Að kalla það ofbeldi að benda á ofbeldi „ansi fimmáralegt“

Kjarninn fjallaði um svokallaða útilokunarmenningu á dögunum og leitaði hann til Elísabetar Ýrar Atladóttur til þess að skoða hugtakið betur.

Elísabet Ýr Atladóttir
Elísabet Ýr Atladóttir
Auglýsing

Elísabet Ýr Atladóttir aðgerðasinni segir að útilokunarmenning, eða „cancel culture“ eins og hugtakið er kallað á ensku, sé margslungið fyrirbæri. Margir vilji jafnvel halda því fram að fyrirbærið sé ekki til og að stundum sé auðvelt að vísa því á bug sem beiskleika yfir því að vera útilokaður.

Kjarninn fjallaði ítarlega um útilokunarmenningu í síðustu viku en Elísabet Ýr var einn viðmælendanna. Útilokunarmenning gengur út á það að útiloka einstaklinga sem brotið hafa gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum þjóðfélagsins – ýmist með því að hafa tjáð sig á ákveðinn máta eða gert eitthvað á hlut annarra.

Segja má að um ákveðið félagslegt aðhald sé að ræða. Almenningur sýnir þannig andóf gegn þessum einstaklingum sem brjóta af sér. Bakhliðin á þessu andófi er að stundum skortir málefnalega umræðu og getur gagnrýni snúist upp í persónulegar árásir á netinu.

Auglýsing

Elísabet Ýr segist hafa tekið eftir því að fólk fái einhvers konar internet-stig fyrir að útiloka aðra – meðal annars í formi „læka“ og „endur-tísta“.

Að sama skapi séu langháværustu raddirnar sem kvarta yfir útilokunarmenningu frá þeim sem verið sé að gagnrýna fyrir rasisma eða kvenhatur. „Þá er auðvelt að taka ekki mark á þeim röddum sem segja að kannski sé þetta orðið vandamál,“ segir hún.

Þannig sé erfitt að eiga núanseraða umræðu um málefnið „því allir eru í svo mikilli vörn og að passa sig svo mikið – og enginn vill heldur vera útilokaður sjálfur.“ Ef einhver spyr hvort umræður á netinu séu hugsanlega að ganga of langt þá séu líkur á að umræðan snúist gegn einstaklingnum sem spyr spurningarinnar. Þannig sé ákveðin hræðsla við það að tjá sig um útilokunarmenningu.

Fólk skiptist í tvo hópa

Elísabet Ýr segir að við fyrstu sýn virðist útilokunarmenning vera borðleggjandi – en þegar nánar sé að gáð flækjast málin.

Fólk skiptist iðulega í tvo hópa varðandi útilokunarmenningu; með eða á móti. „Þetta er aftur á móti miklu núanseraðri umræða, sérstaklega þegar við spyrjum okkur um hvað verið sé að tala. Erum við að tala um stjórnmálamenn eða instagram-stjörnur?“ spyr hún. Mikill munir sé þarna á.

Þingmenn Miðflokksins sem sátu á Klaustur bar og viðhöfðu niðrandi ummæli um samferðafólk sitt sitja enn á þingi þrátt fyrir að hafa verið útilokaðir um stund. Mynd: Bára Huld Beck

Hún tekur Klausturmálið svokallað sem dæmi í þessu samhengi. Þar voru stjórnmálamenn útilokaðir fyrir orðræðu sem þeir viðhöfðu en þeir héldu störfum sínum áfram þrátt fyrir það eins og ekkert hefði í skorist. Hún telur að instagram-stjarnan ætti hugsanlega erfiðara með að jafna sig eftir viðlíka útskúfun og koma til baka.

Elísabet Ýr bendir enn fremur á að fólk sé í raun aldrei algjörlega útilokað, þ.e. að einhver geri eitthvað eða segi sem ekki fellur í kramið og að sá hinn sami eigi aldrei afturkvæmt á samfélagsmiðla.

Útilokunin endist illa

Varðandi viðbrögð fólks við því þegar það misstígur sig þá telur Elísabet Ýr það skipta máli hvernig einstaklingarnir sem um ræðir bregðist við.

Eitt dæmi þess er þegar Björn Bragi Arnarsson, grínisti og uppistandari, var á sínum tíma útilokaður þegar upp komst um kynferðislegt áreiti hans gegn ungri konu í október 2018 en í kjölfarið baðst hann afsökunar og tók stúlkan þeirri afsökunarbeiðni, sem og fjölskylda hennar.

Elísabet Ýr segir að þrátt fyrir allt þá hafi það þó ekki verið umræðuefnið í raun. „Í þessu tilfelli náði umræðan að snúast þannig að þetta varð að ómerkilegu og pirrandi umræðuefni. Þá nennti enginn að hugsa um þetta lengur. Hann var þannig „cancelled“ í mjög stuttan tíma.“

Björn Bragi uppistandari lofaði „persónulegra gríni en áður“ þegar hann kynnti nýja sýningu í ágúst í fyrra. Mynd: Skjáskot

Þessi svokallaða útilokun endist illa, að hennar mati. „Oft endar þetta með meiri vinsældum ef þau spila þetta rétt. Ég held reyndar að Björn Bragi hafi ekki náð meiri vinsældum en hann að minnsta kosti kom út á núlli. Þetta hafði engin sérstök áhrif á hann. Jú, kannski leið honum illa, ég veit það ekki, en vonandi lærði hann eitthvað af þessu. En á endanum var hann ekki að missa nein gigg.“

Það sama megi segja um Egil Einarsson, eða Gillz eins og hann kallaði sig, en hann var kærður fyrir nauðgun árið 2011 en kærunni var vísað frá á sínum tíma. „Það má ekkert segja um hvernig hann var útilokaður, þú verður bara kærð,“ segir hún.

Konur lenda verr í hakkavélinni en karlar

Elísabet Ýr telur ljóst að auðveldara sé að útiloka konur en karla. „Það er þetta klassíska kvenhatur. Það er svo innbyggt í okkur að ef kona nær langt þá er ógeðslega gaman að sjá hana falla. Djöfull finnst fólki það gaman. Og þá er auðvelt að ná konu niður og skemma fyrir henni frekar en karli því mörgum finnst gaman að sjá karl ná árangri. Ef fólk sér karlinn rifinn niður þá er eitthvað plott í gangi – en ef konan er rifin niður þá á hún það skilið.“

Þessi kynjavídd er svo lúmsk oft og tíðum, að hennar sögn. Elísabet Ýr segir að Twitter sé einstaklega auðveldur vettvangur til að útiloka fólk, því engin umræða eigi sér raunverulega stað þar. Enginn eigi í raun núanseraða umræðu þar.

„Mér finnst mjög mikið af konum lenda í hakkavélinni á Twitter og lenda verr í henni en nokkurn tímann karlar. Þetta er venjulega ekki fólk með nein völd, bara fólk sem er orðið opinberar persónur vegna þess að það er orðið vinsælt á til dæmis Instagram. Ekki þurfi mikið að gerast til þess að það verði útilokað,“ segir hún.

Margir tilbúnir að vera hneykslaðir með þér

Elísabet Ýr bendir enn fremur á að samfélagsmiðlar séu orðnir stór hluti af lífi fólks – og telur hún að ekki sé hægt að fella mikla gildisdóma á þá, þ.e. hvort þeir séu góðir eða slæmir fyrir umræðuna. „Þetta er líka svo mikill hluti af þróuninni sem við erum að ganga í gegnum núna. Allt samfélagið er í raun komið á samfélagsmiðla, ef þú ert ekki á samfélagsmiðlum þá er nær ómögulegt að vita hvað þú ert að gera. Ertu til í alvörunni?,“ segir hún og hlær.

Það sem sé gott og slæmt við samfélagsmiðla er það sem sé gott og slæmt við fólk almennt. „Þetta er svona ýkt á samfélagsmiðlum vegna þess að það er svo auðvelt að þróa eitthvert „trend“ á samfélagsmiðlum – og það er rosalega auðvelt að láta hneykslunina verða stóra vegna þess að það eru svo margir tilbúnir að vera hneykslaðir með þér og það er hægt að finna mjög réttmætar ástæður til þess.“

Hún segir létt í bragði að hún sé síðasta manneskjan til að gagnrýna það þegar fólk hneykslast á netinu. „Þetta er samt ákveðinn þroski sem við göngum nú í gegnum. Eftir metoo þá fór það að verða þannig að hægt var að kalla fólk til ábyrgðar. Við erum enn í þeirri öldu; að krefjast ábyrgðar af fólki og að læra hvernig það getur gerst. Ég held að þetta sé partur af þeirri þróun, við erum ennþá að læra hvernig við getum krafist ábyrgðar og á sama tíma gert það á hátt sem vit er í – og er á einhvern hátt uppbyggilegur fyrir fólkið sem þarf á þessu að halda. Núna er þetta að mörgu leyti niðurrif en mér finnst þetta vera að þróast áfram. Hvert það fer er síðan óljóst.“

Erum enn í metoo-bylgju

Varðandi metoo-byltinguna sem hófst fyrir þremur árum og áhrif hennar þá segir Elísabet Ýr að samfélagið sé enn í þeirri bylgju, þrátt fyrir að hún sé ekki eins stór og áður. Þó rís hún á ólíkum stöðum á ólíkum tímum eins og nú er að gerast í Danmörku. Mismunandi bylgjur eigi sér stað innan ólíkra stétta – bylgjan rís og dalar því á mismunandi tímum á mismunandi stöðum.

„Hver einasta bylgja skilur eftir sig meiri lærdóm, þannig að fyrstu bylgjurnar enduðu í miklu rifrildi þar sem allt var brjálað. Enginn vissi hvernig ætti að haga sér,“ segir hún. Núna aftur á móti sé fólk búið að læra af þessari fyrstu umræðu – og þannig verði það sífellt skilningsríkara.

„Þessi lærdómur er ennþá að eiga sér stað og mér finnst ég sjá fólk enn vera að átta sig á því hvernig það á að takast á við þessa umræðu vegna þess að nú eru komin fordæmi sem ekki voru til áður,“ bendir hún ár.

Auglýsing

Ekki hægt að aftengja listamanninn frá listinni – en þetta er ekki svo einfalt

Hvað á þá að gera við listamennina sem verða uppvísir að óviðeigandi hegðun og list þeirra? Elísabet Ýr segist í því sambandi ekki vera með svör á reiðum höndum, þau séu vissulega ekki augljós.

„Vegna þess að það er ofsalega mikið af mikilvægri list og mikilvægri framför þar sem gott fólk hefur komið að. Mér finnst samt ekki að við getum aftengt listamanninn og listina. Það er ákveðin mótsögn; þú getur ekki aftengt hluti sem tengjast. Það er bara ekki hægt,“ segir hún.

Hún vill frekar spyrja hvort eitthvað gott sé að koma út úr þessu eða hinu verki eða eitthvað slæmt. Það finnst henni skipta meira máli en hvort listamaðurinn sé „skíthæll eða ekki“. Hvort verkið sé í rauninni beint eða óbeint að setja slæm viðhorf listamannsins út í samfélagið.

„Þannig finnst mér ekki hægt að aftengja listamanninn frá verkinu en að sama skapi finnst mér skipta máli að horfa á verkið og spyrja hvort það sé að setja slæm viðhorf út í samfélagið. Er þetta verk að kenna mér að hata fólk, eða að vera kvenhatari eða ekki? Hvað er þetta verk að segja mér?“

Hún hefur mikið velt fyrir sér hugtaki sem nefnist skrímslavæðing en með því að afskrímslavæða gerendur þá er hægt að gera sér grein fyrir því að góðir menn geta gert slæma hluti. „Mér finnst þetta samtal um að aftengja listamanninn lykta af ákveðinni skrímslavæðingu.“

Erum öll hluti af heildinni

Elísabet Ýr bendir á vanda þegar við tölum um list og útilokunarmenningu sem liggur í því hvort við réttlætum sjálf list vegna þess að okkur langar að líka við hana. „Frá hvaða stað kemur réttlætingin?“ spyr hún og bætir því við að hún viti sjálf ekki endilega svörin við þessum spurningum.

Elísabet Ýr telur enn fremur mikilvægt að einstaklingsvæða ekki umræðuna, þ.e. að segja að þetta sé einungis persónuleg ákvörðun hvers og eins. Hún bendir á að við séum öll hluti af heildinni; partur af kerfinu. Þetta sé allt hluti af stærri menningu og ef við getum fundið tengingarnar – og gert það á hátt án þess að smána fólk fyrir skoðanir þess.

Hver er raunverulega með valdið?

Þegar talið berst að valdi, hefur Elísabet Ýr mikið að segja. Frá því samfélagsmiðlar komu til skjalanna hefur orðræðan verið á þá leið að valdið hafi verið fært að einhverju leyti til almennings.

Alltaf þegar hún heyrir orðið vald, þá spyr hún sig: „Hvernig vald?“ Hún segir að vert sé að spyrja þegar talað er um vald hver áhrifin raunverulega séu. Hefur orðræða á netinu virkilega áhrif á lagasetningar? Ef svarið er nei, þá er ekki um raunverulegt vald að ræða, að hennar mati.

„Rosalega mikið af umræðu sem við eigum sem samfélag er mjög góð og miklu fleiri taka þátt í henni en áður – en svo er kerfið nákvæmlega eins og það var fyrir fimmtíu árum. Þarna sé ég ekki raunverulegt vald,“ segir hún.

Athygli á samfélagsmiðlum ekki raunverulegt vald

Athygli getur verið afskaplega yfirborðslegt vald, að mati Elisabetar Ýrar. Hversu mörg „læk“ einhver fær á stöðuuppfærslu á Facebook eða endurdeilingar á Twitter sé þannig ekki vald. Einungis ef hægt er að gera raunverulegar breytingar sé mögulegt að tala um vald.

Vissulega sé auðveldara en áður fyrir fólk að koma sér inn í umræðuna, og jafnvel færa sér völd – hugsanlega sé auðveldara núna að hrinda hugmyndum í framkvæmd og ná til fólks sem er með raunveruleg völd til að vinna að þeim.

„Ég held aftur á móti að það sé ekkert vald falið í umræðunni, þannig séð. Þetta er kannski svartsýni en ég hef samt tekið eftir því að þrátt fyrir til dæmis metoo þá eru nákvæmlega sömu málin í réttarkerfinu.“ Þar breytist lítið sem ekkert þrátt fyrir metoo.

Elísabet Ýr spyr jafnframt hvort einhver sé raunverulega að hlusta þrátt fyrir að einstaklingar hafi milljónir fylgjenda. „Margir halda að ef þú ert með marga fylgjendur og færð mörg „læk“ þá sértu með einhver völd eða einhverja stjórn.“ Hún heldur því fram að hin raunverulegu völd liggi hjá þeim sem búa til sjálf lögin og reglurnar – en ekki þeim sem hafa hvað hæst á samfélagsmiðlum.

Mikilvægt að valdafólk sé dregið til ábyrgðar

Samtalið við Elísabetu Ýr hófst á því að ræða gagnrýni á útilokunarmenningu. Hún vill því taka það sérstaklega fram að hún vilji alls ekki að fólk haldi að hún tali gegn því að fólk láti í sér heyra eða að einstaklingar séu dregnir til ábyrgðar. „Því mér finnst rosalega mikilvægt að við getum dregið valdafólk til ábyrgðar. Þá er ég ekki að tala um einhverja 16 ára stelpu sem er að vera hálfviti á internetinu – mér finnst að fullorðið fólk þurfa að haga sér.“

Hún segir að fólk þurfi jafnframt að geta lært af mistökum sínum. „Ég er viss um að hver einasta manneskja sem hefur verið á internetinu hefur einhvern tímann verið hálfviti þar. Það er bara þannig. Þetta er sannleikurinn, við getum ekki tekið þessa lærdóma úr okkur. Við þurfum að geta sagt: „Ég hef lært þessa hluti og þeir voru ofsalega mikilvægir fyrir mig að læra. Þetta er núna í fortíðinni hjá mér“ – án þess að einhver komi og rifji eitthvað eldgamalt upp á einhverri síðu.“

Varðandi það að útilokunarmenning sé ofbeldi út af fyrir sig, eins og sumir hafa haldið fram, þá hlær hún og segir að svo sé ekki. „Rosalega mikið af fólki sem kallar þetta útilokunarmenningu er pirrað yfir því að einhver sé dreginn til ábyrgðar. Að kalla það ofbeldi að benda á ofbeldi eða eitthvað sem var gert rangt er ansi fimmáralegt. Ég tek það alls ekki til greina,“ segir hún.

Hægt er að lesa umfjöllunina um útilokunarmenningu í heild sinni hér

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiViðtal