Auglýsing

Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra ákvað í byrjun viku að fara ekki eftir til­lögu dóm­nefndar um skipun dóm­ara í Lands­rétt. Sig­ríður taldi að fleiri en þeir 15 sem dóm­nefnd mælti með í stöð­urnar 15 væru hæf­ir. Hún taldi auk þess að dóm­ara­reynslu hefði ekki verið gert nægi­lega hátt undir höfði og því ákvað ráð­herr­ann að skipta út fjórum þeirra sem dóm­nefnd hafði metið hæfa og setja aðra fjóra inn. Öll þau sem Sig­ríður mælir með eru hér­aðs­dóm­ar­ar. 

Með þessu útspili leysti Sig­ríður úr þeirri klemmu sem upp var komin varð­andi jafn­ari kynja­skipt­ingu á meðal dóm­ara hins nýja dóm­stigs. Í stað þess að tíu karlar og fimm konur sett­ust í rétt­inn verða þar sjö konur og átta karl­ar, sam­kvæmt til­lögu ráð­herra. En það eru aug­ljós vand­kvæð­i. 

Einn þeirra var met­inn númer 30 af 33 í hæf­is­röð­inni af dóm­nefnd. Annar var í sæti 23. Einn þeirra sem met­inn var á meðal 15 hæf­ustu af dóm­nefnd, en ýtt til hliðar af ráð­herra, er hæsta­rétt­ar­lög­mað­ur­inn Ást­ráður Har­alds­son. Hann skrif­aði for­seta Alþingis bréf á mánu­dag þar sem hann segir að þau frá­­­vik sem ráð­herra geri á til­­­lögu dóm­­­nefnd­­­ar­inn­ar upp­­­­­fylli á eng­an hátt kröf­ur sem gera verði varð­andi skip­an dóm­­­ara og sem umboðs­­maður Alþing­is og dóm­stól­ar hafi lagt til grund­vall­­­ar. Því sé frá­vik Sig­ríðar „til­raun til ólög­mætrar emb­ætt­is­færslu“. Nær öruggt má telja, í ljósi þessa, að skaða­bóta­mál blasi við ef ekki verði farið eftir nið­ur­stöðu dóm­nefnd­ar­inn­ar.

Þegar grunur skap­ast um hags­muna­á­rekstur

Það er þó fleira sem fundið er að breyt­ing­unum sem ráð­herr­ann gerði. Ein þeirra sem dóm­nefndin mat ekki á meðal hæf­ustu umsækj­enda, en ráð­herr­ann vill skipa í dóm­ara­emb­ætti, er Arn­fríður Ein­ars­dóttir hér­aðs­dóm­ari. Ástæða þess að skipan hennar hefur verið gerð að umtals­efni er sú að Arn­fríður er eig­in­kona Brynjars Níels­son­ar, þing­manns Sjálf­stæð­is­flokks og for­manns stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar. Þeirrar nefndar sem fjallar um til­lögur ráð­herr­ans um dóm­ara­skip­an. Brynjar hefur þegar lýst því yfir að hann sé van­hæfur til að taka þátt í þeirri vinnu.

Auglýsing

Nú skal það fram tekið að innan lög­manna­stétt­ar­innar virð­ist það nær ein­róma skoðun að Arn­fríður sé ákaf­lega hæfur og eld­klár dóm­ari. Ekki er efast um að hún sé full­fær um að takast á við það starf sem ráð­herr­ann hefur ákveðið að velja hana í. Hún var auk þess í 18. sæti á lista dóm­nefndar um hæfni umsækj­enda.

Það er hins vegar þannig að þegar rætt verður um skipun hennar þá verður það sett í sam­hengi við að Arn­fríður hafi ekki verið metin á meðal þeirra hæf­ustu af dóm­nefnd, en ráð­herr­ann hafi svo ákveðið að skipa eig­in­konu flokks­bróður síns þrátt fyrir það.

Traustið tap­ast ekki á sam­fé­lags­miðlum

Brynjar Níels­son var einn þeirra þing­manna sem var val­inn til að taka þátt í eld­hús­dags­um­ræðum fyrir hönd flokks síns á mánu­dags­kvöld. Þar ræddi hann meðal ann­ars um traust, og hvernig þing­menn gætu lagað þá litlu til­trú sem almenn­ingur hefur á þeim. Orð­rétt sagði hann: „Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju það er, eins æðis­leg og við erum. Og hvernig lögum við það? Ég veit það ekki, en ég er alveg viss um að við lögum það ekki með því að fara á sam­fé­lags­miðl­ana og heyra hvað þeir hávær­ustu segja þar. Ég held að við lögum það með því að hafa góðar hug­mynd­ir, vel ígrund­að­ar, rök­studdar hug­myndir og ekki er verra að hafa ein­hverja fram­tíð­ar­sýn. Við þurfum að hafa sjálfs­traust til að koma þessum hug­myndum á fram­færi, vera sann­fær­andi, leiða, og takast á um þetta. Við þurfum að hafa skoð­anir jafn­vel þó að ein­hver rísi upp á aft­ur­fæt­urna og jafn­vel þó að sagt sé við okkur ef við höfum skoð­an­ir: Þið eruð svo umdeild, þú ert umdeild­ur. Ég held að fólk geri ekki almennt þá kröfu að vera sam­mála okkur um allt. Ég held að við getum notið trausts hjá fólki sem er ekki sam­mála okk­ur.“

Að mati Brynjars er það því ann­ars vegar síend­ur­tekin upp­hlaup á eftir almenn­ings­á­lit­inu sem birt­ist á sam­fé­lags­miðlum og hins vegar skortur á góðri fram­setn­ingu hug­mynda sem gerir það að verkum að traust og álit almenn­ings á stjórn­málum og -mönnum er eins lítið og það er.

Ég ætla að bæta við einni ástæðu. Almenn­ingur treystir því ekki að stjórn­mála­menn séu að vinna að almanna­heill, heldur sæk­ist eftir sínum emb­ættum til að fóðra sér­hags­muni.

Stroku­sam­fé­lagið og afleið­ingar þess

Það er mín upp­lifun að mjög stór hluti almenn­ings telur marga stjórn­mála­menn ekki vera heið­ar­lega og að þeir séu fyrst og síð­ast að skara eld að sinni eigin eða sinna köku. Að vera þeirra í stjórn­málum hafi ein­hvern annan til­gang en yfir­lýstan, sem sé að ganga erinda og tryggja ítök í sam­fé­lag­inu. Raunar stað­festa traust­mæl­ingar þetta. Ein­ungis um fimmti hver lands­maður treystir Alþing­i. 

Það er líka mín upp­lifun að í lang­flestum til­fell­um, þó ekki öll­um, er þetta alls ekk­ert satt. Flestir fara í stjórn­mál til að reyna að gera vel.

Ísland er hins vegar sögu­legt stroku­sam­fé­lag. Í því felst að alltaf hefur verið reynt að styrkja valda­kerfi í sessi með því að raða hlið­hollum aðilum á sem flestar jöt­ur, og færa „réttum aðil­um“ tæki­færi. Þetta hefur því miður sést allt of oft. Í fljótu bragði má rifja upp t.d. skipun Þor­steins Dav­íðs­son­ar, sonar Dav­íðs Odds­son­ar, í emb­ætti hér­aðs­dóm­ara án þess að hann hafi verið tal­inn nálægt því hæf­astur umsækj­enda. Það má líka rifja upp skipan Ólafs Barkar Þor­valds­son­ar, náfrænda Dav­íðs, í emb­ætti Hæsta­rétt­ar­dóm­ara þrátt fyrir að þrír umsækj­endur hafi verið taldir hæf­ari.

Það má nefna ráðn­ingu Þor­gerðar Katrínar Gunn­ars­dóttur sem for­stöðu­manns sam­fé­lags- og dæg­ur­mála­sviðs Rík­is­út­varps­ins, sem hafði enga starfs­reynslu úr fjöl­miðl­um, og að þrír umsækj­endur hafi verið metnir hæf­ari en hún. Það má nefna skipan Hann­esar Hólm­steins Giss­ur­ar­sonar í stöðu lekt­ors við Háskóla Íslands þrátt fyrir að hæf­is­nefnd hefði talið tvo aðra umsækj­endur hæf­ari í stöð­una. Þá má auð­vitað líka rifja upp skipun Auð­uns Georgs Ólafs­sonar sem frétta­stjóra Rík­is­út­varps­ins þrátt fyrir að nær allir aðrir umsækj­endur um starfið hafi verið ber­sýni­lega miklu hæf­ari. Þá á alveg eftir að fara yfir það þegar fyrr­ver­andi for­ystu­fólk úr stjórn­mál­um, á borð við Davíð Odds­son og Finn Ing­ólfs­son, var valið til að verða seðla­banka­stjór­ar. Svo fátt eitt sé nefnt.

Sam­spil við­skipta og stjórn­mála

Hin hliðin á þeirri ástæðu að almenn­ingur van­treystir stjórn­mála­mönnum er hið sífellda sam­spil við­skipta og stjórn­mála sem hefur alltaf verið allt of ríkt hér­lend­is. Nægir þar að nefna einka­væð­ingar á borð við sölu á rík­is­bönk­unum og einka­væð­ingu Íslenskra aðal­verk­taka frá fyrri árum. Eða sú hlífð­ar­hendi sem haldið er yfir sjáv­ar­út­vegs­kerfi sem færir þröngum hópi hund­ruð millj­arða króna fyrir að nýta þjóð­ar­eign, sem á móti notar það fé til að tryggja sér völd og ítök í atvinnu­lífi og stjórn­mál­um. Eða yfir land­bún­að­ar­kerfi sem er und­an­þegið sam­keppn­is­lögum og fjand­sam­legt neyt­end­um. Og svo auð­vitað ævin­týra­legt magn af kjör­dæma­poti þar sem almanna­hags­munir réðu sann­ar­lega ekki för við ákvörð­un­ar­töku.

Að und­an­förnu hefur kast­ljós þeirrar tor­tryggni fyrst og síð­ast verið á Bjarna Bene­dikts­syni, nú for­sæt­is­ráð­herra, í ljósi umfangs­mik­illar þátt­töku hans í við­skiptum á árum áður og mik­illa umsvifa nán­ustu ætt­ingja hans og fyrr­ver­andi sam­starfs­manna í við­skipt­um. Sér­stak­lega hefur verið gerð tor­tyggi­leg þátt­taka þeirra að hóp sem keypti hlut rík­is­bank­ans í Borgun á smán­ar­legu verði þar sem Lands­bank­inn telur nú að upp­lýs­ingum hafi verið leynt og hann plat­að­ur. Önnur við­skipti sem hafa verið mikið til umræðu er eign fjöl­skyldu Bjarna á einu stærsta rútu­fyr­ir­tæki lands­ins sem hagn­ast stór­kost­lega á að ferja ferða­menn frá Kefla­vík­ur­flug­velli til Reykja­vík­ur, og kaup félags í meiri­hluta­eigu föður og föð­ur­bróður Bjarna á fyr­ir­tæk­inu ISS, sem fær mörg hund­ruð millj­ónir króna á ári frá rík­inu fyrir að sinna þrifum á opin­berum bygg­ingum og rekstri mötu­neyta í þeim.

Stjórn­mála­menn verða að forð­ast hags­muna­á­rekstra

Ég tel ekki að Sig­ríður Á. And­er­sen vilji skipa eig­in­konu Brynjars Níels­sonar í dóm­ara­emb­ætti vegna tengsla við eig­in­mann henn­ar. Ég tel ekki að Bjarni Bene­dikts­son hafi hlut­ast með neinum hætti til um söl­una á hlut Lands­bank­ans í Borg­un. Eða að hann sé að beita sér með öðrum hætti en almennum gagn­vart því lagaum­hverfi sem rútu- og bíla­leigurisi fjöl­skyldu hans starfar á. Og ég er ekk­ert nema sann­færður um að for­sæt­is­ráð­herra mun ekki vera með lúk­urnar í því hvernig verði samið við ISS um ræst­ingar opin­berra bygg­inga.

Ég hef hins vegar þá skoðun að stjórn­mála­maður þurfi að passa upp á af öllum mætti að það komi ekki til hags­muna­á­rekstra af neinu tagi í starfi hans. Þeir mega hvorki vera raun­veru­legir né mega skap­ast aðstæður þar sem grunur ríkir um slíka. Ef vísir er til staðar að sýni­legum hags­muna­á­rekstri er alltaf til fullt af fólki sem mun halda að hann hafi átt sér stað. Þá skiptir engu máli hversu reiður við­kom­andi stjórn­mála­maður er vegna þeirra ávirð­inga. Skað­inn verður þegar skeð­ur. 

Nið­ur­staðan er sú að traust tap­ast og tor­tryggni eykst. Ég er þeirrar skoð­unar að þegar ein­stak­lingur býður sig fram til að starfa fyrir þjóð sína  – og hvað þá leiða hana – þá nái sú krafa líka til þeirra sem standa við­kom­andi næst. Það er val að vinna í stjórn­málum og því vali fylgja fórn­ir. Þær kunna að virð­ast ósann­gjarnar í ein­hverjum til­fell­um, en þær eru líka val­kvæð­ar. Ef bak­land stjórn­mála­manns er ekki til­búið að færa slíkar fórnir þá getur við­kom­andi ein­fald­lega sleppt því að vinna í stjórn­mál­um. Réttur nán­ustu ætt­ingja til fram­gangs og við­skipta þrátt fyrir stjórn­mála­þátt­töku er ekki mik­il­væg­ari en traust almenn­ings á helstu stofn­unum lands­ins.

Traust þarf að sækja, það kemur ekki bara

Það er engin spurn­ing um að sam­kurl við­skipta og stjórn­mála, stöðu­veit­inga og flokka og almenns fram­gangs í íslensku sam­fé­lagi hefur sögu­lega verið mjög mik­ið. Og það er engin spurn­ing um að það spilar stóra rullu í því að ein­ungis 22 pró­sent treysta Alþingi og 43 pró­sent dóms­kerf­inu. Til að end­ur­heimta traust á stjórn­sýsl­una þurfa stjórn­mála­menn­irnir okkar að sýna það í verki að þessi tími sé lið­inn. Það þýðir ekki að kenna lát­unum á sam­fé­lags­miðlum eða karpi úr ræðu­stól Alþingis um. Það þýðir ekki alltaf að horfa út á við en sleppa því að horfa inn á við. Vana­lega er við­gerðin nær­tæk­ari.

Og það er hægt að end­ur­heimta traust ansi hratt. Við sáum það til að mynda þegar for­seti sem setið hafði í 20 ár, og mjög margir töldu að væri ekki með hags­muni almenn­ings að leið­ar­ljósi, hætti síð­asta sum­ar. Sá hafði verið veru­lega umdeildur og ánægja með störf hans mælst á bil­inu 45-64 pró­sent. Nýr for­seti kom úr allt annarri átt, ekki hefur verið efast um hvaða erinda hann gangi og ekki er talið lík­legt að hann rati í nokkra sýni­lega hags­muna­á­rekstra í starfi sínu. Nið­ur­staðan er sú að 85 pró­sent lands­manna eru ánægðir með nýja for­set­ann, en ein­ungis 2,8 pró­sent óánægð­ir.

Til þess að þetta ger­ist þurfa stjórn­mála­menn­irnir ein­fald­lega að for­gangs­raða. Horfa aðeins inn á við. Og setja traust almenn­ings í fyrsta sæt­ið, en sjálfa sig og hags­muni sína í sætin þar á eft­ir. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari