Skipta 37 þúsund tonn af skipaolíu máli?

Páll Hermannsson, hag­fræð­ingur og sér­fræð­ingur á sviði flutn­inga, fjallar um stöðu mála varðandi umhvefismál og samkeppni skipafélaga.

Auglýsing

Umræður um umhverf­is­mál skjóta upp koll­inum á tylli­dög­um. Sér­stak­lega þegar lausnir eru kynnt­ar, hvort sem þær eru raun­hæfar eða ekki. Ein slík var bann við plast­pokum sem kemur til fram­kvæmda í náinni fram­tíð. Önnur var um útblástur skemmti­ferða­skipa og löngun til að tengja skip í höfn við raf­magn úr landi. Skemmti­ferða­skip eru eins og stór sveit­ar­fé­lög og því mun tækni­leg lausn kosta meiri fjár­hæðir en líkur eru á að menn séu til­búnir að borga. Hafn­irnar í Ósló og Kaup­manna­höfn íhuga fjár­fest­ingu sem áætl­aður kostn­aður  í Kaup­manna­höfn er 3,7 millj­arðar auk kostn­aðar um borð í skip­un­um. Þetta er sem sé ekki bara eins og brauðrist sem maður setur í sam­band. Hins vegar er hið besta mál að tengja tog­ara og flutn­inga­skip við raf­magn, en slík skip skila þó mestum arði þegar þau eru á sjó. Ekki hefur þó verið talað um að setja bann við notkun olíu með hærri brenni­steins­inni­hald en 0,1% við strendur Íslands eins og gert er í Eystra­salti og við Norð­ur­-Am­er­íku. Það hefði senni­lega mikið betri umhverf­is­á­hrif en millj­arða­fjár­fest­ingar í bún­aði. Í byrjun 2020 verða brenni­steins­mörk olíu í heims­höf­unum lækkuð úr 3,5% í 0,5% og við það mun kostn­aður við rekstur skipa aukast umtals­vert. Rætt er um að hafa 0,1% hámark í Mið­jarð­ar­hafi.

Olía fyrir 2,1 millj­arð fórnað fyrir meint gæði sam­keppn­innar

Sá hluti íslenska gáma­flot­ans sem er í flutn­ingum innan Evr­ópu eyðir helm­ingi meiri olíu, 37 þús­und tonnum á ári, en þörf væri á ef hag­kvæmni stærð­ar­innar fengi að ráða í flutn­ingum gáma milli Íslands og hafna í Norð­ur­-­Evr­ópu. Þessi olíu­notkun nemur um 13% af olíu­notkun allra öku­tækja á Íslandi. Öku­tækin brenna þó mun hreinni olíu en skip.

Nú fara milli Íslands og Norð­ur­-­Evr­ópu tólf gáma­skip sem að jafn­aði hafa 930 TEU-­burð­ar­getu, og sigla um 900 þús­und sjó­mílna á ári. Það eru 4 skipa­komur til Rott­er­dam og til Árósa á viku.

Auglýsing

Með sigl­inga­kerfi sem bygg­ist á hag­kvæmni stærð­ar­inn­ar, tryggir að vörur nái á réttum tíma á markað og mið­ast við að mest af inn­flutn­ingi komi í byrjun viku og hitt fyrir miðja viku – má fækka skipum um helm­ing og þá stækka þau sem því nem­ur. Stærri skip eyða mun minni olíu á flutn­ings­ein­ingu og halda betur ferð.

Í byrjun febr­úar 2019 er olíu­verð frekar lágt, en samt er sparn­að­ur­inn miðað við verð í Rott­er­dam 2,1 millj­arður á ári.

Að láta sem ekk­ert sé er mik­ill umhverf­is­sóða­skapur og sóun á fjár­mun­um.

Sóun á landi í Sunda­höfn

Í mars á síð­asta ári skrif­aði ég í Kjarn­ann um sóun á landi í Sunda­höfn, sem er af sömu rótum og sú olíu­sóun sem er rakin að ofan. Þar voru nið­ur­stöð­urnar að um alda­mót dygðu um 20 hekt­arar lands fyrir gáma­völl með til­heyr­andi þjón­ustu­svæði, þar sem gámar eru geymdir „milli skips og lands utan girð­ing­ar“, miðað við þá færu 430.000 tutt­ugu feta gáma­ein­ing­ar, TEU, um höfn­ina á ári, og hver gámur að jafn­aði geymdur í 14 daga. Það eru ekki til vís­indi sem geta með neinni nákvæmni sagt til um flutn­ings­magn eftir 80 ár eða 40 ár, en mann­fjölgun eða -fækkun er senni­lega sá þáttur sem mestu ræður um magn gáma. Ljóst er að sparn­aður á landi yrði 25- 30 hekt­arar að með­töldu því landi sem er í þró­un, umtals­verður mann­afli mundi spar­ast og það tæki skemmri tíma að koma vöru úr skipi til neyt­enda.

Fyr­ir­tækið KPMG skil­aði skýrslu fyrir Faxa­flóa­hafnir hálfu ári seinna, í októ­ber, þar sem kom­ist var að svip­aðri nið­ur­stöðu um þörf fyrir land miðað við hver gámur verði að jafn­aði 14 daga í geymslu og að nýtt yrði tækni sem hentar fyrir 20.000 TEU á hekt­ara á ári.

Í skýrslu KPMG er rætt um nátt­úru­lega ein­okun sem mögu­leika í vissum rekstri þar sem hag­kvæmni stærð­ar­innar verður ekki við komið ef fram­leiðslu­ein­ing­arnar eru of litl­ar. Þar var varpað fram þeirri spurn­ingu hvort tvær farm­stöðvar skipa­fé­lag­anna væru hag­kvæm­asti kost­ur­inn, og hvort ein farm­stöð leiddi til sparn­að­ar.

Það sem þarf til að spara 37 þús­und tonn af olíu á ári og 25-30 hekt­ara lands á besta stað í Reykja­vík er ekki verk­efni sem áhuga­menn út í bæ eða ráð­gjafar á vegum stjórn­valda geta klárað einir og sér.

Hvorki und­ir­rit­aður né ráð­gjaf­inn KPMG eru fyrstir að leiða líkur að því að kom­ast megi af með mun minna land og búnað í hafn­araf­greiðslu. Í skýrslu hafn­ar­stjóra frá 1985, Flutn­inga­höfn til fram­tíð­ar, er bent á að gámakrani Eim­skips gat þá afgreitt öll skip sem komu til hafn­ar, og að með auknu sam­starfi skipa­fé­lag­anna mundi fjöldi skipa til hafnar minnka.

Í febr­úar 2011 lögðu tveir borg­ar­full­trúar í stjórn Faxa­flóa­hafna til að aflað yrði upp­lýs­inga um rekstur fyr­ir­tækja sem sér­hæfa sig í losun og lestun frakt­skipa, þar sem fýsi­legt gæti verið að greina losun og lestun frá annarri starf­semi skipa­fé­lag­anna til að ná hag­ræð­ingu og sparn­aði í fjár­fest­ingum og við­haldi. Svar kom 17 dögum síðar með mikið af upp­lýs­ing­um, sem að mati höf­undar þess­arar greinar svar­aði ekki megin spurn­ing­unni.

Öðru­vísi svar er nú kom­ið, 92 mán­uðum síð­ar, í skýrslu KPMG, Sunda­höfn – Starfs­um­hverfi og breyt­ingar til fram­tíð­ar.

Öllu landi næst hafn­ar­bökkum nýt­an­legu fyrir gáma­völl er skipt milli Eim­skips og Sam­skipa. Þarna virð­ist með­virk hafn­ar­stjórn hafa úthlutað tveimur aðilum öllum kvóta í gáma­af­greiðslu. Engir aðrir kom­ast að. Og ef, segj­um, eig­andi Sam­skipa fengi gott til­boð í fyr­ir­tæk­ið, þá væri senni­lega hafn­ar­kvót­inn verð­mæt­ast­ur, mun verð­mæt­ari en skip­in. Væri við­eig­andi að stjórn Faxa­flóa­hafna skoð­aði þetta mál gaum­gæfi­lega og birti yfir­lýs­ingu um stefnu hafn­ar­innar í sam­keppn­is­málum og langvar­andi hafn­ar­kvót­um. Þetta á ekki að þegja í hel. Það er of mikil með­virkni.

Frá starfssvæði Eimskip.

Sunda­höfn og Sunda­braut

Land­nýt­ing í Sunda­höfn verður að mið­ast við að hags­munir heild­ar­innar séu við stjórn­völ­inn, ekki sér­hags­mun­ir. Það á meðal ann­ars við um lang­rædd áform um Sunda­braut, sem flestir telja sjálf­sagða á næstu ára­tug­um. Eftir því sem höf­undur veit best er sá helst í umræðu um brú­ar­kosti að hafa þar hábrú, til þess að gáma­skip fram­tíð­ar­innar kom­ist inn að leg­unni við Voga­bakka. Þó er a) nægt bryggju­pláss norðan brú­ar­stæð­is­ins sam­kvæmt alþjóð­legum stöðlum sem m.a. er minnst á í skýrslu KPMG, b) ekki þörf fyrir mik­inn hluta þess lands sem nú er úthlutað til skipa­fé­lag­anna ef stefnan yrði tekin á góða land­nýt­ingu og minni upp- og útskip­un­ar­kostn­að.

Lægri brú er ódýr­ari en hábrú og nýt­ist betur í vondum veðr­um. Yfir lág­brú kom­ast göngu­menn og hjól­reiða­menn, sem ekki er reiknað með á hábrú. Það veltur á hæð brú­ar­innar hversu stór skip kom­ast und­ir. Það koma mörg minni skip til hafnar til los­unar og lest­un­ar.

Hag­kvæmni stærð­ar­innar

Grein birt­ist eftir und­ir­rit­aðan í Við­skipta­blað­inu 31. júlí 2014, „Leiðir sam­keppni skipa­fé­lag­anna til hærri flutn­ings­kostn­að­ar?“ Þar færði ég rök fyrir hag­kvæmni sem mundi leiða af þeim sam­rekstri skipa­fé­lag­anna, í sömu mynd og erlend­is, að nota sama skip fyrir tvö flutn­inga­fyr­ir­tæki, rétt eins og tvö olíu­fé­lög geta notað sama tank­inn eða sama dreif­ing­ar­kerf­ið, eða að tvo síma­fyr­ir­tæki nota sama mastr­ið.

Greinin vakti vissa umræðu, en ekk­ert gerð­ist. Hags­muna­að­ilar þögðu þunnu hljóði. Það er helst núna að fram­kvæmda­stjóri SFS minnir á að fyrir sjáv­ar­út­veg­inn er erfitt að keppa við Norð­menn, því flutn­ings­gjöld eru lægri þar.

Flestar þjóðir búa við frjálsa sam­keppni í flutn­ingum þar sem margir sem keppa um við­skipt­in. Í Nor­egi slást bæði Eim­skip og Sam­skip við fjölda norskra og alþjóð­legra fyr­ir­tækja um flutn­inga til að koma norskum sjáv­ar­af­urðum á mark­að.

Hér á landi ríkir tví­k­eppni þar sem stærri aðil­inn hefur 2/3 af kök­unni og sá minni 1/3. Þeir sem keppa um fyrsta og annað sæti í gáma­flutn­ingum í heim­in­um, Maersk og MSC, eru með mjög svip­aðan mark­aðs­hlut, og á helstu sigl­inga­leiðum samnýta þeir skipa­kost hvor ann­ars til að stand­ast sam­keppni við hin félög­in. Saman hefur sam­starfsein­ing þeirra 34% af heims­flutn­ingum í gám­um. Næsta sam­starfsein­ing hefur 29% mark­aðs­hlut­deild og sú  minnsta hefur 17% hlut. 

Ekk­ert hinna átta félaga á toppnum hafa eina enda­höfn þar sem skipin eru að mestu tæmd og fyllt aftur og hafn­ar­kvóti hefur feng­ist fyrir slikk. Þess vegna er barist, verðin hækka og lækka á víxl og fjöldi fyr­ir­tækja vinnur við að upp­lýsa mark­að­inn um verð á helstu leið­um. Útflutn­ingur Kín­verja hefur vaxið gíf­ur­lega á síð­ustu ára­tug­um, að stórum hluta vegna gáma­væð­ingar og lægri flutn­ings­kostn­að­ar. Þar er skylda að skrá öll flutn­ings­gjöld og alla flutn­inga­samn­inga hjá stofnun sem viku­lega gefur út með­al­verð, ann­ars vegar á dags­mark­aði og hins vegar á mark­aði flutn­inga­samn­inga til margra mán­aða.

Þjóðir háðar útflutn­ingi hafa almennt ekki íslenska hátt­inn á, að láta eins og ekk­ert sé og að verð (stundum kallað okur) komi engum við. Ástr­alska stjórnin fylgist mjög vel með kostn­aði við útflutn­ing og er sögð til­búin að grípa inn í ef það mik­ill munur reyn­ist á verði og kostn­aði við flutn­inga.

Umsvif Kínverja í flutningum eru gríðarleg.

Hér­lendis er ekki einu sinni hægt að fá áreið­an­legar upp­lýs­ingar um flutn­inga um hafn­ir. Höfnum ber skylda til að upp­lýsa Vega­gerð­ina um magn sem kemur og fer. Bæði hafn­irnar (þó ekki all­ar) og Vega­gerðin virð­ast líta svo á að hér ríki val­frelsi um upp­lýs­inga­gjöf, um rétt­mæti upp­lýs­ing­anna þegar þær eru gefn­ar, og um sam­ræmi í upp­lýs­ingum milli hafna. Þessi vinnu­brögð þættu kannski ekki til eft­ir­breytni þegar kemur að upp­lýs­ingum um land­aðan afla.

Nýtt rekstr­ar­form

Í grein­inni frá 2014 var gert ráð fyrir að hægt væri að koma á sam­vinnu um skipa­rekstur milli félaga. Eftir á að hyggja má úti­loka slíka lausn, þar sem stærð­ar­munur er um of, og skipa­fé­lögin tvö hafa með hafn­ar­kvóta komið í veg fyrir að nokkur sé að abb­ast upp á þá.

Það er mikið betra að byrja upp á nýtt. Segja að þjóðin eigi rétt á hag­kvæmni stærð­ar­innar og að í útflutn­ings­at­vinnu­veg­unum verði menn að hafa það á til­finn­ing­unni að þeir hafi betri díla en Norð­menn!

Í skýrslu KPMG segir að nátt­úr­leg ein­okun geti verið eðli­leg þegar rekstr­ar­ein­ingar eru of smáar til að ná hver fyrir sig hag­kvæmni stærð­ar­inn­ar. Til að spara 37 þús­und tonn af skipa­olíu og 2 millj­arða króna væri rétt að huga alvar­lega að slíkum rekstri og fela útgerð skipa rekstr­ar­að­ila sem væri eins og heild­sali sem má aðeins selja til smá­sala. Núver­andi skipa­fé­lög væru sjálf­sagðir smá­sal­ar, sem og flutn­ings­miðl­arar og erlend skipa­fé­lög.  Gáma­af­greiðslan í Sunda­höfn væri falin sér­hæfðum rekstr­ar­að­ila sem tryggði hraða afgreiðslu fyrir skip og gáma, hefði strangar kröfur um þjón­ustu og mið­aði til dæmis við að fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi bæru ekki hærri útskip­un­ar­gjöld (THC) en í Nor­egi. Opin­ber verð­skrá síð­asta árs sýnir að útskip­un­ar­kostn­aður í Reykja­vík er sjö sinnum meiri en í Ósló, án vöru­gjalda sem eru sex sinnum hærri hér en í Ósló fyrir 40 feta gám með 20 tonna inni­haldi.

Skipa­fé­lög dags­ins sitja vegna hafna­kvóta, ein að kök­unni. Í fram­tíð­inni ætti að fara ágæt­lega um þá sem smá­sala,– nema hvað þeir missa kvót­ann í upp­hafi. Oft nemur skipa­hlut­inn minna en helm­ingi af  heildar flutn­ings­kostn­aði. For- og fram­halds­flutn­ing­ur, akst­ur, vöru­hús og skjala­gerð eru þeir þættir sem menn græða pen­inga á. Alþjóð­legir flutn­ings­miðl­arar fjár­festa eins lítið í fast­eignum og tækjum og þeir kom­ast af með, og skila betri og jafn­ari hagn­aði en skipa­fé­lög­in. Og þarna væri komin frjáls sam­keppni, því bæði skipa­rekstur og gáma­af­greiðslan hafa opin­berar verð­skrár.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar