Bjarni Benediktsson Katrín Jakobsdóttir kosningar

Þrýst á Vinstri græn að hafna íhaldsstjórn með því að kveikja í baklandinu

Samfylkingin sagði nei við því að koma að fjórflokkastjórn í vikunni. Samfylking, Píratar og Viðreisn reyna að skapa þrýsting á Vinstri græn um að neita að fara í íhaldsstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsókn en áhrifafólk innan flokksins telur það skásta kostinn. Og það er líklegasta ríkisstjórnin sem stendur.

Viðreisn, Samfylking og Píratar vinna nú að því hörðum höndum að búa til skýran valkost til stjórnarmyndunar fyrir Vinstri græn og Framsóknarflokkinn sem innihaldi ekki Sjálfstæðisflokk. Þar er mikil áhersla lögð á að um stjórn yrði að ræða þar sem konur yrðu í aðalhlutverki. Helmingur þingmanna slíkrar fimm flokka stjórnar yrðu konur og meirihluti ráðherra sömuleiðis. Auk þess gætu konur setið í öllum stærstu ráðuneytunum samkvæmt uppskriftinni sem unnið er eftir. Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir gæti orðið fjármálaráðherra og kona yrði sömuleiðis utanríkisráðherra.

Þá er mikil áhersla lögð á að slík stjórn muni bjóða upp á skýrar aðgerðir varðandi átak gegn kynbundnu ofbeldi og í umhverfismálum, hvort tveggja málaflokkar sem Vinstri græn skilgreina sig út frá. Þau skilaboð eru líka til þess gerð að minna á ástæðu þess að síðasta ríkisstjórn sprakk og þá leyndarhyggju sem ríkti yfir afgreiðslu á málum sem tengdust uppreist æru.

Skýrasta útspil Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata var í morgun þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, birti mynd af sér, Pírötunum Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Helga Hrafni Gunnarssyni, og Viðreisnarfólkinu Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þorsteini Víglundssyni, þar sem þau funduðu um helstu mál sem flokkarnir þrír gætu unnið saman að, annað hvort innan ríkisstjórnar eða í stjórnarandstöðu.

Tilgangurinn var fyrst og síðast þá að setja þrýsting á Vinstri græn um að fara ekki í íhaldsstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Sérstaklega er reynt að hreyfa við baklandinu innan Vinstri grænna og kjósenda flokksins, sem margir hverjir eru ekki á meðal mestu aðdáenda Sjálfstæðisflokksins. Raunar sýndi könnun, sem birt var 20. september, að einungis þrjú prósent þeirra sem skilgreindu sig sem kjósendur Vinstri grænna vildu sjá Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn.

Ánægja með kyrrstöðu gagnvart kerfunum

Það er þó enn lang líklegasta niðurstaðan. Þ.e. að slík stjórn, undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, verði mynduð. Innan Vinstri grænna er áhrifafólk sem er mjög áfram um að það takist. Og jafnvel búist við því að falast verði eftir stjórnarmyndunarumboði frá forseta Íslands í dag.

Björn Valur Gíslason, sem var varaformaður Vinstri grænna þar til í síðasta mánuði, er einn þeirra sem lýst hefur ánægju sinni með slíka stjórn opinberlega. Í færslu á heimasíðu sinni í gær sagði hann að „rík­is­stjórn þess­ara þriggja flokka myndi ekki ráð­ast í miklar eða umdeildar kerf­is­breyt­ingar hvort sem um væri að ræða í stjórn­ar­skrár­mál­inu, í sjáv­ar­út­vegi eða land­bún­að­ar­málum svo dæmi séu tek­in. Hún myndi þess í stað ein­beita sér að minna umdeildum málum og að treysta frekar heil­brigð­is- og vel­ferð­ar­kerf­ið.“

Þetta eru áherslur sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur geta vel sætt sig við. Þessir tveir flokkar hafa stjórnað Ísland, annað hvort saman eða í sitthvoru lagi, frá því að þeir voru stofnaðir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í þrjú af hverjum fjórum árum sem hann hefur verið til og Framsókn í tvö af hverjum þremur. Saman hafa þeir búið til þau kerfi sem ekki yrði hróflað við gegn því að auknu fjármagni yrði beint í heilbrigðis- og menntamál og innviðauppbyggingu, sérstaklega á landsbyggðinni.

Samfylkingin sagði nei við fjórflokkastjórn

Vinstri græn hafa mikið reynt að fá Samfylkinguna með í fjórflokkaríkisstjórn. Heimildir Kjarnans herma að slík tilboð hafi síðast borist til Loga Einarssonar á allra síðustu dögum. Frá Samfylkingunni hafi hins vegar borist skýrt neikvætt svar við aðkomu að slíkri ríkisstjórn. Það sé einfaldlega ekki áhugi á því.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er ekki valkostur sem hefur nokkru sinni raunhæft verið á borðinu, þótt hún hafi verið rædd, meðal annars innan þingflokks Samfylkingar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Logi hafa aldrei rætt saman að neinni alvöru um neins konar samstarf og lítill sem enginn vilji er innan beggja flokka fyrir slíku samstarfi.

Leiðtogar þriggja flokka hittust í morgun til að ræða samstarf. Tilgangurinn var meðal annars sá að sýna Framsókn og sérstaklega Vinstri grænum að annar valkostur væri í stöðunni en samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Mynd: Facebook-síða Loga Einarssonar

Hótunin um að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Miðflokks og Flokks fólksins er ekkert annað en það, hótun. Sigurður Ingi sagði það margoft við viðmælendur sína í stjórnarandstöðuflokkaviðræðunum um síðustu helgi að þetta væri ekki raunhæfur valkostur. Þess utan liggur fyrir að enginn þeirra stjórnmálaforingja sem eiga raunverulegan möguleika á því að komast í ríkisstjórn hefur rætt við Flokk fólksins á undanförnum dögum. Það sýnir skýrt að verið sé að stilla upp tveimur skýrum valkostum: annars vegar íhaldsstjórn um kyrrstöðu kerfa sem skipuð yrði Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki eða ríkisstjórn frá vinstri og yfir miðju, frá íhaldssemi í átt að frjálslyndi, skipuð núverandi stjórnarandstöðuflokkum og Viðreisn.

Hvor ræður?

Báðir ríkisstjórnirnar yrðu undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur. Hún, og annað áhrifafólk innan Vinstri grænna, hafa verið óhrædd við að segja það upphátt að flokkurinn ætli sér í ríkisstjórn nú. Og það er ófrávíkjanleg krafa um að Katrín verði forsætisráðherra.

Þeir flokkar sem setja nú pressu um að viðræður verði teknar aftur upp milli stjórnarandstöðuflokkanna og nú með Viðreisn segja að næsta ríkisstjórn velti einfaldlega á ákvörðun Katrínar. Hún ráði þessu. Innan þessa hóps hefur verið reynt að teygja sig til Lilju Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokks, í von um að konustjórnin muni höfða meira til hennar.

Innan Vinstri grænna er orðræðan hins vegar sú að Framsókn sé með pálmann í höndunum. Sigurður Ingi Jóhannsson hafi slitið síðustu viðræðum og að hann ráði því hver næsta ríkisstjórn verði. Ekki sé hægt að neyða hann til að vinna með flokkum sem hann vilji ekki vinna með.

Hvað verði ofan á mun að öllum líkindum ráðast á næstu dögum.

Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar