Fjöldi þeirra sem eru með sjónvarpsáskrift yfir IP-net, sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, í lok júní síðastliðins var 78.413. Fjöldinn hefur dregist saman um næstum tíu þúsund frá miðju ári í fyrra, eða rúmlega ellefu prósent. Ef horft er fimm ár aftur í tímann, til fyrri hluta ársins 2017, hefur þeim sem eru með slíka áskrift fækkað um næstum 25 þúsund, eða 24 prósent.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræðiskýrslu Fjarskiptastofu um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna um mitt ár 2022.
Tvö fyrirtæki bjóða upp á myndlykla til að horfa á sjónvarp yfir IP-net, Síminn og Vodafone, sem er hluti af Sýnarsamstæðunni. Samdrátturinn frá síðasta ári var mun meiri hjá Símanum, sem tapaði næstum níu þúsund áskriftum, en hjá Vodafone, þar sem viðskiptavinum fækkaði um innan við eitt þúsund. Síminn er enn með 61 prósent markaðshlutdeild á þessum markaði og Vodafone með hin 39 prósentin.
Myndlyklaleiga dýrari en áskrift að erlendum streymisveitum
Ástæðu þess að myndlyklunum hefur fækkað er sú að sífellt fleiri taka sjónvarpsþjónustuna sína í gegnum öpp, sem annað hvort eru innbyggð í nettengd sjónvörp eða hægt er að nálgast í gegnum utanáliggjandi tæki, eins og til dæmis Apple TV eða sambærileg Android-box. Með þeirri leið er hægt að nálgast ýmsar erlendar streymisveitur sem starfa á Íslandi á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+. Síminn, Sýn/Vodafone og Nova bjóða einnig upp á sjónvarpsþjónustuöpp sem hægt er að hlaða niður án endurgjalds, bæði fyrir Apple og Android tæki.
Sjónvarpsþjónusta sem tryggir aðgengi að línulegri dagskrá með myndlykli hjá Símanum, sem á og rekur Sjónvarps Símans, kostar 2.300 krónur á mánuði. Leiga á aukamyndlykli kostar 1.300 krónur. Hjá Sýn/Vodafone, sem á og rekur Stöð 2 og tengda miðla, kostar háskerpumyndlykill 2.490 krónur á mánuði og greiða þarf 1.390 krónur fyrir aukalykil. Því er um umtalsverðar tekjur að ræða fyrir þá sem stunda útleigu á myndlyklum fyrir sjónvarpsþjónustu.
Engar tölur eru í skýrslu Fjarskiptastofu um heildarfjölda áskrifenda hjá Símanum, Sýn/Vodafone eða erlendu streymisveitunum. Í könnun sem Maskína birti í mars síðastliðnum kom þó fram að íslenskum áskrifendum Disney+ hafði fjölgað úr 24 í 43 prósent á einu ári. Alls voru 77,8 prósent svarenda með áskrift að Netflix. Alls sögðust 43,2 prósent vera með áskrift af Sjónvarpi Símans Premium, sem var lítillega lægra hlutfall en ári áður, og 38,4 prósent með áskrift að Stöð 2+, sem var um fjórum prósentustigum fleiri en þegar spurt var árið 2021.
Sjónvarpstekjur dragast saman sem hlutfall af heildartekjum
Þessi samdráttur í fjölda útleigðra myndlykla hefur þó ekki haft teljandi áhrif á tekjur þeirra fjarskiptafyrirtækja sem selja sjónvarpsþjónustu eða aðra fjölmiðlun. Þvert á móti jukust þær úr 7.353 milljónum króna á fyrri hluta árs 2021 í 7.607 milljónum króna á sama tímabili í ár. Athygli vekur hins vegar að hlutfall sjónvarpsþjónustu af heildartekjum fjarskiptafyrirtækja dregst lítillega saman frá því sem það var á fyrri hluta ársins 2021. Það er í andstöðu við þá þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.
Frá 2017 og til síðustu áramóta jukust heildartekjur sem féllu til vegna fjarskiptastarfsemi hérlendis úr 57,4 í 72,4 milljarða króna. Það er aukning um 26 prósent á fjórum árum.
Langmestu munaði um nýja tekjur vegna sjónvarpsþjónustu. Þær voru 3,8 milljarðar króna á árinu 2017 en 14,9 milljarðar króna í fyrra. Því voru 11,1 milljarður króna af þeim viðbótar 15 milljarða króna tekjum sem fjarskiptafyrirtækin tóku til sín í fyrra í samanburði við árið 2017 vegna sjónvarpsþjónustu, eða 74 prósent.
Vert er að taka fram að í millitíðinni keypti Sýn fjölda ljósvakamiðla af 365 miðlum og Síminn bætti verulega í þá þjónustu sem hann selur undir hatti Sjónvarps Símans, meðal annars með kaupum á réttinum að sýningum á Enska boltanum.