Ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákveður að rjúfa þing og boða til kosninga hafa flokkarnir 45 daga til þess að halda kosningar eftir að þing er rofið. Samkvæmt stjórnarskrá verður að halda kosningar í fyrsta lagi eftir þrjár vikur og í síðasta lagi eftir 45 daga.
Sigmundur sagði í yfirlýsingu eftir fund sinn með Bjarna Benediktssyni nú fyrir hádegi að ef þingmenn Sjálfstæðisflokks treystu sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum ríkisstjórnarinnar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir yfirlýsingu Sigmundar ekki koma sér á óvart.
„Miðað við viðbrögð forsætisráðherra miðað við þær kröfur sem hafi verið settar fram um hans afsögn. Hins vegar erum við í VG búin að leggja fram tillögu um þingrof og kosningar þannig að við erum tilbúin í þetta.”
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segist fagna því að kosningar fari fram hið fyrsta.
„Það er greinilegt að þessir flokkar ráði ekki við stjórn landsins. Þeir eru rúnir trausti baðir tveir. Og það hvernig forystumennirnir hafa haldið á þessu máli undanfarnar vikur er alvarlegur áfellisdómur yfir því hvernig þeir verja hagsmuni þjóðarinnar," segir hann. „Þetta mál snýst ekki um þessa flokka eða þessa menn, heldur snýst það um heilbrigð stjórnmál, að menn segi satt og að fólk fái að ganga til kosninga með alla hluti upp á borði."Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir yfirlýsinguna ótrúlega.
„Það er ótrúlegt að reyna að kúga þingmenn Sjálfstæðisflokks til að styðja forsætisráðherra með svona hótunum. Ég get ekki talað fyrir þá en mér finnst þetta ekki vera leið til að ná sáttum eða komast út úr ómögulegum kringumstæðum fyrir ráðherrann.”