið er mjög mikilvæg slík stofnun sem nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi.
Evrópuráðið var stofnað árið 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimsstyrjaldarinnar. Aðildarríki þess eru 47 að Íslandi meðtöldu. Hlutverk Evrópuráðsins er að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa.
Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins er sjálfstæð stofnun innan ráðsins sem hefur meðal annars það hlutverk tryggja að aðildarríkin framfylgi samningum og tilmælum frá ráðinu. Álit og ábendingar mannréttindafulltrúans skipta því mjög miklu máli og hafa mikið vægi á vettvangi Evrópuráðsins og í aðildarríkjum þess.
Nils Muižnieks, mannréttindafulltrúi Evrópurásðins, var í heimsókn á Íslandi fyrr í þessum mánuði til að kynna sér ástand mannréttindamála. Að lokinni heimsókninni ræddi hann við fjölmiðla og sagðist þar furða sig á metnaðarleysi Íslendinga í mannréttindamálum. Hann sagði m.a.:
„Ég tel Ísland vera auðugt land miðað við mörg þeirra landa sem ég hef komið til. Hér ríkir lýðræði og það á sér langa sögu hér og það kemur mér á óvart að þið hafið ekki sýnt meiri metnað við að axla þessa ábyrgð og stefna að framförum.“
Mannréttindafulltrúinn benti sérstaklega á að Íslendingar hefðu ekki enn þá skuldbundið sig til að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007 með því að fullgilda samninginn en langflest í ríki í heiminum hafa gert það, þ.m.t. öll Norðurlandaríkin nema Ísland.
Þetta er að sjálfsögðu mikill áfellisdómur yfir íslenskum stjórnvöldum frá aðila sem þau hljóta og verða að taka mark á.
Hvers vegna er mikilvægt að Ísland fullgildi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?
Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til sjáfstæðs og eðlilegs lífs og verja það fyrir mismunun á ýmsum mikilvægum sviðum.
Með fullgildingu samningsins skulbindur ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki öll þau lágmarksréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og til að gera nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum, reglum, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir verði uppfylltar.
Þegar ríki fullgildir samninginn skuldbindur það sig til að gefa eftirlitsnefnd sem starfar samkvæmt samningnum reglulega skýrslur um hvað það hefur gert til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Við þá skýrslugjöf skulu ríki hafa samráð við fatlað fólk með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. Eftirlitsnefndin fjallar um skýrslurnar og beinir síðan tilmælum sínum til ríkjanna um það sem betur má fara og brýnt er að gera. Þessar skýrslur og umfjöllun nefndarinnar um þær og tilmæli hennar um ráðstafanir og úrbætur fela í sér mjög mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi ríkjum og gagnlegar leiðbeiningar fyrir stjórnvöld um hvað þau þurfa að gera og bæta til að uppfylla kröfur samningsins.
Valfrjáls bókun við samninginn
Ísland undirritaði valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.
Lögfesting samningsins
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var tekinn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með fullgildingu samningsins þau réttindi sem samningurinn mælir fyrir um.
Sömu rök eiga við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með því að lögfesta samninginn verður mannréttindum fatlaðs fólks veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum fatlaðs fólks.
Rekum af okkur slyðruorðið!
Því miður verður ekki hjá því komist að taka undir orð mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins um að það lýsi furðulegu metnaðarleysi í mannréttindamálum að hafa ekki enn þá komið því í verk að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þó að níu ár séu nú liðin frá undirritun samningsins og langflest ríki í heiminum hafi fullgilt hann. Við skorum því á íslensk stjórnvöld að reka nú af sé slyðruorðið með því að fullgilda samninginn án frekari tafa og einnig valfrjálsu bókunina við hann og taka síðan samninginn í íslensk lög eins skjótt og verða má.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.