Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hagstjórn í hálaunalandi

Þann 14. febrúar síðastliðinn, fyrir tæpum mánuði síðan, var kórónaveiran ekki búin að gera vart við sig hérlendis og enn voru tvær vikur í að fyrsta smit greindist. Þá skrifaði Gylfi Zoega prófessor eftirfarandi grein í Vísbendingu þar sem hann fór meðal annars yfir hvað þyrfti að gera ef veiran næði til Evrópu og myndi lama samfélög til skemmri tíma.

Sú uppsveifla í efnahagslífinu sem hófst sumarið 2010, var í upphafi hæg en efldist svo með vexti ferðaþjónustu, fjaraði út á síðasta ári. Engin niðursveifla hefur þó orðið, verg landsframleiðsla hefur aldrei verið hærri en vöxturinn var 0,6% árið 2019. 

Blikur eru á lofti og ber þar hæst möguleg áhrif kórónaveirunnar sem nú herjar í Kína. Áhrif hennar á alþjóðaviðskipti, ferðaþjónustu og fjármálastöðugleika geta orðið mikil ef hún nær að breiðast út til annarra landa. Fréttir af henni einar nægja til þess að ferðamenn afbóki ferðir hingað á komandi sumri. 

Ýmis fyrirtæki í samkeppnisgreinum eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og margir aðilar í ferðaþjónustu hafa áhyggjur af komandi mánuðum. Hér verður farið yfir stöðu mála, horfur og möguleg hagstjórnarviðbrögð. 

Er kreppa í aðsigi? 

Byrjum á hagtölunum um liðið ár og horfur á þessu ár. Í síðustu Peningamálum Seðlabankans koma eftirfarandi atriði fram: Hagvöxtur síðasta árs var 0,6% og búist er við að hann verði 0,8% í ár og verði meiri á næsta ári. Það er því ekki spáð neinum samdrætti.

 • Búist er við því að viðskiptakjör batni um 2% í ár. 
 • Einkaneysla jókst um 2% í fyrra og er spáð 1,7% vexti á þessu ári. 
 • Fjárfesting (atvinnuvega- og íbúðafjárfesting) dróst saman um 6,9% á síðasta ári og búist er við því að hún aukist um 0,3% á þessu ári. 
 • Þótt útflutningur á vöru og þjónustu hafi dregist saman um 5,8% í fyrra þá dróst innflutningur enn meira saman eða um 8,5%. Þetta þýðir að framlag utanríkisviðskipta var jákvætt þótt ferðamönnum hafi fækkað. 
 • Heildarvinnustundum fjölgaði um 1,2% á milli ára á fjórða fjórðungi síðasta árs, bæði vegna fjölgunar starfandi fólks og lengri meðalvinnuviku. 
 • Atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi hækkaði lítillega á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs í fyrra. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi var óbreytt á milli fjórðunga og mældist 3,8%. Skráð atvinnuleysi jókst hins vegar um 0,4% á sama tíma og var 4,1% leiðrétt fyrir árstíð. 
 • Fjölgun íbúa landsins á fjórða ársfjórðungi á milli ára um 2% stafaði einkum af aðflutningi erlends vinnuafls (1,4%) fremur en af fæðingum. 
 • Launavísitalan hækkaði um 0,9% á milli fjórðunga á fjórða ársfjórðungi í fyrra og um 4,3% á milli ára og er því spáð að laun á vinnustund hækki um 5,6% í ár. Búist er við að launakostnaður á framleidda einingu hækka um 5,4% í ár. Hlutabréfavísitalan (OMX10) hækkaði um tæpan þriðjung í fyrra. 
 • Verðbólga á síðasta ári var 2,1% mæld með neysluverðsvísitölu þegar leiðrétt er fyrir áhrifum vaxtalækkana Seðlabankans (þær lækkuðu húsnæðiskostnað sem lækkaði mælda verðbólgu um 0,4%). Ef óreglulegir liðir eru teknir út úr vísitölunni þá er verðbólgan í markmiði sem er 2,5%. 
 • Spáð er að verðbólga haldist undir verðbólgumarkmiði þetta árið en taki svo að hækka. 
 • Vaxtaálag banka á útlán til fyrirtækja hækkaði í lok síðasta árs en minna en sem nemur lækkun vaxta Seðlabankans á árinu en hækkun álagning veldur því að vaxtalækkanir skila sér ekki til fyrirtækja að fullu. 

Niðurstaðan er þá sú að ekki mælist samdráttur í hagkerfinu, frekar að það sé hægur vöxtur og því spáð að hann muni halda áfram á næsta ári. Ekki er óeðlilegt, og í raun við því að búast, að í lok langrar uppsveiflu hægi á vexti og fyrirtæki hagræði, sum heltist úr lestinni og ný verði til. Víkjum nú að hagstjórninni. 

Hagstjórnarviðbrögð 

Eftir kjarasamninga í mars í fyrra sem fólu í sér hófsamar launahækkanir hefur PSN Seðlabankans lækkað vexti um 175 punkta, úr 4,5% í 2,75%. Vextir Seðlabankans hafa aldrei verið jafn lágir. Vegna minni verðbólgu hafa raunvextir bankans ekki lækkað jafn mikið og eru nú um 0,7% sem er 0,3% lægri en í maí í fyrra. 

Markaðsvextir eru einnig lágir. Ávöxtunarkrafa á tíu ára óverðtryggðum ríkisskuldabréfum er nú 3% og hefur lækkað um 0,2% frá því í nóvember. Krafa á bréfum með styttri líftíma hefur þróast með svipuðum hætti. 

Útlán bankakerfisins halda áfram að vaxa þótt „vaxtarhraðinn“ hafi minnkað. Áætlað er að útlán hafi aukist um 4,5% á milli ára á síðasta ársfjórðungi ársins 2019 en þessi vöxtur var 10% í upphafi ársins. Segja má að hann hafi því verið óeðlilega mikill þá. Hraðar hefur hægt á útlánum til fyrirtækja en til heimila en þau jukust um 0,6% á milli ára á síðasta ársfjórðungi ársins. En á móti kemur að fagfjárfestasjóðir juku útlán sín um rúma 20 milljarða árið 2019 á meðan útlán lánakerfisins til atvinnufyrirtækja jukust um tæplega 12 milljarða króna en útlánastarfsemi til fyrirtækja er smám saman að færast úr hefðbundnum viðskiptabönkum í sjóði sem ekki eru bundnir af sama regluverki og viðskiptabankar. 

Fjárlög ársins 2020 voru afgreidd með halla og nemur hallinn 0,3% af landsframleiðslu. Fjármálastefna ríkisins vinnur þannig með peningastefnunni að örva eftirspurn í hagkerfinu. Þetta er dæmi um samhæfð viðbrögð, að Seðlabankinn og ríkisstjórnin gangi í takt. 

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði.
Mynd: Skjáskot

Þótt spá Seðlabankans sé sú að hagvöxtur muni smám saman aukast þá eru meiri líkur á því að áföll verði á næstunni en að óvænt uppsveifla verði. Víkjum nú nánar að því hvað getur farið úrskeiðis á næstu mánuðum og misserum. 

Hættur innan lands 

Hátt launastig hefur skert samkeppnishæfni útflutningsgreinanna, gert Ísland að dýrum ferðamannalandi og gert rekstur annarra samkeppnisgreina erfiðan. Í ferðaþjónustu hefur hlutdeild launa í rekstrartekjum aldrei aldrei verið hærra (þ.e.a.s. síðan þessar upplýsingar voru fyrst teknar saman árið 2003). Meðallaun hér á landi voru árið 2018 þau hæstu meðal þróaðra ríkja (OECD) og raungengi hátt. Fyrirtæki reyna að draga úr kostnaði; leggja niður störf með nýrri tækni eða flytja þau til láglaunalanda og atvinnuleysi fer smám saman vaxandi. 

Ferðaþjónusta í Evrópu heldur áfram að vaxa á meðan ferðamönnum hefur fækkað hér á landi. Nærtækasta skýring þessarar sérstöðu er hátt verðlag vegna meiri kostnaðar, þ.e.a.s. hás launastigs, hér á landi. Auðvitað er einnig mögulegt að Ísland hafi farið úr tísku meðal erlendra ferðamanna en nærtækasta skýringin er hversu dýrt landið er í samanburði við aðra ferðamannastaði. 

Það er þá framboðshlið hagkerfisins, vinnumarkaðurinn, sem ein meginorsök stöðnunarinnar. Ferðamönnum er hætt að fjölga vegna þess hve laun eru há og verðlag hátt hér á landi og fækkun ferðamanna hefur síðan áhrif á fjárfestingu og fjárhag fyrirtækja í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. 

En hver eru hagstjórnarviðbrögð þegar efnahagshnykkurinn er hækkun launa og verðlags og síður, eða að minna eyti, minni eftirspurn eftir vörum og þjónustu? 

Hagstjórnarviðbrögðin eru ekki þau að lækka vexti frekar eða auka ríkisútgjöld sem myndi þá auka spennu á vinnumarkaði og stuðla að enn frekari óróa og launahækkunum. Hann er sá að leyfa slaka að myndast sem smám saman hefur í för með sér að innlend laun og kostnaður lækka í samanburði við laun og kostnað í viðskiptalöndunum. Landið verður þá samkeppnishæfara, atvinna tryggari og hagvöxtur meiri. 

En þar með er ekki öll sagan sögð. Það eru blikur á lofti erlendis sem geta haft mikil áhrif hér á landi. 

Hættur erlendis frá 

Lágir, oft neikvæðir, seðlabankavextir í þróuðum ríkjum hafa búið til vandamál á síðustu tíu árum. Fjármagn hefur streymt til nýmarkaðsríkja og skuldir þeirra í dollurum vaxið mikið. Hagvöxtur er lítill á evrusvæðinu og í Bretlandi þrátt fyrir lága vexti. Eignaverð hafa hækkað. Verð hlutabréfa í Bandaríkjunum er í hæstu hæðum. Þannig hefur hagvöxtur og framleiðnivöxtur verið lítill en skuldsetning og eignaverð aukist mikið. Þetta býður upp á hættu á nýrri fjármálakreppu sem gæti orðið erfiðari viðfangs en sú sem varð árin 2007-2008. 

En nú vill svo til að til skamms tíma stafar ógn af kórónavírusfaraldri sem herjar á Kínverja. Þarna eru atburðir sem munu annaðhvort ekki hafa nein áhrif hér ef tekst að hefta útbreiðslu veirunnar eða haft mjög mikil áhrif ef hún berst til Evrópu. 

Framleiðsla í Kína hefur dregist mikið saman á síðustu vikum vegna flensufaraldursins og tugir milljóna geta ekki farið úr húsi. Þessi samdráttur er þegar byrjaður að hafa og mun innan nokkurra vikna, ef ekki tekst að hamla útbreiðslu flensunnar, hafa enn meiri áhrif á framleiðslu á Vesturlöndum sem notar aðföng framleidd í Kína. Útflutningur til Kína mun dragast saman. Kína er annað stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum og getur haft mikil áhrif á heimshagkerfið. 

Ef ekki tekst að ná tökum á pestinni mun verð á hrávörum lækka mikið sem hefði áhrif á viðskiptakjör Íslands. Olíuverð hefur þegar lækkað töluvert. Ef nú flensan berst til Evrópu þá verða hin hagrænu áhrif enn meiri, samfélög geta lamast í skemmri tíma. Nauðsynlegt er þá að gera áætlun um það hvernig unnt sé að halda efnahagslífi gangandi vikum og jafnvel mánuðum saman. 

En ekki er líklegt að hefðbundin hagstjórn virki við slíkar aðstæður. Aukning ríkisútgjalda hefur lítil áhrif ef engir eru til þess að byggja hús og brýr fyrir hið opinbera vegna hræðslu við sýkingu. Þá skiptir öllu að veita fyrirtækjum, sérstaklega kerfislega mikilvægum fyrirtækjum, aðstoð svo þau geti staðið í skilum þótt rekstur hafi stöðvast. 

Flensufárið getur, óháð fjölda sýkinga, einnig haft áhrif á bókanir erlendra ferðamanna fyrir sumarið og valdið frekari fækkun þeirra. 

Peningastefna 

Þeir sem fagna öllum vaxtalækkunum gera sér stundum ekki grein fyrir því að þótt vaxtalækkun feli í sér tilfærslu á tekjum frá fjármagnseigendum til skuldara þá eru stærstu fjármagnseigendurnir lífeyrissjóðir landsmanna. 

Við lágt vaxtastig er erfiðara og seinlegra að byggja upp lífeyrisréttindi. Við 0% vexti þarf einstaklingur að leggja fyrir hverja krónu sem hann ætlar að eyða í ellinni. Tökum dæmi: Ef raunvextir eru 5% þá getur 20 ára einstaklingur lagt fyrir eina milljón sem verður orðin að 2 milljónum við 34 ára aldur, 4 milljónum við 48 ára aldur, 8 milljónum við 62 ára aldur og 16 milljónum við 76 ára aldur. Og þetta gerist án þess að hann leggi eina krónu fyrir alla sína vinnuævi. Við 0% vexti þá verður milljónin alltaf áfram ein milljón. 

En mjög lágir vextir hafa ýmsar aðrar óæskilegar afleiðingar. Lágt vaxtastig verður til þess að verð hlutabréfa hækkar og dýrar fasteignir hækka meira en þær sem minni eru sem eykur misskiptingu eigna og tekna. Skuldsetning heimila og fyrirtækja eykst sem gerir þau viðkvæm fyrir vaxtahækkunum í framtíðinni – efnahagsreikningar verða brothættir Fyrirtæki taka lán til þess að fjármagna óarðbærar fjárfestingar og fjárfestar taka meiri áhættu í fjárfestingum sínum. Eftir að hafa haft mjög lága vexti árum saman þá er arðsemi nýfjárfestinga orðin lítil og erfitt að hækka vaxtastigið aftur eins og Evrópulöndin, Bretland og Bandaríkin eru að reyna um þessar mundir. Lífeyrissjóðir eiga erfitt með að ná nauðsynlegri ávöxtun eigna sinna og hækka þarf eftirlaunaaldur félagsmanna. 

Niðurstaðan er sú að það beri að varast að lækka vexti of mikið vegna þess að mjög lágir vextir geta aukið misskiptingu eigna og tekna og skert lífskjör almennings í gegnum lífeyriskerfið. 

En innlent vaxtastig fer ekki eingöngu eftir ákvörðunum seðlabankans. Það ræðst til lengri tíma af innlendum framleiðnivexti og fólksfjölgun. Þannig er lykillinn til lengri tíma að því að vextir séu jákvæðir að atvinnulíf sé þróttmikið, ný fyrirtæki verði til og hagvöxtur sé góður. 

Fjármálastefna ríkisins 

Staðan í fjármálum ríkisins er góð og sérstaklega góð í samanburði við allflest lönd í okkar heimshluta. Ef þörf verður á aðgerðum til þess að auka innlenda eftirspurn þá væri betra að beita ríkisfjármálum en peningastefnu ef komast mætti hjá því að vextir yrðu of lágir. 

En er réttlætanlegt að auka ríkisútgjöld til þess að örva hagkerfið um þessar mundir? Aukning ríkisútgjalda leiðir, að öðru óbreyttu til þess að gengi krónunnar verður hærra vegna þess að aukinn slaki í ríkisfjármálum kallar á meira aðhald, eða minni minnkun aðhalds, peningastefnunnar. En hærra gengi krónunnar eykur kostnaðarvanda útflutningsgreinanna. 

Það má auðvitað færa fyrir því rök að það sé nauðsynlegt að bæta innlenda vegi, brýr, heilbrigðisþjónustu o.s.fr. og því ekki að gera það á meðan byggingakranarnir eru enn í landinu? En þótt það geti verið skynsamlegt að ráðast í slíkar framkvæmdir, fjármagnaðar með nýjum sköttum eða hallarekstri ríkissjóðs, þá er mikilvægt að miða þær og val á framkvæmdum við hagkvæmni fjárfestinga. Hættan er sú að á kosningaári verði þær framkvæmdir fyrir valinu sem mest auka vinsældir stjórnarflokka hverju sinni. 

Lokaorð 

Vinnumarkaður í uppnámi, verkföll og launakröfur sem ekki samræmast þeim samningum sem gerðir voru í mars á síðasta ári, mikill kostnaður fyrirtækja, fækkun ferðamanna vegna hás verðlags og hækkandi launakostnaður á framleidda einingu kallar á aðhalds í peningastefnu og fjármálum ríkisins.

Til skamms tíma getur hagkerfið orðið fyrir skell ef farsótt tekur að breiðast út um Evrópu. En slíkur skellur krefst annars konar viðbragða en þeirra sem felast í hefðbundinni peningastefnu og fjármálastefnu ríkisins. Þá verður að tryggja að fyrirtæki geti staðið í skilum þótt starfsemi sé í lágmarki og að nauðsynjum sé komið til almennings. Það þarf ekki einungis að gera áætlanir um viðbrögð heilbrigðiskerfisins heldur einnig efnahagsleg viðbrögð.

Þessi grein birtist fyrst 14. febrúar í Vísbendingu. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit