Áhlaupið á internetinu

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartar framtíðar skrifar í aðsendri grein að flokkurinn hafi gert áhlaup, að vel athuguðu máli.

Auglýsing

Það er svo upp­lýsandi að taka þátt í póli­tík. Ekki síst á ögur­stundu, því þegar hratt er hlaupið kemur hið sanna eðli í ljós. Þegar höggið er snöggt, kemur sparkið á undan vilja­stýrðu við­bragði, líkt og þegar slegið er á hné­skelj­ars­in.

Ég er óend­an­lega stolt og þakk­lát fyrir að hafa upp­lifað hné­skelj­ar­við­bragð Bjartrar fram­tíðar á fimmtu­dag­inn var. Höggið kom þegar ljóst var að tveir ráð­herrar í rík­is­stjórn­inni sem við áttum aðild að, sjálfur for­sæt­is­ráð­herra og ráð­herra dóms­mála, hefðu tekið eig­in­hags­muni fjöl­skyldu þess fyrr­nefnda og eigin flokks fram fyrir almanna­hag.

Okkar við­bragð, sam­stillt og úr mörgum áttum um leið var: Hingað og ekki lengra! Þetta hættir hér og hættir strax.

Auglýsing

Hné­skelja­við­brögð ann­arra flokka fylgdu í kjöl­far­ið. Hjá Sjálf­stæð­is­flokki er það við­bragðið hroki.

Heims­met í heimsku?

Það er ekki eins og við höfum ekki séð svipuð við­brögð áður úr þess­ari átt, hér er ekk­ert sem kemur á óvart.

Þegar hné­skelj­ar­við­bragð­inu sleppir tekur við hreyf­ing af yfir­lögðu ráði. Hún er líka fyr­ir­sjá­an­leg og upp­lýsandi. Skoðum fyrstu spor­in:

Þetta eru kján­ar, þau hlupu á sig. Engar almenni­legar flokks­rætur vinna svona hratt, hvað þá yfir inter­net. Raf­ræn kosn­ing!

Takk fyrir þetta.

Kíkjum aðeins á kján­ana, hvaða fólk var þetta, hver er þessi bráð­láta gras­rót og hvert liggja rætur henn­ar? Án þess að nefna nöfn (list­ann yfir stjórn­ar­með­limi má finna á heima­síðu Bjartrar fram­tíðar á hinu alræmda inter­neti) þá er auð­velt að draga upp mynd af rót­unum sem lágu saman inn á þennan stjórn­ar­fund umrætt kvöld: Atvinnu­líf, félaga­sam­tök, menn­ing, ferða­þjón­usta, háskóla­sam­fé­lag, mark­aðs­mál, stjórn­sýsla, þing­ið, sveita­stjórn­ir, skipu­lags­mál, almanna­tengsl, blaða­mennska, starfs­manna­stjórn, nýsköp­un­ar­geir­inn, utan­rík­is­mál, leik­hús, list­ir, seðla­banki, stór­iðja, rétt­inda­mál, skóla- og mennta­mál, lög­gæsla, sjálf­boða­störf, ung­menna­starf, heil­brigð­is­mál, stjórn­mála­fræði, land­bún­að­ur. Bara svona til að nefna eitt­hvað.

Póli­tísk reynsla á fund­inum var líka ærin. Löng og mikil þekk­ing úr gömlu flokk­un­um, sem og reynsla af sam­starfi við ráð­herra og rík­is­stjórn­ir, á ólíkum tímum og ólíkum gerð­um.

Sem­sagt ekk­ert rót­leysi hér á ferð, heldur þvert á móti þétt­ofið kerfi af hald­góðri inn­sýn í íslenskt sam­fé­lag og íslenska póli­tík. Við vitum hvað við erum að glíma við.

Ákvörðun sem tekin er hratt hlýtur að vera illa ígrunduð

Því fer fjarri. Reyndar hefur ekki ennþá komið fram í opin­berri umræðu, eftir rík­is­stjórn­ar­slit­in, sjón­ar­horn sem ekki var þegar búið að velta upp í umræð­unni á fundi Bjartrar fram­tíð­ar.

Hefðum við til dæmis átt að krefj­ast afsagnar Bjarna og Sig­ríðar og sitja áfram? Sú leið var skoðuð og metin ófær, enda óger­legt fyrir ráð­herra að lýsa van­trausti á eigin for­sæt­is­ráð­herra. Ákveðið var að sjá hver við­brögðin yrðu, ef svo ólík­lega skyldi fara að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn við­ur­kenndi mis­tök sín og skipti út fólki, væri alltaf hægt að skoða málin í fram­haldi af því. Sú staða hefur ekki komið upp. Það kemur því miður ekki á óvart.

Hefðum við átt að bíða lengur og ræða við hlut­að­eig­andi? Um hvað hefði það sam­tal átt að snúast? Stað­reyndir máls­ins lágu, og liggja, fyr­ir. Eft­irá­skýr­ingar ráð­herr­anna sem nú eru bornar á borð breyta engu um það, þær stand­ast ekki skoð­un.

Besta for­spá um fram­tíð­ina er for­tíð­in. Þetta var ítar­lega rætt. Miðað við aldur og fyrri störf yrði ferlið sem nú tæki við mjög keim­líkt leka­máls­ferl­inu hjá Hönnu Birnu. Fyrst yrði neit­að, svo neitað aðeins leng­ur, svo ásak­anir látnar ganga í allar átt­ir, svo neitað aðeins meir. Þangað til peð­inu yrði fórnað fyrir kóng­inn. Kon­unni fyrir son­inn. Það ferli virð­ist þegar haf­ið. Undir þá muln­ings­vél ákváðum við að leggj­ast ekki.

Gras­rót eða torf­þak?

Það virð­ist vera nátt­úru­legt þroska­ferli fjölda­sam­taka að umbreyt­ast í stofn­an­ir. Stjórn­mála­flokkar byrja með því að fjöldi fylk­ist sam­an, með eða án leið­toga, og þró­ast smám saman yfir í mask­ínu með gras­rót­arof­næmi sem skilur ekki milli­liða­laus sam­skipti eða beina aðkomu félags­fólks að ákvarð­ana­töku.

Flokkur þar sem grasið er komið upp á þak og horfið undan fót­unum þarf að hugsa sinn gang. Rætur hans eru aðþrengd­ar, undir þeim er loftið eitt og sums staðar púkar á bit­um.

Afvega­leið­ing

Sú umræða sem nú er verið að mata í fjöl­miðla (takið vel eftir hvar hún birtist), er ekk­ert annað en afvega­leið­ing. Það er verið að beita gömlu trikk­unum í bók­inni, úr kafl­anum með haus­kúp­unni á spáss­í­unni. Missum ekki sjónar á aðal­at­rið­um, gleymum ekki stað­reynd­um.

Björt fram­tíð hljóp ekki á sig. Við gerðum áhlaup að vel athug­uðu máli.

Meira úr sama flokkiAðsendar greinar