Alþingi á árinu 2018

„Það voru vonbrigði að sjá aftur hægristefnuna í skatta- og bótamálum í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, nánast þá sömu og fylgt hefur verið síðastliðin fimm ár.“

Auglýsing

Árið 2018 var um margt sér­stakt á Alþingi Íslend­inga. Framan af ári var lítið annað gert en að skipa í þverpóli­tíska starfs­hópa um hin ýmsu mál, oft­ast þau  sem rík­is­stjórnin getur ekki komið sér saman um, s.s. um mið­há­lend­is­þjóð­garð, orku­stefnu, við­brögð við plast­mengun og um breyt­ingar á stjórn­ar­skránni svo dæmi séu tek­in. Fá prinsipp var að finna hjá rík­is­stjórn­inni, hvort sem litið var til kjara­deilu ljós­mæðra, skip­unar dóm­ara, utan­rík­is­stefnu, vel­ferð­ar­mála eða hval­veiða. Kjörað­stæður voru þó á árinu  til að breyta sam­fé­lag­inu í þágu jafn­aðar og rétt­lætis en þær voru ekki nýttar svo neinu nemi.

Póli­tíska stefnu vant­aði í málin sem þingið fjall­aði um í nefndum og í þing­sal alveg þar til að fjár­mála­á­ætl­unin var lögð fram í apríl og stefnan í rík­is­fjár­málum birt til næstu fimm ára.

Þar var svo sann­ar­lega póli­tík að finna.

Auglýsing

Fjár­mála­stefna for­tíðar

Það voru von­brigði að sjá aftur hægri­stefn­una í skatta- og bóta­málum í fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar til næstu fimm ára, nán­ast þá sömu og fylgt hefur verið síð­ast­liðin fimm ár. Fjár­mála­á­ætl­unin sem meiri­hlut­inn sam­þykkti síð­ast­liðið vor sýnir svart á hvítu að ekki á að efna lof­orðin um stór­á­tak í inn­viða­upp­bygg­ingu. Með fjár­mála­stefnu í járnum er ekki mögu­legt að auka útgjöld eins og þarf nema að afla tekna. Það sér hver mað­ur. Besta leiðin er að gera það í gegnum rétt­látt skatt­kerfi en það stendur ekki til sam­kvæmt áætlun rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Rík­is­stjórnin vill að fram­tíð­ar­skatt­kerfið verði ein­fald­ara, skil­virkara og gegn­særra en nú. Ráð­herr­arnir vísa í hug­myndir Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins frá 2015 og sam­starfs­vett­vangs um aukna hag­sæld frá 2016. Báðar hug­mynd­irnar ganga út á bóta­kerfi sem sér­stakan fátækra­styrk og að hús­næð­is­stuðn­ingur í formi vaxta­bóta heyri sög­unni til. Ein­stak­lingar fái mis­mun­andi háan per­sónu­af­slátt eftir tekjum og vinnu­fram­lagi en skatt­pró­sentan verði aðeins ein. Jafn­að­ar­menn líta svo á að skatt­kerfið hafi tvö­falt hlut­verk - sé til tekju­öfl­unar en líka til tekju­jöfn­un­ar. Þessar hug­myndir stjórn­ar­flokk­anna ganga ekki út frá þeirri sýn. Nær­tækara væri fyrir rík­is­stjórn­ina að líta til hinna Norð­ur­land­anna í þessum efnum frekar en að leita í smiðju til Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins, ef  skatt­kerfið á að stuðla að auk­inni vel­ferð fyrir alla. 

Haust­þingið hófst með kynn­ingu á fjár­laga­frum­varp­inu sem samið var eftir útlínum fjár­mála­á­ætl­un­ar­inn­ar. Fjár­lög voru síðan sam­þykkt í byrjun des­em­ber. Sam­fylk­ingin lagði fram raun­hæfar og vel rök­studdar til­lögur um betri heil­brigð­is­þjón­ustu um allt land, aukið fjár­magn til skóla, lög­reglu, vega­gerðar og til ungra barna­fjöl­skyldna ásamt sann­gjarni leið­rétt­ingu á kjörum öryrkja og aldr­aðra. Þetta átti að fjár­magna  með því að hætta við áform rík­is­stjórn­ar­innar um lækkun veiði­gjalda, hækka fjár­magnstekju­skatt­inn og setja á auð­legð­ar­skatt á umtals­verðar eignir umfram íbúð­ar­hús­næði, auk þess sem við stungum upp á sér­stökum syk­ur­skatti. Og til að auka afgang á rík­is­sjóði yrði því frestað að afnema banka­skatt­inn og arður nýttur af bönk­un­um. Allar til­lögur Sam­fylk­ing­ar­innar voru felld­ar, líkt og allar aðrar til­lögur frá stjórn­ar­and­stöð­unni. Ekki ein ein­asta var sam­þykkt en slíka póli­tíska einsýni sýndum við þing­menn Sam­fylk­ing­ar­innar ekki og sam­þykktum þær breyt­ing­ar­til­lögur stjórn­ar­innar sem við töldum til bóta.

Vandi mann­kyns

Við í Sam­fylk­ing­unni styðjum frek­ari aðgerðir rík­is­stjórn­ar­innar í lofts­lags­málum  þó að við sættum okkur ekki við of lítið fé til heil­brigð­is­stofn­anna, metn­að­ar­leysi í mennta­málum eða úrræða­leysi í hús­næð­is­mál­um. Stærsta sam­eig­in­lega verk­efni mann­kyns nú um stundir er að finna leiðir til að draga úr hlýnun jarðar og súrnun sjáv­ar. Það er sann­ar­lega ástæða til að hafa áhyggjur af stöð­unni hér á landi og vera til­búin að gera enn bet­ur. Ef við stöndum ekki við alþjóð­legar skuld­bind­ingar okk­ar, eins og útlit er nú fyr­ir, verður íslenska ríkið að kaupa lofts­lags­heim­ildir á alþjóða­mark­aði. Það mun valda okkur umtals­verðu fjár­hags­legu tjóni en ekki síður ímynd­ar­tjóni.

Við höfum stært okkur af jákvæðri ímynd sem felst í orku­skiptum við hús­hitun og end­ur­nýj­an­legum orku­gjöfum í okkar hreina, fal­lega Íslandi. Sú ímynd er á hröðu und­an­haldi. Súrnun sjáv­ar, hlýnun hafs­ins, hækk­andi yfir­borð sjáv­ar, plast­mengun í haf­inu og rányrkja eru allt ógnir sem vinna þarf gegn með kröft­ugum og skýrum hætti og þar ættum við að vera í far­ar­broddi.

Aðgerðir stjórn­valda verða að vera þannig að þær virki til að draga úr bens­ín- og dísil­notkun hér á landi og við aðkallandi orku­skipti í sam­göng­um. Aðkoma rík­is­ins að upp­bygg­ingu borg­ar­línu og efl­ingu almenn­ings­sam­ganga um allt land er nauð­syn­leg. Aðgerðir sem rík­is­stjórnin kynnti á árinu eru skref í rétta átt en við þurfum að gera betur og Sam­fylk­ingin verður með rík­is­stjórn­inni í liði ef þau bretta upp ermar í þessum efn­um.

Póli­tískir afleikir

Póli­tíski afleikur vor­þings­ins var frum­varpið um veiði­leyfagjöld, með millj­arða lækkun á stór­út­gerð­ina í land­inu sem átti að þröngva í gegnum þingið rétt fyrir sum­ar­hlé. Stjórn­ar­and­staðan kom í veg fyrir að af því yrði. En rík­is­stjórnin lét ekki deigan síga í hags­muna­gæslu fyrir útgerð­ina og fékk sam­þykkta lækkun á haust­þing­inu. Rík­is­stjórnin var ekki eins snögg að hlaupa undir bagga með þeim sem minnst hafa handa á milli. Þetta er slá­andi stað­reynd því að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki lands­ins hafa hagn­ast um 300 millj­arða kr. á síð­ustu átta árum. Fyr­ir­tækin hafa greitt eig­endum sínum tugi millj­arða í arð á sama tíma og veiði­gjöld hafa lækkað mik­ið. Rík­is­stjórnin réttir þeim nú 4 millj­arða til við­bótar og bróð­ur­part­ur­inn af því fer til stór­út­gerð­ar­innar sem sann­an­lega líður engan skort. Það gera hins vegar öryrkjar og aldr­aðir sem þurfa að reiða sig ein­göngu á greiðslur Trygg­inga­stofn­un­ar.

Póli­tíski afleikur haust­þings­ins var að ætla að þröngva sam­göngu­á­ætlun í gegn rétt fyrir jól með hug­myndum um veg­tolla til að fjár­magna hluta henn­ar. Stjórn­ar­and­staðan mót­mælti eðli­lega slíkum vinnu­brögðum enda veg­tolla­hug­myndin óút­færð og órædd í gras­rót flokk­anna. Flestir flokk­anna, líka Vg og Fram­sókn, töl­uðu ákveðið gegn veg­tollum fyrir kosn­ing­ar. Mál­inu var frestað fram yfir ára­mótin og þá mun koma í ljós hvort rík­is­stjórnin  tali einum rómi um póli­tíska prinsippið „þeir borga sem nota“ um þjón­ustu hins opin­bera við almenn­ing eða um hvernig gjald­taka eftir orku­skipti í sam­göngum eigi að verða.

Póli­tískir skandalar árs­ins

Skandall vor­þings­ins voru við­brögð stjórn­ar­liða þegar að dómur hæsta­réttar um emb­ætt­is­færslur dóms­mála­ráð­herra við skipan í Lands­rétt kom fram. Þing­menn Vinstri grænna höfðu gagn­rýnt dóms­mála­ráð­herr­ann harð­lega áður en þau sett­ust í rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokkn­um. Í því ljósi var hróp­andi skjald­borgin sem Vinstri græn­ir, Sjálf­stæð­is­menn og Fram­sókn slógu um ráð­herr­ann. Rík­is­stjórnin var undir og hefði fallið með dóms­mála­ráð­herr­anum og því fuku prinsipp­in.

Stóri skandall árs­ins var lög­bannið sem sett var á Stund­ina fyrir kosn­ingar 2017 og varði í 375 daga eða þar til að Stundin ákvað sjálf að rjúfa þögn­ina í lok októ­ber. Lands­réttur komst að þeirri afger­andi nið­ur­stöðu að lög­bannið væri ólög­legt og upp­lýs­ing­arnar um við­skipti fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins og tengdra aðila sem tengd­ust Glitni í aðdrag­anda banka­hruns­ins hefðu átt erindi við kjós­endur fyrir kosn­ing­ar.

Lög­bannið er skandall en líka hitt, að upp­lýs­ing­arnar hafi engin áhrif haft á stöðu fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra.

Van­virð­ing og brestir

Klaust­urs­málið er hræði­legt, hvernig sem á það er lit­ið. Þarna voru þing­menn og fyrr­ver­andi ráð­herrar sam­an­komnir á bar, þar sem þeir þamba bjór og ræða hástöfum á niðr­andi og klám­feng­inn hátt um aðra þing­menn, einkum þing­konur en spörk­uðu í sam­kyn­hneigða og fatl­aða í leið­inn. Málsvörnin er svo sú að svona tali allir þing­menn, við séum öll á þessu sama stigi og þeir sýndu. Helsti söku­dólg­ur­inn í mál­inu á svo að vera konan sem afhjúpaði ósómann. Málið angar af mann­fyr­ir­litn­ingu, spilltri póli­tík og sið­ferð­is­bresti. Virð­ing Alþingis hefur beðið hnekki og ekki eru enn öll kurl komin til grafar um þau  áhrif sem upp­tök­urnar munu hafa.

Eitt er víst að ef ekki ríkir virð­ing á milli fólks sem starfar saman innan þing­húss­ins þá er hennar ekki að vænta utan þess.

Málið sýnir einnig hve stutt við erum komin eftir #metoo bylt­ing­una og hve mik­il­vægt það er að stjórn­mála­flokkar setji sér siða­reglur og skýra ferla í slíkum málum með nið­ur­stöðu og úrbót­um. Það höfum við í Sam­fylk­ing­unni gert. Því miður hefur reynt á þá ferla líkt og fjallað hefur verið um í fjöl­miðlum und­an­far­ið. Það mál er þung­bært fyrir þá sem það helst varðar en er einnig erfitt fyrir þing­flokk­inn og stuðn­ings­menn, þó að ferlið sem slíkt hafi sannað gildi sitt.

Megi árið 2019 vera gott með betri stjórn­mála­menn­ingu, rík­is­stjórn sem leggur áherslu á vel­ferð fyrir alla og beittri stjórn­ar­and­stöðu sem veitir nauð­syn­legt aðhald.

Megi árið 2019 vera ykkur öllum far­sælt.

Gleði­leg jól!

Höf­undur er þing­flokks­for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.Úthluta 250 milljónum til uppbyggingar á rafbílahleðslustöðvum
Orkusjóður hefur auglýst fjárfestingarstyrki til uppbyggingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla en í heildina verður úthlutað 250 milljónum. Styrkirnir eru hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019 til 2020.
Kjarninn 18. júní 2019
Guðmundur Andri Thorsson
Um Íra og okkur, Englendinga og Dani
Kjarninn 17. júní 2019
Ólíklegt að Max vélarnar fari í loftið fyrr en í desember
Óvissa ríkir um hvenær 737 Max vélarnar frá Boeing fara í loftið. Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu.
Kjarninn 17. júní 2019
Helga Dögg Sverrisdóttir
Danska menntamálaráðuneytið hefur útbúið leiðavísi vegna ofbeldis í garð kennara
Kjarninn 17. júní 2019
Íslendingar verða varir við samkeppnisvandamál á matvörumarkaði
Íslendingar mest varir við skort á samkeppni í farþegaþjónustu
Íslendingar verða mest varir við samkeppnisvandamál í farþegaþjónustu, fjármálaþjónustu og matvælamarkaði samkvæmt könnun MMR. Þá var hátt verð og lítill marktækur munur á verði nefnd sem helstu vandamál markaðanna.
Kjarninn 17. júní 2019
Forseti Íslands ásamt þeim sem hlutu fálkaorðuna 2019.
Sextán sæmdir fálkaorðunni á Bessastöðum
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sæmdi 16 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2019
Björn Gunnar Ólafsson
Mældu rétt strákur
Kjarninn 17. júní 2019
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands flytur ávarp 17. júní 2019.
Katrín: Það getur allt breyst, líka það sem virðist klappað í stein
Forsætisráðherra fjallaði meðal annars um loftslagsmál í ávarpi sínu á Austurvelli í dag.
Kjarninn 17. júní 2019
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar