25

merkilegustu fréttamál ársins

Ritstjórn Kjarnans tók saman þau fréttamál sem þóttu standa uppúr á árinu 2016. Bæði er horft á innlendar og erlendar fréttir.

25

Obama á Kúbu

Erlent
Alþjóðamál

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fór í fyrstu opinberu heimsókn bandarísks þjóðarleiðtoga til Kúbu síðan Calvin Coolidge heimsótti eyríkið árið 1928. Ferð Obama var gerð í tilefni þess að stjórn hans aflétti viðskiptabanninu sem Bandaríkin hafa haft á Kúbu síðan í kjölfar Svínaflóainnrásarinnar árið 1961. Obama hitti Raúl Castro forseta í heimsókn sinni en fékk hins vegar ekki að hitta frelsishetjuna og fyrrverandi forsetann Fidel Castro sem var orðinn mjög sjúkur. Fidel lést í nóvember á þessu ári.

24

Nýr stjórnmálaflokkur - Viðreisn

Innlent
Stjórnmál

Stjórnmálaflokkurinn sem síðar hlaut nafnið Viðreisn spratt upp úr óánægju innan Sjálfstæðisflokksins með slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið árið 2014. Eftir langan undirbúning var flokkurinn formlega stofnaður 24. maí 2016 á fjölmennum stofnfundi í Hörpu. Formaður var kjörinn Benedikt Jóhannesson og flokkurinn lýsti sér sem frjálslyndum og alþjóðasinnuðum miðjuflokki. Viðreisn bauð fram í þingkosningunum í október og fékk 10,5 prósent atkvæða og sjö þingmenn.

23

Solar Impulse umhverfis jörðina

Erlent
Tækni

Tveimur svissneskum flugmönnum tókst að fljúga umhverfis jörðina án þess að nota dropa af jarðefnaeldsneyti. Hringnum var lokað í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í lok júlí. Hringferð Solar Impulse-flugvélarinnar er gríðarlega stórt og táknrænt skref í átt að vistvænni orku í samgöngum heimsins. Ferðalagið umhverfis jörðina tók nærri eitt og hálft ár en flugtíminn var hins vegar aðeins rúmlega 23 dagar.

22

Sumarólympíuleikar í Rio

Erlent
Íþróttir

Sumarólympíuleikarnir voru haldnir í 31. sinn í ár. Að þessu sinni fóru þeir fram í Rio de Janeiro í Brasilíu. Í kjölfar leikanna spratt á ný umræða um hvort alþjóðaólympíunefndin geri of ríka kröfu um að leikarnir kosti gestgjafana of mikla peninga. Bandaríkin hlutu flest gullverðlaun eða 46 og langflest verðlaun yfir höfuð eða 121. Sundkappinn Michael Phelps varð sigursælasti ólympíuíþróttamaður allra tíma á leikunum. Ísland átti átta fulltrúa á leikunum í ár.

21

Zika-veiran breiddist út

Erlent
Heilbrigðismál

Á fyrri hluta ársins var mikið rætt um Zika-veiruna, en faraldur komst af stað í Brasilíu árið 2015 og breiddist út, einkum í Suður- og Mið-Ameríku. Miklar umræður sköpuðust um áhrif veirunnar á Ólympíuleikana í Rio de Janeiro, höfuðborg Brasilíu, sem fóru fram í sumar. Yfirvöld lýstu því yfir að veiran ætti ekki að hafa nein áhrif og engu breyta. Heilbrigðisyfirvöld víða um heim ráðlögðu enda aðallega þunguðum konum frá því að ferðast til Mið- og Suður-Ameríku.

20

Kjarnorka í Norður-Kóreu

Erlent
Alþjóðamál

Norður-Kórea hélt áfram að þróa kjarnorkuvopn sín og gerði nokkrar mikilvægar tilraunir með vetnissprengjur, kjarnorkusprengjur og millidrægar sprengjuflaugar á árinu. Sprengingarnar voru svo öflugar að þær hreyfðu við jarðskjálftamælum í nágrannaríkjunum í Suður-Kóreu, Rússlandi og Kína. Norður-Kórea hefur framkvæmt allar sínar tilraunir í fjallinu Mantap í norðanverðu landinu. Fjöllin í Norður-Kóreu eru nógu stór til þess að geta haldið mörgum stórum tilraunasprengingum.

19

Aldrei aftur minna en 400 ppm

Erlent
Loftslagsmál

Þáttaskil urðu í loftslagsmálum heimsins í september 2016 þegar magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu mældist yfir 400 hlutum á hverja milljón (e. parts-per-million, ppm) á þeim árstíma þegar magnið hefur vanalega verið í lægð. Í stað þess að minnka árstíðabundið hélt magnið áfram að aukast. Það þykir því líklegt að koldíoxíð í andrúmsloftinu muni aldrei fara aftur niður fyrir 400 ppm en sú tala hefur verið gerð að táknrænum áfanga í sögu loftslagsbreytinga.

18

Valdaránstilraun í Tyrklandi

Erlent
Stjórnmál

Tyrkland var mikið í fréttum í ár. Loftárásir vestrænna ríkja á Sýrland voru gerðar út frá Tyrklandi og straumur flóttamanna lá til landsins. Það var hins vegar valdaránstilraunin í júlí sem greip athygli fjölmiðla. Forsetinn Recep Tayyip Erdogan hélt hins vegar völdum og hafa sérfræðingar velt upp þeim möguleika að valdaránið hafi verið skipulagt af Erdogan sjálfum til þess að auka vald forsetans. Pólitískar hreinsanir áttu sér stað í kjölfarið þar sem þúsundir voru fangelsaðir eða teknir af lífi.

17

Hryðjuverk í Brussel

Erlent
Hryðjuverk

Tvær hryðjuverkaárásir voru gerðar samtímis í Brussel í mars, þegar ráðist var annars vega á Zaventem-flugvöllinn og á lestarstöð í miðborginni. Á fjórða tug manna létu lífið og fjöldamargir særðust í árásunum. Fjöldamargar handtökur voru í kjölfarið og í ljós komu tengsl á milli hryðjuverkanna í Brussel og hinnar mannskæðu hryðjuverkaárásar í París í nóvember 2015. Greint var frá því að sömu hryðjuverkahópar hafi skipulagt árásir á Evrópumótið í Frakklandi í júní og júlí, en engar slíkar árásir voru gerðar.

16

Hryðjuverk í Nice

Erlent
Hryðjuverk

Hryðjuverkaárás var gerð þegar 19 tonna vörufluttningabíl var ekið inn í mannhaf á Promenade des Anglais í Nice í Frakklandi á Bastilludeginum 14. júlí. 86 létust í árásinni og 434 særðust. Fólkið var að fylgjast með flugeldasýningu í tilefni dagsins þegar hryðjuverkamaðurinn lét til skara skríða. Íslamska ríkið (ISIS) lýsti árásinni á hendur sér.

15

Bankastjórinn sagði af sér í kjölfar Borgunarmálsins

Innlent
Viðskipti

Borgunarmálið, sem Kjarninn hóf umfjöllun um í nóvember 2014, hélt áfram. Í janúar var greint frá því að kaup VIsa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun milljörðum króna sem ekki var tekið tillit til þegar ríkisbankinn Landsbankinn seldi hlut sinn í félaginu á lágu verði bak við luktar dyr. Málið varð til þess fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans sögðu af sér í mars en stuðningi var lýst við bankastjórann Steinþór Pálsson. Í nóvember birti Ríkisendurskoðun svo svarta skýrslu um eignasölu Landsbankans á árunum 2010-2016. Steinþór sagðist ekki að segja af sér. Viku síðar var hann hættur.

14

OPEC-ríkin draga úr olíuframleiðslu

Erlent
Efnahagsmál

Samtök olíuframleiðsluríkja (OPEC) ákváðu í lok nóvember að takmarka olíuframleiðslumagn til þess að hafa áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. Framboð á olíu hefur verið mjög mikið undanfarin ár og olíuverðið nokkuð lágt. Með þessari aðgerð á að rétta þennan halla af svo hærra verð fáist. Þessi ákvörðun gæti haft áhrif á verðbólgu á Íslandi ef heimsmarkaðsverð hækkar mikið.

13

Hagsmunir hæstaréttardómara

Innlent
Dómsmál

Í byrjun desember var greint frá því að nokkrir dómarar við Hæstarétt hefðu átt hlutabréf í föllnu íslensku bönkunum. Fjallað var um hvort þeir hefðu greint sérstakri nefnd um dómarastörf með réttum hætti frá eignarhaldinu og hvort þeir hefðu verið hæfir til að dæma í málum sem tengdust umræddum bönkum, t.d. hrunmálum, í ljósi þess að þeir hefðu átt fjárhagslega hagsmuni undir. Kastljósinu var sérstaklega beint að Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Umfjöllunin leiddi til þess að dómarar við Hæstarétt munu héðan í frá birta hagsmunaskráningu sína opinberlega.

12

Eggjaskandall skekur þjóðina

Innlent
Neytendamál

Í nóvember kom Kastljós Rúv upp um for­dæma­laus afskipti Mat­væla­stofn­unar af eggja­búum Brú­neggja. Í þætt­inum kom fram að Brú­negg hefði, að mati stofn­un­ar­inn­ar, blekkt neyt­endur árum saman með því að not­ast við merk­ingar sem héldu því fram að eggja­fram­leiðsla fyr­ir­tæk­is­ins væri vist­væn og að varp­hænur þess væru frjáls­ar. Í krafti þess kost­uðu eggin um 40 pró­sent meira en þau egg sem flögg­uðu ekki slíkri vott­un. Kast­ljós fékk aðgang að gögnum um afskipti Mat­væla­stofn­unnar af Brú­neggjum og í þeim kom í ljós að stofn­unin hefur í tæpan ára­tug haft upp­lýs­ingar um að Brú­negg upp­fyllti ekki skil­yrði sem sett voru fyrir því að merkja vörur sem vist­væn­ar. Það væri því að blekkja neyt­end­ur. Atvinnu­vega­ráðu­neytið hafði líka þessar upp­lýs­ing­ar, en neyt­endum var ekki greint frá þeim. Í kjölfar málsins voru Brúnegg tekin úr sölu í öllum helstu matvöruverslunum.

11

Ísland á EM í Frakklandi

Innlent
Íþróttir

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tók fyrsta sinn þátt á stórmóti þegar „strákarnir“ kepptu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi í sumar. Ísland keppti í riðli með Portúgal (sem varð að lokum Evrópumeistari) og gerði jafntefli við Ronaldo og félaga í fyrsta leik sínum á stórmóti. Okkar menn komust alla leið í átta liða úrslit eftir að hafa niðurlægt England í Nice. Þar mætti Ísland Frakklandi sem reyndist á endanum of stór biti fyrir nýliða Íslands. Eftir stóð frábær árangur íslenska landsliðsins.

10

Loftslagssamningurinn tók gildi

Erlent
Loftslagsmál

Loftslagssamkomulagið sem gert var í París í desember árið 2015 var undirritað í New York í apríl og tók svo formlega gildi í október þegar skilyrði samningsins voru uppfyllt. Mestu skipti samkomulag Bandaríkjanna og Kína um að sameinast um samkomulagið og minnka losun gróðurhúsalofttegunda en þær þjóðir losa mest allra í heiminum. Til þess að samningurinn öðlaðist gildi þurftu þau ríki sem samanlagt losa 55 prósent allrar losunar heimsins að innleiða samninginn í lög. Ísland innleiddi samninginn í ágúst.

09

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands

Innlent
Kosningar

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningum í júní. Hann hlaut 39,1 prósent atkvæða sem var öllu minna en hann hafði mælst með í skoðanakönnunum. Alls kynntu 22 um að þau hygðust bjóða sig fram; þeirra á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, eftir að hafa hætt við að hætta sem forseti. Hann hætti svo aftur við. Níu voru á endanum í framboði. Aldrei hafa fleiri verið í forsetaframboði á Íslandi.

08

Aldrei í sögunni verið eins margir á flótta

Erlent
Mannréttindi

65,3 milljónir manna voru á flótta, hælisleitendur eða á vergangi við lok síðasta árs, samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kom út um mitt árið. Þetta er í fyrsta sinn sem fjöldi flóttamanna fer yfir sextíu milljónir. Þrátt fyrir flóttamannastraum til Evrópu og miklar aðgerðir til að reyna að stemma stigu við því var þó og er langsamlega stærsti hluti flóttamanna í fátækari ríkjum, eins og Tyrklandi, Pakistan og Líbanon.

07

Sýrland og ISIS

Erlent
Stríð

Yfirráðasvæði Íslamska ríkisins hefur verið minnkað mikið á árinu 2016 með skipulögðum hernaði Íraka og sýrlenska stjórnarhersins. Kúrdar hafa einnig hrakið hryðjuverkasamtökin langt í norðanverðu Írak. Í Sýrlandi hafa vesturveldin og Rússland gert loftárásir sem opinberlega eiga að beinast gegn hryðjuverkamönnum. Sýrlenski stjórnarherinn hefur verið í harðri sókn gegn uppreisnarmönnum í norðanverðu landinu allt þetta ár. Aleppo í norðanverðu Sýrlandi féll í hendur stjórnarhersins í desember og var það gríðarlegt áfall fyrir uppreisnina sem hófst í mars 2011.

06

Snemmbúnar kosningar

Innlent
Stjórnmál

Í kjölfar Panamaskjalanna og stærstu mótmæla Íslandssögunnar var því lofað að boðað yrði til alþingiskosninga á árinu. Lengi var óljóst hvenær það yrði, en kosið var að endingu 29. október síðastliðinn. Kosningarnar voru merkilegar fyrir margar sakir. Sjö flokkar náðu mönnum inn, þar á meðal nýi flokkurinn Viðreisn, sem fékk sjö þingmenn kjörna, sem er einn besti árangur nýs flokks. Sjálfstæðisflokkurinn hélt velli á meðan Framsóknarflokkurinn minnkaði niður í átta þingmanna flokk. Píratar náðu tíu þingmönnum, minna en spáð hafði verið, VG fengu tíu og Björt framtíð og Samfylkingin 4 og 3 eftir að hafa um tíma báðir verið utan þings samkvæmt könnunum. Aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti og aldrei hafa kynjahlutföll verið eins jöfn.

05

Panamaskjölin

Erlent
Viðskipti

Umfangsmesti gagnaleki sögunnar átti sér stað þegar ótilgreindur aðili komst yfir gögn frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sem sérhæfir sig í stofnun og umsýslu aflandsfélaga í skattaksjólum. Í byrjun apríl hófu fjölmiðlar út um allan heim, í samstarfi við alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ), að birta umfangsmiklar umfjallanir úr lekanum. Ísland lék stórt hlutverk þar, enda sýndu gögnin að um 600 Íslendingar ættu um 800 félög hjá Mossack Fonseca.

04

Losun hafta

Innlent
Efnahagsmál

Stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun fjármagnshafta sumarið 2015. Lykilatriði í þeirri áætlun voru samningar við kröfuhafa um að slíta þrotabúum föllnu bankanna og og aðgerðir til að taka á hinni svokölluðu aflandskrónuhengju. Í ágúst var lagt fram langþráð frumvarp um breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Í þeim fólust stærstu skref sem stigin höfðu verið í átt að losun fjármagnshafta frá því að þeim var komið á haustið 2008. Frumvarpið var að lögum 11. október og er áætlað að undanþágur frá höftum muni fækka um 50-65 prósent í kjölfar þess.

03

Bretar burt úr ESB

Erlent
Kosningar

Bretar kusu um Evrópusambandsaðild þann 23. júní, en atkvæðagreiðslunni hafði verið lofað af David Cameron forsætisráðherra. Flestum að óvörum kusu Bretar með því að yfirgefa Evrópusambandið, en mjótt var á munum og kosningabaráttan ljót. Úrslitin höfðu mikil efnahagsleg og félagsleg áhrif, meðal annars að breska pundið féll meira en gerst hefur um áratugaskeið og Cameron sagði af sér sem forsætisráðherra. Theresa May tók við. Útlit er fyrir að útgönguferlið hefjist á næsta ári.

02

Kjör Donalds Trump

Erlent
Kosningar

Eftir stranga og illskeytta kosningabaráttu vestanhafs var Donald Trump kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember. Hann hlaut fleiri kjörmenn en Hillary Clinton sem fékk þó mun fleiri atkvæði í kosningunum. Mikil óvissa ríkir um hvers konar forseti Trump á eftir að verða enda gerði hann fátt annað en að fara með gífuryrði og lygar í kosningabaráttunni. Um miðjan desember lýstu bæði bandaríska alríkislögreglan og leyniþjónustan því yfir að rússnesk stjórnvöld hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna en Trump hefur lofað bættum samskiptum við Vladimír Pútín forseta Rússlands.

01

Afsögn Sigmundar Davíðs - Fjölmennustu mótmælin

Innlent
Stjórnmál

Hinn 3. apríl var sýndur sérstakur Kastljósþáttur þar sem greint var frá eignarhaldi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá forsætisráðherra, á aflandsfélaginu Wintris. Í félaginu eru geymdar milljarðaeignir og opinberað var að Wintris væri kröfuhafi í bú bankanna. Viðtal við Sigmund Davíð, sem hann gekk út úr, varð heimsfrétt. Daginn eftir þáttinn fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem afsagna og nýrra kosninga var krafist. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl 2016.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar