Samfylkingin vill fyrirframgreiða vaxtabætur sem styrk til íbúðakaupa

Samfylkingin hefur kynnt kosningaloforð sitt um húsnæðismál. Það snýst um að fyrirframgreiða vaxtabætur næstu fimm ára sem styrk til íbúðakaupa. Hækki laun fólks á endurgreiðslutímabilinu lendir kostnaðurinn á ríkissjóði.

Oddný Harðardóttir
Auglýsing

Sam­fylk­ingin ætlar að fyr­ir­fram­greiða vaxta­bætur næstu fimm ára til að styrkja fólk til fyrstu íbúð­ar­kaupa, kom­ist flokk­ur­inn til valda. Fólk í sam­búð á að geta fengið þrjár millj­ónir króna í slíkt „for­skot“, ein­stætt for­eldri 2,5 millj­ónir króna og ein­stak­lingur tvær millj­ónir króna. Þetta kosn­inga­lof­orð var til­kynnt á blaða­manna­fundi í dag.

Í frétta­til­kynn­ingu frá Sam­fylk­ing­unni segir að þrjá millj­ónir króna ætti til að mynda að duga fyrir útborgun á 20 millj­óna króna íbúð, ef miðað er við að kaup­and­inn taki 85 pró­sent lán. Ljóst er að fáar ef ein­hverjar sam­þykkt­ar, og þar með láns­hæfar, íbúðir eru til sölu á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem kosta undir 20 millj­ónir króna. Í skýr­ing­ar­gögnum Sam­fylk­ing­ar­innar segir t.d. að tveggja her­bergja íbúðir kosti í dag frá 22 millj­ónum króna á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Því mun hámarks­greiðslan ekki duga sem heild­ar­út­borgun fyrir flesta sem eru í hús­næð­is­vanda heldur sem hlut­fall af slíkri útborg­un.

Fari svo að þeir sem fái fyr­ir­fram­greiðsl­una á vaxta­bótum til fimm ára hækki í tekjum á tíma­bil­inu, og rýri þar með rétt sinn til vaxta­bóta, mun kostn­að­ur­inn sem ekki fæst end­ur­greiddur falla á rík­ið. Vaxta­bæt­urnar byrja að skerð­ast þegar tekjur ein­stæð­inga fara yfir fjórar millj­ónir króna á ári og hjá sam­búð­ar­fólki þegar sam­eig­in­leg árs­laun þeirra fara yfir 6,5 millj­ónir króna. Þegar ein­stak­lingur er kom­inn með yfir 6,4 millj­ónir króna á ári í heild­ar­laun, 533 þús­und krónur á mán­uði, þá fellur réttur hans til vaxta­bóta nið­ur. Hjá hjónum eða sam­búð­ar­fólki fellur hann niður þegar þau hafa saman 10,4 millj­ónir króna í árs­tekj­ur, eða 433 þús­und krónur hvort á mán­uði.

Auglýsing

Ætla að fjölga leigu­í­búðum

Þeir sem fá hámarks­greiðslu út úr þessu kerfi munu fá 600 þús­und krónur á ári, og alls þrjár millj­ónir króna yfir fimm ára tíma­bil. Í „spurt og svar­að“um leið­ina á heima­síðu Sam­fylk­ing­ar­innar segir að „Kostn­aður við úrræðið veltur á fjölda þeirra sem færa sér það í nyt.Í grunn­inn er verið að veita vaxta­bótum fyrir fram sem fólk ætti öllu jöfnu rétt á næstu fimm árin. Áætla má að kostn­aður vegna fyr­ir­fram­greiðslu vaxta­bóta sé þó um 10,5% hærri en útlögð upp­hæð vegna tíma­virðis pen­inga (m.v. 5% ávöxt­un­ar­kröf­u). Einnig má búast við að kostn­aður falli á ríkið vegna þeirra sem fá fyr­ir­fram­greiðslu vegna fimm ára, en hækka svo í tekjum á þeim fimm árum þar sem ríkið færi ekki fram á end­ur­greiðslu vegna breyt­inga á tekjum eða eigna­stöðu á tíma­bil­inu. Vegna áætl­ana um hækkun skerð­ing­ar­marka vegna tekna og eigna, mun þessi munur þó minnka. Á árinu 2016 var kostn­aður rík­is­sjóðs vegna vaxta­bóta rúmir 6,2 millj­arðar króna, en árið 2011 var kostn­að­ur­inn tæpir 19 millj­arð­ar.“

Sam­hliða ofan­greindri leið, sem kall­ast „For­skot á fast­eigna­mark­að­i“, ætlar Sam­fylk­ingin að taka upp nýtt kerfi hús­næð­is­bóta, hækka skerð­ing­ar­mörk og styðja betur við barna­fjöl­skyldur en nú er gert. Meðal þess sem það felur í sér er að vaxta­bætur eigi að ráð­ast af fjölda barna.

Til við­bótar ætlar Sam­fylk­ing­in, sam­kvæmt kosn­inga­stefnu sinni, að fjölga almennum leigu­í­búðum um fjögur þús­und á kjör­tíma­bil­inu og fjölga náms­manna­í­búðum um eitt þús­und um allt land.

Ekki hægt að stinga hagn­að­inum í vas­ann

Ekki verður hægt að nýta „for­skot­ið“ til að kaupa sér íbúð, selja hana strax aftur og leysa út hagn­að­inn. Á heima­síðu Sam­fylk­ing­ar­innar segir að ríkið taki veð, verði aft­ast í veð­röð­inni og ef við­kom­andi selur innan fimm ára þarf hann annað hvort að skila fyr­ir­fram­greiðsl­unni eða færa hana yfir á nýja eign.

Í kynn­ing­ar­texta Sam­fylk­ing­ar­innar er leiðin borin saman við fyrstu fast­eignar leið sitj­andi rík­is­stjórn­ar, sem miðar við að veita fyrstu kaup­endum heim­ild til að nota sér­eign­ar­sparnað sinn skatt­frjálst til að greiða inn á íbúð.  Í þeirri leið þurfa fyrstu íbúða­kaup­endur hins vegar að spara í allt að tíu ár og nota féð síð­an. Sam­fylk­ingin vill færa þeim það núna.

Sam­fylk­ingin gengst við því að leiðin gæti haft áhrif til hækk­unar á hús­næð­is­mark­aði, og gert eig­in­fjár­fram­lag þeirra sem eru að kaupa sér fast­eign hærra en það er í dag. Erfitt sé þó að áætla hversu mikil þau áhrif yrðu.

Vert er að benda á að eigið fé í fast­eignum Íslend­inga jókst úr 1.146 millj­örðum króna í 2.285 millj­arða króna frá lokum árs 2010 og fram að síð­ustu ára­mót­um. Það hefur því tvö­fald­ast á sex ára tíma­bili.

Meira úr sama flokkiInnlent
None