Íslendingar notuðu alls 102,5 milljónir gígabæti af gagnamagni á farsímanetum íslenskra fjarskiptafyrirtækja í fyrra. Það er umtalsverð aukning frá árinu 2020, þegar notkunin var 81,9 milljón gígabæti. Notkunin jókst því um 25 prósent milli ára.
Þegar horft er lengra aftur sést hversu mikið pláss notkun á snjalltækjum til að nálgast afþreyingu og fréttir, eða til stunda samskipti af ýmsum toga, er farin að taka í daglegu lífi okkar miðað við það sem áður var. Árið 2009 notuðu íslenskir farsímanotendur 243 þúsund gígabæti af gagnamagni á farsímaneti. Notkunin í fyrra var því 422 sinnum meiri en tólf árum áður.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræði skýrslu Fjarskiptastofu um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna í lok árs 2021 sem birt var í síðasta mánuði.
Nova með mestu markaðshlutdeildina
Þegar horft er á notkun viðskiptavina fjarskiptafyrirtækjanna á gagnamagni á farsímaneti kemur í ljós að Nova, sem nýverið skráði sig á íslenska hlutabréfamarkað, var með mestu markaðshlutdeildina líkt og undanfarin ár, eða 43,6 prósent. Fyrirtækið hefur hins vegar verið að tapa markaðshlutdeild á síðustu árum, en hún var 52,5 prósent árið 2019.
Það þarf þó að taka fram að hér er um að ræða þá notkun sem fer fram í gegnum farsímanetið, ekki þá sem nýtt er með tengingu við beini (WiFi), en margir farsímar tengjast slíkum beini heima hjá notanda og/eða á vinnustað hans.
Þrír af hverjum fjórum með ljósleiðara
Notkun gagnamagns í gegnum fastanet stórjókst líka í fyrra, og var 686,4 milljónir gígabæta. Það er aukning um 53 prósent frá árinu 2019 og tæp 21 prósent milli ára.
Aukningin er nánast öll í niðurhali á efni, en 88 prósent hennar er vegna þess og einungis tæplega tólf prósent vegna upphals.
Sú vending varð á síðasta ári að Vodafone tók fram úr Símanum í markaðshlutdeild á þessum markaði og mældist með 34,1 prósent allrar notkunar á gagnamagni á fastaneti. Síminn fór niður fyrir 30 prósent markaðshlutdeild í fyrsta sinn en Nova hefur bætt mestu við sig á undanförnum árum og er nú með 26,2 prósent markaðarins. Hringdu hefur líka vaxið hægt og rólega og markaðshlutdeild þess fyrirtækis var 10,4 prósent á árinu 2021.
Þorri notenda eru nú með ljósleiðaratengingu, sem veitir mun meiri hraða en fyrri valkostir. Í lok síðasta árs voru 75,5 prósent tenginga í gegnum ljósleiðara. Til samanburðar voru þær 10,8 prósent árið 2010 og 33,3 prósent árið 2016.
Þegar horft er einungis á ljósleiðaratengingar er Síminn með mesta hlutdeild (36 prósent) en Vodafone kemur þar á eftir með 26,6 prósent. Síðarnefnda fyrirtækið hefur tapað umtalsverðri markaðshlutdeild á síðustu tveimur árum en það var með 36,2 prósent markaðarins árið 2019. Nova mælist með 21,1 prósent hlutdeild og Hringdu með 11,2 prósent.
5G-væðingin tók loks við sér
Um liðin áramót voru 82,4 prósent allra virkra símakorta á farsímaneti 4G kort. Um mitt ár 2014 voru 14,8 prósent allra símakorta þannig, en 4G-væðingin hófst af alvöru á Íslandi á því ári. 4G tengingar innan farsímanetsins fela í sér tíu sinnum meiri hraða en 3G tengingar gera. Þær eru auk þess um þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar.
Fyrsti 5G sendirinn var svo tekinn í gagnið hérlendis árið 2019 og í kjölfarið hófust prófanir á slíkri þjónustum en með 5G fá notendur að meðaltali tíu sinnum meiri hraða en með 4G.
Stefnt var að því að notkun á 5G kortum yrði nokkuð almenn á árinu 2020 en af því varð ekki. Í lok þess árs var fjöldi virkra 5G-korta hérlendis einungis 119 talsins. Þeim fjölgaði umtalsvert í fyrra, og um liðin áramót voru virk 5G-kort orðin 23.145 talsins.
Búast má við því að þessi staða muni taka stakkaskiptum í nánustu framtíð þar sem öll stærstu fjarskiptafyrirtækin á Íslandi ætla sér í öfluga uppbyggingu á 5G-þjónustu á næstu árum.