Hin augljósa spillingarhætta sem á að innleiða

Auglýsing

Eng­inn fór jafn illa út úr íslenska banka­hrun­inu og íslenskt launa­fólk. Gengi krón­unnar hríð­féll, verð­bólga fór upp úr öll valdi, fjár­magns­höft festu þau inni í þessum algjör­lega breytta veru­leika, atvinnu­leysi fór í tveggja stafa tölu, fyr­ir­tækin sem þau störf­uðu urðu mörg hver tækni­lega gjald­þrota og þurftu að lækka laun eða fækka starfs­fólki og hið opin­bera þurfti að draga veru­lega saman í allri veittri þjón­ustu. Þetta liggur allt fyrir og er margrætt.

Á sama tíma mok­græddu þeir sem kunna á íslenska krónu­kerf­ið. Þeir komu pen­ingum út úr land­inu á réttum tíma og nýttu síðar opin­berar und­an­þágu­leiðir til að koma aftur „heim“ til að kaupa upp eignir á tombólu­verði.

Almenn­ingur tap­aði með fleiri hætti en bein­um. Líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, sem við erum skikkuð með lögum til að greiða í hluta af launum okkar í hverjum mán­uði, töp­uðu líka gríð­ar­legum pen­ing­um. Sam­kvæmt skýrslu sér­stakrar rann­sókn­ar­nefndar nam tapið 480 millj­örðum króna. Það breytti því þó ekki að sömu sjóðir voru einu gull­kist­urnar sem hægt var að teygja sig í til að ná í pen­inga svo hægt yrði að end­ur­reisa íslenskt atvinnu­líf eftir hrun­ið. Og líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, með vasanna troð­fulla af pen­ingum almenn­ings, brugð­ust við kall­inu. Þeir reyndar gátu lítið ann­að. Fjár­magns­höft mein­uðu þeim að fjár­festa ann­ars staðar en á Íslandi og þeir eru bundnir af lögum til að ávaxta fé sitt, svo þeir geti tryggt lands­mönnum ein­hverjar tekjur eftir að vinnu­æv­inni lýk­ur.

Auglýsing

Í dag er staðan sú að líf­eyr­is­sjóð­irnir eiga yfir helm­ing allra skráðra hluta­bréfa, annað hvort beint eða óbeint. Þeir eiga líka stóran hluta í óskráða hluta atvinnu­lífs­ins, eru uppi­staðan í við­skiptum sjóðs­stýr­ing­ar- og verð­bréfa­fyr­ir­tækja og meira að segja umsvifa­miklir á fast­eigna­mark­aði. Þá eiga þeir stóran hluta af útgefnum skulda­bréfum og eru hægt og rólega að taka yfir hús­næð­is­lána­mark­að­inn, þar sem þeir geta boðið miklu betri kjör en við­skipta­bank­arn­ir.

Líf­eyr­is­sjóð­irnir eru allt um lykj­andi. Og líf­eyr­is­sjóð­irn­ir, þeir eru við. Því má segja að atvinnu­lífið sé að mestu í almanna­eigu, enda keypt fyrir okkar pen­inga.

Verða farnir að kaupa sjón­vörp og þvotta­vélar

Það verður þar af leið­andi ekki sagt að líf­eyr­is­sjóð­irnir hafi ekki brugð­ist við og búið til súr­efni fyrir upp­bygg­ingu íslensks atvinnu­lífs eftir banka­hrun, þótt sú staða hafi að mörgu leyti verið þvinguð. Þeir hafa m.a. lagt til mikið af því fé sem þurft hefur til fjár­fest­ing­ar, t.d. í ferða­þjón­ustu, til að mæta þeirri aukn­ingu sem þar hefur orð­ið.

En það var líka ljóst fyrir ansi löngu síðan að umfang þeirra var orðið nán­ast vand­ræða­lega mik­ið. Flóki Hall­­dór­s­­son, fram­­kvæmda­­stjóri stærsta ­sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins lands­ins, Stefnis sem er í eigu Arion banka, sagði á fundi á vegnum Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins í fyrra­vor að ef líf­eyr­is­­sjóðir myndu ekki kom­­ast út úr höftum fljót­lega yrðu þeir farnir að kaupa „sjón­vörp og þvotta­­vél­­ar“ eftir nokkur mis­s­eri. Allir aðrir fjár­­­fest­inga­­kostir verð­i ­upp­­­urn­­ir.

Síðan hefur margt breyst. Opnað hefur verið á und­an­þágur fyrir sjóð­ina til að auka erlenda fjár­fest­ingu sína með und­an­þágum frá höft­um, þótt þær fjár­fest­ingar séu enn tak­mark­að­ar. Og nýir fjár­fest­inga­kostir hafa opn­ast. Þ.e. fjár­fest­ing í íslensku banka­kerfi.

Mega eiga allt, nema banka

Líf­eyr­is­sjóð­irnir voru nógu góðir til þess að kaupa upp hluta­bréf í öllum trygg­inga­fé­lögum lands­ins, til að end­ur­reisa Icelandair og Eim­skip, eiga stóra hluti í tveimur af þremur olíu­fé­lög­um, stærstu smá­sölu­fyr­ir­tæki lands­ins, fjar­skipta­fyr­ir­tækin og nær öll fast­eigna­fé­lög­in. En það er mikil and­staða gagn­vart því að þeir eigi banka. Sú and­staða birt­ist meðal ann­ars í orðum Bjarna Bene­dikts­son­ar, þáver­andi fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og núver­andi for­sæt­is­ráð­herra, á ofan­greindum fundi. Þar sagði hann að það slægi sig mjög illa að líf­eyr­is­sjóðir keyptu líka stóran hlut í banka því þá væru þeir farnir að þjón­usta önnur fyr­ir­tæki sem þeir eru aðal­eig­endur að.

Það má vel færa rök fyrir því að það sé óeðli­legt að sami eig­andi eigi fjár­mála­kerfið og atvinnu­fyr­ir­tækin sem eiga í við­skiptum við það, en það hlýtur hins vegar líka að skipta máli að þessi eig­andi er almenn­ing­ur, sem á jú líf­eyr­is­sjóð­ina. Það er því hægt að segja að ekki sé hægt að finna styttri leið að dreifðu eign­ar­haldi á bönk­unum en að láta líf­eyr­is­sjóð­ina kaupa stóran hluta í þeim.

Sitj­andi rík­is­stjórn hefur sett fram stefnu varð­andi eign­ar­hald á banka­kerf­inu. Í henni felst aðal­lega að ein­hver annar eigi að eiga það en rík­ið. En hver á sá aðili að vera? Sam­an­lagt eigið fé Arion banka, Íslands­banka og Lands­bank­ans er 641,2 millj­arðar króna. Ef horft er á það við­mið­un­ar­verð sem nefnt hefur verið fyrir hluti í Arion banka, 0,8 krónur á hverja krónu í eigið fé, og tekið til­lit til þess að ríkið eigi áfram 34 pró­sent í Lands­bank­an­um, þarf samt að borga 445 millj­arða króna fyrir alla þrjá bank­ana. Hver, sem hefur áhuga á íslenskum banka, á slíka pen­inga?

Sjóðir eða útgerð

Borin von virð­ist vera að erlendir aðilar hafi slíkan áhuga sem bygg­ist á við­skipta­legum for­send­um. Íslenski mark­að­ur­inn er örmark­að­ur, íslensku bank­arnir eru ekki með góðan und­ir­liggj­andi rekst­ur, aðal­lega fjár­magn­aðir með inn­lán­um, kostn­að­ar­hlut­fall þeirra er mjög hátt og ofan á allt þyrfti að glíma við íslensku krón­una og hinar dásam­legu sveiflur henn­ar. Þá erum við ekki byrjuð að ræða skort­inn á trú­verð­ug­leika sem er afleið­ing að því að við rákum hér fjár­mála­kerfi fyrir hrun. For­stjóri Kaup­hall­ar­innar hefur lýst því ástandi með eft­ir­far­andi hætti: „Al­var­­leg lög­­brot voru fram­in. Afleitir við­­skipta­hættir kostuð­u gríð­­ar­­lega fjár­­muni og mikla þján­ingu. Stór­­kost­­leg mark­aðs­mis­­­notkun átti sér­ ­stað.“

Líf­eyr­is­sjóð­irnir eiga um 3.500 millj­arða króna og geta aug­ljós­lega tekið þátt í svona kaup­um. En fáir sýni­legir einka­að­ilar eru á rad­arnum sem eiga nægi­lega mikið af eigið fé til að kaupa banka, og von­andi dettur engum aftur í hug að selja slíka til ævin­týra­manna með enga þekk­ingu eða reynslu af banka­starf­semi sem taka allt kaup­verðið að láni. Það fór ekki vel síð­ast þegar við reyndum slíkt.

Eini hóp­ur­inn sem virð­ist eiga eigið fé til að taka nokkuð stóra stöðu í banka eru eig­endur útgerð­ar­fyr­ir­tækja, sem hafa upp­lifað for­dæma­laust góð­æri á eft­ir­hrunsár­un­um. Sem dæmi má nefna stöðu Fram ehf., eign­ar­halds­fé­lags­ins sem heldur utan um eignir Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu. Krúnu­djásn þeirra er Ísfé­lag Vest­manna­eyja en þau eiga auk þess Íslensk Amer­íska, Odda og stóran hlut í Árvakri, útgáfu­fé­lagi Morg­un­blaðs­ins, svo fátt eitt sé nefnt. Sam­stæðan átti í árs­lok 2010 um 26 millj­arða króna eignir en skuld­aði 13,1 millj­arða króna. Eigið fé hennar var 12,8 millj­arðar króna á þeim tíma. Í árs­lok 2015, fimm árum síð­ar, voru eignir þess metnar á 34,6 millj­arða króna en félagið skuld­aði 210 millj­ónir króna. Eigið féð var því 34,4 millj­arðar króna. Það tæp­lega þre­fald­að­ist á fimm árum.

Hjá útgerð­ar­fólki er því sann­ar­lega geta til að kaupa stóran hlut í bönk­um. Svo er bara spurn­ing um áhuga, bæði hjá þeim sjálfum að eign­ast slíka hluti, og hjá íslensku þjóð­inni að útgerð­ar­fyr­ir­tækin auki enn á ægis­vald sitt yfir örlögum okkar sem nú þegar teygir sig langt inn í stjórn­mál og fjöl­miðla lands­ins.

Eign færð frá almenn­ingi til almenn­ings en áhrifin týn­ast

Svo er auð­vitað til fullt af fjár­magns­eig­endum sem eiga pen­inga til að kaupa litla hluti í banka. Rík­ustu tíu pró­sent Íslend­inga, alls 20.251 fjöl­skyldur (ein­stak­lingar og sam­skatt­aðir), juku enda hreina eign sína um 527,4 millj­arða króna á árunum 2010-2015. Alls átti þessi hópur hreina eign upp á 1.880 millj­arða króna í lok þess tíma­bils, sam­kvæmt tölum Hag­stof­unn­ar. Það eru 64 pró­sent af öllu eigið fé þjóð­ar­inn­ar. Þar á reyndar eftir að taka til­lit til þess að verð­bréf eru metin á nafn­virði í töl­un­um, en mark­aðsvirði þeirra er mun hærra. Og þessi hópur á flest verð­bréf, hluta­bréf og skulda­bréf, sem eru í einka­eigu. Hag­stofan van­metur því eignir þessa hóps, sem er sam­an­dregið ákaf­lega rík­ur.

Í ljósi þess að þessir aðilar munu ekki geta keypt nægi­lega stóran hlut í bönk­unum til að byrja með til að stjórna bönk­unum sam­kvæmt gild­andi leik­reglum þá virð­ist vilji til að inn­leiða ýmsar breyt­ingar sem ýkja völd þeirra. Ein er í stefnu­yf­ir­lýs­ingu rík­is­stjórn­ar­innar og felur í sér að gefa hluta í rík­is­bönk­unum til almenn­ings. Allt að 20 pró­sent hlutur hefur verið nefndur í því sam­hengi. Það myndi þýða til­færslu úr hægri vasa almenn­ings, sem er eig­andi rík­is­ins, yfir í þann vinstri. En sam­hliða myndi falla niður öll geta almenn­ings til að geta haft áhrif á rekstur og mótun banka­kerf­is­ins, enda ómögu­legt fyrir nokkur hund­ruð þús­und manns að koma sér saman um leiðir til þess að nýta sam­eig­in­lega eign­ar­hluti sína til þess. Áhrif þessa eign­ar­hlutar myndi því falla nið­ur.

Sterk­efn­aðar fjöl­skyldur fá að valsa um eignir almenn­ings

Ef setja á alla bank­ana á skráðan hluta­bréfa­markað er við­búið að íslenskir líf­eyr­is­sjóðir kaupi stóran hluta í þeim, í ljósi þess að fáir aðrir geti það. Í stað þess að fari fram raun­veru­leg umræða um hvort hægt sé að auka virkni þeirra sem hlut­hafa með almanna­hag að leið­ar­ljósi, er hins vegar verið að viðra leiðir til að tak­marka mögu­leg áhrif þeirra.

Bjarni Bene­dikts­son sagði í við­tali við Morg­un­blaðið um liðna helgi að vegna sam­þjöpp­unar á valdi sem geti fylgt fjár­fest­ingum líf­eyr­is­sjóð­anna í atvinnu­líf­inu finn­ist honum að taka þurfi til skoð­unar hvort þeir eigi að geta farið með atkvæð­is­rétt sem fylgja stórum eign­­ar­hlutum „eða hvort setja beri þak á slíkan atkvæð­is­rétt.“

Bæði ofan­greind skref, að „gefa“ hluti í bönk­unum til almenn­ings og síðan að tak­marka mögu­leika líf­eyr­is­sjóða til að hafa áhrif á hvernig eignum þeirra er stjórn­að, miða að því að ýkja áhrif einka­fjár­festa í félögum sem eru að mestu í óbeinni eigu almenn­ings.

Gang­sæi, sam­tök gegn spill­ingu lýstu skoðun sinni á hug­mynd Bjarna í stöðu­upp­færslu á Face­book. Þar seg­ir: „Aug­ljós spill­ing­ar­hætta felst í því að setja þak á atkvæð­is­rétt líf­eyr­is­sjóða. Slíkt fyr­ir­komu­lag gefur sterk­efn­uðum fjöl­skyldum færi á að valsa um eigur almenn­ings án þess að þurfa að leggja fram áhættufé til rekstr­ar­ins í takt við völd sín innan félag­anna. Nær væri að auka kröfur um gagn­sæi í starfs­háttum líf­eyr­is­sjóð­anna og tryggja að stjórnun þeirra sé alfarið í höndum full­trúa sjóð­fé­laga sjálfra. Festa þarf í lög að atvinnu­rek­endur geti ekki til­nefnt full­trúa sína í stjórnir sjóð­anna, enda býður slíkt fyr­ir­komu­lag uppá aug­ljósa hags­muna­á­rekstra.“

Það er í raun fáu við þetta að bæta. Og von­andi átta sem flestir sig á stöð­unni.

Meira úr sama flokkiLeiðari
None