Opið bréf til Örnólfs Thorssonar

„Ég reikna með því að óhemjan í honum, sem ég held að hafi átt rætur í pirringi, hafi öll endað ykkar megin í fjölskyldunni.“

Auglýsing

Ágæti Örn­ólfur ég biðst afsök­unar á því að ég sendi þér bréf þegar erindi mitt er við bróður þinn hann Guð­mund Andra. Mér fannst ein­hvern veg­inn rétt­ara að senda orð mín til þín og biðja þig að vefja þau inn í bóm­ull og flytja þau þannig til hans. Guð­mundur Andri er nefni­lega í Sam­fylk­ing­unni og mér skilst að það sé ekki rétt­látt að leggja meira á mann en það og alls ekki bréf af þess­ari gerð. En þetta er það sem ég vildi sagt hafa:

Guð­mundur Jón­atans­son fædd­ist 12. des­em­ber 1829 á Hofi í Flat­eyj­ar­dal. 13. sept­em­ber 1849 kvænt­ist hann Stein­unni „yngri“ Þor­kels­dóttur sem fædd­ist 1. júlí 1828 á Brett­ing­stöðum í Flat­eyj­ar­dal. Þau hjón bjuggu  alla sína búskap­ar­tíð á Brett­ing­stöðum og eign­uð­ust tíu börn. Það elsta var Páll sem var langafi minn í móð­ur­ætt föður míns og það yngsta Vil­hjálmur sem var langafi þinn og Guð­mundar Andra í föð­ur­ætt föður ykk­ar. Við Guð­mundur Andri og þú erum því allir Brett­ingar þannig að þegar við deilum er um að ræða fjöl­skyldu­erj­ur, en þær hafa til­hneig­ingu til þess að ein­kenn­ast meira af nöldri en raun­veru­legum ágrein­ingi. Guð­mundur Andri skrif­aði pistil sem birt­ist í Kjarn­anum á föstu­dag­inn, sem mér virð­ist vera lítið annað en pirr­ingur út í mig, en hann stendur lík­lega í þeirri trú að hún sé við­brögð við  grein eftir mig sem birt­ist í Frétta­blað­inu tveimur dögum áður og fjall­aði um orku­mál. Það er göf­ugt verk og jafn­vel skylda manns að vera pirr­aður út í ætt­ingja sína og Guð­mundur Andri rækir hana af stakri prýði. Það sem mér finnst merki­leg­ast við pistil hans er að hann virð­ist engu síður pirr­aður út í þau atriði í grein minni sem hann er sam­mála en þau sem hann er ósam­mála.

Nú skulum við skoða þau atriði í grein minni sem ollu pirr­ingi allt að 8.5 á Richterska­la:

Auglýsing

1. Í byrjun grein­ar­innar minnt­ist ég lít­il­lega á Ein­stein vegna þess að í mínum huga er hann faðir eða guð­faðir flestra nýrra hugs­ana um orku frá því í byrjun síð­ustu ald­ar. Síðar   í grein­inni  lagði ég til að raf­magn á Íslandi yrði selt á kostn­að­ar­verði meðal ann­ars til þess að hlúa að græn­met­is­ræktun í gróð­ur­hús­um. Við­brögð Guð­mundar Andra voru: „Þetta hljómar vel og aldrei að vita nema hægt hefði verið að kom­ast að þessum nið­ur­stöðum án atbeina Ein­stein.“ Ég vona heitt og inni­lega að hér sé um að ræða til­raun til þess að tjá pirr­ing vegna þess að ef svo er hefur honum bróður þínum tek­ist snilld­ar­lega, ef þetta var hins vegar til­raun til þess að vera fynd­inn  er ég hræddur um að það hafi ekki endi­lega gengið upp. Við fyr­ir­gefðum slíkt af því það er innan fjöl­skyld­unn­ar. Og síðan heldur hann áfram: „Við í Sam­fylk­ing­unni höfum til dæmis talað á Alþingi um nauð­syn þess að innlend græn­met­is­fram­leiðsla njóti lægra raf­magns­verðs, þó meg­in­rök okkar snú­ist að vísu um lofts­lags­vá­na, sem Kára láist að nefna þó að þar sé um að ræða stærsta úrlausn­ar­efni okkar tíma --.“ Þarna velur hann bróðir þinn óheppi­legt orða­lag vegna þess að „við í Sam­fylk­ing­unni“ sam­þykktu nýverið að styðja við upp­bygg­ingu á kís­il­veri á Bakka þar sem brennd eru kol lofts­lagi hnatt­ar­ins til bölv­un­ar.  Þar sem ég er hvorki í  stjórn­mála­flokki né nokkrum ann­ars konar flokki eru það bara við  Kári Stef­áns­son sem erum hins vegar sam­mála því að eitt af því sem feng­ist við að Íslend­ingar rækt­uðu sjálfir sitt græn­meti í gróð­ur­hús­um, vermt og lýst af  vist­vænni orku, er fram­lag til þess að hemja loft­lags­breyt­ing­arnar hættu­legu. Og það er göf­ugt. 

2. Í grein­inni benti ég á að það virt­ist sem eina mark­mið Lands­virkj­unar væri að fá sem hæst verð fyrir raf­magn og ein leið sem hún vildi nota til þess væri að selja það um sæstreng til ann­arra landa. Við þessu brást bróðir þinn (og frændi minn) með eft­ir­far­andi: “Eitt vefst þó fyrir mér. Ég átta mig ekki alveg á því að það sé endi­lega áhyggju­efni í sjálfu sér að hærra verð kunni að fást fyrir íslenska orku til stór­kaup­enda en nú tíðkast. Er það and­stætt almanna­hags­munum að Land­virkjun fái góðan arð af orku­sölu ef slíkt orku­sala færi um sæstreng til útlanda fremur en til álbræðslu og kís­il­verk­smiðju á Íslandi? Ég hefði haldið að það gæti jafn­vel verið í almanna­þágu að selja íslenska orku á góðu verði (að ekki sé talað um lofts­lags­mál­in), fari svo ólík­lega að lagður verði sæstrengur frá Íslandi til Evr­ópu.” Ég get ein­fald­lega ekki verið bróður þínum sam­mála hér þótt ég vilji leggja ýmis­legt á mig til þess að halda frið í fjöl­skyld­unni. Ég held því sem sagt fram að það væri and­stætt almanna­hags­munum á Íslandi að selja raf­magn um sæstreng af eft­ir­farndi ástæð­um: a. Ef við seldum raf­magn til Evr­ópu í gegnum  sæ­streng yrðum við sam­kvæmt reglum EES að verð­leggja það eins við báða enda. Þar af leið­andi myndi verð á raf­magni hækka mikið á Íslandi og taka frá íslenskum atvinnu­vegum það for­skot sem felst í ódýrum aðgangi að vist­vænni orku. b. Ég held að það eigi að vera okkur kapps­mál að nýta raf­ork­una okkar hér heima til þess að búa til vörur og rækta jurtir og geyma gögn. Við eigum ekki að sætta okkur við að láta aðra hirða virð­is­auk­ann sem í því felst. c. Það er nokkuð víst að innan skamms muni krafan um að minnka mengun við alls konar fram­leiðlu gera það að verkum að það þætti nokkur fengur að  því að fá að sinna henni á landi þar sem vist­væna orkan er aðgengi­legri en í flestum öðrum lönd­um. Þess vegna eigum við ekki að veita henni úr landi heldur nýta hana sem okkar sér­stæði til þess að búa til verð­mæti hér, ekki ann­ars stað­ar. d. Það er lík­legt að sæstrengur myndi kalla á enn meiri virkj­ana­vafstur og þykir mörgum nóg vegið að íslenskri nátt­úru með því sem komið er.

3. Greinin mín end­aði á eft­ir­far­andi máls­grein sem bróður þínum finnst greini­lega vega á ósann­gjarnan hátt að heiðri Alþing­is:

En ef Alþingi sam­þykir orku­pakk­ann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þús­und, orðin atvinnu­menn og konur í því að takast á við þau bjána­sköp kjör­inna full­trúa þjóð­ar­innar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Aust­ur­vall­ar, þau afdrifa­ríku inni í hlöðnu stein­húsi sem blasir við Jóni Sig­urðs­syni, þau sem eru næstum tak­marka­laust eymd­ar­leg í dep­urð sinni í öðrum húsum þar í nágrenn­inu.

Um þann hluta sem lýtur að Klaust­urs­mál­inu segir Guð­mundur Andri: “Og þau gefa ekki nokkra mynd af starfi eða fram­göngu þing­manna almennt. Eig­in­lega er ekki hægt að draga víð­tæk­ari álykt­anir af Klaust­ur­málum en þær að áfengi gerir hvern mann að bjána sem þess neytir í óhófi –“ Ekki ætla ég að deila við bróður þinn um þá ályktun að áfengi neytt í óhófi geri menn að bján­um, en ég er honum hins vegar  ósam­mála þegar hann segir að það megi ekki draga af því víð­tæk­ari álykt­an­ir. Til dæmis er sá bjána­skapur sem fimm­menn­ing­arnir hafa framið í tengslum við Klaust­ur­málið eftir að rann af þeim sínu verri en skít­mælgin undir áhrif­um. Þeir hafa veist að Báru þeirri sem tók upp sam­ræð­urnar og gefið í skyn að hún hafi verið útsend­ari illra afla og hafi jafn­vel fengið fé fyrir vik­ið. Hvaða máli skiptir það? Þeir sögðu það sem þeir sögðu og hvort það var tekið upp eða af hverjum breytir þar engu. Það er sem sagt ýmis­legt sem bendir til þess að þessir ágætu þing­menn séu tölu­verðir bjánar af sjálfum sér og þurfi  ekki endi­lega hjálp áfengis til. Annað sem er í mínum huga mun alvar­legra er að á meðan þing­menn­irnir fimm hafa verið að reyna að bjarga sjálfum sér frá brenni­vínsskandalnum með því að henda skit í Báru liggur fyrir Alþingi frum­varp til laga um að auka aðgengi að áfengi í íslensku sam­fé­lagi, þótt það sé óyggj­andi að aukið aðgengi þýðir aukin neysla fólks og er ekki lík­legt að þing­menn séu þar und­an­tekn­ing. Þannig frum­varp hefur skotið upp koll­inum á hverju ári í langan tíma sem ein­hvers konar stað­fest­ing á við­var­andi ábyrgð­ar­leysi kjör­inna full­trúa þjóð­ar­inn­ar. Það sem meira er, Alþing­is­menn sitja þeygj­andi hjá meðan núver­andi heil­brigð­is­mála­ráð­herra reynir kerf­is­bundið að grafa undan  Vogi, sem er eina með­ferð­ar­stofn­unin á Íslandi sem sinnir áfeng­is­sjúk­lingum af fullri alvöru. Það má ekki gleym­ast að ráð­herra starfar í umboði Alþing­is. Litli bróðir þinn og kollegar hans bera end­an­lega ábyrgð á aðför­inni að Vogi.

Síðan segir Guð­mundur Andri: “Á Alþingi situr með öðrum orðum ósköp ein­fald­lega það fólk sem við höfum kosið þang­að. Þessu fólki er ætlað að setja sig inn í flókin mál fyrir hönd kjós­enda sinna, með eigin sam­visku að leið­ar­ljósi og þær hug­sjónir sem það deilir með kjós­endum sín­um. Þetta fólk er hvorki betra né verra en ger­ist og geng­ur, það kemur úr þjóð­ar­djúp­inu, full­trúar kjós­enda sinna sem eru af ýmsu tagi. Þing­menn geta reynst lat­ir, dug­leg­ir, drykk­felld­ir, bind­ind­is­sam­ir, mælskir, dauf­leg­ir, mál­efna­leg­ir, ómál­efna­leg­ir.”

Þetta er allt rétt og satt en þetta fólk gaf kost á sér og náði kosn­ingu. Það þýðir ein­fald­lega að til þess eru gerðar meiri kröfur en til ann­ars venju­legs fólks. Það stjórnar land­inu. Þess vegna verður það að þola að það sé gagn­rýnt harka­lega þegar fólk­inu í  land­inu finnst það standi sig illa og að það sé hætt og spælt. Ef marka má nýlegar kann­anir um traust lands­manna til Alþingis er lít­ill vafi á því að lands­menn gefa stofn­un­inni fall­eink­un. Ég er sam­mála bróður þínum um að það sé ekki gott.

Langa­langafi okkar hann Guð­mundur Jón­atans­son var sagður dálít­ill glanni. Hann lék sér til dæmis að því að standa á hest­baki, sem ég veit fyrir víst að er ekki á allra færi. Hann skaut fugla og refi af hest­baki sem bendir til þess að hann hafi átt hross sem voru betur tamin en mín. Hann gerði sér það líka að leik að strengja reipi milli strompa á Brett­ing­stöðum og ganga síðan á reip­inu. Hann var sem sagt tölu­verður glanni og ekki eins hátt­prúður og stilltur og ég. Ég reikna með því að óhemjan í hon­um, sem ég held að hafi átt rætur í pirr­ingi, hafi öll endað ykkar megin í fjöl­skyld­unni.

Myndin er frá mótmælunum í Hong Kong í júní.
Evrópuþingið gagnrýnir aðstæður í Hong Kong
Bæði yfirvöld í Hong Kong og Beijing hafa gagnrýnt Evrópuþingið fyrir ályktunina og segja hana vera hræsni af hálfu þingsins.
Kjarninn 19. júlí 2019
Skora á Almenna innheimtu ehf. að hætta innheimtu á ólöglegum lánum
Fyrir liggur að vextir á smálánum eru margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum, en þrátt fyrir það eru lántakendur enn krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum af innheimtufyrirtækinu Almenn innheimta ehf..
Kjarninn 19. júlí 2019
Birna Lárusdóttir
Viljum við fara aftur á byrjunarreit?
Kjarninn 19. júlí 2019
Húsavík á kortið í alþjóðlegu strandhreinsunarátaki
Húsavík heimsækja árlega yfir 100 þúsund ferðamenn í þeim tilgangi að skoða hvali. Ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu sameinuðust í átaki í að hreins strandlengjuna, og vel tókst til.
Kjarninn 19. júlí 2019
Sjálfstæðisflokkur ekki mælst minni frá hruni – Miðjan í andstöðunni nú stærri en stjórnin
Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur ekki mælst lægra frá hruni, samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna hefur ekki mælst lægra á kjörtímabilinu og frjálslynda miðjublokkin er nú stærri en ríkisstjórnin.
Kjarninn 19. júlí 2019
Fylgi Miðflokks hærra en Vinstri grænna
Fylgi Miðflokksins eykst verulega á milli mánaða og mælist nú 14,4 prósent. Fylgi flokksins mælist nú hærra en bæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.
Kjarninn 19. júlí 2019
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Apple Pay og Enski Boltinn í boði fyrir alla
Kjarninn 19. júlí 2019
Þota ALC flogin til Evrópu
Bandaríska flugleigufélagið ALC hefur átt í deilum við Isavia um þotuna. Isavia vildi kyrrsetja vélina til að tryggja greiðslur upp í tveggja milljarða króna skuldir WOW air.
Kjarninn 19. júlí 2019
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar