Auglýsing

Fyrir rúmu ári síðan, nánar tiltekið 28. október 2017, fóru fram Alþingiskosningar. Það má segja að sigurvegarar þeirra kosninga hafi verið karlar. Sérstaklega miðaldra karlar. Þegar kosið var í lok október 2016, einungis einu ári áður, náðu 30 konur kjöri til Alþingis og hlutfall kvenna á meðal þingmanna varð 47,6 prósent. Það hafði aldrei verið hærra.

Í október 2017 fækkaði konunum á þingi um sex, og voru allt í einu orðnar 24 á móti 39 körlum. Hlutfall kvenna fór niður í 38 prósent og hafði ekki verið lægra eftir hrun. Hjá Sjálfstæðisflokknum, stærsta flokki landsins, er kynjahlutfallið nú til að mynda þannig að 12 þingmenn eru karlar en fjórir eru konur. Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru að uppistöðu karlaflokkar. Þannig eru níu af ellefu þingmönnum flokkanna tveggja karlar. Þá eru fjórir af sex þingmönnum Pírata karlar og fjórir af sjö þingmönnum Samfylkingarinnar. Tveir þingflokkar innihalda fleiri konur en karla, annars vegar Framsókn þar sem konurnar eru fimm af átta þingmönnum og hins vegar Vinstri græn þar sem sex af ellefu eru konur.

Eitt skref afturábak en tvö fram á við

Það mátti með réttu líta á síðustu kosningar sem stórt skref aftur á bak í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna. Sérstaklega í ljósi þess að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafði sprungið eftir mótmæli fólks á netinu vegna þöggunar á kynferðisofbeldi, aðallega gegn konum, sem fóru fram undir myllumerkinu #höfumhátt og því að þá var hin svokallaða #metoo bylting í hámæli.

Það hefur hins vegar ýmislegt gerst síðan þá sem gefur til kynna að stundum þurfi að taka eitt skref afturábak til að geta tekið tvö skref fram á við.

Auglýsing
Frá því að Ísland öðlaðist fullveldi fyrir 100 árum síðan hafa 25 karlar verið forsætisráðherrar. Í lok nóvember varð Katrín Jakobsdóttir einungis önnur konan til að verða forsætisráðherra í Íslandssögunni. Sú fyrsta var Jóhanna Sigurðardóttir sem settist í þann stól árið 2009.

Síðan þá hefur átt sér stað ákveðin kúvending á stöðu kvenna víðsvegar í samfélaginu. Á hinu pólitíska sviði er staðan til að mynda þannig að í síðustu borgarstjórnarkosningum voru átta flokkar kjörnir í borgarstjórn. Oddvitar sex þeirra eru konur. Alls voru 15 þeirra 23 borgarfulltrúa sem kjörnir voru í maí konur. Einungis Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru leidd af körlum. Það má því með sanni segja að konur verði ráðandi í Reykjavík næstu árin.

Á Alþingi er staðan þannig að konur eru formenn Viðreisnar, Flokks fólksins og Vinstri grænna. Auk þess er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sem stendur formaður þingflokks Pírata sem kjósa sér ekki formann heldur vinna í flötum valdastrúktúr.

Konur næstar í röðinni í sögulegu valdaflokkunum

Því til viðbótar var Þordís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kosin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í mars og augljóst að sitjandi formaður lítur til hennar sem arftaka þegar hann loks hættir í stjórnmálum. Þar mun hún vitanlega mæta harðri andstöðu og samkeppni íhaldsamari afla og niðurstaða þeirrar rimmu mun ráða miklu um hvernig flokkur Sjálfstæðisflokkurinn verður í framtíðinni. Tekur hann skref aftur í átt að frjálsyndi og alþjóðahyggju eða fer hann nær afturhaldssemi, kreddum og einangrunarstefnu.

Þótt Bjarni Benediktsson segist enn ekki vera farinn að hugsa um að hætta þá verður að horfa á þær staðreyndir að hann hefur leitt flokkinn í tíu ár í byrjun næsta árs, að sá áratugur hefur verið þéttsetinn átökum og erfiðum málum sem tengjast honum beint og að niðurstaða þeirra þingkosninga sem hann hefur leitt flokkinn í gegnum eru fjórar af fimm verstu niðurstöðum Sjálfstæðisflokksins frá upphafi. Þá hafa síðustu þrjár ríkisstjórnin sem flokkurinn hefur átt aðild að ekki náð að sitja út heilt kjörtímabil.

Í dag er Sjálfstæðisflokkurinn að mælast með undir 20 prósent fylgi, sem hefur einungis gerst þrisvar áður í sögu mælinga. Á sama tíma er Þórdís Kolbrún að sýna festu og leiðtogarhæfileika þar sem hún er skilin eftir úti á berangri af öðrum forystumönnum ríkisstjórnarinnar við að verja og útskýra þriðja orkupakkann.

Auglýsing
Framsóknarflokkurinn er enn í þeim fasa að jafna sig eftir gríðarleg átök og klofning, sem líkt og svo margt annað snérust bara um persónu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Flokkurinn fékk sína verstu útreið í sögunni í síðustu kosningum og virðist ganga afar illa að rífa sig upp úr því fari, ef marka má skoðanakannanir. Fylgi Framsóknar mælist nú um 8,8 prósent og þó að það hafi vissulega mælst lægra áður þá hlýtur staða flokksins, og afhroðið sem hann beið í borgarstjórnarkosningunum í maí þar sem hann hlaut einungis 3,2 prósent atkvæða og náði ekki manni inn, að vera mikið áhyggjuefni.

Það er því illa falið leyndarmál að margir innan flokksins horfa til Lilju Alfreðsdóttur, varaformannsins sem tókst að ná inn á þing í fyrra þrátt fyrir að vera í framboði í Reykjavík, sem framtíðarleiðtoga flokksins.

Ný ásýnd á vinnumarkaði

Í verkalýðsforystunni hefur staða kvenna líka sannarlega gjörbreyst. Og nýir kaflar skrifaðir.

Þar var fyrir á fleti Þórunn Sveinbjarnardóttir sem formaður BHM. Í ár bættist fyrst við Sólveig Anna Jónsdóttir, sem var kjörin formaður Eflingar, næst stærsta stéttarfélags landsins, fyrst kvenna. Á síðustu vikum var áframhaldandi kvennforysta BSRB tryggð með formannskjöri Sonju Ýrar Þorbergsdóttur og loks var Drífa Snædal svo kjörin forseti Alþýðusambands Íslands, stærstu fjöldahreyfingar launamanna í landinu. Hún var að sjálfsögðu fyrsta konan til að vera kjörin í það embætti í 102 ára sögu sambandsins. Þá eru ótaldar fjölmargar aðrar konur sem stýra sterkum stéttarfélögum og hafa gert í lengri tíma.

Atvinnurekendamegin í baráttunni hefur staðan líka skánað. Þannig er formaður Samtaka iðnaðarins konan Guðrún Hafsteinsdóttir. Konan Margrét Sanders er formaður Samtaka verslunar og þjónustu. Og konan Bjarnheiður Hallsdóttir er formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Það þýðir að nú er helmingur stjórnarformanna aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins konur. Þau þrjú félög sem það á ekki við eru hagsmunagæslusamtök sjávarútvegs, orkusölu og fjármálafyrirtækja.

Þá er auðvitað ótalið að Rannveig Sigurðardóttir var í júní skipuð aðstoðarseðlabankastjóri. Það er í fyrsta sinn sem kona er skipuð í æðstu stjórn Seðlabanka Íslands. Á næsta ári mun Már Guðmundsson svo láta af störfum sem seðlabankastjóri. Þá mun Katrín Jakobsdóttir án efa fá tækifæri til að brjóta blað í sögunni og skipa konu yfir bankann.

Síðasta vígið, peningavígið

Þótt ótrúlega stór skref hafi verið stigin þá er það enn, því miður enn þannig að karlar stýra að nær öllu leyti peningum á Íslandi. Í árlegum úttektum Kjarnans, sem framkvæmdar hafa verið snemma árs frá árinu 2014, hefur hlutfall karla á meðal æðstu stjórnenda viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og -miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða að jafnaði verið yfir 90 prósent.

Auglýsing
Ofangreindur hópur stýrir þúsundum milljarða króna og hefur því gríðarleg völd í samfélaginu.

Staðan er nánast hlægileg innan skráðra félaga, þar sem engin kona er forstjóri. Sama er uppi á teningnum í verðbréfafyrirtækjum. Konur er sjaldséðari þar en draugar.

Lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja tóku að fullu gildi hér á landi í sept­­em­ber 2013 og sam­­kvæmt þeim ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­­menn að tryggja að hlut­­fall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 pró­­sent­­um. Árið eftir það náði hlut­­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja af þess­­ari stærð hámarki, fór upp í 33,2 pró­­sent, en hefur síðan farið lækk­­andi aft­­ur. Í árslok 2017 var hlutfallið til að mynda 32,6 prósent. Í ljósi þessa liggur fyrir að hið opinbera ætti að beita sektarákvæðum á þau fyrirtæki sem uppfylla ekki skilyrðin. Auk þess ættu lífeyrissjóðir landsins, sem eru langstærstu eigendur atvinnulífsins, að beita mætti sínum þannig að fjárfestingar þeirra séu skilyrtar því að jafnræði sé milli kynja í stjórnenda- og stjórnarstöðum í þeim fyrirtækjum sem sjóðirnir kaupa í.

Margt hefur áorkast á skömmum tíma. Líkast til meira en flestir gera sér grein fyrir. Konur eru hins vegar enn 49 prósent landsmanna. Valdajafnvægið í samfélaginu er enn í órafjarlægð frá því að endurspegla þá stöðu.

Enn og aftur er mikilvægt að benda á að karlar eru ekki hæfi­leik­a­rík­ari en kon­ur. Ekkert skýrir aukin völd þeirra yfir samfélagsþróuninni annað en söguleg forréttindi.

Þau forréttindi er hægt að afnema með viljanum einum saman.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari