Metnaðarfullt fæðingarorlofskerfi: hvenær og hvernig?

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, skrifar um fæðingarorlofskerfið.

Auglýsing

Hér var brautin rudd

Þótt vel­ferð­ar­kerfið íslenska hafi á mörgum sviðum aldrei náð sam­bæri­legum þroska og á hinum Norð­ur­lönd­un­um, einkum Skand­in­av­ísku lönd­un­um, og við oft­ast fremur elt þró­un­ina en rutt braut­ina, eru þó und­an­tekn­ingar þar á. Þar kemur fæð­ing­ar­or­lofið upp í hug­ann. Það var fram­sækin jafn­rétt­is­hugsun í því á sínum tíma þegar báðum for­eldrum var tryggður sjálf­stæður og ófram­selj­an­legur réttur til töku fæð­ing­ar­or­lofs. Á manna­máli þýddi þetta að rétt­indi og skyldur beggja for­eldra til að ann­ast um og njóta sam­vista við barnið voru lagðar til grund­vallar og köll­uð­ust á við rétt barns­ins til hins sama.

Með þessu móti voru feður kall­aðir til þátt­töku og dregnir inn í ábyrgð á umönnun ung­barna með kraft­miklum hætti og áhrifin létu ekki á sér standa. Auð­vitað skiptu við­horf hér einnig máli og vax­andi þungi umræðu um jafn­rétt­is­mál, en til sam­ans leiddi þetta til þess að feður hófu töku fæð­ing­ar­or­lofs í stór­auknum mæli. Þegar best lét tóku yfir 90% feðra fæð­ing­ar­or­lof og flestir nýttu sér til fulls a.m.k. sinn sjálf­stæða þriggja mán­aða rétt. Margir tóku einnig hluta af sam­eig­in­legum eða yfir­fær­an­legum rétti beggja for­eldra.

Hröð þróun fæð­ing­ar­or­lofs hér á árunum um og eftir alda­mótin vakti athygli á alþjóða­vísu og Ísland varð fyr­ir­mynd. Um jákvæð áhrif þess að jafna aðstöðumun kynj­anna á vinnu­mark­aði þarf ekki að deila, réttur barns­ins til sam­neytis við báða for­eldra raun­gerð­ist í ríkum mæli og rétt­indi og skyldur beggja for­eldra voru und­ir­strikuð eins og áður sagði.

En, það sem á vant­aði og vantar því miður enn, er að fæð­ing­ar­or­lof hér var aldrei lengt umfram níu mán­uði. Þar stóðum við og stöndum enn okkar helstu sam­an­burð­ar­löndum að baki, þar sem orlofs­rétt­ur­inn er eitt ár eða meira.

Auglýsing

Svo kom Hrunið

En svo kom eitt stykki efna­hags­hrun og grípa varð til víð­tækra og um margt sárs­auka­fullra ráð­staf­ana. Það þurfti jú að slökkva elda, bjarga úr rúst­unum og end­ur­heimta efna­hags­legt sjálf­stæði lands­ins en sam­tímis halda gang­virki sam­fé­lags­ins á hreyf­ingu eins og mögu­legt var. Óhjá­kvæmi­legt var að draga úr útgjöld­um, einnig ýmsum vel­ferð­ar­tengd­um, þó almennt væri þeim geira hlíft umfram allt ann­að. Hér undir fellur fæð­ing­ar­or­lof­ið. Grunn­gerð þess var var­in, þ.e. orlofið var áfram níu mán­uðir sem skipt­ust í þrjá mán­uði móð­ur, þrjá mán­uði föð­urs og þriggja mán­aða sam­eig­in­legan/milli­fær­an­legan rétt. Hámarks­greiðsla eða „þak“, sem áður hafði verið inn­leitt var hins vegar lækkað veru­lega til að draga úr kostn­að­i. 

Og þá færumst við nær núinu og því sem við blasir í dag. Rík­is­stjórn Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna, sem hlaut þetta öfunds­verða hlut­skipti að taka til í rústum hruns­ins og koma Íslandi aftur á lapp­irn­ar, ber vissu­lega fulla ábyrgð á því að hámarks­greiðsl­urnar voru lækk­að­ar. En, í því til­viki eins og fleirum, var um hreina og tíma­bundna neyð­ar­ráð­stöfun að ræða. Þau fyr­ir­heit voru gefin að um leið og úr rætt­ist og betur áraði yrði skerð­ingum skilað til baka og gott betur en það. Þá yrði haldið áfram að bæta kerf­ið, les lengja rétt til fæð­ing­ar­or­lofs, uns það stæð­ist fylli­lega sam­an­burð við það sem best gerð­ist á nor­ræna/­evr­ópska vísu. Tíma­sett áætlun þar um var lög­fest undir lok kjör­tíma­bils­ins 2009-2013, enda Ísland þá þegar að kom­ast út úr mestu erf­ið­leik­un­um, rík­is­fjár­málin komin í jöfn­uð, hag­vöxtur á þriðja ári og horfur orðnar ágæt­ar.

Nýir herrar skera

En rétt fyrir mitt ár 2013 komu nýir menn, ungir og gal­vaskir, til for­ustu í rík­is­stjórn. Sem sagt þeir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og Bjarni Bene­dikts­son og eitt þeirra fyrsta verk var að slá af fyr­ir­hug­aða og lög­festa endu­reisn og styrk­ingu fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­is­ins. Og því miður létu þeir ekki þar við sitja því í fram­hald­inu var tekju­stofn fæð­ing­ar­or­lofs­sjóðs því sem næst helm­ing­að­ur. Hlut­deild sjóðs­ins af trygg­inga­gjalds­stofn­in­um, sem hafði verið 1,2%, var færð niður í núver­andi 0,65%. Mis­mun­inn hirti rík­is­sjóður því trygg­inga­gjald í heild var tæp­ast merkj­an­lega lækkað þrátt fyrir fallandi atvinnu­leysi. Þessi atlaga að fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­inu var ekki síður alvar­leg en sú að fella lög um leng­ingu þess úr gildi. Hefði fæð­ing­ar­or­lofs­sjóður fengið að halda sinni hlut­deild af trygg­ing­ar­gjaldi að mestu eða öllu leyti væri hann full­fær um að mæta útgjöldum í dag bæði vegna hækk­unar hámarks­greiðslna, þaksins, og leng­ingar í eitt ár. Að sama skapi er staðan þannig nú vegna lækk­un­ar­innar að sjóð­ur­inn gengur á eigið fé eftir að þak­inu var lyft í 500 þús­und krónur korteri fyrir síð­ustu kosn­ing­ar.

Að sjálf­sögðu var mik­il­vægt að lyfta þak­inu og þó fyrr hefði ver­ið. Lækk­andi hlut­fall feðra sem tekur fæð­ing­ar­or­lof og sú stað­reynd að hækk­andi hlut­fall þeirra sem það þó gera full­nýta ekki sinn rétt eru sterk skila­boð í þá átt að greiðslu­þakið hafi verið of lágt. En þar með er ekki sagt að ein­blína eigi á þann þátt einan og ýta öllum áformum um leng­ingu fæð­ing­ar­or­lofs til hlið­ar. Annað þarf ekki og á ekki að vera á kostnað hins.

Aftur nýtt fólk við stýrið en áfram beygt til hægri

Og nú er enn komin ný áhöfn í Stjórn­ar­ráð­ið. Stefnan er að vísu meira og minna sú sama og síð­ast nema heldur hægri sinn­aðri. Ekki vant­aði fögur orð í aðdrag­anda kosn­inga sl. haust um vilja til að efla inn­viði og auka vel­ferð. Engu að síður reyn­ist metn­að­ur­inn ekki meiri en svo þegar kemur að því að bæta fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­ið, sam­an­ber fjár­mála­á­ætlun til fimm ára, að ekki stendur meira til en að lyfta þak­inu úr 500 þús­und í 600 þús­und krónur í skrefum ein­hvern tím­ann á áætl­un­ar­tíma­bil­inu. Ekki orð um leng­ingu fæð­ing­ar­or­lofs þar að finna. Ekki orð um að taka skref til þess að brúa bil­ið, gjána, milli fæð­ing­ar­or­lofs og leik­skóla. Spurn­ingin æpir á alla við­kom­andi. Hvenær ef ekki nú og á næstu miss­erum þegar svona vel árar á að taka hin metn­að­ar­fullu skref?

Áherslur Vinstri grænna

Að mati okkar Vinstri grænna er meira en tíma­bært að lög­festa metn­að­ar­fulla áætlun um þau skref sem stíga þarf til að ljúka upp­bygg­ingu fæð­ing­ar­or­lofs­kerfis í fremstu röð á Íslandi. Engan minni metnað eigum við að hafa í þessum efn­um. Eða hvenær á að gera það ef ekki nú? Við erum á sjö­unda ári sam­fellds hag­vaxt­ar, verð­mæta­sköp­un, lands­fram­leiðsla, er meiri en nokkru sinni fyrr en fæð­ing­ar­tíðni er á hraðri nið­ur­leið og við því þarf að bregð­ast.

Þrátt fyrir efna­hags­legan upp­gang helst Íslandi ekki nógu vel á ungu fólki og flutn­ings­jöfn­uð­ur­inn hvað það snertir er nei­kvæður ár eftir ár. Með öðrum orð­um, okkur tekst ekki nógu vel að skapa barn­vænt og fjöl­skyldu­vænt sam­fé­lag og þar á hin óbrú­aða gjá milli fæð­inga­or­lofs og inn­töku á leik­skóla örugg­lega sinn þátt. Þessa gjá viljum við Vinstri græn brúa og höfum reyndar fengið sam­þykkt á Alþingi að unnið skuli að því. Leng­ing fæð­ing­ar­or­lofs­ins er að sjálf­sögðu liður í þessu öllu sam­an.

Og auð­vitað þarf meira til en leng­ingu eina saman í eitt ár að minnsta kosti. Fæð­ing­ar­styrk til þeirra sem ekki njóta réttar í fæð­ing­ar­or­lofs­kerf­inu þarf að hækka veru­lega og tryggja að allir sem eign­ast börn njóti réttar annað hvort til fæð­ing­ar­or­lofs eða fæð­ing­ar­styrks. Þá er að mati und­ir­rit­aðs mik­il­væg­ara að tryggja nú að lág­marks­greiðsla fæð­ing­ar­or­lofs, gólf­ið, fylgi lægstu launum og fari í 300 þús­und krónur á næsta ári en að hækka þakið enn frek­ar. Fimm hund­ruð þús­und króna þak þýðir jú óskertar greiðslur þar til laun eru komin á sjö­unda hund­rað þús­und, sbr. 80% regl­una. Sam­hliða leng­ingu er einnig mik­il­vægt að auka sveigj­an­leika til töku þannig að hægt sé að geyma og taka út með hléum ein­hvern hluta fæð­ing­ar­or­lofs allt til þess að barn kemst á grunn­skóla­ald­ur. For­eldrar geti þannig geymt ein­hvern hluta fæð­ing­ar­or­lofs og nýtt viku eða vikur t.d. þegar barn er í aðlögun á leik­skóla og/eða að hefja grunn­skóla­göngu.

Þá þarf einnig að fara yfir hvort rýmka eigi í vel afmörk­uðum til­vikum heim­ildir til yfir­færslu alls fæð­ing­ar­or­lofs til ein­stæðra for­eldra þegar hinu for­eldr­inu er ekki til að dreifa í þeim skiln­ingi að aðstæður leyfi skipta töku. Hér þarf þó að stíga mjög var­lega til jarðar þannig að bit hins sjálf­stæða réttar beggja for­eldra í jafn­réttiskiln­ingi haldi sér.  

Frum­varp Vinstri grænna til­búið til afgreiðslu – notum færið

Nú vill svo vel til að í vel­ferð­ar­nefnd bíður full­bú­ið, og nán­ast fullrann­sakað til afgreiðslu, frum­varp okkar Vinstri grænna um leng­ingu fæð­ing­ar­lofs í eitt ár. Lögð er til sam­svar­andi hækkun á hlut­deild fæð­ing­ar­or­lofs­sjóðs í trygg­ing­ar­gjaldi, án þess að hækka trygg­ing­ar­gjald í heild, til að mæta útgjöld­un­um. Nú er eðli­legt og lýð­ræð­is­legt að reyni á hvar meiri­hluta­vilji Alþingis ligg­ur. Umsagnir um málið eru yfir­gnæf­andi jákvæðar og er ekki vilji allt sem þarf?

Höf­undur er þing­maður Vinstri grænna og situr í vel­ferð­ar­nefnd Alþing­is.  

Arnar Þór aðstoðar Ásmund Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason hefur ráðið sér tvo aðstoðarmenn.
18. janúar 2018
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Skattrannsóknarstjóri kyrrsetti og haldlagði eignir upp á 2,2 milljarða
Embætti skattrannsóknarstjóra vísaði 41 máli til héraðssaksóknara í fyrra. Ætluð undanskot voru frá milljónum króna og upp í sjöunda hundrað milljóna króna í einstökum málum.
18. janúar 2018
Aðsetur Öryggisráðs í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna segja frá kynferðislegri áreitni og ofbeldi
Margir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Sameinuðu þjóðanna lýsa þöggunarmenningu og að ferlar til að taka á slíkum málum séu gallaðir og komi niður á þolendum.
18. janúar 2018
Lengja frest í samkeppni um nýja mynd á Sjávarútvegshúsið
Áður prýddi stærðarinnar mynd af sjómanni austurvegg hússins, við Skúlagötu 4, en málað var yfir vegginn sem er nú skjannahvítur síðsumars 2017. Ráðuneytið vill fá fleiri umsækjendur í keppnina.
18. janúar 2018
Jón Gunnar Borgþórsson
Eru þjóðarframleiðsla og framleiðni ekki lengur góðir mælikvarðar á þróun hagkerfa?
18. janúar 2018
Björgvin Ingi Ólafsson.
Björgvin Ingi hættur hjá Íslandsbanka
Framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka er hættur störfum hjá bankanum.
18. janúar 2018
Hismið
Hismið
Hismið – Joe and the Juice væðing grasreykinga
18. janúar 2018
Alda Hrönn Jóhannesdóttir
Niðurfelling LÖKE-málsins staðfest
Bogi Nilsson settur ríkissaksóknari hefur staðfest ákvörðun setts héraðssaksóknara í LÖKE-málinu svokallaða, gegn Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, þá aðallögfræðingi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að fella niður málið.
18. janúar 2018
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None