Áslaug Arna: Eigum að einblína á þá sem eru í mestu neyðinni

Dómsmálaráðherra segir að Ísland sé framarlega meðal þjóða þegar kemur að því að láta hælisleitendakerfið virka vel. „Ef við ætlum að gera betur fyrir þennan viðkvæma hóp sem þar er þá eigum við líka að einblína á þá sem eru í mestu neyðinni.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra
Auglýsing

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að Ísland sé framarlega meðal þjóða þegar kemur að því að láta hælisleitendakerfið virka vel. Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en Olga Margrét Cilia varaþingmaður Pírata spurði hana hvort ekki væri kominn tími til að stjórnvöld létu „af ómannúðlegri endursendingastefnu sinni“.

Ráðherrann sagði að Íslendingar hefðu tekið á móti fleirum hlutfallslega en nágrannalöndin í fyrra og að fleiri umsóknir bærust hlutfallslega en til landa í kringum okkur. „Við höfum líka náð málsmeðferðartímanum niður sem hefur verið vandi síðustu ár þar sem fólk hefur beðið allt of lengi eftir niðurstöðu sinna mála. Ekkert mál er nú hjá Útlendingastofnun eldra en 110 daga gamalt,“ sagði ráðherrann.

Bætti hún því við að gríðarlega stór hópur í heiminum væri í neyð „og þeir aðilar sem hafa fengið vernd í öðru Evrópuríki, sem við eigum í samstarfi við um þennan málaflokk, eru einfaldlega ekki í sömu neyð, eru í minni neyð en 90 prósent af þeim sem eru á flótta. Ef við ætlum að gera betur fyrir þennan viðkvæma hóp sem þar er þá eigum við líka að einblína á þá sem eru í mestu neyðinni og ættu erfitt með að komast hingað sjálfir.“

Auglýsing

Ættu að vera fullmeðvituð um að hælisleitendakerfið í Grikklandi væri hrunið

Olga Margrét hóf fyrirspurn sína á því að segja að ríkisstjórn Íslands, með dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun í forsvari, héldi áfram að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til Grikklands þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld ættu að vera fullmeðvituð um að hælisleitendakerfið í Grikklandi væri fyrir löngu hrunið.

Vísaði hún í tilkynningu frá Rauða krossinum sem birtist fyrir tveimur vikum en í henni sagði að Rauði krossinn á Íslandi ítrekaði þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands væru ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður.

„Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra, sem og í opinberri umræðu,“ sagði þingmaðurinn og vísaði enn fremur í orð yfirmanns flóttamannahjálpar í Evrópu hjá UNICEF en hann sagði að nú væri tími til kominn að Evrópa sýndi Grikklandi og Tyrklandi samstöðu. Þessar þjóðir hefðu tekið móti mjög stórum hópum barna og fjölskyldna en ekkert eitt ríki næði utan um þetta verkefni óstutt.

Olga Margrét Cilia á þingi í dag Mynd: Skjáskot/Alþingi

„Hvernig réttlætir ráðherra það að senda tíu einstaklinga á götuna?“

Olga Margrét vék máli sínu að fréttum vikunnar þess efnis að vísa ætti tíu umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi. „Þeir voru sviptir framfærslu og fengu hálftíma til að taka saman föggur sínar og fara úr húsi. Þeir voru settir á götuna á Íslandi í boði íslenskra stjórnvalda, tíu einstaklingar sem stjórnvöld telja að séu best geymdir við erfiðar og ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi.“

Vitnaði hún í frétt Kjarnans þar sem Palestínumaður sagði að þeir vildu frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands. Þá vísaði hún einnig í orð forsvarsmanna Útlendingastofnunar að aðgerðirnar samræmdust lögum og reglum og að þær væru ekki án fordæma.

„Nei, það er ekki án fordæma að íslensk stjórnvöld gerist sek um að senda fólk í viðkvæmri stöðu ítrekað til Grikklands af því að þau eru búin að ákveða að nota einhverja túlkun á hugtakinu „öruggt ríki“ sér í hag,“ sagði hún.

Spurði Olga Margrét hvort ekki væri kominn tími til að stjórnvöld létu af ómannúðlegri endursendingastefnu sinni. „Er ekki kominn tími til að hlusta á mannúðarsamtök og hætta endursendingum til Grikklands? Hvernig réttlætir ráðherra það að senda tíu einstaklinga á götuna? Hvernig getur það staðist lög og hvernig getur það talist mannúðlegt?“

Segir flóttamannakerfið neyðarkerfi – ætlað fyrir fólk sem óttast um líf sitt og frelsi

Dómsmálaráðherra svaraði og sagði að íslensk stjórnvöld hefðu ekki sent neinn í hæliskerfið á Grikklandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar síðan árið 2010 og að einungis hefðu verið sendir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi.

„Öll mál eru samt sem áður skoðuð á einstaklingsbundnum grundvelli. Frá því í febrúar á síðasta ári hefur heldur enginn verið fluttur til Grikklands en nokkur hópur nú bíður flutnings til Grikklands, allt stakir karlmenn sem eru með vernd í Grikklandi og nokkrir einstaklingar hafa fengið synjun og hafa farið sjálfviljugir aftur til Grikklands. Við búum í réttarríki og í því felst að við verðum öll að virða lagarammann sem Alþingi hefur samþykkt og við þingmenn komið okkur saman um á grundvelli lýðræðislegra sjónarmiða og þetta gildir jafnt um stofnanir ríkisins sem og alla einstaklinga sem staddir eru í landinu.

Framkvæmd þessara mála er með þeim hætti að við endursendum nú einstaklinga sem eru komnir með vernd í Grikklandi en ekki þá sem eru í hæliskerfinu þar, eins og oft er ruglað saman. Viðkomandi einstaklingar hafa neitað, eins og fram hefur komið, að hafa samstarf við yfirvöld hér á landi á grundvelli framkvæmdar laga og reglna sem hvíla á þeim lagaramma sem Alþingi hefur sett,“ sagði hún.

Áslaug Arna samsinnti því að það væru veikir innviðir í Grikklandi sem gerði það að verkum að einstaklingum hefði reynst erfitt að koma undir sig fótunum. „Á sama tíma eru 26 milljónir einstaklinga á flótta víða í heiminum og það er ekkert land sem hefur hætt endursendingum alfarið til Grikklands. Ég tel rétt að árétta það að þetta flóttamannakerfi er neyðarkerfi og er ætlað fyrir fólk sem óttast um líf sitt og frelsi og er ekki hugsað fyrir þá sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd í öðru ríki og við eigum frekar að ræða það hvort við viljum ekki fara að skoða aukin atvinnuleyfi fyrir fólk utan Evrópu sem vill koma hér og bæta lífskjör sín og starfa í íslensku samfélagi.“

Ísland gæti verið fremst í flokki hvað mannúðlega meðferð á fólki varðar

Olga Margrét steig aftur í pontu og sagði að það breytti voðalega litlu að þessir hælisleitendur væru komnir með alþjóðlega vernd í Grikklandi. Dómsmálaráðherra hlyti að vera sammála henni um það.

„Þegar ég tala um að kerfið í Grikklandi sé sprungið er það af því að Grikkland tekur vegna landfræðilegrar stöðu sinnar við gríðarlega miklum fjölda flóttafólks, auk þess að sinna fólki sem hefur fengið alþjóðlega vernd þar í landi. Mér finnst það ekki skipta neinu að ríkisstjórnir heims hafi ekki hætt endursendingum til Grikklands af því að það kemur þeim ríkisstjórnum augljóslega best. Það er augljóst.

Ég sé ekkert sem gæti komið í veg fyrir það að Ísland gæti verið fremst í flokki hvað varðar mannúðlega meðferð á fólki og hætti einfaldlega að senda fólk í viðkvæmri stöðu til Grikklands. Grikkland er ekki öruggt ríki þó að ríkisstjórnin haldi því statt og stöðugt fram. Rauði krossinn og UNICEF hafa gefið út að það er ekki öruggt að senda fólk aftur til Grikklands, hver sem staða þess er innan hælisleitenda- eða flóttafólkskerfisins,“ sagði hún að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent