Auglýsing

Klisjan um vax­andi ójöfnuð lifir góðu lífi í umræð­unni. Stað­reyndin er þó sú að engin þjóð mælist með meiri launa­jöfnuð en Ísland sam­kvæmt árlegri úttekt OECD á jöfn­uði meðal þjóða. En því er engu að síður haldið fram að launa­ó­jöfn­uður sé sjálf­stætt vanda­mál og vax­andi. Sá mál­flutn­ingur stenst enga skoðun eins og nið­ur­stöður OECD bera skýrt með sér.“

Þetta sagði Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráð­herra í stefnu­ræðu sinni á mið­viku­dag. Og end­ur­tók þar með þann leik enn og aftur að láta sem munur á launum væri eini mæli­kvarði á jöfnuð á pínu­litla land­inu okk­ar. Enn og aftur er því til­efni til að benda for­sæt­is­ráð­herra og öllum hinum sem end­ur­taka þessa mön­tru brauð­mola­kenn­ing­ar­innar að svo er ekki.

Eign­ir, ekki laun

Ójöfn­uður á Íslandi birt­ist fyrst og fremst í ójafnri skipt­ingu eigna. Hann felst í því að eigið fé lands­manna jókst um 370 millj­arða króna á árinu 2015. Þar af fór 123,4 millj­arðar króna til þeirra fimm pró­sent lands­manna sem áttu mest, eða þriðj­ungur af öllu nýju eigin fé. Alls áttu rík­asta fimm pró­sent lands­manna 44,4 pró­sent af öllu eigin fé lands­manna þegar árið 2016 byrj­aði.

Auglýsing

Hann birt­ist í því að rík­asta eitt pró­sent lands­manna átti fimmtu hverju krónu sem lands­menn áttu í eigin fé í lok árs 2015.  Hann birt­ist í því að á þeim tíma hafi 0,1 pró­sent lands­manna átt 187 millj­arða króna í eigin fé og að sú eign þess hóps, sem telur nokkur hund­ruð manns, hafi auk­ist um 20 millj­arða króna á því ári einu sam­an.

Ójöfn­uð­ur­inn birt­ist í því að frá árinu 1997 og fram til loka árs 2015 jókst eigið fé 0,1 pró­sent rík­asta hluta þjóð­ar­innar úr 25,3 millj­örðum króna í 187,3 millj­arða króna. Eigið fé rík­asta eins pró­sents lands­manna jókst úr 89,1 millj­arði króna í 559,5 millj­arða króna. Og eigið fé rík­ustu fimm pró­senta lands­manna jókst úr 207,3 millj­örðum króna í 1.249 millj­arða króna. Það efsta lag jók auð sinn um 1.042 millj­arða króna á 18 árum og áttu í lok árs 2015 44,4 pró­sent alls eig­in­fjár í land­inu. Hvernig vitum við þetta? Jú, Bjarni Bene­dikts­son sagði okkur það í svari við fyr­ir­spurn fyrir rétt tæpu ári síð­an.

Þau 70 pró­sent lands­manna sem áttu minnstar eignir áttu 27,2 millj­arða króna árið 1997. Þau átti 16,2 millj­arða króna sam­an­lagt í eigið fé í árs­lok 2015.

Lít­ill hópur á fjár­magnið

Íslenska kerfið virkar þannig að mjög lít­ill hópur lands­manna á fjár­magn­ið. Hag­tölur sýna t.d. að 86 pró­sent verð­bréfa sem eru í eigu ein­stak­linga eru í eigu tíu pró­sent rík­ustu Íslend­ing­anna. Hin 90 pró­sent­in, sem eru að mestu launa­fólk eða bóta­þeg­ar, eiga nán­ast engar fjár­mála­legar eign­ir, vænt­an­lega vegna þess að þau hafa ekki fjár­hags­legt svig­rúm til að eign­ast slík­ar. Þótt hag­tölur sýni að þessi hópur sé sífellt að eign­ast meira þá er sú eign nán­ast ein­vörð­ungu bundin í eigin fé í hús­næði sem er erfitt að leysa út ef við­kom­andi vill áfram búa ein­hvers­stað­ar.

Þegar horft er á þær tölur sem birtar hafa verið vegna árs­ins 2016 þá er lítið í þeim sem bendir til ann­ars en að þeir ríku séu ein­fald­lega stans­laust að verða rík­ari hér­lend­is. Sam­kvæmt álagn­ingu opin­bera gjalda ein­stak­linga vegna síð­asta árs fengu 3.682 fjöl­skyld­ur, tæp­lega tvö pró­sent allra fjöl­skyldna lands­ins, hagnað vegna hluta­bréfa­sölu upp á 28,7 millj­arða króna. Sölu­hagn­aður jókst um 39,1 pró­sent milli ára þrátt fyrir að fjöl­skyldum sem töldu fram sölu­hagnað hafi ein­ungis fjölgað um 5,4 pró­sent.

Nettó­eign heim­ila lands­ins jókst um 415,2 millj­arða króna í fyrra. Enn á eftir að birta hag­tölur um hvernig það við­bótar fé skipt­ist á milli laga sam­fé­lags­ins. En ef hlut­falls­skipt­ingin verður eins og hún var á árinu 2015 þá munu rík­ustu tíu pró­sent lands­manna hafa fengið í sinn hlut 179 millj­arða króna af nýjum pen­ingum á síð­asta ári, eða 43 pró­sent af allri nýrri hreinni eign.

Það sem hrynur af veislu­borð­inu er skatt­lagt meira

Á sama tíma hafa laun þorra lands­manna, sem vinna hjá fjár­magns­eig­end­un­um, þó vissu­lega hækk­að. Ráð­stöf­un­ar­tekjur þeirra hafa auk­ist enda Ísland orðið miklu rík­ara, fyrst og fremst með nýt­ingu nátt­úru­auð­linda sem eiga að heita í sam­eig­in­legri eigu þjóð­ar­inn­ar. Sú hækkun er þó ekki í neinu hlut­falli við það sem auður efsta lags­ins hefur vax­ið. Brauð­molar hafa hrunið af borð­inu en það er eng­inn vafi á því að lít­ill hópur innan sam­fé­lags­ins borðar þjóð­ar­kök­una án þess að gefa neitt sem máli skiptir með sér.

Á sama tíma og ráð­stöf­un­ar­tekjur lægstu hópanna hafa auk­ist hefur skatt­byrði þeirra líka þyngst umfram það sem er lagt á efstu lögin í sam­fé­lag­inu. Árið 1998 var skatt­byrði hinna lægst laun­uð­ustu í íslensku sam­fé­lagi fjögur pró­sent. Nú er hún 16 pró­sent. Sam­hliða hefur mun­ur­inn á skatt­byrði þeirra fátæk­ustu og þeirra rík­ustu minnkað og tekju­jöfn­un­ar­hlut­verk rík­is­ins hefur dreg­ist sam­an. Þ.e. skatt­byrð­inni hefur verið dreift þannig að þeir lægst laun­uð­ustu borga meira af ráð­stöf­un­ar­tekjum sínum í skatta en þeir sem eru rík­ari.

Og þrátt fyrir hina ægi­legu efna­hags­legu vel­sæld þá fyr­ir­finnst umtals­verð fátækt í 340 þús­und manna sam­fé­lag­inu okk­ar. Í árs­lok 2014, sem eru nýj­ustu tölur sem til eru, sögð­ust 11,9 pró­sent lands­manna að þeir ættu mjög erfitt með að láta enda ná sam­an. Í skýrslu Unicef á Íslandi, sem birt var í byrjun árs 2016, kom fram að 9,1 pró­sent barna á Íslandi hafi liðið efn­is­legan skort þegar árið 2015 rann í garð. Það voru 6.100 börn. Rúmur fjórð­ungur þeirra leið veru­legan efn­is­legan skort. Árið 2009, einu ári eftir banka­hrun­ið, var það hlut­fall fjögur pró­sent. Fjöldi barna sem líður efn­is­legan skort hefur því marg­fald­ast.

Rofin sátt­máli

Klisja þýðir eitt­hvað sem er end­ur­tekið oft. Og það er ástæða fyrir því að það er end­ur­tekið oft að ójöfn­uður ríki á Íslandi. Að gæð­unum sem verða til í þessu auð­lindrifna fákeppn­i­sam­fé­lagi, þar sem aðgengi að upp­lýs­ing­um, tæki­færum og pen­ingum ann­arra skiptir öllu þegar menn vilja kom­ast í áln­ir, sé veru­lega mis­skipt. Ástæðan fyrir því að þetta er end­ur­tekið í sífellu er vegna þess að þetta er satt. Það er ein­fald­lega stað­reynd að hinir ríku eru sífellt að verða miklu rík­ari hér­lend­is.

Eðli íslensks sam­fé­lags breytt­ist á árunum fyrir hrun. Hér var rof­inn sam­fé­lags­sátt­máli. Það rof varð vegna þess að hópur fjár­magns­eig­enda sagði sig úr sam­fé­lagi við þjóð­ina sem hann til­heyrði. Hann taldi sig betri og eiga meira skil­ið. Og telur enn. Afleið­ingin var aukin lag­skipt­ing og aukið van­traust. Aukin reiði, van­líðan og árekstrar manna á milli.

Íslend­ingar eru þrátt fyrir ægi­legan efna­hags­upp­gang, þung­lyndasta Evr­ópu­þjóðin sam­kvæmt nýrri könnun OECD. Hér eru 14 pró­sent allra á aldr­inum 24-64 ára þung­lyndir á meðan að með­al­talið í OECD-­ríkj­unum er átta pró­sent. Verst er staðan hjá ungu fólki. Árið 2007 mátu 16,8 pró­sent Íslend­inga á aldr­inum 18-24 ára and­lega heilsu sína sæmi­lega eða lélega. Í fyrra var það hlut­fall komið í 36,2 pró­sent. Og Íslend­ingar eru ekki ánægðir með þá sem ráða hér. Ein­ungis 27 pró­sent styðja rík­is­stjórn­ina og um fimmt­ungur treystir Alþingi.

Í stað þess að takast á við þessa stöðu með breyt­ingum er hún afgreidd sem geð­veiki í fólki sem sjái ekki hversu ástandið sé gott á Íslandi. Einn helsti stuðn­ings­maður sam­fé­lags­sátt­málar­ofs­ins, Hannes Hólm­steinn Giss­ur­ar­son, afgreiðir alla óánægju í sam­fé­lag­inu sem leið­indi í vinstri mönn­um. Í stöðu­upp­færslu í gær sagði hann að þeir þurfi að „vera sínöldr­andi út af smá­mun­um, mega ekki græða á dag­inn og hafa ekki efni á því að grilla á kvöld­in.“ Þetta kemur frá hug­mynda­fræði­lega gjald­þrota manni sem þurfti að horfa á ríkið og almenn­ing grípa nýfrjáls­hyggju­til­raun­ina hans í fangið þegar for­dæma­laus græðgi, van­hæfni, sið­rof og glæpir höfðu siglt henni í strand haustið 2008. Það var ekki mikið „hægri“ í því.

Sumir eru jafn­ari en aðrir

Sann­leik­ur­inn er sá að fyr­ir­mynd­ar­sam­fé­lags­gerð manna eins og Hann­esar snýst fyrst og síð­ast um að sumir séu jafn­ari en aðr­ir. Alveg eins og ömur­leg­ustu útfærslur á  sós­í­al­isma. Hún snýst um algjöran skort á sam­kennd og sam­fé­lags­legri vit­und. Þar sem sam­fé­lagið er til fyrir hina fáu í stað þess að þeir séu hluti af sam­fé­lag­inu. Menn eins og Hannes eru orðnir að nákvæm­lega því sem þeir segj­ast fyr­ir­líta mest.

Staðan á íslensku sam­fé­lagi snýst ekki um hægri eða vinstri. Það er smjör­klípa að reyna að stilla fólki upp í þannig and­stæð­ur, og með vilja gert til að láta fólk takast á um auka­at­riði.

Kap­ít­al­ismi snýst nefni­lega ekki bara um pen­inga og völd heldur líka um frelsi, sann­girni, jafn­ræði og tæki­færi. Og margt í grund­vallar hug­mynda­fræði hans er sam­fé­lag­inu mjög til fram­drátt­ar. Tryggir að menn geta með elju og hug­mynda­auðgi bætt sam­fé­lagið sitt og eigin stöðu á sama tíma. Á sama hátt snýst sós­í­al­ismi ekki bara um for­ræð­is­hyggju og öfund heldur um sam­kennd og jöfn­uð.

Því sem var troðið upp á okkur að óþörfu

Það kerfi sem við rekum hér á Íslandi á því ekk­ert skylt hægri­mennsku og þær eðli­legu kröfur sem uppi eru um jafn­ara og sann­gjarn­ara sam­fé­lag eru fjarri því að vera ein­hvers konar öfga­kennd vinstri­mennska. Þorri Íslend­inga er enda þeirrar skoð­unar að hér eigi að reka sterkt vel­ferð­ar­kerfi, sem grípur þá sem minnst mega sín í sam­fé­lag­inu, en bjóði á sama tíma upp á til­veru þar sem hver sé sinnar gæfu smið­ur.

Ragnar Önund­ar­son, við­skipta­fræð­ingur og Sjálf­stæð­is­maður í hart­nær hálfa öld, orð­aði þetta vel í grein sem birt­ist nýverið á Kjarn­anum: „Nýfrjáls­hyggj­unn­i var troðið upp á okkar litla, nor­ræna vel­­ferð­­ar­­sam­­fé­lag, sem hafði reyndar slegið öll met meðal vest­rænna þjóða í hag­vexti og vel­­megun og þurfti ekki á henni að halda. Hvergi á byggðu bóli var jöfn­uður meiri: Lækn­­ar, flug­­­stjórar og for­­stjórar létu sér nægja fimm­­föld lægstu laun.[...]­For­­stjór­­arnir brut­ust úr sam­­flot­inu við lækna og flug­­­stjóra, enda ráða þeir launum sínum sjálf­­ir.[...]Það segir svo sína sögu að engin mis­­tök voru við­­ur­­kennd opin­ber­­lega, það má ekki gera í íslenskri póli­­tík, engri stefnu var því breytt.“

Það má taka undir þetta. Von­ast til þess að mis­tök verði við­ur­kennd. Og að stefn­unni verði breytt. Að okkur beri gæfa til að finna sam­kennd­ina að nýju. Því ann­ars verður engin frið­ur. Og sann­ar­lega ekki skrifað undir nýjan sam­fé­lags­sátt­mála.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari