Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hagstjórn í hálaunalandi

Þann 14. febrúar síðastliðinn, fyrir tæpum mánuði síðan, var kórónaveiran ekki búin að gera vart við sig hérlendis og enn voru tvær vikur í að fyrsta smit greindist. Þá skrifaði Gylfi Zoega prófessor eftirfarandi grein í Vísbendingu þar sem hann fór meðal annars yfir hvað þyrfti að gera ef veiran næði til Evrópu og myndi lama samfélög til skemmri tíma.

Sú upp­sveifla í efna­hags­líf­inu sem hófst sum­arið 2010, var í upp­hafi hæg en efldist svo með vexti ferða­þjón­ustu, fjar­aði út á síð­asta ári. Engin nið­ur­sveifla hefur þó orð­ið, verg lands­fram­leiðsla hefur aldrei verið hærri en vöxt­ur­inn var 0,6% árið 2019. 

Blikur eru á lofti og ber þar hæst mögu­leg áhrif kór­óna­veirunnar sem nú herjar í Kína. Áhrif hennar á alþjóða­við­skipti, ferða­þjón­ustu og fjár­mála­stöð­ug­leika geta orðið mikil ef hún nær að breið­ast út til ann­arra landa. Fréttir af henni einar nægja til þess að ferða­menn afbóki ferðir hingað á kom­andi sumri. 

Ýmis fyr­ir­tæki í sam­keppn­is­greinum eiga í erf­ið­leikum með að ná endum saman og margir aðilar í ferða­þjón­ustu hafa áhyggjur af kom­andi mán­uð­um. Hér verður farið yfir stöðu mála, horfur og mögu­leg hag­stjórn­ar­við­brögð. 

Er kreppa í aðsig­i? 

Byrjum á hag­töl­unum um liðið ár og horfur á þessu ár. Í síð­ustu Pen­inga­málum Seðla­bank­ans koma eft­ir­far­andi atriði fram: Hag­vöxtur síð­asta árs var 0,6% og búist er við að hann verði 0,8% í ár og verði meiri á næsta ári. Það er því ekki spáð neinum sam­drætti.

  • Búist er við því að við­skipta­kjör batni um 2% í ár. 
  • Einka­neysla jókst um 2% í fyrra og er spáð 1,7% vexti á þessu ári. 
  • Fjár­fest­ing (at­vinnu­vega- og íbúða­fjár­fest­ing) dróst saman um 6,9% á síð­asta ári og búist er við því að hún auk­ist um 0,3% á þessu ári. 
  • Þótt útflutn­ingur á vöru og þjón­ustu hafi dreg­ist saman um 5,8% í fyrra þá dróst inn­flutn­ingur enn meira saman eða um 8,5%. Þetta þýðir að fram­lag utan­rík­is­við­skipta var jákvætt þótt ferða­mönnum hafi fækk­að. 
  • Heild­ar­vinnu­stundum fjölg­aði um 1,2% á milli ára á fjórða fjórð­ungi síð­asta árs, bæði vegna fjölg­unar starf­andi fólks og lengri með­al­vinnu­viku. 
  • Atvinnu­þátt­taka og hlut­fall starf­andi hækk­aði lít­il­lega á milli þriðja og fjórða árs­fjórð­ungs í fyrra. Árs­tíð­ar­leið­rétt atvinnu­leysi var óbreytt á milli fjórð­unga og mæld­ist 3,8%. Skráð atvinnu­leysi jókst hins vegar um 0,4% á sama tíma og var 4,1% leið­rétt fyrir árs­tíð. 
  • Fjölgun íbúa lands­ins á fjórða árs­fjórð­ungi á milli ára um 2% staf­aði einkum af aðflutn­ingi erlends vinnu­afls (1,4%) fremur en af fæð­ing­um. 
  • Launa­vísi­talan hækk­aði um 0,9% á milli fjórð­unga á fjórða árs­fjórð­ungi í fyrra og um 4,3% á milli ára og er því spáð að laun á vinnu­stund hækki um 5,6% í ár. Búist er við að launa­kostn­aður á fram­leidda ein­ingu hækka um 5,4% í ár. Hluta­bréfa­vísi­talan (OMX10) hækk­aði um tæpan þriðj­ung í fyrra. 
  • Verð­bólga á síð­asta ári var 2,1% mæld með neyslu­verðs­vísi­tölu þegar leið­rétt er fyrir áhrifum vaxta­lækk­ana Seðla­bank­ans (þær lækk­uðu hús­næð­is­kostnað sem lækk­aði mælda verð­bólgu um 0,4%). Ef óreglu­legir liðir eru teknir út úr vísi­töl­unni þá er verð­bólgan í mark­miði sem er 2,5%. 
  • Spáð er að verð­bólga hald­ist undir verð­bólgu­mark­miði þetta árið en taki svo að hækk­a. 
  • Vaxta­á­lag banka á útlán til fyr­ir­tækja hækk­aði í lok síð­asta árs en minna en sem nemur lækkun vaxta Seðla­bank­ans á árinu en hækkun álagn­ing veldur því að vaxta­lækk­anir skila sér ekki til fyr­ir­tækja að fullu. 

Nið­ur­staðan er þá sú að ekki mælist sam­dráttur í hag­kerf­inu, frekar að það sé hægur vöxtur og því spáð að hann muni halda áfram á næsta ári. Ekki er óeðli­legt, og í raun við því að búast, að í lok langrar upp­sveiflu hægi á vexti og fyr­ir­tæki hag­ræði, sum helt­ist úr lest­inni og ný verði til. Víkjum nú að hag­stjórn­inn­i. 

Hag­stjórn­ar­við­brögð 

Eftir kjara­samn­inga í mars í fyrra sem fólu í sér hóf­samar launa­hækk­anir hefur PSN Seðla­bank­ans lækkað vexti um 175 punkta, úr 4,5% í 2,75%. Vextir Seðla­bank­ans hafa aldrei verið jafn lág­ir. Vegna minni verð­bólgu hafa raun­vextir bank­ans ekki lækkað jafn mikið og eru nú um 0,7% sem er 0,3% lægri en í maí í fyrra. 

Mark­aðsvextir eru einnig lág­ir. Ávöxt­un­ar­krafa á tíu ára óverð­tryggðum rík­is­skulda­bréfum er nú 3% og hefur lækkað um 0,2% frá því í nóv­em­ber. Krafa á bréfum með styttri líf­tíma hefur þró­ast með svip­uðum hætt­i. 

Útlán banka­kerf­is­ins halda áfram að vaxa þótt „vaxt­ar­hrað­inn“ hafi minnk­að. Áætlað er að útlán hafi auk­ist um 4,5% á milli ára á síð­asta árs­fjórð­ungi árs­ins 2019 en þessi vöxtur var 10% í upp­hafi árs­ins. Segja má að hann hafi því verið óeðli­lega mik­ill þá. Hraðar hefur hægt á útlánum til fyr­ir­tækja en til heim­ila en þau juk­ust um 0,6% á milli ára á síð­asta árs­fjórð­ungi árs­ins. En á móti kemur að fag­fjár­festa­sjóðir juku útlán sín um rúma 20 millj­arða árið 2019 á meðan útlán lána­kerf­is­ins til atvinnu­fyr­ir­tækja juk­ust um tæp­lega 12 millj­arða króna en útlána­starf­semi til fyr­ir­tækja er smám saman að fær­ast úr hefð­bundnum við­skipta­bönkum í sjóði sem ekki eru bundnir af sama reglu­verki og við­skipta­bank­ar. 

Fjár­lög árs­ins 2020 voru afgreidd með halla og nemur hall­inn 0,3% af lands­fram­leiðslu. Fjár­mála­stefna rík­is­ins vinnur þannig með pen­inga­stefn­unni að örva eft­ir­spurn í hag­kerf­inu. Þetta er dæmi um sam­hæfð við­brögð, að Seðla­bank­inn og rík­is­stjórnin gangi í takt. 

Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði.
Mynd: Skjáskot

Þótt spá Seðla­bank­ans sé sú að hag­vöxtur muni smám saman aukast þá eru meiri líkur á því að áföll verði á næst­unni en að óvænt upp­sveifla verði. Víkjum nú nánar að því hvað getur farið úrskeiðis á næstu mán­uðum og miss­er­um. 

Hættur innan lands 

Hátt launa­stig hefur skert sam­keppn­is­hæfni útflutn­ings­grein­anna, gert Ísland að dýrum ferða­manna­landi og gert rekstur ann­arra sam­keppn­is­greina erf­ið­an. Í ferða­þjón­ustu hefur hlut­deild launa í rekstr­ar­tekjum aldrei aldrei verið hærra (þ.e.a.s. síðan þessar upp­lýs­ingar voru fyrst teknar saman árið 2003). Með­al­laun hér á landi voru árið 2018 þau hæstu meðal þró­aðra ríkja (OECD) og raun­gengi hátt. Fyr­ir­tæki reyna að draga úr kostn­aði; leggja niður störf með nýrri tækni eða flytja þau til lág­launa­landa og atvinnu­leysi fer smám saman vax­and­i. 

Ferða­þjón­usta í Evr­ópu heldur áfram að vaxa á meðan ferða­mönnum hefur fækkað hér á landi. Nær­tæk­asta skýr­ing þess­arar sér­stöðu er hátt verð­lag vegna meiri kostn­að­ar, þ.e.a.s. hás launa­stigs, hér á landi. Auð­vitað er einnig mögu­legt að Ísland hafi farið úr tísku meðal erlendra ferða­manna en nær­tæk­asta skýr­ingin er hversu dýrt landið er í sam­an­burði við aðra ferða­manna­stað­i. 

Það er þá fram­boðs­hlið hag­kerf­is­ins, vinnu­mark­að­ur­inn, sem ein meg­in­or­sök stöðn­un­ar­inn­ar. Ferða­mönnum er hætt að fjölga vegna þess hve laun eru há og verð­lag hátt hér á landi og fækkun ferða­manna hefur síðan áhrif á fjár­fest­ingu og fjár­hag fyr­ir­tækja í ferða­þjón­ustu og ­bygg­ing­ar­starf­sem­i. 

En hver eru hag­stjórn­ar­við­brögð þegar efna­hags­hnykk­ur­inn er hækkun launa og verð­lags og síð­ur, eða að minna eyti, minni eft­ir­spurn eftir vörum og þjón­ust­u? 

Hag­stjórn­ar­við­brögðin eru ekki þau að lækka vexti frekar eða auka rík­is­út­gjöld sem myndi þá auka spennu á vinnu­mark­aði og stuðla að enn frek­ari óróa og launa­hækk­un­um. Hann er sá að leyfa slaka að mynd­ast sem smám saman hefur í för með sér að inn­lend laun og kostn­aður lækka í sam­an­burði við laun og kostnað í við­skipta­lönd­un­um. Landið verður þá sam­keppn­is­hæf­ara, atvinna trygg­ari og hag­vöxtur meiri. 

En þar með er ekki öll sagan sögð. Það eru blikur á lofti erlendis sem geta haft mikil áhrif hér á land­i. 

Hættur erlendis frá 

Lágir, oft nei­kvæð­ir, seðla­banka­vextir í þró­uðum ríkjum hafa búið til vanda­mál á síð­ustu tíu árum. Fjár­magn hefur streymt til nýmark­aðs­ríkja og skuldir þeirra í doll­urum vaxið mik­ið. Hag­vöxtur er lít­ill á evru­svæð­inu og í Bret­landi þrátt fyrir lága vexti. Eigna­verð hafa hækk­að. Verð hluta­bréfa í Banda­ríkj­unum er í hæstu hæð­um. Þannig hefur hag­vöxtur og fram­leiðni­vöxtur verið lít­ill en skuld­setn­ing og eigna­verð auk­ist mik­ið. Þetta býður upp á hættu á nýrri fjár­málakreppu sem gæti orðið erf­ið­ari við­fangs en sú sem varð árin 2007-2008. 

En nú vill svo til að til skamms tíma stafar ógn af kór­óna­vírus­far­aldri sem herjar á Kín­verja. Þarna eru atburðir sem munu ann­að­hvort ekki hafa nein áhrif hér ef tekst að hefta útbreiðslu veirunnar eða haft mjög mikil áhrif ef hún berst til Evr­ópu. 

Fram­leiðsla í Kína hefur dreg­ist mikið saman á síð­ustu vikum vegna flensu­far­ald­urs­ins og tugir millj­óna geta ekki farið úr húsi. Þessi sam­dráttur er þegar byrj­aður að hafa og mun innan nokk­urra vikna, ef ekki tekst að hamla útbreiðslu flensunn­ar, hafa enn meiri áhrif á fram­leiðslu á Vest­ur­löndum sem notar aðföng fram­leidd í Kína. Útflutn­ingur til Kína mun drag­ast sam­an. Kína er annað stærsta hag­kerfi heims á eftir Banda­ríkj­unum og getur haft mikil áhrif á heims­hag­kerf­ið. 

Ef ekki tekst að ná tökum á pest­inni mun verð á hrá­vörum lækka mikið sem hefði áhrif á við­skipta­kjör Íslands. Olíu­verð hefur þegar lækkað tölu­vert. Ef nú flensan berst til Evr­ópu þá verða hin hag­rænu áhrif enn meiri, sam­fé­lög geta lam­ast í skemmri tíma. Nauð­syn­legt er þá að gera áætlun um það hvernig unnt sé að halda efna­hags­lífi gang­andi vikum og jafn­vel mán­uðum sam­an. 

En ekki er lík­legt að hefð­bundin hag­stjórn virki við slíkar aðstæð­ur. Aukn­ing rík­is­út­gjalda hefur lítil áhrif ef engir eru til þess að byggja hús og brýr fyrir hið opin­bera vegna hræðslu við sýk­ingu. Þá skiptir öllu að veita fyr­ir­tækj­um, sér­stak­lega kerf­is­lega mik­il­vægum fyr­ir­tækj­um, aðstoð svo þau geti staðið í skilum þótt rekstur hafi stöðvast. 

Flensu­fárið get­ur, óháð fjölda sýk­inga, einnig haft áhrif á bók­anir erlendra ferða­manna fyrir sum­arið og valdið frek­ari fækkun þeirra. 

Pen­inga­stefna 

Þeir sem fagna öllum vaxta­lækk­unum gera sér stundum ekki grein fyrir því að þótt vaxta­lækkun feli í sér til­færslu á tekjum frá fjár­magns­eig­endum til skuld­ara þá eru stærstu fjár­magns­eig­end­urnir líf­eyr­is­sjóðir lands­manna. 

Við lágt vaxta­stig er erf­ið­ara og sein­legra að byggja upp líf­eyr­is­rétt­indi. Við 0% vexti þarf ein­stak­lingur að leggja fyrir hverja krónu sem hann ætlar að eyða í ell­inni. Tökum dæmi: Ef raun­vextir eru 5% þá getur 20 ára ein­stak­lingur lagt fyrir eina milljón sem verður orðin að 2 millj­ónum við 34 ára ald­ur, 4 millj­ónum við 48 ára ald­ur, 8 millj­ónum við 62 ára aldur og 16 millj­ónum við 76 ára ald­ur. Og þetta ger­ist án þess að hann leggi eina krónu fyrir alla sína vinnu­ævi. Við 0% vexti þá verður millj­ónin alltaf áfram ein millj­ón. 

En mjög lágir vextir hafa ýmsar aðrar óæski­legar afleið­ing­ar. Lágt vaxta­stig verður til þess að verð hluta­bréfa hækkar og dýrar fast­eignir hækka meira en þær sem minni eru sem eykur mis­skipt­ingu eigna og tekna. Skuld­setn­ing heim­ila og fyr­ir­tækja eykst sem gerir þau við­kvæm fyrir vaxta­hækk­unum í fram­tíð­inni – efna­hags­reikn­ingar verða brot­hættir Fyr­ir­tæki taka lán til þess að fjár­magna óarð­bærar fjár­fest­ingar og fjár­festar taka meiri áhættu í fjár­fest­ingum sín­um. Eftir að hafa haft mjög lága vexti árum saman þá er arð­semi nýfjár­fest­inga orðin lítil og erfitt að hækka vaxta­stigið aftur eins og Evr­ópu­lönd­in, Bret­land og Banda­ríkin eru að reyna um þessar mund­ir. Líf­eyr­is­sjóðir eiga erfitt með að ná nauð­syn­legri ávöxtun eigna sinna og hækka þarf eft­ir­launa­aldur félags­manna. 

Nið­ur­staðan er sú að það beri að var­ast að lækka vexti of mikið vegna þess að mjög lágir vextir geta aukið mis­skipt­ingu eigna og tekna og skert lífs­kjör almenn­ings í gegnum líf­eyr­is­kerf­ið. 

En inn­lent vaxta­stig fer ekki ein­göngu eftir ákvörð­unum seðla­bank­ans. Það ræðst til lengri tíma af inn­lendum fram­leiðni­vexti og fólks­fjölg­un. Þannig er lyk­ill­inn til lengri tíma að því að vextir séu jákvæðir að atvinnu­líf sé þrótt­mik­ið, ný fyr­ir­tæki verði til og hag­vöxtur sé góð­ur. 

Fjár­mála­stefna rík­is­ins 

Staðan í fjár­málum rík­is­ins er góð og sér­stak­lega góð í sam­an­burði við all­flest lönd í okkar heims­hluta. Ef þörf verður á aðgerðum til þess að auka inn­lenda eft­ir­spurn þá væri betra að beita rík­is­fjár­málum en pen­inga­stefnu ef kom­ast mætti hjá því að vextir yrðu of lág­ir. 

En er rétt­læt­an­legt að auka rík­is­út­gjöld til þess að örva hag­kerfið um þessar mund­ir? Aukn­ing rík­is­út­gjalda leið­ir, að öðru óbreyttu til þess að gengi krón­unnar verður hærra vegna þess að auk­inn slaki í rík­is­fjár­málum kallar á meira aðhald, eða minni minnkun aðhalds, pen­inga­stefn­unn­ar. En hærra gengi krón­unnar eykur kostn­að­ar­vanda útflutn­ings­grein­anna. 

Það má auð­vitað færa fyrir því rök að það sé nauð­syn­legt að bæta inn­lenda vegi, brýr, heil­brigð­is­þjón­ustu o.s.fr. og því ekki að gera það á meðan bygg­inga­kran­arnir eru enn í land­inu? En þótt það geti verið skyn­sam­legt að ráð­ast í slíkar fram­kvæmd­ir, fjár­magn­aðar með nýjum sköttum eða halla­rekstri rík­is­sjóðs, þá er mik­il­vægt að miða þær og val á fram­kvæmdum við hag­kvæmni fjár­fest­inga. Hættan er sú að á kosn­inga­ári verði þær fram­kvæmdir fyrir val­inu sem mest auka vin­sældir stjórn­ar­flokka hverju sinn­i. 

Loka­orð 

Vinnu­mark­aður í upp­námi, verk­föll og launa­kröfur sem ekki sam­ræm­ast þeim samn­ingum sem gerðir voru í mars á síð­asta ári, mik­ill kostn­aður fyr­ir­tækja, fækkun ferða­manna vegna hás verð­lags og hækk­andi launa­kostn­aður á fram­leidda ein­ingu kallar á aðhalds í pen­inga­stefnu og fjár­málum rík­is­ins.

Til skamms tíma getur hag­kerfið orðið fyrir skell ef far­sótt tekur að breið­ast út um Evr­ópu. En slíkur skellur krefst ann­ars konar við­bragða en þeirra sem fel­ast í hefð­bund­inni pen­inga­stefnu og fjár­mála­stefnu rík­is­ins. Þá verður að tryggja að fyr­ir­tæki geti staðið í skilum þótt starf­semi sé í lág­marki og að nauð­synjum sé komið til almenn­ings. Það þarf ekki ein­ungis að gera áætl­anir um við­brögð heil­brigð­is­kerf­is­ins heldur einnig efna­hags­leg við­brögð.

Þessi grein birt­ist fyrst 14. febr­úar í Vís­bend­ing­u. Hægt er að ger­ast áskrif­andi að Vís­bend­ingu hér.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiÁlit