Hvernig bankakerfi þarf Ísland?

Íslenska ríkið er með það í hendi sér að móta bankakerfið eftir þörfum samfélagsins. Eina fastmótaða stefnan um hvernig kerfið eigi að vera virðist sú að aðrir en ríkið eigi að eiga banka. Bankakerfið er viðfang nýjasta þáttar Kjarnans á Hringbraut.

Íslenska banka­­kerf­ið, sem var orðið allt að tólf sinnum stærra en árleg þjóð­ar­fram­leiðsla Íslands, hrundi í októ­ber 2008 og sett voru neyð­ar­lög. Þau gerðu eignir allra hlut­hafa í bönk­­unum þremur sem Fjár­mála­eft­ir­litið tók yfir að engu. Þau breyttu líka kröf­u­röð til að tryggja að allar íslenskar inn­i­­stæður nytu for­­gangs og loks voru tekn­­ar, með rík­­is­handafli, eignir úr þrota­­búum þess­­ara banka og færðar inn í nýja banka með inn­i­­stæð­un­­um. Nýju stóru bank­arnir þrír fengu á end­anum nöfnin Lands­bank­inn, Íslands­banki og Arion banki.

Þeir sem höfðu lánað íslensku bönk­­unum pen­ing töp­uðu nokkur þús­und millj­­örðum króna en áttu að geta fengið brot af þeirri upp­­hæð til baka þegar þrota­­búin yrðu gerð upp.

Haustið 2008 var ómög­u­­legt að átta sig á hvert virði þeirra eigna (að­al­­lega lána til íslenskra fyr­ir­tækja og heim­ila) sem færðar voru yfir til nýju bank­anna var. Um 70 pró­­sent af íslensku atvinn­u­­lífi var þá í miklum fjár­­hags­­vanda og þurfti á end­­ur­­skipu­lagn­ingu að halda.

Í neyð­­ar­lög­unum var sér­­stak­­lega tekið fram að Fjár­mála­eft­ir­lit­inu væri heim­ilt „að taka í sínar vörslur þær eignir sem mæta eiga skuld­bind­ingum fjár­­­mála­­fyr­ir­tækis og láta meta verð­­mæti eigna og ráð­stafa þeim til greiðslu áfall­inna krafna eftir því sem þörf kref­­ur“. Það var því ljóst frá byrjun að þær eignir sem teknar voru úr þrota­­bú­unum yrðu metnar og síðan yrði greitt fyrir þær.

Í mjög stuttu máli gerð­ist síðan eft­ir­far­andi: óháðir aðilar voru ráðnir til að meta eign­irn­­ar, á grunni þess mats var farið í að semja við kröf­u­haf­anna um að taka við eign­­ar­hlutum í nýju bönk­­unum (enda átti ríkið hvorki pen­ing til að leggja þeim til eigið fé né borga fyrir mis­­mun á virði þeirra eigna sem færðar voru með handafli yfir í nýju bank­ana) svo þeir gætu farið að end­­ur­­skipu­­leggja íslenskt atvinn­u­líf. Í þeirri end­­ur­­skipu­lagn­ingu fengu íslensk fyr­ir­tæki og heim­ili mörg hund­ruð millj­­arða króna afskriftir af skuldum sem þau gátu ekki borg­að. Til við­bótar var sett upp kerfi sem virk­aði þannig að kröfu­haf­arnir höfðu aldrei bein áhrif yfir þeim tveimur bönkum sem þeir eign­uð­ust, Íslands­banka og Arion banka. Ríkið átti hins vegar áfram Lands­bank­ann og lít­inn hlut í hinum tveim­ur.

Síðar var svo­kallað sól­ar­lags­á­kvæði afnu­mið, en í því fólst að hleypa átti kröfu­höfum bank­anna út með fé sitt innan ákveð­ins tímara­mma, var afnumið í tíð vinstri stjórn­ar­inn­ar. Það gerði það að verkum að kröfu­haf­arnir áttu í reynd ekki lengur Íslands­banka og Arion banka. Þ.e. þeir gátu ekki losað um virði þeirra án þess að semja við stjórn­völd um að gefa hluta eigna sinna eft­ir.

Það var svo gert á síð­asta kjör­tíma­bili og við það eign­að­ist íslenska ríkið Íslands­banka að fullu og tryggði sér sölu­and­virði Arion banka, að minnsta kosti að hluta.

Hvað gerð­ist svo?

Nú var búið að „þvo“ atvinnu­líf­ið, heim­ilin og efna­hags­reikn­ingur bank­anna end­ur­speglar í dag raun­veru­leika, í stað ósk­hyggju um end­ur­heimt­ir. Und­ir­liggj­andi rekstur þeirra er reyndar frekar slakur og þeir græða mest á þókn­ana­tekjum sem verða til í hinu dæmi­gerða sjálf­bæra íslenska banka­kerfi. En efna­hags­reikn­ingur þeirra er nokkuð end­an­legur og lítið um lán í van­skilum á þeim.

Það hefur lengi verið stefna rík­is­ins að selja bank­anna. Á fjár­lögum er heim­ild til að selja stóran hlut í Lands­bank­anum og allan hlut rík­is­ins bæði í Íslands­banka og 13 pró­sent hlut­inn sem ríkið á enn í Arion banka. Það var til að mynda gert ráð fyrir því í fjár­lögum árs­ins 2016 að sala á allt að 30 pró­sent hlut í Lands­bank­anum myndi skila rík­is­sjóði allt að 71 millj­arði króna.

Ekk­ert hefur hins vegar orðið af sölu rík­is­bank­anna tveggja. Norskir bankar hafa um nokk­urra ára skeið þefað af Íslands­banka en kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að það sé ekki eftir miklu að sækj­ast inn á íslenskan banka­mark­að. Erlendir bankar hafa enda getað valið sér þá bita sem þeir vilja hér, t.d. Össur og Marel og sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in, og ein­fald­lega boðið þeim skap­legri við­skipta­kjör en þeir íslensku geta. Þannig eru flestir stóru bit­arnir í íslensku atvinnu­lífi sem eru með tekjur í erlendum mynt­um, þegar búnir að færa við­skipti sín út úr íslensku banka­kerfi.

Hvernig er staðan núna?

Íslensk stjórn­völd eru í aðstöðu til að móta það banka­kerfi sem mun rísa hér­lendis algjör­lega eftir sínu höfði. Þorri þess er í eigu hins opin­bera og sá hluti sem er það ekki er fyrst og fremst með starf­semi hér inn­an­lands og er bund­inn öllum þeim reglum sem ríkið ákveður að setja þeim.

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, er viðmælandi Þórðar Snæs og Þórunnar í nýjasta þætti Kjarnans.
Mynd: Hringbraut

Það hefur hins vegar ekki átt sé stað almenni­leg póli­tísk umræða um hvernig banka­kerfi íslenskur almenn­ingur og fyr­ir­tæki þurfa og vilja. Samt sem áður er nú hafið ferli sem mun móta íslenska fjár­mála­kerfið um ókomna tíð. Það ferli snýst um breytt eign­­ar­hald á bönkum og til­­heyr­andi kerf­is­breyt­ingar sem fylgja munu í kjöl­far­ið. Færa á eign­ar­haldið á bönkum og mót­un­ar­val yfir þeim til einka­að­ila.

Þrír vog­un­ar­sjóðir og Gold­man Sachs keyptu í mars 29,18 pró­sent hlut í Arion banka, og ætla sér að verða meiri­hluta­eig­endur með því að nýta þegar umsam­inn kaup­rétt síðar á þessu ári. Ekk­ert liggur fyrir um hverjir eru end­an­legir eig­endur þeirra og einn sjóð­anna er nýbú­inn að greiða tug millj­arða króna sekt fyrir mútu­boð. Þessir aðilar hafa sagt að þeir „séu að taka stöðu með Íslandi“ með fjár­fest­ingu sinni og undir orð­ræðu þeirra hefur verið tekið í íslenskum stjórn­mál­um.

Ráða­­menn hafa fagnað aðkomu þeirra og banka­­menn kitlar í fing­­urna að fara að leika sér aftur á alvöru­sviði. Þeir sem setja rétt­­mætan fyr­ir­vara um að þetta sé besta leiðin fyrir Ísland eru jað­­ar­­settir sem annað hvort vit­­leys­ingar sem sjái ekki veisl­una, skilji hana ekki eða sem komm­ún­­istar sem hati einka­fram­tak­ið.

Það er rétt að minna á hvað gerð­ist síð­­­ast þegar við leyfðum banka­­kerfið að skil­­greina hlut­verk sitt sjálft. Þá komst þjóð sem er rík­­­ari en flestar af auð­lind­um, er vel menntuð og hafði byggt upp þol­an­­legt vel­­ferð­­ar­­kerfi mjög nálægt því að fara í greiðslu­­þrot. Út af banka­­mönnum og and­vara­­leysi stjórn­­­valda gagn­vart þeim.

Það þarf á ákveða fyrir hvern banka­kerfið er

Bankar á Íslandi eru svo kerf­is­lega mik­il­vægir að það er í raun ótrú­­legt að láta sér detta það í hug að end­­ur­­skipu­lagn­ing kerf­is­ins eigi að fara fram á for­­sendum vog­un­­ar­­sjóða og alþjóð­­legra fjár­­­fest­inga­­banka – sem hafa það eitt mark­mið að hámarka arð­­semi sína – en ekki sam­­fé­lags­ins sem umræddir bankar eiga að þjóna.

Hér að neðan er hægt að sjá síð­asta þátt Kjarn­ans á Hring­braut í heilu lagi, en það er fram­tíð banka­kerf­is­ins til umfjöll­un­ar.

Nútíma­­banka­­kerfi er að stórum hluta til fyrst og síð­­­ast svo að eig­endur fjár­­­magns geti ávaxtað það fjár­magn sem mest. Hin hefð­bundna við­­skipta­­banka­­starf­­semi, og sá hluti banka­­starf­­semi sem þjón­ustar atvinn­u­lífið með eðli­­legum lán­­tökum til upp­­­bygg­ingu rekst­­urs, er ekki í for­grunni. Það er enda bara hægt að skuld­­setja almenn­ing upp að vissu marki. Lána honum fyrir húsi, bíl og veita hæfi­­legan yfir­­­drátt. 

Vaxta­tæki­­fær­in, þókn­ana­­tekj­­urnar og spennan er öll í einka­­banka­­þjón­­ustu fyrir ríkt fólk og í skuld­settum fjár­­­mála­­gjörn­ing­­um. Það er stutt með hag­­töl­­um. Í lok árs 2015 áttu þau tíu pró­­sent lands­­manna sem voru rík­­ust 64 pró­­sent allra hreinna eigna. Hlut­­fallið er reyndar hærra, þar sem í þessum tölum er gert ráð fyrir að verð­bréf séu metin á nafn­virði, ekki mark­aðsvirði. Sami hópur á nær öll verð­bréf, þ.e. skulda­bréf og hluta­bréf í eigu ein­stak­l­inga, á Íslandi. Á árinu 2015 fór 43 pró­­sent af allri nýrri hreinni eign sem varð til hér­­­lend­is, til þessa hóps. Eign hans er því sífellt að aukast og það dregur í sundur með þeim rík­ustu og þeim sem minna eiga. Ástæðan er meðal ann­ars sú að þeir rík­ustu hafa allt öðru­vísi aðgengi að fjár­mála­þjón­ustu en t.d. venju­legt launa­fólk. 

Til hvers eru bankar?

Það er eðli­­legt að stjórn­­­mála­­menn nýti þá stöðu sem upp er kom­in, og felur í sér að stjórn­­völd eru með nán­ast allt banka­­kerfið í fang­inu, til að spyrja sig til hvers bankar séu og fyrir hvern þeir eru.

Það er um tvennt að velja. Það er hægt að halda áfram á þeirri leið sem verið er að feta og leyfa fjár­­­mála­­mark­aðnum að móta kerf­ið.

Hin leiðin er sú að það sé hægt að líta svo á að það sé ekki óum­flýj­an­­legt að fjár­­­mála­­kerfið sé eins og það er. Að það sé hægt, með umræðu, und­ir­­bún­­ingi og skýrri stefn­u­­mótum að byggju upp kerfi sem þjón­ustar sam­­fé­lag­ið. Það kerfi þarf ekk­ert end­i­­lega að vera að öllu leyti í eigu hins opin­bera. Það þarf hins vegar að vera með skýran til­­­gang og skil­­greindan ramma. Að fjár­­­mála­­kerfið þjón­usti almenn­ing og fyr­ir­tæki, ekki að almenn­ingur og fyr­ir­tæki þjón­usti það.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar