Fimm forvitnilegar (og covid-lausar) fréttir

Stórmerkilegur fundur í Argentínu, fugl vakinn upp frá dauðum, úlfur á landshornaflakki, „frosnar“ skjaldbökur teknar í skjól og alveg einstaklega áhugaverð mörgæs. Það er ýmislegt að frétta úr heimi dýranna.

Dýralíf
Auglýsing

1. Risa risaeðla

Leifar tröllvaxinnar risaeðlu, sem fundust í Argentínu árið 2014, eru líklega elstu leifar títanseðlu sem fundist hafa til þessa. Eðla þessi, sem var um 20 metrar að lengd, hefur reikað um svæði sem nú heitir Patagónía fyrir um 140 milljónum ára.

Títanseðlur tilheyrðu ætt graseðla enda jurtaætur en þar sem þær voru svo gríðarlega stórar hefur fjölskylda þeirra stundum verið nefnd trölleðlur. Henni tilheyrir til dæmis einnig hin þekkta þórseðla. Trölleðlur eru taldar stærstu dýr sem nokkru sinni hafa gengið um jörðina.

Unnið að uppgreftri leifa risaeðlunnar í Argentínu.

Eftir að steingerðar leifar eðlunar fundust í suðvesturhluta Argentínu voru þær grafnar upp og rannsakaðar ítarlega. Vísindamennirnir hafa nú skilað greiningu sinni á fundinum og m.a. komust þeir að því að um leiða deilitegund títanseðlu er að ræða og ljóst að hún var uppi um lengri tíma en áður var talið. Nú þykir ljóst að þær voru þegar komnar fram á sjónarsviðið við upphaf Krítartímabilsins en því lauk fyrir um 66 milljónum ára, sem markaði endalok risaeðlanna á jörðinni.

Auglýsing

2. Var þá lifandi eftir allt saman

Í 180 ár var talið að fuglinn brúnaslúðra (e. black-browed babbler) væri útdauður, rétt eins og risaeðlurnar forðum. Einn uppstoppaður fugl af þessari tegund var reyndar allan þann tíma eina sönnun þess að hann hefði raunverulega verið til. Á fimmta áratug nítjándu aldar sá leiðangur, undir stjórn Charles Lucien Bonaparte, frænda Napoleons, fuglinn í Austur-Indíum. Bonaparte lýsti fuglinum síðar fyrir vísindamönnum og gaf honum nafn sem þýða mætti brúnaslúðra á íslensku.

En svo spurðist ekki til hans í um 180 ár. Allt þar til nýverið er tveir menn, Muhammad Suranto og Muhammad Rizky Fauzan, sáu fugl á eyjunni Borneó í október á síðasta ári sem þeir könnuðust ekki við. Þeim tókst að fanga fuglinn og mynda hann en slepptu honum að því loknu.

Mönnunum tókst að handsama fuglinn og mynda hann.

Upplýsingunum deildu þeir svo á netinu með öðru áhugafólki um fugla.

Það leið ekki á löngu þar til sérfræðingar staðfestu að þarna væri hún loks komin, brúnaslúðran, eftir að hafa verið talin af í áratugi.

„Við áttum engan veginn von á þessu,“ segir Razky Fauzan í samtali við Guardian. „Við fundum einfaldlega fugl sem við könnuðumst ekki við.“

Meira en 1.700 fuglategundir eru á eyjum Indónesíu. Margar eyjanna eru lítt kannaðar. Á síðasta ári fundust fimm nýjar tegundir söngfugla á eyjunum.

3. Löng ganga gráúlfs vekur athygli

Gráúlfur lagði nýverið að baki mörg hundruð kílómetra ferðalag frá Oregon til Kaliforníu. Úlfurinn ber staðsetningartæki og er ferðalagið það lengsta sem merktir úlfar hafa farið í.

Um er að ræða karldýr sem vísindamenn þekkja sem OR-93. Margir fagna tíðindunum því þó að OR-93 sé ekki fyrsti úlfurinn sem fer frá Oregon til Kaliforníu eru þeir ekki margir á þeim slóðum. Úlfum var útrýmt í Kaliforníu á síðustu öld. Sú útrýming var studd af hinu opinbera og gerð til að vernda búfé.

Úlfurinn OR-93 ber staðsetningartæki um hálsinn.

OR-93 dvelur nú í Sierra Nevada-fjallgarðinum, sem fer bæði um Kaliforníu og Nevada.

Gráúlfar hafa notið verndar um hríð og stofnar þeirra hafa tekið vel við sér á ákveðnum svæðum. Hins vegar ákvað ríkisstjórn Donalds Trump að taka gráúlfinn af lista yfir dýr í útrýmingarhættu og er hann því aftur eltur – hundeltur – og drepinn.

Í síðustu viku mátti veiða 119 úlfa í Wisconsin, svo dæmi sé tekið. Mun fleiri dýr voru þó drepin, að minnsta kosti 216. Oft eru hundar notaðir til að þefa úlfa uppi áður en þeir eru svo skotnir.

 Þekkt er að á þeim stöðum þar sem úlfar hafa átt endurkomu hafa margir aðrir þættir vistkerfisins einnig tekið við sér og jafnvægi komist á.

4. Skjaldbökur teknar í skjól

Í kuldakastinu í Texas um miðjan febrúar hófu sjálfboðaliðar umfangsmiklar björgunaraðgerðir á skjaldbökum úr sjónum undan ströndum ríkisins. Dýraverndunarsamtökin Sea Turtle Inc., björguðu yfir 4.500 skjaldbökum á nokkurra daga tímabili. Farið var út á bátum og einnig á sundi til að sækja dýrin og koma þeim fyrir innandyra. 

Sæskjaldbökur í hundruða tali í skjóli fyrir kuldanum í Texas.

Sæskjaldbökur eru sérlega viðkvæmar fyrir hitabreytingum í sjónum. Þegar sjórinn kólnar eins og hann gerði við Texas í febrúar, halda þær meðvitund en geta nær ekkert hreyft sig. Þetta ástand verður svo til þess að þær eiga á hættu að drepast. Fimm sæskjaldbökur halda til í námunda við Texas og eru þær allar í útrýmingarhættu eða viðkvæmri stöðu.

Þegar mesti kuldinn var um garð genginn var skjaldbökunum sleppt í hafið á nýjan leik.


5. Mörgæs í merkilegum lit

Í leiðangri á Suðurskautslandinu árið 2019 sá belgíski ljósmyndarinn Yves Adams, eins og vænta mátti, hóp kóngamörgæsa. Þær eru auðþekkjanlegar á svörtum og gulum fjöðrunum á hálsinum. En ein þeirra vakti sérstaka athygli ljósmyndarans. Mörgæsin sú var ólík hinum að lit. Hún hafði gult höfuð, fölbleikan gogg en engar fjaðrir voru svartar. 

Hún er með bleikan gogg og fætur og gul um höfuðið. Mynd: Yves Adams

Adams var staddur á eyjunni Suður-Georgíu og var að taka búnað sinn saman þegar hann sá hina einstöku mörgæs og náði af henni mörgum myndum sem hann hefur loksins birt opinberlega.

Engu er líkara en að mörgæsin hafi farið í klórbað en skýringin á útlitinu er erfðafræðileg og felst í skorti á ákveðnum litarefnum.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiErlent