Íslenska bankakerfið er ekki að færast í hendur erlendra vogunarsjóða

Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að íslenska bankakerfið sé „enn og aftur að færast í hendur erlendra vogunarsjóða“.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Auglýsing

Niðurstaða: Fleipur

Eitt helsta kosningaloforð Miðflokksins fyrir komandi þingkosningar felur í sér að gefa þjóðinni um þriðjungshlut í Íslandsbanka, en íslenska ríkið á sem stendur 65 prósent hlut í bankanum. Miðað við markaðsvirði Íslandsbanka um þessar mundir er virði þess hlutar um 81,4 milljarðar króna. Þessum hlut á að dreifa með jöfnum hætti til allra íslenskra ríkisborgara. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, var spurður út í þetta kosningaloforð í þættinum Forystusætið á RÚV í gærkvöldi.

Sigmundur sagði þar að það sem hafi gerst eftir að hinir svokölluðu stöðugleikasamningarnir tóku gildi, þegar hann var enn forsætisráðherra, „er að bankakerfið, fjármálakerfið, er enn og aftur að færast í hendur erlendra vogunarsjóða, sem eru að taka ríflegan arð út úr fjármálakerfinu núna. Og við segjum: nú þurfum við að grípa inn í.“

Stöðugleikasamningarnir voru gerðir árið 2015 og 2016 og fólu í sér að kröfuhafar föllnu bankanna gáfu eftir þorra innlendra eigna sinna, meðal annars allan eignarhlut í Íslandsbanka, gegn því að fá ráðstöfunarrétt yfir þorra erlendra eigna þrotabúanna. Áður átti íslenska ríkið 98 prósent hlut í Landsbankanum á móti starfsmönnum þess banka og 13 prósent hlut í Arion banka á móti aðallega erlendum vogunarsjóðum. Stöðugleikasamningarnir breyttu þeim eignarhlutum ekkert en íslenska ríkinu var tryggður forkaupsréttur að hlutum í Arion banka ef þeir hlutir yrðu seldir undir fyrirfram ákveðnu verði. 

Þegar kröfuhafar seldu Arion banka árið 2018, og bankinn í kjölfarið skráður á markað, þá virkjaðist ekki sá forkaupsréttur. Uppistaðan í eignarhaldi Arion banka eftir skráningu voru erlendir vogunarsjóðir, að mestu þeir sömu og myndað höfðu bakbeinið í kröfuhafahópi fyrirennarans Kaupþings. Í árslok 2019 áttu erlendir eigendur tæplega 55 prósent hlut í bankanum. 

Hafa selt sig hratt niður í íslenska bankakerfinu

Í september í fyrra var staðan sú að erlendir sjóðir áttu samtals 42,24 prósent hlut í Arion banka og höfðu haft tögl og hagldir í bankanum árin á undan. Stærstu eigendurnir voru vogunarsjóðirnir Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management. Í lok síðasta árs og í byrjun árs 2021 hófu þessir sjóðir hins vegar að selja sig hratt niður í Arion banka. Á örfáum vikum fór eignarhlutur Taconic í Arion banka úr 23,22  prósentum í ekkert. Sculptor seldi sömuleiðis allan 6,12 prósent hlut sinn snemma á þessu ári.

Fleiri vog­un­­ar­­sjóð­ir, sem komu inn í eig­enda­hóp Arion banka eftir að hafa til­­heyrt kröf­u­hafa­hópi Kaupþings, hafa líka verið að selja sig niður.

Í dag er eini erlendi aðilinn sem er skráður á meðal 24 stærstu eigenda Arion banka sjóður í stýringu þýsks banka sem á alls 1,19 prósent hlut í Arion banka. 

Auglýsing
Íslenskir lífeyrissjóðir eru nú langstærstu eigendur bankans. Þrír stærstu sjóðir landsins, LSR, Lífeyrissjóðir verzlunarmanna og Gildi, eiga samtals 27,2 prósent hlut og þegar samanlagður hlutur lífeyrissjóða á meðal stærstu eigenda bankans er talin þá eiga þeir 45,9 prósent hlut. Aðrir stórir eigendur eru sjóðir í stýringu íslenskra sjóðsstýringafyrirtækja þar sem íslenskir lífeyrissjóðir eru á meðal hlutdeildarskírteinishafa. Því er íslenskur almenningur, í gegnum lífeyrissjóði, langstærsti eigandi Arion banka. 

Á fyrri hluta ársins 2021 greiddi Arion banki 2,9 milljarða króna í arð til þeirra og keypti eigin bréf þeirra til baka fyrir alls 14,9 milljarða króna til þessara eigenda. Áætlanir bankans ganga út á að greiða hluthöfum sínum yfir 50 milljarða króna í arðgreiðslur og endurkaup á eigin bréfum á næstu árum. Þær greiðslur fara að óbreyttu ekki til erlendra vogunarsjóða.

Íslenska ríkið seldi 35 prósent hlut í Íslandsbanka fyrr á þessu ári. 20 fjárfestar keyptu rétt rúmlega helming þess hlutar, alls 18 prósent í bankanum. Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi og vogunarsjóðirnir Capital World Investors og RWC Asset Management höfðu þegar við upphaf útboðsins skuldbundið sig til að kaupa um það bil tíu prósent af öllu útgefnu hlutafé Íslandsbanka í hlutafjárútboði bankans og verða svokallaðir hornsteinsfjárfestar.

Samkvæmt nýjasta hluthafalista Íslandsbanka er ríkissjóður Íslands eigandi að 65 prósent hlut og áðurnefndir tveir erlendir vogunarsjóðir eiga samtals 5,3 prósent hlut. Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga samtals um níu prósent hlut. Því á almenningur, í gegnum lífeyrissjóði og ríkissjóð, að minnsta kosti 74 prósent hlut í Íslandsbanka. 

Niðurstaða Staðreyndavaktarinnar

Það er niðurstaða Staðreyndavaktar Kjarnans að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi farið með fleipur í Forystusætinu á RÚV þegar hann sagði að íslenska bankakerfið væri „enn og aftur að færast í hendur erlendra vogunarsjóða, sem eru að taka ríflegan arð út úr fjármálakerfinu núna.“

Þvert á móti hafa erlendir vogunarsjóðir verið að selja sig hratt út úr kerfinu, þeir sem hafa komið nýir inn eiga litla hluti og arðurinn af kerfinu rennur að stærstum hluta til ríkissjóðs, lífeyrissjóða og íslenskra einkafjárfesta.

Á skalanum haugalygi til dagsatt fór Sigmundur Davíð með fleipur, samkvæmt staðreyndavakt Kjarnans.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiStaðreyndavaktin