Svona var hægt að spila á höftin eins og fiðlu...og græða á því

Í ákæru gegn meintum fjársvikara má sjá hvernig hann nýtti sér fjármagnshöftin til að hagnast. Maðurinn bjó til sýndarviðskipti til að koma hundruð milljóna út úr höftunum og kom síðan aftur til baka með peninganna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.

Fjár­magns­höft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóv­em­ber 2008. Þau voru sett svo að umfangs­miklar krónu­eign­ir, meðal ann­ars kröfu­hafa föllnu bank­anna, væri ekki skipt yfir í aðra gjald­miðla með til­heyr­andi búsifjum og geng­is­falli fyrir Ísland. Höftin þýddu að flestir Íslend­ingar gátu ekki skipt krón­unum sínum í annan gjald­eyri nema í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum og með heim­ild yfir­valda. Þeir þurftu t.d. að fram­vísa flug­far­seðli í banka til að kaupa ferða­gjald­eyri. Og slík gjald­eyr­is­við­skipti voru auk þess tak­mörkuð við hámarks­fjár­hæð­ir. Búið var til mjög umfangs­mikið gjald­eyr­is­eft­ir­lit innan Seðla­banka Íslands, sem hafði eft­ir­lit með gjald­eyr­is­við­skiptum þjóð­ar­inn­ar, og þaðan voru veittar allskyns und­an­þág­ur, enda blasti við að inn­flutn­ings- og útflutn­ings­fyr­ir­tæki þurftu að skipta krónum í gjald­eyri eða gjald­eyri í krónur til að geta haldið starf­semi sinni áfram.

Til þess að fá að gera slíkt þurftu fyr­ir­tæki meðal ann­ars að sýna fram á að um raun­veru­leg vöru- eða þjón­ustu­við­skipti væri að ræða. Þetta var sér­stak­lega mik­il­vægt til að jafn­ræðis yrði gætt. Þ.e. að fjár­magns­eig­endur gætu ekki nýtt sér hafta­á­standið til að hagn­ast á meðan að launa­fólk, sem fékk borgað í krónum og lifði fjár­hags­lega einn mánuð í einu, axl­aði aðlögun geng­is­falls og efna­hags­hruns í gegnum heim­il­is­bók­haldið sitt.

Fyrir liggur að margir fjár­magns­eig­endur komu pen­ingum út úr íslensku hag­kerfi áður en gengið féll við hrunið og áður en að höft voru sett. Það sést meðal ann­ars á því að eignir Íslend­inga á hinni frægu Tor­tola-eyju fjór­föld­uð­ust frá lokum árs 2007 og fram til loka árs 2015 og eru nú um 32 millj­arðar króna.

Fjár­fest­ing­ar­leið sett upp fyrir ríka fólkið

Til að reyna að losa um þann þrýst­ing sem var innan hafta, þ.e. það fjár­magn sem vildi kom­ast út úr íslenskum höft­um, ákvað Seðla­banki Íslands að setja upp svo­kall­aða fjár­fest­ing­ar­leið. Alls fóru fram 21 svona útboð á árunum 2012-2015.

Í henni fólst að óþol­in­móðir krónu­eig­endur máttu fara út á gengi sem var mun óhag­stæð­ara en skráð gengi, svo lengi sem að mót­að­ilar fund­ust sem voru til­búnir að selja gjald­eyri fyrir krón­ur. Þessir mót­að­ilar fengu þá 20 pró­sent virð­is­aukn­ingu á pen­ing­anna sína með því að skipta þeim í krón­ur. Þ.e. afslátt á íslenskum eign­um.

Rúm­lega þriðj­ungur þeirra 208 millj­arða króna sem flæddu inn í Ísland með þessum hætti voru pen­ingar íslenskra aðila. Alls voru þeir 794 tals­ins. Seðla­banki Íslands hefur aldrei viljað upp­lýsa um hverjir það voru sem fengu að nýta sér þessa leið og borið fyrir sig trún­að. Ljóst er vegna þeirra tak­markanna sem settar voru á umfang fjár­fest­inga að leiðin stóð þó fyrst og fremst ríku fólki til boða. Og ríkt fólk nýtti sér hana í miklum mæli til að verða enn rík­ara. 

Kjarn­inn hefur greint frá því að sam­tals hafi virð­is­aukn­ing þeirra sem nýttu sér leið­ina verið 49 millj­arðar króna. Auk þess hefur styrk­ing krón­unnar á und­an­förnum árum gert það að verkum að geng­is­hagn­aður þeirra er rúm­lega 80 millj­arðar króna. Þá á eftir að taka til­lit til þeirrar ávöxt­unar sem þessi hópur hefur fengið á t.d. hluta­bréf og fast­eignir sem þeir hafa fjár­fest í hér á landi á hafta­tím­um. Úrvals­vísi­tala Kaup­hall­ar­innar hefur hækkað um 81 pró­sent frá því að fjár­fest­ing­ar­leiðin hóf göngu sína og fram til dags­ins í dag. Fast­eigna­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu hefur hækkað um 47 pró­sent.

Það má því ætla að líkur séu á því að hóp­ur­inn sem fékk að nýta sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina hafi allt að tvö­faldað pen­ing­anna sína á und­an­förnum árum.

Aftur í sviðs­ljósið

Fjár­fest­ing­ar­leiðin komst aftur í sviðs­ljósið í byrjun árs 2017 þegar skýrsla starfs­hóps um eignir Íslend­inga á aflands­­­­svæð­um fjall­aði um hana. Þar var því meðal ann­­­ars velt upp hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjár­­­­­magn­inu frá aflands­­­svæð­um, sem orðið hafi til með ólög­­­mætum hætti, hafi skilað sér Íslands með geng­is­af­slætti í gegnum fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið­ina.

Orð­rétt segir í skýrsl­unni: „Miðlun upp­­­lýs­inga um fjár­­­­­magns­flæði inn og út úr land­inu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til lands­ins og eins þátt­­­taka í fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­leið Seðla­­­bank­ans er ekki til stað­­­ar. Sér í lagi hefur skatt­yf­­­ir­völdum ekki verið gert við­vart af hálfu Seðla­­­bank­ans þegar um grun­­­sam­­­legar fjár­­­­­magnstil­­­færslur er að ræða. Æski­­­legt má telja að sam­­­starf væri um miðlun upp­­­lýs­inga á milli þess­­­ara stofn­ana.“

Í „hringferðinni“ felst að koma peningum úr félagi A í gjaldeyri og þykjast síðan kaupa vöru og þjónustu af félagi B, sem er í eigu sama aðila. B nýtir sér síðan fjárfestingarleiðina með því að kaupa skuldabréf af C (undir stjórn sömu aðila) og við þetta fjölgar krónum þeirra um 20 prósent. Seðlabankinn gerði engar athugasemdir við þessi viðskipti.

Kjarn­inn greindi frá því í kjöl­farið að engar til­kynn­ingar hafi borist til pen­inga­þvætt­is­skrif­stofu hér­aðs­sak­sókn­ara vegna fjár­festa sem nýttu sér fjár­fest­ing­ar­leið­ina. 

Um liðna helgi greindi Kjarn­inn síðan frá því að Seðla­banki Ísland hafi mátt inn­leysa þriðj­ung fjár­fest­ingar aðila sem nýttu fjár­fest­ing­ar­leið hans ef þeir urðu upp­vísir að því að brjóta gegn kvöðum sem giltu um við­skipt­in. Í svari bank­ans við fyrir­spurn Kjarn­ans kom fram að hann teldi engan hafa brotið gegn kvöð­unum og því hafi hann ekki inn­leyst neitt.

Ákæra á hendur meintum fjársvik­ara

Miðað við svör Seðla­bank­ans virð­ist því allt hafa verið með felldu í fjár­fest­ing­ar­leið­inni. Þ.e. að þar hafi fjár­magns­eig­endur bara verið að sækja sér gríð­ar­legan ávinn­ing í boði rík­is­stofn­unar sem bauðst bara þeim sem áttu margar millj­ónir króna í lausu fé, og erlendum gjald­eyri, utan hafta.

En svindl­aði eng­inn á þessu kerfi? Reyndi eng­inn að koma pen­ingum út úr höftum með ólög­mætum hætti svo hann gæti komið þeim aftur heim og fengið virð­is­aukn­ing­una? Tók eng­inn „hring­inn“ svo­kall­aða?

Kjarn­inn hefur undir höndum ákæru í máli þar sem manni á fer­tugs­aldri er gefið að hafa svikið tugi millj­óna króna af nokkrum ein­stak­lingum með því að hafa „vakið og styrkt þá röngu hug­mynd“ hjá þeim um að hann starf­rækti fjár­fest­ing­ar­sjóð í Banda­ríkj­unum og tekið við fé af þeim til að fjár­festa. Fénu ráð­staf­aði mað­ur­inn hins veg­ar, sam­kvæmt ákæru, í eigin þágu eða ann­ars „með þeim hætti að ekki tengd­ist eða gat sam­rýmst ætl­uðum fjár­fest­ing­um“. Brota­þol­arnir í mál­inu hafa ekk­ert end­ur­heimt af því fé sem þeir töldu sig hafa verið að leggja inn í banda­ríska fjár­fest­ing­ar­sjóð­inn til fjár­fest­ing­ar. Greint hefur verið frá meintum fjársvikum manns­ins áður í íslenskum fjöl­miðl­um.

Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn meinta fjársvikaranum verður í byrjun apríl næstkomandi.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Mað­ur­inn er hins vegar einnig ákærður fyrir meiri­háttar brot gegn lögum um gjald­eyr­is­mál með því að hafa í 18 til­vikum notað inn­stæður í íslenskum krón­um, skipt þeim í erlendan gjald­eyri og látið senda þann gjald­eyri til útlanda með sím­greiðslu. Greiðsl­urnar fóru inn á reikn­ing erlends félags í hans eigu. Til þess að fá að gera þetta lét mað­ur­inn sem að hann væri að greiða fyrir vöru og þjón­ustu. Vanda­málið við þetta var að bæði kaup­and­inn og selj­and­inn voru í eigu hans sjálfs. Þegar við­skipta­banki manns­ins neit­aði í eitt skiptið að fram­kvæma sím­greiðslu fram­vís­aði mað­ur­inn fölsuðum reikn­ingi til að sýna fram á raun­veru­leika sýnd­ar­við­skiptana.

Ákæru­valdið telur að fjár­magns­flutn­ingar manns­ins til Banda­ríkj­anna hafi tengst „hring­streymi fjár­muna“ sem hafi skilað sér aftur til baka til Íslands. End­ur­koma þeirra var í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands, og þá með veru­legri virð­is­aukn­ingu.

Hring­ferð pen­inga til að græða á höft­unum

Til ein­föld­unar virkar „hring­ferð pen­ing­anna“ svona:

Mað­ur­inn þyk­ist vera að eiga vöru- eða þjón­ustu við­skipti við félag í Banda­ríkj­un­um, sem hann á sjálf­ur. Þannig fær hann að skipta íslenskum krónum í gjald­eyri á skráð gengi og milli­færa hann inn á banka­reikn­ing banda­ríska félags­ins, sem hann átti sjálf­ur. Fénu var síðan ráð­stafað til að fjár­magna þátt­töku banda­ríska félags­ins í fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands þar sem hægt var að kaupa íslenskar krónur á 20 pró­sent afslætti, þ.e. á hag­stæð­ara gengi en þeim hafði verið skipt í gjald­eyri á. Banda­ríska félagið „keypti“ síðan verð­bréf útgefin af íslensku félagi sem mað­ur­inn réði á þeim tíma. Hring­ferð pen­ing­anna er því lokið án þess að nein raun­veru­leg við­skipti hafi átt sér stað en búið að er að ná í 20 pró­sent virð­is­aukn­ingu á það fjár­magn sem fór þessa leið. Sam­kvæmt ákæru er um umtals­verða upp­hæð að ræða, eða 207,3 millj­ónir króna. Ávinn­ingur manns­ins hleypur því á tugum millj­óna króna .

Í ákærunni kemur fram að hér­aðs­sak­sókn­ari byggi mála­til­búnað sinn á því að „í reynd hafi engir raun­veru­legir reikn­ingar legið til grund­vallar fjár­magns­hreyf­ingum og gjald­eyr­is­við­skiptum ákærða[...]og að þau hafi að öðru leyti ekki tengst neins konar vöru- og þjón­ustu­við­skiptum hans eða íslenskra félaga hans við við­tak­endur greiðsln­anna, þ.e. ákærða sjálfan eða banda­rísk félög hans.[...]Í öðrum gögnum máls­ins er heldur ekk­ert sem fær stutt, og raunar þvert á móti, að ákærði sjálfur eða við­kom­andi inn­lend félög hans hafi átt í vöru- og þjón­ustu­við­skiptum við ákærða sjálfan í útlöndum eða við­kom­andi banda­rísk félög hans.“

Þá bendi nið­ur­stöður rann­sóknar emb­ætt­is­ins til þess að sím­greiðsl­urnar og gjald­eyr­is­við­skiptin hafi í reynd ekki verið annað en liður í „hátt­semi ákærða og fleiri sem sam­kvæmt áður sögðu var til rann­sóknar í mál­inu sem ætluð fjár­svik hans og fleiri gegn Seðla­banka Íslands í tengslum við þátt­töku banda­rísks félags hans[...] í svo­nefndri fjár­fest­inga­leið bank­ans. Gögn máls­ins um þetta sýna að þessar sím­greiðslur og til­svar­andi gjald­eyr­is­við­skipti ákærða voru ekki liður í neinum vöru- og þjón­ustu­við­skiptum heldur þess í stað hluti af viða­meiri fjár­magns­flutn­ingum sem tengd­ust þátt­töku hins banda­ríska félags ákærða [...]í gjald­eyr­is­út­boði Seðla­banka Íslands vegna svo­kall­aðrar fjár­fest­ing­ar­leiðar bank­ans. Sú þátt­taka var skipu­lögð og fram­kvæmd af ákærða af hálfu félags­ins og var að öllu leyti á fölskum for­send­um[...]Um­ræddir fjár­magns­flutn­ingar ein­kennd­ust meðal ann­ars af hring­streymi fjármuna milli félags ákærða[...] í Banda­ríkj­unum og félaga ákærða á Ísland­i.“

Þrátt fyrir að gera þurfi grein fyrir upp­runa fjár­muna sem komu til lands­ins í gegnum fjár­fest­ing­ar­leið Seðla­banka Íslands, og að gilda ættu hömlur til að hindra „hring­streymi fjár­magns“, þá var ekk­ert gert til að stöðva þessi „við­skipt­i“. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar