Um hvað ætti skólamálaumræðan að snúast?

Magnús Þorkelsson skólameistari segir samfélagssáttmála þurfa að vera um um tilgang og markmið skólastarfs.

Auglýsing

Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um skólamál. Stjórnmálaflokkar hafa ályktað, umfjöllun verið áberandi um kennaramenntun, starfsmenntun og fleira mætti telja. Yfirvofandi kennarskortur grunnskóla, löngu þekktur kennaraskortur leikskóla og fleira hafa kallað á lausnir til að fá fleiri í kennaranám. Spurt hefur verið hvers vegna við erum ekki að ná árangri í að heilla ungt fólk í verknám, en sú barátta hefur staðið í liðlega hálfa öld. Þá takast menn á um mismunandi rekstrarform skóla. Formaður FG, Ólafur Loftsson, hefur bent á að það séu þúsundir einstaklinga sem eru með réttindi en starfa ekki við kennslu.

Getur verið að við séum ekki að horfa á málið úr réttri átt? Að það sé ekki nemendum að kenna að ekki fáist fleiri í verknám? Að það séu ekki eingöngu fjármunir sem heilla fólk inn í kennslustofurnar til að vinna með ungu fólki og börnum?

Þegar rætt er um skólamál hér á landi þá snýst umræðan ákaflega mikið um rekstur skólastofnana og skólastiga. Þannig eru launamál þeirra sem hjá skólunum starfa afskaplega ofarlega í umræðunni. Hvernig væri að ræða sífellt margbrotnari aðstæður í skólastofunni, flóknara agaumhverfi og skort á samstöðu milli skólanna og samfélagsins?

Auglýsing

Það virðist vera þægileg lausn í umræðunni að horfa á skólakerfið og velta vöngum yfir rekstraformum og launakjörum. Eiga skólar að vera einkareknir, reknir af sveitarfélögum eða ríki? Eiga framhaldsskólar að vera bekkjarkerfisskólar eða áfangaskólar? Hvernig eflum við starfsnám, hversu mikla fjármuni þarf til þess?

Þjóðkjörnir fulltrúar fara oft mikinn um Pisa könnunina, fjármuni sem skólar soga til sín og kannski ekki síst um það hvernig skóla gengur að halda sig innan ramma fjárlaga. Samtök kennara ræða vitaskuld aðallega launamál og ráðuneyti menntamála læðir út námskrám með allskonar frábærum tillögum sem það fylgir illa eftir.

Umræðan um tilgang skólastarfs, markmið skólastarfs og inntak þess er frekar lítið áberandi ef satt skal segja.

Skólakerfið, frá leikskóla til framhaldsskóla hefur tilgang sem lýst er í annarri lagagrein allra lagabálkanna um þessi skólastig. Þar eru talin upp atriði sem skólinn á að sinna og segir m.a. í ofangreindum lögum að hlutverk skóla sé: „að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.“ Þá eru talin upp atriði sem skólinn skal leitast við að sinna en þau eru t.d. að „efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun“ svo nokkuð sé nefnt.

Þessi lagagrein og inntak hennar er afar sjaldan til umræðu, innan skólanna, úti í samfélaginu eða af hálfu löggjafans. Það kann því að vera rétt að spyrja sig hvort það þurfi að leita nýrra leiða til að efla í raun þá þætti sem menn segjast vilja efla.

Tökum starfsnámið. Það er búið að tala um að efla það svo árum skiptir en með litlum árangri. Kannski þarf að skoða nýjar leiðir. Illugi Gunnarsson, fyrrum menntamálaráðherra benti á það ítrekað að það væri ekki við hæfi að neita ungmennum um verknám vegna þess að þau væru ekki með samning við meistara, eins og krafist er í sumum greinum. Þarna er eitt. Annað er að verðandi nýnemar heyra orðið á götunni um meðalaldur nemenda í verknámi sem er sagður vera liðlega 20 ár, sem mun hafa fælandi áhrif á börn og foreldra. Kannski þarf að skoða þennan flöt? Heilbrigðisgreinar eiga undir högg að sækja m.a. vegna umræðunnar um heilbrigðiskerfið. Það virðist ekki spennandi vettvangur rétt sem stendur.

Annað sem hefur án efa mikil áhrif á umræðuna um framhaldsskóla er sú umfjöllun sem fer af stað um það hver sé vinsælasti skólinn. Þetta gerist í lok mars, byrjun apríl á hverju ári og byggir á forinnritun 10. bekkinga í framhaldsskóla. Val nemenda í forinnritun byggir á væntingum þeirra til eigin námsárangurs sem eru ekki endilga raunhæfar.

Fjölmiðlar fjalla ekki um þennan vinsælasta skóla út frá starfi hans, inntaki hans og öðrum góðum hlutum sem þar fara fram. Hann er annálaður fyrir félagslíf og þykir undirbúa nemendur sína vel undir frekara nám svo fátt eitt sé nefnt. Um þetta er ekki fjallað.

Sama gildir um aðra skóla. Metnaðarfullir kórar og leikverk, gróskumikið félagslíf, skólastefnur s.s. Heilsueflandi framhaldsskóli, afrekssvið, starfsbrautir fyrir nemendur með þroskafrávik, þjónusta vegna allskonar námserfiðleika, sálfræðiþjónusta, jafnréttisumræða og kynjafræði, samstarf listaskóla og bóknámsskóla, innleiðing og beiting núvitundar á öllum skólastigum. Allt er þetta og margt fleira í gangi en vekur ekki áhuga fjölmiðla.

Birtist starf framhaldsskólanna í fjölmiðlum? Jú, útskriftir, sérlega á vorin, fá nokkra umfjöllun, sérlega þegar um stúdenta er að ræða. Við sjáum sömu skólana í Gettu betur í sjónvarpi ár eftir ár en sú keppni endurspeglar ekki skólastarf. Það verður fróðlegt að sjá hvaða áhrif það hefur að nýir sigurvegarar hafa birst undanfarin ár.

Hvað kennaraskortinn varðar þá væri kannski rétt að fá fram umræðu um tilgang og markmið skólastarfs. Að setja upp einskonar samfélagssáttmála um þessi atriði, tryggja það að skólarnir geti staðið undir þeim niðurstöðum og koma á friði í þessu stórfenglega kerfi þannig að stjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn viti stöðu sína, viti að hverju þeir ganga, viti hvers sé vænst og viti að þeir njóti trausts. Eins og staðan er í dag þá líður skólafólki oft eins og það sé við störf í fúamýri og hafi ekki fast land að standa á.

Launamál, kerfismál, rekstrarmál og Pisa hafa tröllriðið umræðum um skólastarf í áratugi og á sama tíma hafa ýmis flókin verkefni margfaldast og markalínur orðið óljósari.

Hví skyldum við vilja verða efst í Pisa? Höfum við áhuga, sem samfélag, að breyta því sem breyta þarf til að það sé hægt? Viljum við utanbókarlærdóm eins og Singapore leggur áherslu á? Viljum við greiða laun eins og Finnar gera? Viljum við verklag eins og krafist er í Ontario? Þetta er órætt með öllu.

Í raun og veru geta menn rifist um Pisa eins og þeir vilja, kerfi skólastarfs og fjármál mega fara í sama farveg. Á meðan menn eru að bera sig saman við önnur lönd að sumu leyti en sleppa lykilatriðum í þeim samanburði þá komumst við næsta lítið áfram. Þannig má nefna til dæmis að í flestum nágrannalöndum okkar fá nemendur í framhaldsskólum námsstyrki auk þess sem námsgögn eru ókeypis eða því sem næst.

Að mínu viti er það mikilvægt að stofna til samfélagslegrar umræðu sem þarf að snúast um inntak og tilgang skólastarfs. Umræðan ætti að hafa þann tilgang að leiða fram hvað þarf til að ná þeim tilgangi sem sammæli verður um og byggja upp það inntak sem þar kæmi fram.

Inn í þá umræðu er rétt að draga nemendur og starfsfólk skólanna og spyrja hvar þörfin sé brýnust. Þá mætti hafa með ráðuneytisfólk, þingmenn, skólastjórnendur og foreldra. Það gæti einmitt orðið fróðlegt að hafa nemendur efst á listanum.

Skólastarf er ekki kostnaður. Skólastarf er fjárfesting til framtíðar. Við þurfum að hafa þolinmæði til að fjárfesta til lengri tíma. Skyndilegar breytingar, skammtímasjónarmið og endurtekin átök um sömu málin þjóna eingöngu því að skaða skólastarfið. Það hvaða form það tekur, bekkir, áfangar, árafjöldi o.s.frv. eru síðan þeir valkostir sem skólarnir velja úr þegar stefnan liggur fyrir.

Það skiptir engu máli eftir hvaða kerfi skóli starfar. Það eru verklagið, hugmyndafræðin, lausnarmiðað starf og uppbyggilegur hugsanagangur sem skipta mun meira máli. Jákvæður og kærleiksríkur skólabragur vega þyngra en nokkurt kerfi.

Ég fullyrði að á meðan órói er á kennarastofum í skólum landsins, vegna launakjara, óljósra vinnukrafna og sífellt flóknara starfsumhverfis þá verður erfitt að heilla fólk í kennaranám. Ég fullyrði einnig að það verði að breyta umgjörð starfsnáms áður en menn sjái breytingar. Og loks er ég næsta sannfærður um það að ef notaðir eru rangir mælikvarðar á skólastarf, þá fáum við aldrei nothæfar niðurstöður.

Peningar og kerfi eru ekki það sem mótar skólastarf. Það er samfélagið sem gerir það. Með því sýnir það þann metnað sem í því býr gagnvart börnunum sínum, þeim sem taka við landinu og eiga að stjórna því síðar.

Viljum við ekki undirbúa þau svo vel að þau geti tekið við og kannski bætt fyrir það sem illa fór hjá þeim sem á undan fóru? Gera einskonar samfélagssáttmála. Þegar hann liggur fyrir getum við farið að ræða fjármál, kerfi og viðlíka. Ekki fyrr.

Höfundur er skólameistari Flensborgarskóla

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar