Frá kvöldvöku til karnivals

Leiklistargagnrýnandi Kjarnans fjallar um Kvöldvöku með Jóni Gnarr.

kvöldvaka með Jóni Gnarr
Auglýsing

Borgarleikhúsið í samvinnu við Jón Gnarr: Kvöldvaka með Jóni Gnarr

Á sviðinu: Jón Gnarr

Kvöldvaka er séríslensk samkoma sem á rætur í bændasamfélaginu og leið undir lok þegar samfélagsskipan hér á landi breyttist, hið hefðbundna bændasamfélag leið undir lok, fólk fluttist á mölina og önnur tegund afþreyingar sem heyrði til hinu vaxandi borgarsamfélagi ruddi kvöldvökunni til hliðar – hljóðvarp, kvikmyndasýningar, leiksýningar og aðrir mannfagnaðir, og loks sjónvarpið – en bæði í upphafi og þróun hljóðvarps og eins í upphafi og þróunar sjónvarpsins má greina leifar af kvöldvökumenningunni. Þessi hinstu merki kvöldvökunnar eru þó óðum að hverfa.

Samkvæmt skilgreiningu Íslenskrar nútímamálsorðabókar, sem finna má á netinu, hefur hugtakið kvöldvaka tvær merkingar: annars vegar er það notað um samveru fólks um kvöld í baðstofu þar sem lesið var upphátt og unnin handavinna, hins vegar er það haft um skemmtun að kvöldlagi, oft í skóla eða félagi.

Auglýsing
Þessar skilgreiningar hljóta að teljast ívið takmarkaðar; á netinu má þó einnig finna skilgreiningu Öldu Sigmundsdóttur á ensku, þar sem hún greinir erlendum ferðalöngum frá fyrirbærinu kvöldvaka; þar leggur hún áherslu á sagnaarfinn eins og hann birtist í frásögum sögumanns, ekki upplesara, heldur flytjanda, sem gerir söguna lifandi með flutningi sínum og frásagnarstíl. Slíkir sögumenn voru einatt aufúsugestir á bæjum og gátu jafnvel orðið matvinnungar með því að skemmta fólki með því að fara með þjóðsögur af huldufólki, tröllum, draugum og útilegumönnum eða lífga við einhverja af Íslendingasögunum eða einfaldlega segja sögur af skemmtilegu fólki úr samtímanum, stundum því til háðungar og smánar, en áheyrendum ávallt til skemmtunar.

Þar með erum við farin að nálgast lýsingu á þeirri kvöldvöku sem Jón Gnarr býður upp á í Borgarleikhúsinu, nánar tiltekið á Litla Sviðinu, sem hefur verið smekklega aðlagað að viðburðinum: ljósbrúnt baktjald afmarkar sviðið en þar má finna dökkappelsínugulan hægindastól, sjálfsagt frá sjötta áratugnum og frá svipuðu tímaskeiði er mikill radíógrammófónn sem trónir fyrir baksviði miðju; lengst til hægri er svo hátt borð á einum fæti, ekkert ósvipað því sem stjórnendur málþinga styðjast við í ráðstefnusölum; það borð er með hvítum hekluðum dúki. Öll er þessi leikmynd í anda Jóns Gnarrs ef svo má að orði komast, og svo er hún heldur ekki notuð í sýningunni, nema á einfætta borðinu er vatnsglas sem Jón sýpur á af og til og svo glerkrús með nokkrum bréfmiðum sem koma að notum í seinni hluta sýningarinnar. Á gólfinu er motta sem gæti verið persnesk en hún hefur skilgreint hlutverk: að sjá til þess að Jón Gnarr haldi sig á mottunni! Í bókstaflegri merkingu!

Hlutverk leikmyndarinnar virðist að öðru leyti frekar vera að minna á þann tíma þegar kvöldvakan var endanlega að líða undir lok sem samfélagsfyrirbæri, rétt upp úr seinna stríði.

Jón Gnarr byrjar á að útskýra konsept sýningarinnar og veður þar úr einu í annað í viðstöðulausum orðaflaumi – það er ekki ofmælt að hann láti dæluna ganga, vaði á súðum, láti móðan mása, tali linnulaust og láti flest flakka. En þessi fyrri hluti sýningarinnar er í rauninni upphitun; uppistandarinn er að búa í haginn fyrir sögumanninn. Uppistandarinn færir sér fimlega í nyt að hann er faðir og fjölskyldumaður, fyrrverandi borgarstjóri og frægur skemmtikraftur sem hefur í kringum sig vænan vinahóp. Og uppistandarinn gerir að því er virðist allt sem í hans valdi stendur til að ófrægja sjálfan sig: hann játar blygðunarlaust að hann hafi hina mestu skemmtun af því að koma öðrum í vandræði, hann viðurkennir án þess að skammast sín að hann ljúgi markvisst og meðvitað að börnum sínum og kinnroðalaust kveðst hann ýta undir söguburð um vini sína.

Auglýsing
Játningar af þessu tagi eru óborganlega fyndnar. Ætli það hafi ekki hent flest okkar að koma okkur sjálfum eða jafnvel vinum okkar í vandræði. Ætli við þekkjum það ekki að slúðra svona pínulítið um vini okkar og vinnufélaga og hefur það ekki komið fyrir að við berum eins og eina litla, hvíta lygi í börnin okkar? Mjög sennilega. En Jón Gnarr toppar okkur öll. Þetta eru ekki einstaka tilviljanakennd atvik í hans lífi, þetta er hans lífsstíll! Jón Gnarr er yfirdrifinn og gróteskur í atferli sínu og í ofanálag er hann greindur með þroskaskerðingu sem barn, athyglisbrest með ofvirkni og lesblindu auk þess að vera nærsýnn í meira lagi. Allar frásagnir hans af hrekkjum gegn vinum, lygum að börnum sínum og rugli þegar kemur að samskiptum við eiginkonu sína og bara venjulegu skipulagi daglegrar venju eru svo ýktar, ofsafengnar og yfirdrifnar – en frásögnin svo einlæg og hreinskilnislega fram borin að maður freistast til að trúa hverju orði eins og nýju neti.

Samtímis því sem Jón Gnarr heldur okkur hugföngnum með kostulegum og bráðfyndnum frásögnum af hrekkjum sínum dregur hann upp markvissa mynd af lítilmagnanum, þeim sem ekki lauk prófi (nema meiraprófi!) og mætir atburðum í umhverfi sínu af hrekkleysi og sakleysi sem oftar en ekki kemur honum sjálfum í alls konar óviðjafnanleg vandræði. Þessi sagnaaðferð er hvort tveggja í senn, sérstök og sympatísk – hann dregur upp mynd af sjálfum sér sem underdog, sjónarhorn hans er ávallt sjónarhorn lítilmagnans, ekki í líkamlegum skilningi, heldur félagslegum, hann er lítilmagninn sem kann ekki til fulls á umhverfi sitt og um leið og hann kemur fram af fullkomnum kvikindisskap við sína nánustu, leikur umhverfið hann viðlíka grátt.

Jón Gnarr spilar á sitt eigið óöryggi, sem óhjákvæmilega vekur hlátur og um leið og hann finnur fyrir þessum jákvæðu viðbrögðum áhorfenda færist hann í aukana og þá koma þau kostulegu augnablik þegar hann sjálfur flissar með – er það vegna þess að hann verður gripinn af sinni eigin frásögn eða er það vegna þess að hann verður raunverulega upptendraður af því að hafa tekist að koma okkur til að hlæja? Svarið við því er leyndarmál sagnameistarans Jóns Gnarrs – hann leyfir því að lifa fram yfir hlé og yfir í seinni hluta sýningarinnar.

Eftir hlé hefst hin eiginlega sögustund. Nú mega nokkrir áhorfendur draga miða úr glerkrús og vísar hver miði til sinnar sögu. Ég er ekki grunlaus um að Jón Gnarr stjórni því betur en sýnist hvaða sögur verða fyrir valinu, því tæplega trúi ég því að alger tilviljun hafi ráðið vali sagna, til þess var sýningin öll og einkum seinni hlutinn of markvisst byggður – þótt það verði að segjast svo alls réttlætis sé gætt, að sýningin öll ber á sér yfirbragð þess að vera leikin af fingrum fram, án annars drifkrafts en málgleði og frásagnargleði Jóns. En þótt hann geti vissulega tekið ýmsa útúrdúra og sýningin þar með orðið lengri eða styttri eftir atvikum, er ramminn býsna skýr og þannig skorinn að úr verður þokkalega heilsteypt sýning.

Auglýsing
En ég leyfi mér að spyrja – og hér er komið að minni einu aðfinnslu á sýningunni – hvort ekki hefði verið hægt að magna áhrif sýningarinnar með því að fara um efnið dramatúrgískum höndum og efla samhengið milli hinna einstöku sagna. Þær eiga það sameiginlegt að vera gróteskar og ýkjukenndar, en gætu þó vel verið sannar – eins og Jón sjálfur fullyrðir einlæglega oft í upphafi sýningarinnar. Svo er eins og finna megi rauðan þráð á milli þeirra sem mætti draga betur fram og skerpa þannig upplifun áhorfenda af sýningunni allri. Sögurnar – af  sambandi Jóns við neyslusamfélagið eins og það birtist í Costco og Bland, nöktu konunni í leigubílnum og eiginmanni hennar, „samskiptum“ Bens Stillers og Jóns, þá borgarstjóra, og síðast en ekki síst sagan af því þegar Jón og Jóka, kona hans, fóru með drengina sína tvo á dragsjó í stærsta dragklúbbi New Yorkborgar og þar með heimsins til að sjá vin þeirra Kenny koma fram sem dragdrottningu – setja Jón sjálfan í ákveðið hlutverk, hann gerir sjálfan sig að hinum klassíska „underdog“, og hann stigmagnast í þessu hlutverki „underdogsins” allt þar til kemur að lokasögunni, af heimsókninni á dragsjóið í New York – sú saga endar á karnívalískri frásögn þar sem Jón er argur ger (svo vísað sé til Íslendingasagna –hér er nefnilega ekki brugðið frá sígildri sagnahefð!!!), niðurlægður, beraður og pyntaður, dreginn niður á hinn klassíska samfélagslega botn, rændur kynvitund, heiðri og sæmd. Allt undir einlægum fögnuði og skellihlátrum áhorfenda!

Þetta er óborganlegur stígandi og margvísleg þemu gægjast fram á ferðalaginu úr heimi hinnar félagslega öruggu kvöldvöku, þar sem hin félagslegu hlutverk voru niðurnjörvuð og eilíf, yfir í æðisgenginn heim kynuslaklúbbsins þar sem enginn er öruggur og enginn fær að vera sá sem hann vill vera. Þetta er ferðalag í frásögnum sem fellur vel að kvöldvökuheitinu og sem mætti jafnvel kalla hina nýju Íslendinga sögu. Það varð ekki annað fundið en áhorfendur gerðu sig vel heimakomna á þessu ferðalagi og höfðu af því óspart og ósvikið gaman.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk