Mynd: Birgir Þór 7DM_0367_raw_2094.JPG

Dugar ekki að hafa ráðherra sem vill vel

Umhverfisráðherra segir að breyta verði eignarhaldi loftslagsmála svo árangur náist. Staðan í loftslagsmálum hafi komið henni á óvart. Stjórnvöld verði að beita öllum tiltækum ráðum til að ná markmiðum, annars þarf íslenska ríkið að borga.

Björt Ólafsdóttir tók við sem umhverfis- og auðlindaráðherra í nýrri ríkisstjórn hinn 11. janúar síðastliðinn. Hún hefur undanfarnar vikur staðið í ströngu við að koma sér fyrir í nýju embætti eftir að hafa verið þingmaður Reykvíkinga í stjórnarandstöðu í eitt kjörtímabil.

Einungis mánuði eftir að hún tók við lyklum að skrifstofu ráðherra í umhverfisráðuneytinu í Skuggasundi, var henni kynnt skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands (HHÍ) sem Sigrún Magnúsdóttir, forveri hennar í embætti umhverfisráðherra, óskaði eftir að yrði gerð og Brynhildur Davíðsdóttir prófessor ritstýrði.

Verkefni skýrsluhöfunda var meðal annars að rýna losunarspá fyrir Ísland til 2020 og 2030, að skoða fyrri markmið um losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig tekist hefur að ná þeim, greina hagkvæmustu leiðir til þess að ná þeim markmiðum sem landið hefur gengist undir og meta hvort Ísland eigi að vera áfram í samfloti með ríkjum Evrópusambandsins í viðskiptakerfi með losunarheimildir.

Í stuttu máli þá eru niðurstöðurnar sem birtar eru í skýrslunni ekki sérlega jákvæðar þegar kemur að alþjóðlegum markmiðum og skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Eins og Kjarninn hefur fjallað um þá er reiknað með að án sértækra og nokkuð róttækra aðgerða muni markmiðin ekki nást og ríkissjóður þurfa að greiða sektir fyrir, ef svo má að orði komast.

Björt kynnti Alþingi á fimmtudag skýrslu sína um stöðu og stefnu í loftslagsmálum sem unnin er eftir niðurstöðum HHÍ. Í stöðumati ráðherra er fjallað á hreinskilin hátt um stöðuna í loftslagsmálum og verkefnin fram undan. Einn þingmaður sem kvað sér hljóðs í umræðum um skýrslu Bjartar, Kolbeinn Proppé, sagði það beinlínis hressandi að lesa plagg um loftslagsmál „sem horfir raunsætt á stöðuna; sem er ekki endilega að draga fjöður yfir eða skreyta sig með stolnum fjöðrum.“

Tvöföld losun árið 2030 er kinnhestur

Í tilefni þess að skýrsla Hagfræðistofunar er komin út og að nú sé að hefjast undirbúningur nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum settist blaðamaður Kjarnans niður með Björtu Ólafsdóttur á miðvikudag. Björt kynnti stöðumat sitt og stefnu daginn eftir. Það lá beinast við að spyrja fyrst hver hefðu verið hennar fyrstu viðbrögð við neikvæðum horfum í loftslagsmálum.

„Þetta er verra en ég bjóst við. Eins og skýrslan segir, ef maður horfir á háspána, sem við erum ekki alveg að horfa framan í en er þó hugsanlegur möguleiki, þá gæti losun frá Íslandi aukist um 99 prósent frá 1990 til 2030. Það er náttúrlega bara kinnhestur.“

„Sagt er að sumir vilji verksmiðjur út við sérhvern tanga og fjörð. “ Svona eru fyrstu tvær línurnar í lagi Magnúsar Eiríkssonar, Göngum yfir brúna. Nú verður breyting þar á því í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ekki verði veittar ívilnanir til mengandi stóriðju á kjörtímabilinu.

Í skýrslunni er spáð fyrir um framtíðarútstreymi til ársins 2030 og eru gerðar tvær spár; þ.e. háspá og grunnspá. Í grunnspá er reiknað með venjubundinni þróun, þe. ef við hegðum okkur eins og við gerum nú þegar. Samkvæmt háspánni má gera ráð fyrir að heildarútstreymi frá Íslandi verði 99 prósent meira en það var árið 1990. Grunnspáin gerir ráð fyrir að útstreymið verði 53 prósent meira en árið 1990.

Tími ívilnunar fyrir mengandi stóriðju liðinn

Staðan í dag, gagnvart markmiðum til ársins 2020, er jafnframt ekki nógu góð. Mestu skiptir aukin hlutur stóriðju í losun Íslands mestu. Gert er ráð fyrir að hlutur stóriðjunnar muni verða meiri á næstu árum, enda hafa fyrri ríkisstjórnir þegar gert ívilnandi samninga við stór framleiðslufyrirtæki sem hyggjast stunda hér stóriðju. Björt bendir á að nú þurfi að takast á við það. „Það eru fyrirtæki sem eru að fara í starfsemi fyrst núna sem fyrri stjórnvöld drógu til landsins, ef svo má segja. Við þurfum að fara að takast á við þær ákvarðanir núna.“

„Ég hélt satt að segja að losunin væri ekki svona mikil,“ segir Björt spurð hvort Ísland sé komið styttra á veg en hún hafi gert ráð fyrir. „Af því að við höfum þessa grænu orku og við höfum verið lengi að ræða að auðvitað eigum við að rafbílavæða hér allt og auðvitað eiga orkuskiptin í samgöngum að vera komin meira á veg. Svo er eins og þetta hafi allt gerst mjög hægt.“

Rafbílavæðing mun kosta, eins og hitaveitan

„Við fórum í svo frábært verkefni fyrir mörgum árum að skipta yfir í hitaveitu. Það er frábært og gott og gilt. En nú er bara komið að reikningsskilum aftur,“ segir Björt um aðgerðir í loftslagsmálum.

„Við þurfum að fara aftur að gera viðlíka stórt verkefni sem liggur beinast við að gera með orkuskiptum í samgöngum af því að við eigum þessa grænu orku; Við getum rafbílavætt landið.“

„Það mun alveg kosta okkur, alveg eins og hitaveituvæðingin kostaði okkur. Á endanum – eins og með hitaveituvæðinguna – það var farið í það af því að það var svo dýrt að kaupa kol og það er dýrt að kaupa eldsneyti líka. Tala ekki um þegar grænu skattarnir verða hærri.“

„Það kom mér á óvart að skrefin hafa ekki verið stigin nægilega stór í því að snúa þessu við. Okkar ríkisstjórn tók fyrsta, að því er mér finnst, mikilvægasta skrefið þegar það var ákveðið og skrifað í stjórnarsáttmála að við ætlum ekki að veita fleiri ívilnanir fyrir mengandi stóriðju á Íslandi. Það er bara búið. Og eins og við vitum þá hefur engin mengandi stóriðja farið af stað nema fá þessar ívilnanir frá ríkinu. Þannig að þetta er mikilvægt stjórntæki sem við ætlum að beita.“

Tími fyrir græna skatta og hvata

Spurð hvort hún telji það upp á stjórnvöld komið að ýta almenningi og fyrirtækjum í þetta far segist Björt helst vilja nota jákvæða hvata. „Stjórnvöld hafa hingað til verið að ívilna, veita skattaafslætti og afslátt af gjöldum til fyrirtækja svo þau komi hingað og fari í atvinnuuppbyggingu sem mengar. Ég hef alltaf sagt að ég á móti svona ívilnunum. Þetta skekkir samkeppnistöðu og er bara vont.“

„Ég sé alveg fyrir mér að við getum snúið þessu við með því að frekar ívilna fyrirtækjum og hjálpa þeim til að leita að grænum lausnum, hvetja sérstaklega til nýsköpunar í grænum iðnaði og aðstoða fyrirtæki til að setja upp hreinsibúnað sem að dregur úr losun. Þarna þurfum við að vinna með fyrirtækjunum. En þau eiga auðvitað líka að standa sín reikningsskil með því að leggja sinn metnað í að gera þetta sjálf.“

Spurð hvort það standi til að hækka græna skatta segir Björt að öllum tiltækum ráðum verði beitt. „Við verðum að beita öllum hvötum og tiltækum ráðum til þess að færa hegðun okkar í þá átt að við séum að hlífa umhverfinu.“

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er til húsa í Skuggasundi 1.
Mynd: Birgir Þór

Dugar ekki að hafa ráðherra sem vill vel

Á þessu ári mun fara fram vinna við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, eins og kveðið er á um í loftslagslögum frá 2012. Slík aðgerðaáætlun var síðast innleidd árið 2010 og hefur henni verið fylgt síðan. Í það minnsta í orði, því í skýrslu HHÍ er niðurstaðan að aðgerðaáætluninni hafi ekki verið fylgt í vissum geirum samfélagsins.

En hvernig sér Björt fyrir sér að hægt sé að tryggja það að aðgerðaáætluninni sé fylgt, jafnvel þó aðrir taki við ráðherraembættum eða taki sæti á Alþingi?

„Ég hef sagt það, og það er mín staðfasta trú, að ef að við ætlum að ná einhverjum árangri í loftslagsmálum þá verður að vera breytt eignarhald á því stóra verkefni,“ segir Björt. „Það er ekki þannig að það dugi eitt og sér að hafa umhverfisráðherra sem er öflugur og vill vel. Ég verð að ná áheyrn fleira fólks og auðvitað þeirra sem stjórna en ekki síst: Þetta kemur ekki „top-down“. Það mun ekki virka mjög vel ef við segjum bara „geriði svona og hinsegin“.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðherra, og Björt Ólafsdóttir hafa síðan ríkisstjórnin tók við völdum mælt fyrir málum sem tengjast loftslagsaðgerðum beint á Alþingi.

Björt segir mikilvægt að atvinnulífið taki þátt í þessu verkefni, rétt eins og sveitarfélög sem hún segir standa sig mis vel í loftslagsvænni þjónustu. „Og svo þarf ríkisstjórnin að vera algerlega einhuga – og hún er það. Það þarf svo að vera samhugur um þetta stóra mál á Alþingi. Skotgrafirnar þurfa að víkja, við þurfum bara að fara upp úr þeim. Ég hef enga trú á því – vegna þess að þetta er allt of stórt mál – að einhver álíti sem svo að þetta geti nýst í einhverjum pólitískum markmiðum.“

„Ég held að almenningur og stjórnkerfið sé á þessum tímapunkti að gera sér fyllilega grein fyrir því að nú sé tíminn sem við verðum að gera þetta; þetta getur ekki beðið. Og það er bara gott að nýta þann kraft sem kemur yfir fólk.“

Stjórnvöld ábyrg fyrir hluta vandans

Í skýrslunni sem Björt kynnti fyrir Alþingi á fimmtudag er mynd sem sýnir hvar skuldbindingar íslenskra stjórnvalda liggja og hvaða ráð eiga við hvern lið. Myndin er hér að neðan, en ábyrgð stjórnvalda er táknaður með rauða svæðinu.

Mynd úr skýrslu ráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum. Losun eftir uppsprettu og eftir því hvernig hún telst gagnvart skuldbindingum Íslands og dæmi um aðgerðir til að draga úr losun.

„Ef við tölum um þennan minnsta kassa sem sýnir það sem er beinlínis á ábyrgð stjórnvalda. Þar er minn fókus, þó svo að hitt komi okkur alveg við,“ segir Björt og vísar í myndina. „Við verðum að uppfylla Parísarsamkomulagið. Það er bara mjög stórt verkefni. Og það þarf að einhenda sér í það því að óbreyttu þá erum við ekki að fara að uppfylla þetta samkomulag. Það er heilmargt sem stjórnvöld geta gert.“

Hún segir það liggja í augum uppi að velja þær leiðir sem eru ódýrastar en skila mestum árangri. Þar skora orkuskipti í samgöngum hátt, rétt eins og landgræðsla og skógrækt. „Auðvitað viljum við þá fara í þær aðgerðir sem kosta okkur kannski frekar lítið en hefur mikinn ábata og jafnvel – eins og með rafbílavæðinguna – skilar okkur í plús eftir einhvern árafjölda.“

Kolefnislaust Ísland 2050: „Díses kræst! Nennir einhver að redda þessu?“

Spurð hvort hún sjái fyrir sér að Ísland geti orðið kolefnislaust áður en öldin er hálfnuð segir Björt það vera markmið sitt.

„Við erum svo ótrúlega rík af auðlindum að þetta er það sem við getum auðveldlega gert. Það á að vera markmiðið. Það er mitt markmið. Ég sé svo mikil tækifæri í því hvað Ísland getur gert. Við eigum stórt land en fáa íbúa. Við erum ótrúlega rík af orkuauðlindum og grænni orku. Við eigum auðvelt með að skapa samtakamátt og ganga í takt þegar setjum undir okkur hausinn.“

„Það er beinlínis verðmætasköpun fólgin í því að huga að umhverfismálum og hafa þau í fyrsta sæti. Við getum svo auðveldlega gert þetta. Sjávarútvegurinn á allt sitt undir því að það verði ekki hækkun á hitastigi sjávar. Fólk í ferðaþjónustu veit það alveg að ef við göngum á þessa náttúru og þessa ímynd um hreina Ísland þá verður þessi túrismi ekki sjálfbær til frambúðar.“

„Ég get ímyndað mér að fólk opni skýrslu Hagfræðistofnunnar, loki henni strax aftur og segi bara: „Díses kræst! Nennir einhver að redda þessu?“ Á alheimsvísu þá er verkefnið svo stórt að það vex mörgum í augum. Það væri það stærsta sem Ísland hefði fram að færa til sögunnar ef okkur tekst þetta ótrúlega vel þá geta aðrir fylgt í fótspor okkar. Aðalmálið er að láta alla trúa því að þetta sé hægt,“ segir umhverfisráðherra.

Niðurlægjandi ef Ísland sætir viðurlögum

Það sé mikilvægt að stjórnvöld bregðist við þeim hluta sem þau hafa skuldbundið sig til þess að sinna. „Það er ljóst að ef við náum ekki að standa við Parísarsamkomulaginu – og auðvitað líka Kýoto-samkomulaginu – þá munum við þurfa að borga.“

Það eru viðurlög sem sagt?

„Já, við erum ekkert að tala um nokkra þúsundkalla. Það er alveg vitað að ef þú eyðir milljarði í skógrækt þá mun það borga sig. Annars þurfum við að borga í beinhörðum peningum eins og hver önnur stóriðja fyrir það sem við erum að losa. Fyrir utan það að það væri beinlínis niðurlægjandi fyrir land eins og Ísland. Það ætlar enginn að láta það gerast.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiViðtal