Grafík: Birgir Þór Grein 1 eftir Ásgeir Friðgeirsson globalization_saman1Artboard 1@3x.png

Heimskreppa, öngstræti hnattvæðingar og ný tækni valda usla

Stórfelldar breytingar á ólíkum samfélagsþáttum á síðasta áratug varpa ljósi á umrót stjórnmála á Vesturlöndum.

Ólga einkennir samfélög í Evrópu og á Vesturlöndum um þessar mundir sem birtist hvað skýrast í umróti á vettvangi stjórnmála. Heimsmynd okkar íbúanna á þessu svæði hefur snarbreyst á minna en áratug. Vonin um frið og samstarf þjóða og kynstofna sem var áberandi um aldamótin er orðin að ótta við átök og öfga sem sést best í miklum pólitískum umhleypingum í Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar.

Telja má víst að í hönd fari miklar samfélagslegar umbreytingar sem viðbrögð við umrótinu og ólgunni. Ýmsar skýringar kunna að vera á þessari þjóðfélagsþróun en þessi umfjöllun um ástandið skorðast við þróun efnahags- og fjármála í aðra röndina og breytta fjölmiðlun í hina en þar með eru aðrar skýringar ekki útilokaðar.

Stærstu umbrot í efnahags- og fjármálum á tímum núlifandi kynslóða urðu í heimskreppunni 2008–2010. Þau bundu enda á mesta hraðskeið hnattvæðingar í mannkynssögunni sem hófst með hruni kommúnismans í Austur-Evrópu seint á níunda áratug síðustu aldar og breyttu mjög þeirri sýn Vesturlandabúa á framtíðina sem hafði þróast frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Auglýsing

Fjölmiðlar, á hinn bóginn, eiga þann þátt í umrótinu að ný samskiptatækni hefur á örfáum árum gjörbreytt hinu samfélagslega samtali og segja má að hún hafi hrifsað fundarstjórn samfélagsins úr höndum hinna hefðbundnu fjölmiðla og gert umræðuna um málefni líðandi stundar fjölbreyttari en á sama tíma stjórnlausari og óreiðukenndari.

Þar sem þessar öru breytingar á sviði félagslegra samskipta og á efnahagslegum veruleika Vesturlanda hafa verið að eiga sér stað á næstum sama sögulega augnablikinu er erfitt að sjá hvaðan vindar blása og hvert straumar liggja á hverjum tíma. Í þessu greinarkorni og þeim sem á eftir fylgja verður reynt að sýna hvernig umrót samtímans er samofið breytingum á þessum tveimur mikilvægu en ólíku félagsþáttum – skoðað verður hvernig þessir þræðir liggja allir saman og sundur og saman aftur.

Skipbrot hnattvæðingar

Í um tvo áratugi fram að kreppunni 2008 eða allt frá falli Berlínarmúrsins, gekk yfir heiminn mesta hraðskeið hnattvæðingar sem sagan greinir frá. Umskipti efnahags á þeim tíma voru gífurleg. Viðskipti Austur og Vestur Evrópu jukust hratt eftir að klakabönd kalda stríðsins gufuðu upp og Evrópa varð einn markaður undir regluverki Evrópusambandsins.

Nýtt hagkerfi hátækni og samskipta knúði bandarískt hagkerfi sem var vélarrúmið í hagkerfi heims og hin nýja tækni jafnframt hraðaði til muna öllum framleiðsluferlum og ekki síst markaðs- og söluþáttum. Nýja hagkerfið ýtti undir aukna verkaskiptingu í heiminum sem á tímabilinu tók stakkaskiptum þar sem almenn vöruframleiðsla fluttist til Suðaustur Asíu. Í Kína hafa orðið til 70 milljón störf í framleiðslugreinum á þessari öld en þau eru samtals 40 milljón í Evrópu og Norður-Ameríku í dag. Þessi uppskipti hafa síðan átti sinn þátt í að koma milljörðum manna til bjargálna í Austurlöndum fjær og hundruðum milljóna til vellystinga vestrænna millistétta.

Utanríkisverslun heimsins ellefufaldaðist á þremur áratugum fyrir kreppuna 2008 sem þýðir tvöföldun á 7–8 ára fresti sem er langt umfram nokkuð sem kalla má eðlilegan vöxt til lengri tíma en til samanburðar má nefna að fjölgun flugferða á sama tíma í heiminum var þrefalt minni og þykir mörgum nóg um.

Mest urðu þó umskiptin í fjármálaheiminum sem hnattvæddist og breytti um eðli með stórfelldum veðsetningum og fram- og afturvirkum fjármálagjörningum þannig að á þessum 30 árum jókst peningamagn í umferð úr 60 milljörðum dollara á dag í 4000 milljarða dollara, eða 66 faldaðist sem þýðir að peningaflæðið jókst sex sinnum hraðar en utanríkisverslun og langt umfram verðmætasköpun heimsins.

Það voru því gríðarlegir kraftar að móta samfélög heimsins á þessum áratugum í átt að efnahagslegri samlögun og samþættingu. Allt lék í lyndi á meðan peningar streymdu um og yfir samfélög og aðrir þættir samfélagsins eins og t.d. menning og stjórnmál urðu samofnir þessu kraftmikla breytingaferli.

Kreppa – Vesturlönd hnigna

Peningarnir hættu að streyma. Kreppan 2008 stöðvaði harkalega þá hröðu hnattvæðingu sem hófst við endalok kalda stríðsins. Síðan þá hefur efnahagur Vesturlanda í heild lítið sem ekkert vaxið. Pizza efnahagslífsins í þessum heimshluta hætti að stækka og sneið hvers og eins hefur minnkað - væntanlega í öfugu hlutfalli við væntingar því í samtímanum hefur framþróun sögunnar verið samgróin hugmyndinni um endalausan efnahagslegan vöxt og að hver kynslóð geti haft það betra en sú á undan.

Utanríkisverslun heimsins ellefufaldaðist á þremur áratugum fyrir kreppuna árið 2008.

Vandi Vesturlanda er í raun mjög djúpur því sá litli vöxtur sem verið hefur byggir að stórum hluta á lántökum og aukinni neyslu á meðan hagvöxtur í Suðaustur Asíu, Afríku og Suður Ameríku byggir á raunverulegri verðmætaaukningu og gæti sá vöxtur verið enn meiri ef ekki væri eins mikill sparnaður í Suðaustur Asíu og raun ber vitni. Áhrifa kreppunnar gætir því enn á Vesturlöndum og einkum í Evrópu.

Í stuttu máli má segja að efnahagslega þá hnignar Vesturlöndum vegna mikillar neyslu, lítils sparnaðar og minnkandi verðmætasköpunar á sama tíma og áðurnefnd hraðvaxtarsvæði heimsins hafa risið með aukinni verðmætasköpun, sparnaði og hóflegri neysluaukningu. Evrópa og Norður-Ameríka eru ekki lengur vélin í hagkerfi heims líkt og áður. Þar sem efnahagslegum yfirburðum fylgir pólitískt, menningarlegt og hernaðarlegt vald er við því að búast að umrædd hnignun, verði íbúum Vesturlanda þungbær – væntingar og vonir kynslóða bresta, og rót kemst á þjóðarsálir.

Hnattvæðingin afmáði gamlar pólitískar átakalínur

Umrót komst á stjórnmálin í okkar heimshluta í kjölfar kreppunnar, fyrst á Íslandi með ansi dramatískum hætti en síðan breiddust umbrotin hægt og örugglega út. Sættir einkenndu stjórnmál uppgangsáranna og ágreiningur snerist helst um vinnubrögð og aðferðafræði því umgjörð þeirra og tímabundnar aðstæður voru að skapa mikil verðmæti sem stjórnmálamenn gátu látið líta út fyrir að þeir ættu þátt í skapa.

Það var tími friðar. Þá sameinaði hnattvæðingin á seiðandi hátt stríðandi öfl á vettvangi stjórnmála tuttugustu aldar. Annars vegar alþjóðahyggju sem vinstrimenn voru sögulega hallir undir og kölluðu þriðju leiðina og hins vegar aukna skilvirkni kapítalismans sem var hægri öflum að skapi. Á þessum tíma höfðu nær öll hefðbundin stjórnmálaöfl á Vesturlöndum stokkið á vagn hnattvæðingar sem virtist geta losað um togstreitu stéttastjórnmála með því að gera allan almenning heima fyrir að millistétt í verkskiptu alþjóðasamfélagi og í leiðinni losað um mótsagnir sem leitt gætu til hernaðarátaka. Þess vegna var kreppan 2008 pólitískt reiðarslag því nær öll stjórnmálaöfl með einhvern styrk höfðu lagt sín lóð á vogarskálar þeirrar þróunar.

Góðærið og hnattvæðingin hafði fært fjölmargt úr stað og breytt forsendum þegar kom að því í hverju landi fyrir sig að glíma við afleiðingar kreppunnar. Stjórnmálin höfðu framselt vald í aðra röndina til markaða en í hina til alþjóðastofnana vegna langtímaskuldbindinga í alþjóðasamningum um viðskipti og þar með talið ferðir fólks, öryggismál, mannréttindi o.fl.

Ábyrgðin var hins vegar hjá hinum kjörnu fulltrúum þjóðríkjanna. Þeir þurftu að standa skuldaskil vegna brostinna vona kjósenda og klafa væntinga sem ekki urðu að veruleika. Vandamálin voru af öðrum rótum en áður og lausnir ekki þekktar. Efnahagslegir hagsmunir svæða, þjóða og ríkja voru svo samansúrraðir að erfitt reyndist að finna lausnir sem komu hjólum aftur af stað og róa almenning. Alþjóðlegar lausnir voru tímafrekar og flóknar málamiðlanir eilíf þrautaganga eins og samskipti Grikklands við Evrópusambandið sýndi best en einhliða lausnir dugðu skammt því þær bíta gjarnan í skottið á sjálfum eins og við Íslendingar þekkjum af sambýli okkar við gengis- og efnahagssveiflur. Þegar harðnaði á dalnum birtust stjórnmálamenn oft sem máttlítil peð. Margir stærstu þættir hins efnahagslega veruleika voru komnir út fyrir lögsögu einstakra valdamikilla leiðtoga lýðræðisríkja á Vesturlöndum. Hnattvæðingin hafði reyrt hendur stjórnmálamanna sama hvað þeir sögðu eða höfðu hátt.

Auglýsing

Farið of hratt

Stjórnmálaþróunin eftir kreppuna 2008 hefur sýnt að almenningi á Vesturlöndum fannst of langt gengið og of hratt farið á uppgangstímanum og breytingar í kjölfar fjármála- og hnattvæðingar samfélaga of miklar. Tími mikils uppgjörs og endurmats gekk í garð og þegar að er gáð virðist hnattvæðingin vera sá þáttur sem helst hefur verið tekinn til endurskoðunar. Í aðra röndina hafa hægri menn tekið upp baráttu gegn alþjóðavæðingunni og slegið á strengi þjóðernishyggju en í hina röndina hafa vinstri menn gripið til and-kapítalískra sjónarmiða og í sumum tilfellum dustað rykið af hugmyndafræði sem margir héldu að væri gleymd á öskuhaugum tuttugustu aldar. Úr sitthvorri áttinni er því verið að klippa á tvo meginþræði hnattvæðingarinnar.

Engu að síður stendur eftir veruleiki – efnahagslegur, fjármálalegur og menningarlegur – sem undinn er úr ólíkum þráðum hagsmuna félagshópa, landa, þjóðríkja og heimsálfa sem stjórnmál Vesturlanda þurfa að takast á við. Orðræður um þjóðlegt sjálfræði, bölvun auðvalds og peninga og ofurvald kerfisins sem alltaf fer sínu fram geta verið hluti af langtímalausnum en koma ekki hjólum verðmætasköpunar aftur af stað í bráð. Yngri kynslóðir stjórnmálamanna vilja pólitík á öðrum forsendum og þeir sem eldri eru og enn virkir forðast of náin tengsl við tíma hnattvæðingar.

Það eru fáir leiðtogar sem tengja sig beint við fortíðina frá því fyrir kreppu og standa í rústum hnattvæðingarinnar og reyna að benda á leið fram á við. Það er helst Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem hefur reynt að axla ábyrgð við litlar vinsældir heimavið og enn minni annars staðar. Meira hefur borið á umboðslausum kommissörum í Brussel á borð við Junker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og gömlum leiðtogum á borð við Tony Blair, Bill Clinton og Karl Bildt í þeirri umræðu. Fæstir þessara einstaklinga ná að höfða til hins leitandi almennings.

Angela Merkel er kanslari Þýskalands. Hún hefur ríghaldið í gildi hnattvæðingarinnar í baráttunni gegn þjóðernishyggju og popúlisma í Evrópu.

Þjóðfundur án fundarstjórnar

Ólgan í stjórnmálum samtímans er að hluta til vegna tómarúms sem kreppan skilur eftir og það öngstræti sem hnattvæðingin hefur ratað í. Bilið á milli drauma og vona fólks um hvernig umgjörð hins daglega lífs á að líta út og síðan þess veruleika sem uppgangurinn og kreppan í kjölfarið skildi eftir er stórt og yfir því er þoka óvissu.

Ef einhvern tíma er þörf fyrir kraftmikla og uppbyggilega samfélagslega umræðu þá er það á tímum eins og nú þar sem létta þarf þoku og byggja brýr á milli ólíkra sjónarmiða. En þannig vill til að núna ganga yfir einhverja mestu breytingar á hinu samfélagslegu samtali sem sagan greinir frá vegna nýrrar tækni.

Grunnþættir lýðræðishefðar Vesturlanda sem byggja á samfélagslegu samtali hafa tekið stökkbreytingum. Aðferðir sem áður voru viðurkenndar og stofnanir sem nutu trausts gagnast ekki lengur í umræðu samtímans – traust er horfið og viðurkenningar léttvægar gagnvart afstæðum sýndarveruleika. Samfélagsmiðlarnir hafa sett af fundarstjórana á þjóðfundinum sem voru hinir hefðbundnu ritstýrðu fjölmiðlar og engir hafa verið skipaðir í staðinn. Það ríkja því ekki beint góðar aðstæður á þjóðfundi til að ræða framtíðarskipan samfélagsins af yfirvegun því athyglin beinist helst að þeim sem hæst hafa og kunna að nýta sér hin frjálsu og óbeisluðu samfélagslegu samskiptaform sem í boði eru.

Og á meðan Vesturlandabúar reyna að skilgreina framtíðarsamfélagið og jafnframt að ráða fram úr því hvaða aðferðum þeir eigi að beita við þá skilgreiningu eru aðrir heimshlutar á markvissri braut til meiri auðlegðar og áhrifa þar sem vestræn grunngildi eins og frelsi, lýðræði og opinská skoðanaskipti eru með áberandi hætti fyrir borð borin. Samtalið í samfélaginu truflar þar ekki uppganginn.

Í næstu tveimur greinum verður reynt að útskýra hvernig ný samskiptatækni hefur áhrif á þróun samfélagsins og ferli samskipta sem leiða til sameiginlegra ákvarðana og heita í daglegu tali stjórnmál. Greinarnar birtast á vef Kjarnans á næstu dögum.

Ásgeir Friðgeirsson er fyrrum kennari, blaðamaður, ritstjóri og varaþingmaður sem hefur starfað undanfarin 16 ár sem ráðgjafi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja og fjárfesta í samskiptum og viðskiptum. Hann hefur fylgst með þróun fjölmiðla og umræðu um viðskipti, efnahagsmál og stjórnmál í yfir 30 ár og er með jafngamalt meistarapróf í samskiptafræðum frá Manchester háskólanum í Englandi.

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar