Innstæðutryggingar

Björn Gunnar Ólafsson skrifar hugleiðingu um innistæðutryggingar.

Auglýsing

Í kreppunni miklu í Bandaríkjunum urðu þúsundir banka gjaldþrota. Innstæðutryggingar þekkust en reyndust haldlitlar og almenningur missti sparnað sinn í stórum stíl. Miklar umræður spunnust um það hvernig verja mætti almenning fyrir slíkum hörmungum í framtíðinni. Einn möguleiki var að tryggja að eigið fé banka væri ávallt nægilega mikið til að greiða út innstæður og hverfa þannig frá brotaforðakerfinu. Niðurstaðan var að halda brotaforðakerfinu en fjárfestingarbankar voru aðskildir frá bönkum sem tóku við innstæðum frá almenningi og sett var upp innstæðutryggingakerfi með óbeinni ríkisábyrgð. 

Í bók sinni um sögu peningamála í Ameríku til 1960 fjalla Friedman og Schwarts um þær innstæðutryggingar sem komið var á í Bandaríkjunum meðal annars með stofnun FDIC (Federal Deposit Insurance Corporation). Þau benda á að með innstæðutryggingum hafi að mestu verið komið í veg fyrir að áhlaup á einn banka framkallaði sjálfkrafa áhlaup á aðra banka. Innstæðutryggingarnar hafi þannig stuðlað að langtíma stöðugleika í bankakerfinu. Mat þeirra Friedmans og Schwarts á mikilvægi innstæðutrygginga er enn í fullu gildi. Tilvist þeirra á vafalítið þátt í að bankakreppur voru nánast óþekktar á vesturlöndum frá lokum kreppunnar fram að tíunda áratugnum.

Hugsunin að baki innstæðutryggingakerfa er fyrst og fremst að tryggja að almenningur sem leggur hýruna sína inn í banka þurfi ekki að bíða árum saman eftir uppgjöri þrotabússins ef bankinn fer á hausinn. Mjög er ólíklegt að eftirlitsskyldur banki eigi ekki eignir að mestu upp í innstæður miðað við lágmarkstryggingu, sérstaklega ef innstæður hafa forgang. Forgangur innstæðna hefur verið lögfestur í mörgum löndum svo sem í Bandaríkjunum þegar árið 1993. Hægt er að reikna með því að innstæðutryggingasjóðir fá allt sitt til baka en það tekur í flestum tilvikum mörg ár.

Auglýsing

Innstæðutryggingasjóðir hafa yfirleitt ekki næga fjármuni til að greiða út lágmarkstryggingu með skömmum fyrirvara ef stórir bankar falla. Það er ekki skynsamlegt að hlaða miklum fjármunum í tryggingasjóði þótt svartur svanur sjáist með margra ára eða áratuga millibili. Tryggingasjóður innstæðueigenda á Íslandi gat varla varið innstæðueigendur í meðal sparisjóði hvað þá í stórbanka. Til að innstæðutryggingar nái tilgangi sínum verður skammtíma fjármögnun að vera fyrir hendi. Hinn almenni borgari á ekki að þurfa að bíða árum saman eftir eignauppgjöri eða kosta kröfugerð í þrotabú. Það er því ljóst að hið opinbera verður að mynda aðra varnarlínu að baki innstæðutryggingasjóða ef almenningur á ekki að bíða verulegt tjón vegna fjármálaáfalla. Hart (1948, p. 87.) segir engar kvaðir á ríkissjóð eða seðlabanka í lögum um innstæðutryggingar í Bandaríkjunum til að bakka upp innstæðutryggingarsjóð (FDIC). Samt sé það siðferðileg fullvissa að innstæðutryggingasjóðurinn fái allan nauðsynlegan stuðning frá hinu opinbera. Á þennan stuðning reyndi til dæmis í sparisjóðakreppunni á níunda áratugnum. 

Löggjöf um innstæðutryggingar líður fyrir visst lagatæknilegt vandamál. Ekki er hægt að segja beint í lögum að ríkið skuli ábyrgjast innstæðuskuldir banka. Það myndi augljóslega skapa óásættanlegan freistnivanda. Andstæðingar ríkisábyrgðar hengdu sig á þennan tæknigalla í Icesave málinu.

Á haustmánuðum 2008 riðaði alþjóðlega fjármálakerfið til falls og traust var lítið. Þá fóru að heyrast þær raddir frá Íslandi að íslenska ríkið væri ekki skuldbundið til að mynda aðra varnarlínu bakvið innstæðutryggingakerfið og ábyrgjast skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda við erlendra innstæðueigendur. Í Evrópu brugðust mörg lönd við með því að lýsa yfir því að almenningur gæti treyst á að hið opinbera myndi styðja að fullu við innstæðutryggingarsjóði landa sinna og innstæðueigendur þyrftu ekki að óttast um sparnað sinn. 

Tryggingarsjóður innstæðueigenda á Íslandi hafði enga getu til að greiða út innstæðutryggingar innan þess tíma sem krafist var í tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Bretar og Hollendingar brugðust við með því að lána Tryggingasjóði innstæðueigenda þannig að almenningur í löndunum gat fengið sparifé sitt greitt út, upp að vissri upphæð, fljótlega eftir fall íslensku bankanna. Hefðu Bretar og Hollendingar ekki brugðist myndarlega við hefðu afleiðingarnar getað orðið mjög afdrifaríkar og grafið endanlega undan því litla trausti sem var á bönkum haustið 2008 ekki aðeins í heimalöndum þeirra heldur um alla Evrópu.

Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir á alþjóðavettvangi þráfaldlega að samið yrði í góðri trú (e. in good faith) um endurkröfur Breta og Hollendinga fyrir innstæðutryggingarláninu. Í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesavesamninga var samningaleiðinni hafnað í reynd og íslensk stjórnvöld gerð að ómerkingum á alþjóðavettvangi. Í rannsóknarskýrslu Alþingis frá 2010 var fjallað ítarlega um Icesave og niðurstaða skýrsluhöfunda var að Ísland hefði ekki brotið gegn tilskipun ESB um innstæðutryggingar. EFTA dómstóllinn kvað upp samhljóða sýknudóm árið 2013. Að loknu uppgjöri slitabús Landsbankans hafa kröfur vegna Icesave verið greiddar að fullu.

Ísland hefur ekki innleitt nýjasta regluverk ESB um innstæðutryggingar. Þar er tekið fram að innstæðutryggingar vegna falls banka eigi ekki að lenda á skattgreiðendum. Aftur á móti er tíminn til að greiða út innstæður styttur í nokkra daga úr nokkrum mánuðum samkvæmt eldri tilskipun frá 1999 sem innleidd var á Íslandi. 

Þar sem EFTA dómstóllinn hafnaði því að ríkissjóður beri lagaleg skylda til að mynda aðra varnarlínu að baki Tryggingarsjóðs innstæðueigenda vaknar sú spurning hvernig haldbærum innstæðutryggingum verði við komið í EES löndunum. Þar sem tími til að greiða út innstæður eftir fall banka er mjög stuttur er augljóst að tryggja þarf Tryggingarsjóði innstæðueigenda skammtíma fjármögnun. Hvernig á að fjármagna Tryggingarsjóðinn ef ríkissjóði ber engin skylda til að veita baktryggingu? Norðmenn hafa að vísu digra sjóði upp á að hlaupa en hér er ríkissjóður eini aðilinn sem getur aflað fjármagns með skömmum fyrirvara. Fróðlegt verður að sjá hvernig haldbærar innstæðutryggingar verða innleiddar á Íslandi í framtíðinni á grundvelli tilskipunar ESB.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar