Hringrásarhagkerfi í kjölfar kreppu

Freyr Eyjólfsson segir að nú sé tími til að staldra við og athuga sinn gang, skoða grænar og stafrænar lausnir sem gætu hjálpað okkur út úr kreppunni, og inn í hringrásarhagkerfið.

Auglýsing

Kórónuveiran er ógn við heilsu og lífsgæði. Landsframleiðsla hefur dregist saman, mesti samdráttur sem mælst hefur síðan slíkar mælingar hófust hér á landi. Það er komin enn ein kreppan. En hvað er hægt að gera? Núna er tími til að staldra við og athuga sinn gang, grænar og stafrænar lausnir gætu hjálpað okkur út úr kreppunni, og inn í hringrásarhagkerfið, það sem koma skal.

Mun eitthvað breytast eftir kórónukreppuna?

Á því tæpa ári sem liðið er síðan kórónuveiran fór á stjá er líkt og hamfarir hafi gengið yfir heimsbyggðina: Tæplega milljón manns er látin, fólk er víða enn læst inni hjá sér, vinnustaðir lokaðir, fólk er hætt að ferðast, markaðir hafa hrunið, fólk misst vinnu sína og viðurværi. Það hefur sýnt sig síðustu ár að markaðir og viðskiptakerfi heims eru máttvana þegar kemur að óvæntum og ófyrirsjáanlegum atburðum. 

Við höfum þó lært ýmislegt. Fjarvinnu. Þvo okkur um hendurnar. Þau ríki sem bjóða upp á félagslegt jafnrétti og almenna heilbrigðisþjónustu eru betur í stakk búin að takast á við heimsfaraldur en önnur. Mikilvægasti lærdómurinn er samt efalaust þessi: Samvinna. Aukin samvinna, jafnt innan lands sem milli landa, er brýn til þess að takast á við útbreiðslu veirunnar, sem virðir engin landamæri; samvinna almennings, stjórnvalda og atvinnulífs í hverju landi og samvinna vísindamanna, þvert á öll landamæri, er nauðsynlega til þess að rannsaka eiginleika veirunnar og þróa bóluefni. 

Breytingar eru orðnar hið venjubundna ástand

COVID 19 hefur afhjúpað hversu varnarlaus við erum á mörgum sviðum. Á þessum stutta tíma höfum við séð hrikalegar afleiðingar: dauðsföll, veikindi, og mestu efnahagslægð og kreppu sem mælst hefur. Vel stæð fyrirtæki voru allt í einu komin í gjörgæslu. Stjórnvöld hafa gripið inn í með fordæmalausum aðgerðum. 

Auglýsing
Við Íslendingar vonumst til þess að stíga upp úr kreppunni fljótt og örugglega þegar þessum ósköpum linnir og nýtt bóluefni verður komið fram á sjónarsviðið því við erum vanalega bjartsýn og almennt góð í að bregðast við hamförum og erfiðleikum. Það er samt tálsýn og hættuleg blekking að halda að allt verði bara eðlilegt og gott aftur því slíkt friðarástand er liðin tíð, miklar og ófyrirsjáanlegar breytingar eru orðnar hið venjubundna ástand í samtímanum – það er stöðugt umrót, og kórónukreppan er bara lítil forsýning fyrir stóru umhverfiskreppuna sem í vændum er ef ekkert breytist.

Þetta ástand sem nú varir er ákall um endurskoðun á skipan vestræns hagkerfis. Við verðum að byggja upp hagkerfi sem getur betur brugðist við óvæntum aðstæðum. Við þurfum vistvænna og stöðugra kerfi. 

Hringrásarhagkerfi er framtíðin

Nýjar grænar leiðir og stafrænar lausnir eru leiðin út úr kórónukreppunni. Við þurfum að innleiða hringrásarhagkerfi sem miðast við að hlífa auðlindunum en hámarka verðmætin, auka endurnotkun og endurvinnslu. Það kallar á ný viðskiptalíkön sem byggja meira á samnýtingu, eða kaupleigu, og að öll vöruhönnun miðist við betri endingu og nýtingu. Stærsti þátturinn í þessu kerfi er svo almenn flokkun á úrgangi og endurvinnsla þar sem reynt er eftir fremsta megni að halda efnislegum vörum og verðmæti þeirra og innihaldi inni í hagkerfishringnum eins lengi og mögulegt er.

Umhverfisvænna, hagkvæmara og stöðugra kerfi. Hringrásarhagkerfi er nú þegar að ryðja sér til rúms víðsvegar um heim og er að skapa ný störf og tækifæri. Við lesum fréttir af breytingum í Svíþjóð, Ástralíu og víðar. Aðstæður í heiminum kalla á breytingar. Það er ekki bara knýjandi þörf, heldur felast í því mikil tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki. Við þurfum að sjá tækifærin, skynja kall tímans, að hafa hugrekki til að breytast. Þau fyrirtæki sem ekki hafa þá þegar innleitt græna stefnu munu deyja út. Þeim fyrirtækjum, sem ekki minnka kolefnissporið, auka endurvinnsluhlutfallið og draga úr umhverfisáhrifum, verður hafnað af neytendum. Skammtímalausnir og allt hálfkák er dæmt til að mistakast. 

Kórónukreppan knýr á um að taka upp hringrásarhagkerfið. Kreppan hefur afhjúpað vankanta og getuleysi í núverandi hagkerfi. Víða hefur orðið vart við vöru- og lyfjaskort. Lausnin við því er að keyra í gegn hringrásarlausnir; að hlutir og tæki séu þannig hönnuð að hægt sé að gera við þau, endurnýta og endurvinna. Til að mynda er talið að aukning í endurvinnslu í lyfjaiðnaði eigi eftir að aukast um 10% á næstu fimm árum. Þetta þýðir fjöldamörg ný tækifæri, en á sama tíma mun eflaust draga eitthvað úr frumframleiðslu, sem á eflaust eftir að koma niður á einhverjum framleiðendum. Spítalar hafa reynt að draga úr lyfjakostnaði með því að flokka sérstaklega lyfjaafganga og reyna endurnýta lyf og lyfjaumbúðir. 

Endurvinnsla og endurnýting í stað sóunar

Matvæla- og umbúðaframleiðendur hafa verk að vinna. Yfirleitt þegar við förum að versla er meira af umbúðum en mat í innkaupakerrunni. Byrjum á að hanna umhverfisvænni umbúðir sem er hægt að endurnýta og endurvinna. Við kaupum appelsínur frá Ástralíu og ananas frá Hawaii sem er búið að margvefja í plast og flytja þvert yfir hnöttinn með tilheyrandi kolefnisspori. Við ættum að stórauka innlenda framleiðslu á grænmeti og ávöxtum og nota okkar góðu, grænu orku til þess að innleiða íslenska hringrás í matvælaframleiðslu. Með því að kaupa og borða mat úr nærumhverfinu fáum við bæði hollari, umhverfisvænni og með tímanum ódýrari mat. Við þurfum að fara rækta garðinn okkar, eins og gert í Suður-Kóreu, þar sem heimarækt hefur vaxið fiskur um hrygg. Fólk er hvatt dyggilega til þess að rækta grænmeti í görðum og almenningsrýmum. 

Það er sorglegt að sjá að víða um Evrópu eru bændur að henda ógrynni af mat vegna þess að ekki fæst fólk í uppskeruvinnu vegna COVID. Það stefnir í matarskort en samt er allt fullt af mat! Góðu fréttirnar af evrópskum landbúnaði eru þær að það dregur úr notkun á skordýraeitri og tilbúnum áburði; samdrátturinn er talinn verða um 50% á næstu 10 árum samkvæmt Ellen MacArthur-vísindastofnuninni. Í stað þess nota bændir lífrænan áburð og moltu. Þetta hefur leitt til 12% sparnaðar og skilar sér síðan í bæði ódýrari og betri vörum, en ekki síst umhverfisvænni landbúnaði. Hringrásarhagkerfi í landbúnaði á heimsvísu myndi minnka losun á CO2 út í andrúmsloftið um 5,6 milljarða tonna. Það sést því glögglega hvað þetta kerfi er bæði mun hagkvæmara og umhverfisvænna. 

Það er því ánægjulegt að sjá að í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að flýta orkuskiptum í vegasamgöngum, auka landgræðslu og skógrækt, bæta úrgangsstjórnun og talað er um að hraða innleiðingu hringrásarhagkerfis. Þetta er góð byrjun og nú gildir að fylgja þessum aðgerðum vel eftir á öllum sviðum. 

Höfundur er samskiptastjóri Terra.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Þegar Pia Kjærsgaard var forseti danska þingsins á árunum 2015-2019 lét hún hengja upp stóran danskan fána í þingsalnum.
Uppgjör
Árlegt flokksþing Danska þjóðarflokksins fer fram nú um helgina. Það er haldið í skugga deilna um forystu flokksins og hrapandi fylgi. Háværar raddir hafa heyrst um nauðsyn þess að skipta um formann og eitt kunnuglegt nafn heyrst æ oftar: Pia Kjærsgaard.
Kjarninn 19. september 2021
Loðfílar hafa veirð útdauðir í um tíu þúsund ár.
Ætla sér að koma loðfílum á legg innan sex ára
Fyrirtækið Colossal segir loðfíla geta reynst vel í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og ætla sér að búa þá til með því að blanda erfðaefni þeirra við frumur Asíufíls. Aðrir vísindamenn efast um ágæti verkefnisins.
Kjarninn 18. september 2021
Árni Jensson
Viðhorfskönnun Gallup – Trúmál
Kjarninn 18. september 2021
Jón Baldvin Hannibalsson
Land tækifæranna
Kjarninn 18. september 2021
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar