Sígaunafjölskylda hefur lifað sældarlífi á „danska kerfinu“ í áratugi

33255857-LEVAKOVIC-PRIVATFOTO.jpeg
Auglýsing

Árið 1972 kom júgóslavnesk sígaunafjölskylda til Kaupmannahafnar á gömlum Opel bíl með hrörlegt hjólhýsi í eftirdragi. Fjölskyldan kom sér fyrir á tjaldstæði í borginni og fékk hlýjar móttökur hjá borgaryfirvöldum. Engan grunaði þá að 43 árum síðar, og margfalt stærri, yrði fjölskyldan enn á framfæri danskra skattborgara, enginn úr þessum hópi myndi nokkru sinni sjá sér farborða með launaðri vinnu og hún hefði þegið jafngildi 1.600 milljóna íslenskra króna frá dönskum skattborgurum.

Þegar Levakovic fjölskyldan kom til Danmerkur sumarið 1972 var hún búin að ferðast um Skandinavíu í nokkra mánuði. Fólkið kom frá Króatíu, sem þá var hluti Júgóslavíu og var með júgóslavnesk vegabréf. Um ástæður þess að fjölskyldan yfirgaf heimalandið er fátt vitað. Núverandi „höfuð ættarinnar“ Gimi Levakovic, sem var tveggja ára þegar fjölskyldan settist að í Danmörku, sagði í viðtali að foreldrar sínir hefðu, eins og gengur og gerist, verið að leita að betra lífi. Það hefðu þau fundið hér í Danmörku.

Starfsmenn borgarinnar tóku vel á móti Levakovic fólkinu. Leiðbeindu þeim varðandi allt það sem tilheyrir flutningi til landsins, búsetuskráningu og útvegun húsnæðis, kynntu fjölskyldunni skóla-og heilbrigðiskerfið og, síðast en ekki síst, hvaða möguleika á opinberri fjárhagsaðstoð fólk, sem nýkomið væri til landsins, ætti rétt á. Þau Levakovic voru mjög ánægð með viðtökurnar og settust að á Amager og hafa búið þar allar götur síðan.

Fara sér hægt í atvinnuleitinni 


Meðal þess sem starfsmenn Kaupmannahafnarborgar útskýrðu fyrir þessum nýjum íbúum voru atvinnumöguleikar og hvernig skyldi bera sig að í þeim efnum. Mikilvægt væri að finna vinnu við hæfi, ekki endilega taka það fyrsta sem byðist heldur vanda valið. Það má með sanni segja að fjölskyldan hafi ekki rasað um ráð fram í atvinnuleitinni því nú, 43 árum síðar, hefur enginn úr þessari fjölskyldu, sem nú telur yfir 40 manns, fundið vinnu við hæfi. Það kom sem sé fljótlega í ljós að þau Levakovic höfðu afar takmarkaðan áhuga á því að afla sér tekna með hefðbundum hætti en kynntu sér þeim mun betur öll lög og reglur varðandi framfærslulífeyri og aðra opinbera fjárhagsaðstoð.

Góðkunningjar lögreglunnar


Þeir sem verðir laga og reglu þurfa iðulega að hafa afskipti af og þekkja vel til eru stundum nefndir góðkunningjar lögreglunnar. Levakovic fjölskyldan er sannarlega meðal þeirra sem laganna verðir þekkja vel til en myndu tæpast tengja við nokkuð gott.

Auglýsing

Þau Levakovic hafa í dönskum fjölmiðlum iðulega verið kölluð illræmdasta fjölskylda Danmerkur.

Eftir að fjölskyldan fór frá Króatíu og settist að hér í Danmörku kom brátt í ljós að sá lífsstíll sem hún vildi tileinka sér samræmdist ekki hinum opinbera framfærslulífeyri sem íbúar landsins fá í sinn hlut, þeir sem rétt eiga á slíku. Fram hefur komið í blöðum að á síðsta ári fékk fjölskyldan jafngildi rúmra 80 milljóna íslenskra króna úr opinberum sjóðum. Þetta hefur þó ekki hrokkið til. Karlarnir, ásamt nokkrum konum, í hinni ört stækkandi fjölskyldu hafa þess vegna um margra ára skeið stundað óhefðbundna tekjuöflun, rán og gripdeildir. Þar hefur fólkið reynst bæði iðið og ástundunarsamt.

Þau Levakovic hafa í dönskum fjölmiðlum iðulega verið kölluð illræmdasta fjölskylda Danmerkur. Lögreglan telur að aðeins hafi komist upp um lítinn hluta þeirra afbrota sem fjölskyldan hefur stundað. Afskipti lögreglunnar af þessari „atvinnustarfsemi“ hefur stundum truflað heimilisfriðinn: ættarhöfuðið, Gimi Levakovic (46 ára) hefur samtals setið í grjótinu í 6 ár og bræður hans og bræðrasynir hafa margoft setið inni, um lengri eða skemmri tíma. Sumum þeirra hefur verið vísað úr landi en þeir snúa jafnharðan aftur og taka upp fyrri iðju. Allir karlmenn átján ára og eldri hafa, að einum undanteknum, komist í kast við lögin. Við lauslega talningu fann sá sem þennan pistil skrifar 280 fréttir sem tengjast fjölskyldunni og á síðasta ári skráði lögreglan 203 mál sem tengjast fjölskyldunni og 60 sinnum var einhver úr fjölskyldunni kallaður til yfirheyrslu vegna afbrota.

Sjónvarpsþátturinn


Núna í janúar sýndi danska sjónvarpsstöðin TV2 tvo sjónvarpsþætti um Levakovic fjölskylduna. Þættirnir voru gerðir með samþykki fjölskyldunnar og þar eru löng viðtöl við Gimi Levakovic (ættarhöfuðið) og Jura bróðurson hans sem nú afplánar 5 ára dóm og verður vísað úr landi. Jura, sem er 26 ára, segist alltaf hafa ætlað sér að verða gangster, það verði hver að finna sína fjöl í lífinu og þetta sé sín fjöl. Hann lýsti mikilli óánægju með að verða sendur með rútu til Króatíu þegar afplánun lýkur, slíkt væri viðbótarrefsing. Hann sagði jafnframt að hann hefði verið átta ára þegar hann fór að fara með föður sínum í ránsferðir, til að læra aðferðirnar, og hann hefði sjálfur byrjað að stela þegar hann var 13 ára.

Ættarhöfuðið Gimi Levakovic í viðtali í sjónvarpsþættinum sem TV2 gerði um fjölskylduna hans. Ættarhöfuðið Gimi Levakovic í viðtali í sjónvarpsþættinum sem TV2 gerði um fjölskylduna hans.

Þegar ættarhöfuðið Gimi var spurður hvernig á því stæði að hann hefði aldrei unnið neitt svaraði hann því til að hann áliti að til þess að fá vinnu þyrfti menntun og hana hefði hann ekki. „Hefurðu aldrei íhugað að afla þér menntunar?“ spurði sjónvarpsmaðurinn. „Nei, aldrei“ var svarið. Gimi á tvö ung börn á skólaaldri, hvorugt þeirra gengur þó í skóla, hann segist að sjálfsögðu vilja að börnin fái menntun en þetta sé nú svona. Ein tengdadóttir bróður hans er 16 ára og á eitt barn, hún hefur ekki verið í skóla í mörg ár. Gimi sagði að ef unglingsstúlka væri í skóla heyrði hún talað um kynlíf og fjölskyldan væri jafnframt viss um að hún ætti kærasta í skólanum, slíkt gengi ekki. Þegar hann var minntur á skólaskylduna sagði hann; „Við sígaunar höfum okkar siði og venjur og Danir verða bara að virða það.“ Hann lagði líka mikla áherslu á gildi fjölskyldunnar sem stæði saman í blíðu og stríðu, „sígaunar eru friðsamir“ sagði hann. Sleppti því hins vegar alveg að minnast á að hann barði fyrrverandi konu sína til óbóta og keyrði síðar, eftir að þau voru skilin, á hana þar sem hún var á gangi og stórslasaði hana.

Viðbrögðin


Sjónvarpsþættirnir tveir vöktu mikla athygli. Þar kom fram að þau Levakovic virtust hafa það bærilegt eins og sagt er. Stórfjölskyldan býr í stóru einbýlishúsi á Amager en einnig í öðru slíku í Dragör. Og það eru ekki einhverjar útkeyrðar druslur sem fjölskyldan ferðast í heldur þýskir eðalvagnar. Húsbúnaðurinn sömuleiðis ekki af lakara taginu, eðalhúsgögn. Margir hafa spurt sem svo: hvernig má það vera að þessi fjölskylda geti búið hér áratugum saman, lifað góðu lífi á peningum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna án þess að lyfta litla fingri í heiðarlegri vinnu, farið um ruplandi og rænandi og fleira í þessum dúr? Fram hefur komið að Gimi (höfuð ættarinnar) hefur ætíð framvísað læknisvottorðum þegar þess hefur verið krafist. Ýmsir draga í efa að hann sé óvinnufær en hann segist haldinn miklum kvíða.

Margir stjórnmálamenn hafa tjáð sig við fjölmiðla um fjölskylduna, bæði nú eftir sýningu þáttanna og á undanförnum árum. Sumir þeirra krefjast þess að fjölskyldunni allri verði vísað úr landi. Slíkt er þó hægara sagt en gert og þótt höfuð ættarinnar segi að hann og fjölskyldan vilji helst vera í Króatíu hefur hann þó ekki sýnt neina tilburði í þá átt að flytja. Á meðan ekkert breytist fær Levakovic fjölskyldan því áfram sem samsvarar sjö milljónum íslenskra króna á mánuði og drýgir svo kannski tekjurnar með sínum aðferðum.


Að gefnu tilefni: Talað er um sígauna en ekki Rómafólk í þessari grein. Það er gert vegna þess að í viðtölum við meðlimi fjölskyldunnar í Danmörku tala þeir um sjálfa sig sem sígauna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiErlent
None