Að auka útgjöld og minnka skatta

Dr. Ólafur Margeirsson skrifar um peninga og hvernig þeir virka í daglegu lífi.

Auglýsing

Þegar ég eign­ast börn einn dag­inn ætla ég að taka upp eft­ir­far­andi kerfi til að kenna þeim hvernig pen­ingar virka og hver mun­ur­inn er milli aðil­ans sem gefur út pen­inga og aðil­ans sem notar pen­inga. 

Segjum að ég eign­ist tvö börn, Jón og Gunnu. Ég segi við þau einn dag­inn að ef þau vilji borða mat­inn sem ég elda og njóta góðs af húsa­skjól­inu sem ég hef útvegað þeim verði þau að borga mér skatt, svo­kall­aðan pabbaskatt.

Pabbaskatt­ur­inn er 100 Ólakrónur (ókr.) á mán­uði. Ég mun ein­göngu sam­þykkja Ólakrónur sem fulln­að­ar­greiðslu á pabbaskatt­in­um, ég tek aðra gjald­miðla ekki gilda. Jón og Gunna líta í kringum sig og segj­ast ekki geta borgað mér skatt­inn, það séu engar ókr. til á heim­il­inu. Það er hár­rétt hjá þeim, eng­inn hefur búið til ókr.. Ég svara þeim „ég bý þær til“ og skrifa á nokkra miða „þessi snep­ill er 10 ókr. virði og hand­hafi hans getur borgað and­virði 10 ókr. í pabbaskatt.“ 

Auglýsing

Ég lita þennan snepil rauð­an. Ég skrifa svo „1ókr.“ á annan snepil sem ég lita blá­an. Ég kvitta svo undir sneplana með minni und­ir­skrift á alla sneplana - og vei þeim sem vogar sér að svo mikið sem reyna að falsa und­ir­skrift­ina mína!

Jón og Gunna biðja mig þá um að fá mið­ana í hend­urnar svo þau geti þá borgað pabbaskatt­inn. En ég segi þá við þau að þau verði að vinna sér þá inn. Þau fá t.d. 10 ókr. fyrir að taka til í her­berg­inu hjá sér, 5 ókr. fyrir að fara tím­an­lega í skól­ann og 3 ókr. fyrir að fara að sofa fyrir klukkan 9 á kvöld­in. 

Nú líður mán­uð­ur­inn og í ljós kemur að Jón fór snemma að sofa á hverjum ein­asta degi í mán­uð­inum (30*3 = 90 ókr), hann tók 4 sinnum til í her­berg­inu sínu (40kr.) og mætti 20 sinnum tím­an­lega í skól­ann (100kr.). Hann hefur því unnið sér inn 230ókr. frá hinu opin­ber­a... afsak­ið, frá mér.

Gunna var hins vegar ótta­legur slóði, fór seint að sofa og vakn­aði seint. Hún tók þó til í her­berg­inu sínu sam­tals 5 sinnum og fær 50kr. fyrir það. 

Gunna veit að ef hún finnur sér ekki a.m.k. 50kr. í tekjur í við­bót getur hún ekki borgað pabbaskatt­inn. Og þá verður pabbi reiður og setur hana í skammar­krók­inn. Hún gerir því samn­ing við bróður sinn: hún sam­þykkir að fara út að labba með Sám, hund­inn hans Jóns, og fær borgað 100 ókr. á mán­uði frá Jóni fyrir þá þjón­ust­u. 

Nú koma mán­aða­mót. Útgjöld rík­is­ins... eh, afsak­ið, útgjöld mín... voru sam­tals 230 ókr til Jóns og 50kr. til Gunnu, þ.e. 280kr. Ég ríf því blað niður í 28 snepla sam­tals, hver og einn 10ókr. virði, og borga Jóni og Gunnu 280 ókr. sam­tals. 

Því næst rukka ég Jón og Gunnu 200ókr. sam­tals í pabbaskatt­inn. 

Athugið nú eft­ir­far­and­i: 

1) Ég varð að búa til ókr. áður en Jón og Gunna borg­uðu mér skatt­inn: ég gaf út Ólakrón­urnar sem þau svo not­uðu til að borga hvoru öðru fyrir selda þjón­ustu (hundalabbit­úra) og mér pabbaskatt­inn. Ég rukk­aði vit­an­lega ekki ókr. fyrst inn, því þær voru bók­staf­lega ekki til, áður en ég borg­aði þeim laun í ókr. fyrir að haga sér vel. 

2) Þar sem ég gef út ókr. eins og ég þarf get ég bók­staf­lega ekki orðið gjald­þrota séu mínar skuld­bind­ingar í ókr. En Jón og Gunna, sem nota ókr., geta klikkað á því að borga sínar skuld­bind­ingar í ókr. ef þau eiga ekki ókr. á þeim tíma sem þeim er gert að standa við þær. 

3) Hall­inn á rekstri rík­is­sjóðs... afsak­ið, mínum rekstri... var sam­tals 80 ókr. Athugið að hall­inn hjá mér var sparn­aður Jóns og Gunnu sam­tals: Jón spar­aði 30 ókr (230 ókr í tekjur frá mér, 100 ókr í skatta, 100 fyrir keypta þjón­ustu) en Gunna 50 ókr (50 ókr. tekjur frá mér, 100 ókr. í skatta, 100 fyrir selda þjón­ust­u), sam­tals 80ókr.

4) Ég get ákveðið mín útgjöld og skatta í ókr. nákvæm­lega eins og ég vil án þess að ótt­ast gjald­þrot í ókr: hví í ósköp­unum ætti ég að klikka á því að borga skuld­bind­ingu sem er í gjald­miðli sem ég gef út

Hins vegar get ég búið til verð­bólgu í hag­kerf­inu ef ég kaupi vörur og þjón­ustu sem ekki er hægt að fram­leiða meira af á þeim tíma: ef ég borg­aði t.d. Gunnu 101kr. á mán­uði fyrir að vaska upp myndi ég e.t.v. hækka verðið á hundalabbs­þjón­ustu í hag­kerf­inu, og búa til verð­bólgu, því Jón þyrfti þá að borga Gunnu 102ókr. fyrir að labba með Sám. En sú verð­bólga er ekki háð hall­anum á mínum rekstri heldur vegna þess að ég tók fram­leiðslu­getu í hag­kerf­inu og beindi henni annað (í upp­vask) en einka­geir­inn hafði ákveðið að væri best (í hundalabb). 

Ef Jón hefði hins vegar frá upp­hafi ekki viljað borgað Gunnu fyrir að fara út að labba með Sám hefði Gunna verið atvinnu­laus og þess vegna hefði ég getað borgað henni fyrir upp­vaskið án þess að eiga mikla hættu á að verð­bólga ykist í hag­kerf­inu í kjöl­far­ið. Magn fram­leiddrar þjón­ustu hefði ein­fald­lega auk­ist sam­hliða mínum halla­rekstri við það að ég réði Gunnu til að vaska upp úr því Jón vildi ekki ráða hana til að fara út að labba með Sám. 

Ég hefði því auð­veld­lega getað borgað Gunnu laun í ókr. fyrir upp­vask og komið meiru í verk á heim­il­inu með því að virkja alla mögu­lega fram­leiðslu­þætti (vinnu­afl) innan þess. En geta mín til að borga með ókr. fyrir það sem ég vil að sé fram­kvæmt á heim­il­inu án þess að hækka verð­lag í ókr. fer ekki eftir því hvort ég eigi ókr. eða hvort það sé halli á mínum ókr. rekstri í hverjum mán­uði heldur hvort að ein­hver sé laus og reiðu­búin til að fram­kvæma það sem ég vil að sé fram­kvæmt. Með öðrum orð­um: eru til aðföng? 

5)  Ég get líka búið til verð­hjöðnun í hag­kerf­inu með því að fjár­festa svo að fram­leiðslu­geta þess auk­ist til langs tíma. Segjum t.d. að ég borg­aði Gunnu, sem er þús­und­þjala­smiður þrátt fyrir að vera stundum löt á morgn­ana, 150ókr. fyrir að þróa og búa til róbot sem tekur til í her­bergj­un­um. Hún gerir það og ég skrifa niður á 15 snepla að þeir séu 10ókr. virði og afhendi henni sem fulln­að­ar­greiðslu. 

Ég rukk­aði ekk­ert í extra skatta á meðan því ég veit að ég get ekki orðið gjald­þrota í ókr. því ég er sá eini í öllum heim­inum sem gefur út ókr.: hall­inn á mínum rekstri s.s. versn­aði um 150ókr. meðan Gunna var að þróa róbot­inn. 

Nú sér róbot­inn um að þrífa her­bergin svo Jón og Gunna þurfa ekki að eyða tíma sínum í það (*hóst* betra vega­kerfi, betra heil­brigð­is­kerfi, fleiri rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efni *hóst*). Ég get þá ráðið Jón og Gunnu í að vökva blómin í stað­inn eða lækkað pabbaskatt­inn svo þau þurfi þá yfir höfuð að vinna minna til að eiga rétt á því að búa undir mínu þaki.

Ynni þau minna hefðu þau vit­an­lega meiri tíma til að yrkja ljóð, þróa bíla og lesa post-Key­nes­ian hag­fræði þar sem fólki er kennt hví grein­ar­mun­ur­inn á milli þeirra sem gefa út pen­inga og þeirra sem nota pen­inga er svona mik­il­vægur í stað­inn fyrir að lesa trölla­sögur um að nú verði að „sýna aðhald til að „lækka skuldir rík­is­sjóðs, „búa í hag­inn fyrir verri tíma og eiga „rými til lán­töku þegar þess verður þörf „enda engin leið að fjár­magna lof­orðin sem ný rík­is­stjórn hefur gefið út.

Ef rík­is­sjóður not­aði íslenska krónu væri allt þetta skyn­sam­legt. En rík­is­sjóður notar ekki íslenska krónu líkt og íslensk heim­ili og fyr­ir­tæki: hann gefur hana út

Rétta spurn­ingin sem ný og kom­andi rík­is­stjórnir verða að spyrja sig er ekki „eigum við íslenskar krónur til að borga fyrir það sem viljum fram­kvæma?“ heldur „eru til aðföng, s.s. vinnu­afl og þekk­ing, til að fram­kvæma það sem við viljum fram­kvæma án þess að það valdi lang­vinni verð­bólg­u?“

Og eftir því sem ég best veit hefur ný rík­is­stjórn ekki svarað þeirri spurn­ingu. Svar óskast!

Greinin birt­ist fyrst á patre­on.com/olaf­ur­mar­geirs­son

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Endurvinnsluhlutfall umbúðaúrgangs innan við 50 prósent hérlendis
Heildarmagn umbúðaúrgangs hérlendis var um 151 kíló á hvern einstakling árið 2019. Endurvinnsluhlutfallið lækkar á milli ára en um fjórðungur plastumbúða ratar í endurvinnslu samanborið við rúmlega 80 prósent pappírs- og pappaumbúða.
Kjarninn 27. september 2021
Talning atkvæða í Borgarnesi og meðferð kjörgagna hefur verið mál málanna í dag.
Talningarskekkjan í Borgarnesi kom í ljós um leið og einn bunki var skoðaður
Engin tilmæli voru sett fram af hálfu landskjörstjórnar um endurtalningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Kjarninn ræddi við Inga Tryggvason formann yfirkjörstjórnar í kjördæminu um ástæður þess að talið var aftur og meðferð kjörgagna.
Kjarninn 27. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Lífskjarasamningurinn heldur – „Ánægjuleg niðurstaða“
Formaður VR segist vera létt að lífskjarasamningurinn haldi. Engin stemning hafi verið hjá atvinnulífinu né almenningi að fara í átök við þessar aðstæður.
Kjarninn 27. september 2021
Sigurjón Njarðarson
Hrunið 2008-2021
Kjarninn 27. september 2021
Þjóðhættir
Þjóðhættir
Þjóðhættir – Siðspillandi ómenning: Um viðtökur jazztónlistar á Íslandi
Kjarninn 27. september 2021
Olaf Scholz, fjármálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, mætir á kosningavöku flokksins í gær.
„Umferðarljósið“ líklegasta niðurstaðan í Þýskalandi
Leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins hefur heitið því að Þjóðverjar fái nýja ríkisstjórn fyrir jól. Það gæti orðið langsótt í ljósi sögunnar. Hann vill byrja á að kanna jarðveginn fyrir stjórn með Græningjum og Frjálslyndum demókrötum.
Kjarninn 27. september 2021
Ákveðið hefur verið að telja atkvæðin í Suðurkjördæmi að nýju.
Talið aftur í Suðurkjördæmi
Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi hefur ákveðið að verða við beiðnum sem bárust frá nokkrum stjórnmálaflokkum um að telja öll atkvæðin í Suðurkjördæmi aftur.
Kjarninn 27. september 2021
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í leiðtogaumræðum fyrir kosningar.
Með óbragð í munni – Mikilvægt að framkvæmd kosninga sé með réttum hætti
Þorgerður Katrín segir að endurtalningin í Norðvesturkjördæmi dragi fram umræðu um jafnt atkvæðavægi. „Það er nauðsynlegt að fá hið rétta fram í þessu máli.“
Kjarninn 27. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar