Auglýsing

Fyrir rúmu ári síð­an, nánar til­tekið 28. októ­ber 2017, fóru fram Alþing­is­kosn­ing­ar. Það má segja að sig­ur­veg­arar þeirra kosn­inga hafi verið karl­ar. Sér­stak­lega mið­aldra karl­ar. Þegar kosið var í lok októ­ber 2016, ein­ungis einu ári áður, náðu 30 konur kjöri til Alþingis og hlut­fall kvenna á meðal þing­manna varð 47,6 pró­sent. Það hafði aldrei verið hærra.

Í októ­ber 2017 fækk­aði kon­unum á þingi um sex, og voru allt í einu orðnar 24 á móti 39 körl­um. Hlut­fall kvenna fór niður í 38 pró­sent og hafði ekki verið lægra eftir hrun. Hjá Sjálf­stæð­is­flokkn­um, stærsta flokki lands­ins, er kynja­hlut­fallið nú til að mynda þannig að 12 þing­menn eru karlar en fjórir eru kon­ur. Bæði Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins eru að uppi­stöðu karla­flokk­ar. Þannig eru níu af ell­efu þing­mönnum flokk­anna tveggja karl­ar. Þá eru fjórir af sex þing­mönnum Pírata karlar og fjórir af sjö þing­mönnum Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Tveir þing­flokkar inni­halda fleiri konur en karla, ann­ars vegar Fram­sókn þar sem kon­urnar eru fimm af átta þing­mönnum og hins vegar Vinstri græn þar sem sex af ell­efu eru kon­ur.

Eitt skref aft­urá­bak en tvö fram á við

Það mátti með réttu líta á síð­ustu kosn­ingar sem stórt skref aftur á bak í bar­átt­unni fyrir jafn­rétti kynj­anna. Sér­stak­lega í ljósi þess að rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar hafði sprungið eftir mót­mæli fólks á net­inu vegna þögg­unar á kyn­ferð­is­of­beldi, aðal­lega gegn kon­um, sem fóru fram undir myllu­merk­inu #höf­um­hátt og því að þá var hin svo­kall­aða #metoo bylt­ing í hámæli.

Það hefur hins vegar ýmis­legt gerst síðan þá sem gefur til kynna að stundum þurfi að taka eitt skref aft­urá­bak til að geta tekið tvö skref fram á við.

Auglýsing
Frá því að Ísland öðl­að­ist full­veldi fyrir 100 árum síðan hafa 25 karlar verið for­sæt­is­ráð­herr­ar. Í lok nóv­em­ber varð Katrín Jak­obs­dóttir ein­ungis önnur konan til að verða for­sæt­is­ráð­herra í Íslands­sög­unni. Sú fyrsta var Jóhanna Sig­urð­ar­dóttir sem sett­ist í þann stól árið 2009.

Síðan þá hefur átt sér stað ákveðin kúvend­ing á stöðu kvenna víðs­vegar í sam­fé­lag­inu. Á hinu póli­tíska sviði er staðan til að mynda þannig að í síð­ustu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ingum voru átta flokkar kjörnir í borg­ar­stjórn. Odd­vitar sex þeirra eru kon­ur. Alls voru 15 þeirra 23 borg­ar­full­trúa sem kjörnir voru í maí kon­ur. Ein­ungis Sjálf­stæð­is­flokkur og Sam­fylk­ing voru leidd af körl­um. Það má því með sanni segja að konur verði ráð­andi í Reykja­vík næstu árin.

Á Alþingi er staðan þannig að konur eru for­menn Við­reisn­ar, Flokks fólks­ins og Vinstri grænna. Auk þess er Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir sem stendur for­maður þing­flokks Pírata sem kjósa sér ekki for­mann heldur vinna í flötum valdastrúktúr.

Konur næstar í röð­inni í sögu­legu valda­flokk­unum

Því til við­bótar var Þor­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir kosin vara­for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins á lands­fundi hans í mars og aug­ljóst að sitj­andi for­maður lítur til hennar sem arf­taka þegar hann loks hættir í stjórn­mál­um. Þar mun hún vit­an­lega mæta harðri and­stöðu og sam­keppni íhaldsam­ari afla og nið­ur­staða þeirrar rimmu mun ráða miklu um hvernig flokkur Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn verður í fram­tíð­inni. Tekur hann skref aftur í átt að frjál­syndi og alþjóða­hyggju eða fer hann nær aft­ur­halds­semi, kreddum og ein­angr­un­ar­stefnu.

Þótt Bjarni Bene­dikts­son seg­ist enn ekki vera far­inn að hugsa um að hætta þá verður að horfa á þær stað­reyndir að hann hefur leitt flokk­inn í tíu ár í byrjun næsta árs, að sá ára­tugur hefur verið þétt­set­inn átökum og erf­iðum málum sem tengj­ast honum beint og að nið­ur­staða þeirra þing­kosn­inga sem hann hefur leitt flokk­inn í gegnum eru fjórar af fimm verstu nið­ur­stöðum Sjálf­stæð­is­flokks­ins frá upp­hafi. Þá hafa síð­ustu þrjár rík­is­stjórnin sem flokk­ur­inn hefur átt aðild að ekki náð að sitja út heilt kjör­tíma­bil.

Í dag er Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn að mæl­ast með undir 20 pró­sent fylgi, sem hefur ein­ungis gerst þrisvar áður í sögu mæl­inga. Á sama tíma er Þór­dís Kol­brún að sýna festu og leið­tog­ar­hæfi­leika þar sem hún er skilin eftir úti á ber­angri af öðrum for­ystu­mönnum rík­is­stjórn­ar­innar við að verja og útskýra þriðja orku­pakk­ann.

Auglýsing
Framsóknarflokkurinn er enn í þeim fasa að jafna sig eftir gríð­ar­leg átök og klofn­ing, sem líkt og svo margt annað snér­ust bara um per­sónu Sig­mundar Dav­íðs Gunn­laugs­son­ar. Flokk­ur­inn fékk sína verstu útreið í sög­unni í síð­ustu kosn­ingum og virð­ist ganga afar illa að rífa sig upp úr því fari, ef marka má skoð­ana­kann­an­ir. Fylgi Fram­sóknar mælist nú um 8,8 pró­sent og þó að það hafi vissu­lega mælst lægra áður þá hlýtur staða flokks­ins, og afhroðið sem hann beið í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum í maí þar sem hann hlaut ein­ungis 3,2 pró­sent atkvæða og náði ekki manni inn, að vera mikið áhyggju­efni.

Það er því illa falið leynd­ar­mál að margir innan flokks­ins horfa til Lilju Alfreðs­dótt­ur, vara­for­manns­ins sem tókst að ná inn á þing í fyrra þrátt fyrir að vera í fram­boði í Reykja­vík, sem fram­tíð­ar­leið­toga flokks­ins.

Ný ásýnd á vinnu­mark­aði

Í verka­lýðs­for­yst­unni hefur staða kvenna líka sann­ar­lega gjör­breyst. Og nýir kaflar skrif­að­ir.

Þar var fyrir á fleti Þór­unn Svein­bjarn­ar­dóttir sem for­maður BHM. Í ár bætt­ist fyrst við Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, sem var kjörin for­maður Efl­ing­ar, næst stærsta stétt­ar­fé­lags lands­ins, fyrst kvenna. Á síð­ustu vikum var áfram­hald­andi kvenn­for­ysta BSRB tryggð með for­manns­kjöri Sonju Ýrar Þor­bergs­dóttur og loks var Drífa Snæ­dal svo kjörin for­seti Alþýðu­sam­bands Íslands, stærstu fjölda­hreyf­ingar launa­manna í land­inu. Hún var að sjálf­sögðu fyrsta konan til að vera kjörin í það emb­ætti í 102 ára sögu sam­bands­ins. Þá eru ótaldar fjöl­margar aðrar konur sem stýra sterkum stétt­ar­fé­lögum og hafa gert í lengri tíma.

Atvinnu­rek­enda­megin í bar­átt­unni hefur staðan líka skán­að. Þannig er for­maður Sam­taka iðn­að­ar­ins konan Guð­rún Haf­steins­dótt­ir. Konan Mar­grét Sand­ers er for­maður Sam­taka versl­unar og þjón­ustu. Og konan Bjarn­heiður Halls­dóttir er for­maður Sam­taka ferða­þjón­ust­unn­ar. Það þýðir að nú er helm­ingur stjórn­ar­for­manna aðild­ar­fé­laga Sam­taka atvinnu­lífs­ins kon­ur. Þau þrjú félög sem það á ekki við eru hags­muna­gæslu­sam­tök sjáv­ar­út­vegs, orku­sölu og fjár­mála­fyr­ir­tækja.

Þá er auð­vitað ótalið að Rann­veig Sig­urð­ar­dóttir var í júní skipuð aðstoð­ar­seðla­banka­stjóri. Það er í fyrsta sinn sem kona er skipuð í æðstu stjórn Seðla­banka Íslands. Á næsta ári mun Már Guð­munds­son svo láta af störfum sem seðla­banka­stjóri. Þá mun Katrín Jak­obs­dóttir án efa fá tæki­færi til að brjóta blað í sög­unni og skipa konu yfir bank­ann.

Síð­asta víg­ið, pen­inga­vígið

Þótt ótrú­lega stór skref hafi verið stigin þá er það enn, því miður enn þannig að karlar stýra að nær öllu leyti pen­ingum á Íslandi. Í árlegum úttektum Kjarn­ans, sem fram­kvæmdar hafa verið snemma árs frá árinu 2014, hefur hlut­fall karla á meðal æðstu stjórn­enda við­skipta­banka, spari­sjóða, líf­eyr­is­sjóða, skráðra félaga, óskráðra trygg­inga­fé­laga, lána­fyr­ir­tækja, verð­bréfa­fyr­ir­tækja og -miðl­ana, fram­taks­sjóða, orku­fyr­ir­tækja, greiðslu­stofn­ana, Kaup­hallar og lána­sjóða að jafn­aði verið yfir 90 pró­sent.

Auglýsing
Ofangreindur hópur stýrir þús­undum millj­arða króna og hefur því gríð­ar­leg völd í sam­fé­lag­inu.

Staðan er nán­ast hlægi­leg innan skráðra félaga, þar sem engin kona er for­stjóri. Sama er uppi á ten­ingnum í verð­bréfa­fyr­ir­tækj­um. Konur er sjald­séð­ari þar en draug­ar.

Lög um kynja­kvóta í stjórnum fyr­ir­tækja tóku að fullu gildi hér á landi í sept­­­em­ber 2013 og sam­­­kvæmt þeim ber fyr­ir­tækjum með 50 eða fleiri starfs­­­menn að tryggja að hlut­­­fall hvors kyns í stjórn sé ekki undir 40 pró­­­sent­­­um. Árið eftir það náði hlut­­­fall kvenna í stjórnum fyr­ir­tækja af þess­­­ari stærð hámarki, fór upp í 33,2 pró­­­sent, en hefur síðan farið lækk­­­andi aft­­­ur. Í árs­lok 2017 var hlut­fallið til að mynda 32,6 pró­sent. Í ljósi þessa liggur fyrir að hið opin­bera ætti að beita sekt­ar­á­kvæðum á þau fyr­ir­tæki sem upp­fylla ekki skil­yrð­in. Auk þess ættu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins, sem eru langstærstu eig­endur atvinnu­lífs­ins, að beita mætti sínum þannig að fjár­fest­ingar þeirra séu skil­yrtar því að jafn­ræði sé milli kynja í stjórn­enda- og stjórn­ar­stöðum í þeim fyr­ir­tækjum sem sjóð­irnir kaupa í.

Margt hefur áorkast á skömmum tíma. Lík­ast til meira en flestir gera sér grein fyr­ir. Konur eru hins vegar enn 49 pró­sent lands­manna. Valda­jafn­vægið í sam­fé­lag­inu er enn í óra­fjar­lægð frá því að end­ur­spegla þá stöðu.

Enn og aftur er mik­il­vægt að benda á að karlar eru ekki hæfi­­leik­a­­rík­­­ari en kon­­ur. Ekk­ert skýrir aukin völd þeirra yfir sam­fé­lags­þró­un­inni annað en sögu­leg for­rétt­indi.

Þau for­rétt­indi er hægt að afnema með vilj­anum einum sam­an.

Höskuldur H. Ólafsson hringir bjöllunni frægu við upphaf viðskipta með bréf í Arion banka fyrir einu ári.
Fyrir einu ári síðan: Arion banki skráður á markað
Á þessum degi fyrir einu ári síðan, þann 15. júní 2018, voru bréf í Arion banka tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands. Hann varð þar með fyrsti íslenski bankinn til að verða skráður á markað eftir bankahrunið í október 2008.
Kjarninn 15. júní 2019
Sigurður Hlöðversson
Makríll á leið í kvóta – Eftir höfðinu dansa limirnir
Kjarninn 15. júní 2019
Margrét Tryggvadóttir
Hver skapaði skrímslið?
Leslistinn 15. júní 2019
Tíðavörur loks viðurkenndar sem nauðsyn
Alþingi samþykkti á dögunum að lækka virðisaukaskatt á tíðavörum úr efra skattþrepi í neðra. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að konur hafa á síðustu árum vakið athygli á því að það skjóti skökku við að skattleggja ekki tíðavörur sem nauðsynjavörur.
Kjarninn 15. júní 2019
Órói í stjórnmálum haggar varla fylgi stjórnmálablokka
Meirihluti stjórnarandstöðunnar mælist nú með meira fylgi en stjórnarflokkarnir þrír, frjálslyndu miðjuflokkarnir hafa sýnt mikinn stöðugleika í könnunum um langt skeið og fylgi Miðflokksins haggast varla þrátt fyrir mikla fyrirferð.
Kjarninn 15. júní 2019
Wikileaks: Blaðamennska í almannaþágu eða glæpur?
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, á í hættu á að vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann gæti átt yfir höfði sér 175 ár í fangelsi verði hann fundinn sekur.
Kjarninn 15. júní 2019
Segir forystu Sjálfstæðisflokksins vera sama um vilja flokksmanna
Stríð Davíðs Oddssonar og Morgunblaðsins sem hann stýrir við Sjálfstæðisflokkinn heldur áfram á síðum blaðsins í dag. Þar gagnrýnir hann forystu flokksins harkalega og bætir í gagnrýni sína vegna þriðja orkupakkans.
Kjarninn 15. júní 2019
Nýliðunarbrestur veldur Hafró áhyggjum
Hlýnun sjávar í íslenskri lögsögu er einn áhrifaþátturinn sem Hafró fylgist grannt með.
Kjarninn 14. júní 2019
Meira úr sama flokkiLeiðari