Brellur, firrur, gloppur, skekkjur og villur í verkum Jóns Ólafssonar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson svarar grein sem Jón Ólafsson skrifaði um ritdóm hans.

Auglýsing

Jón Ólafs­son hefur gefið út tvær bækur um sögu íslenskra komm­ún­ista og vinstri sós­í­alista, Kæru félaga árið 1999 og App­el­sínur frá Abkasíu árið 2012, og hann var aðal­yf­ir­les­ari hinnar þriðju, Drauma og veru­leika eftir Kjartan Ólafs­son, sem birt­ist árið 2020. Jón hefur einnig birt nokkrar rit­gerðir um íslensku komm­ún­ista­hreyf­ing­una. Þótt hann sé skóla­geng­inn í heim­speki, ekki sagn­fræði, auð­veld­aði það honum rann­sóknir á aust­ur­tengslum íslenskra komm­ún­ista og vinstri sós­í­alista, að hann talar rúss­nesku. Eftir að Ráð­stjórn­ar­ríkin leyst­ust upp árið 1991, gat hann því kynnt sér ýmis skjöl í söfnum í Moskvu. Nú bregður svo við, að Jón ræðst hér í Kjarn­anum á mig fyrir nýlegan rit­dóm í Morg­un­blað­inu um bók Kjart­ans, og er mér skylt að svara á sama vett­vang­i. 

Í grein sinni, sem ber heitið „Hver getur best gert upp við komm­ún­ismann?“ sakar Jón mig um geð­vonsku, smá­smygli og öfund, en hrekur ekki eitt ein­asta atriði efn­is­lega, sem ég benti á í rit­dómn­um. Ég get upp­lýst af því til­efni, að ég nefndi í rit­dómnum aðeins nokkrar villur af þeim fjöl­mörgu, sem ég fann, og aðeins þær, sem mér fund­ust skipta ein­hverju máli um sögu­þráð og efn­is­tök. Lengri villu­lista birti ég á öðrum vett­vangi, enda er ég út af fyrir sig sam­mála Jóni um, að við megum ekki gleyma okkur í smá­at­rið­um. Og ekki veit ég, hvern ég ætti að öfunda í þessu máli. Kjartan Ólafs­son er háaldr­aður að reyna að gera hreint fyrir sínum dyr­um, og ég öfunda hann svo sann­ar­lega ekki af því að hafa þurft að treysta á Jón Ólafs­son um aðföng og yfir­lest­ur. Fyrir vikið er bók Kjart­ans miklu lak­ari en hún hefði getað orð­ið. Ein­hver ágæt­asti vís­inda­maður okkar Íslend­inga, Árni Magn­ús­son hand­rita­safn­ari, skrif­aði eitt sinn: „Svo gengur það til í heim­in­um, að sumir hjálpa err­ori­bus á gáng, og aðrir leit­ast síðan við að útryðja aftur þeim sömu err­ori­bus. Hafa svo hverjir tveggja nokkuð að iðja.“ Jón hefur með verkum sínum skipað sér í fyrri flokk­inn, og verð ég að taka hvatn­ingu Árna hand­rita­safn­ara alvar­lega og reyna að leið­rétta hann, svo að aðrir láti ekki glepjast. Skipti ég hér err­ori­bus Jóns í fimm flokka: brell­ur, firr­ur, glopp­ur, skekkjur og vill­ur.

Brellur Jóns Ólafs­sonar

Brellum sínum beitir Jón Ólafs­son aðal­lega, þegar hann þarf að bregð­ast við leið­rétt­ing­um. Hann reynir ýmist að gera lítið úr við­mæl­and­anum eða leið­rétt­ing­unum sjálfum í stað þess að hafa umyrða­laust það, sem sann­ara reyn­ist. Í grein­inni hér í Kjarn­anum rifj­aði hann til dæmis upp, að hann hefði sem nem­andi í Mennta­skól­anum í Hamra­hlíð verið á fundi í Norð­ur­kjall­ara skól­ans, þar sem ég hefði and­mælt sós­í­al­isma. Ég hefði haft á reiðum höndum til­vitn­anir í kenn­inga­smiði marx­ism­ans og jafn­vel nefnt blað­síðu­töl. „Hins vegar vildi svo ein­kenni­lega til að þegar sam­visku­samir mennta­skóla­nemar fóru að leita uppi til­vitn­an­irnar þá reynd­ist erfitt að finna þær. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ein­hver benti mér á að hversu snjallt þetta mælsku­bragð væri – að nefna blað­síðu­töl út í loftið – því þannig fengju áheyr­endur á til­finn­ing­una að ræðu­mað­ur­inn gjör­þekkti text­ana sem hann vitnaði í eftir minni. Og þótt ein­hver færi að grufla í bók­unum á eft­ir, þá breyt­ast fyrstu hug­hrif ekki svo auð­veld­lega.“ Jón nefndi að vísu ekk­ert dæmi. En ég man sjálfur vel eftir þessu. Til­vitn­unin, sem ég not­aði, var til Levs Trot­skíjs í Bylt­ing­unni svik­inni frá 1937. „Í landi, þar sem ríkið er eini vinnu­veit­and­inn, bíður stjórn­ar­and­stæð­ings­ins hægur hung­ur­dauð­i.“ Ég hafði rek­ist á þessi nap­ur­legu ummæli í bók Friedrichs von Hayeks, Leið­inni til ánauð­ar, og haft þau eftir í kapp­ræðum um sós­í­al­isma við Hall­dór Guð­munds­son (síðar útgáfu­stjóra) í fram­halds­skól­um. Hann bar brigður á það, að rétt væri eftir haft, svo að ég gerði mér ferð á Lands­bóka­safnið til að sann­reyna til­vitn­un­ina, en Hayek hafði ekki sett við hana blað­síðu­tal í bók sinni. Ég fann til­vitn­un­ina eftir nokkra leit og mundi þess vegna blað­síðu­talið. Hún er í 11. kafla bókar Trot­skíjs á blað­síðu 283 í frum­út­gáf­unni frá 1937. Þetta er eina blað­síðu­talið úr ritum marx­ista, sem ég fór með á þessum fund­um.

Auglýsing

Ein brella Jóns Ólafs­sonar er þannig að segja um mig sögu, sem hefur brengl­ast í með­förum hans, en á að gera mig ótrú­verð­ug­an. Önnur brella hans er að svara athuga­semdum mínum ekki efn­is­lega, heldur afgreiða þær sem „smá­smygl­i“. En það var svo sann­ar­lega engin smá­smygli að vekja athygli á ótrú­legri yfir­sjón Kjart­ans Ólafs­sonar og yfir­les­ara hans, Jóns Ólafs­son­ar, eins og ég gerði í rit­dómi mín­um. Full­yrt er í Draumum og veru­leika, að Sós­í­alista­flokk­ur­inn hafi ekki verið í neinu sam­bandi við Kreml­verja, frá því að Krist­inn E. Andr­és­son gaf skýrslu um starf­semi hans í Moskvu vorið 1940 og tók þá við línu og þangað til sendi­ráð Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna var stofnað í Reykja­vík snemma árs 1944. En þetta er alls ekki rétt, eins og ég skýrði frá. For­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins fylgdu fast þeirri línu, sem Krist­inn kom með heim og þeir höfðu vitað af og fylgt áður, að stríðið væri aðeins stríð milli tveggja fylk­inga auð­valds­ríkja. Cham­berlain væru engu skárri en Hitler. Sú var lína Stalíns, eftir að hann gerði griða­sátt­mál­ann við Hitler 23. ágúst 1939. En línan hlaut að ger­breytast, þegar Hitler réðst á Ráð­stjórn­ar­ríkin 22. júní 1941. Eftir það vildu Kreml­verjar ólm­ir, að Banda­ríkja­menn hæfu þátt­töku í stríð­inu sér við hlið. Íslenskir sós­í­alistar átt­uðu sig ekki á þessu og greiddu atkvæði gegn her­vernd­ar­samn­ingnum við Banda­ríkin sum­arið 1941. Þá varð uppi fótur og fit í Moskvu. Vjatsjeslav Molotov utan­rík­is­ráð­herra hringdi í Georgí Dímítrov, for­seta Kom­interns, og skip­aði honum að leið­rétta lín­una til íslenskra sós­í­alista. Dímítrov hafði sam­band við William Gallacher, þing­mann breskra komm­ún­ista, og þeir komu boðum til Ein­ars Olgeirs­son­ar, sem var að losna úr fang­elsi í Bret­landi, en þar hafði hann setið vegna ofsa­feng­inna árása á breska her­námsliðið í sam­ræmi við fyrri línu. Þegar Einar kom heim, kvaddi hann saman fund helstu trún­að­ar­manna Sós­í­alista­flokks­ins í Odd­fell­ow-­hús­inu og sagði þeim, að nú yrði að skipta um stefnu og styðja Banda­ríkin og Bret­land, sem ættu að geta lið­sinnt Ráð­stjórn­ar­ríkj­unum á aust­ur­víg­stöðv­un­um. Skjöl eru til í Moskvu um sam­skipti Molotovs, Dímítrovs og Gallachers, en Áki Jak­obs­son, sem var á fund­inum í Odd­fell­ow-­hús­inu, skrif­aði um hann í óbirtum end­ur­minn­ingum sín­um, sem varð­veittar eru á hér­aðs­skjala­safni Skag­firð­inga. Þarf raunar ekki vitn­anna við, því að eftir heim­komu Ein­ars gerð­ust sós­í­alistar hávær­ustu vinir Banda­ríkj­anna á Íslandi, eins og banda­ríski sendi­herr­ann skrif­aði í skýrslu. Allt þetta kemur fram í bókum okkar Þórs Whiteheads.

Ég nefndi í rit­dómnum annað dæmi um sam­skipti Kreml­verja og íslenskra sós­í­alista á þessu tíma­bili. Menn úr leyni­þjón­ustu ráð­stjórn­ar­flot­ans voru staddir á Íslandi árið 1942 og hittu að máli Íslend­ing, sem gekk undir dul­nefn­inu Skúli Krist­jáns­son. Var skrifuð um þetta skýrsla, sem enn er læst niðri í lok­uðu safni leyni­þjón­ustu hers­ins, GRÚ, en því er vitað af henni, að afrit var sent til Kom­interns. Njósn­arar og erind­rekar leyni­þjón­ust­unnar voru einir um að ganga undir dul­nefnum í skýrslum sem þessum, og hefur þetta lík­lega verið Egg­ert Þor­bjarn­ar­son, sem var síðan lengi fram­kvæmda­stjóri Sós­í­alista­flokks­ins. Ég gat þess ekki í rit­dómn­um, en það er auð­vitað saga til næsta bæj­ar, ef fram­kvæmda­stjóri íslensks stjórn­mála­flokks reyn­ist vera erind­reki erlends ein­ræð­is­rík­is, sem seild­ist til áhrifa á Íslandi. (Raunar hygg ég, að Kjartan Ólafs­son sé sam­mála mér um, að Egg­ert hafi bein­línis verið slíkur erindreki. Ég get ekki skilið ýmis ummæli hans í Draumum og veru­leika öðru vísi.) Egg­ert hafði síðan milli­göngu um það, að þessir leyni­þjón­ustu­menn laum­uð­ust heim til Ein­ars Olgeirs­sonar eitt kvöld­ið, og sagði hann þeim, að hann vildi gjarnan taka aftur upp sam­bandið við Kreml­verja, sem hefði rofnað í stríð­inu. Það er lang­sótt að telja það „smá­smygli“ að vekja máls á þessum tveimur mik­il­vægu atvik­um.

Áður hefur Jón Ólafs­son beitt svip­uðum brellum í við­brögðum við gagn­rýni minni. Ég birti árið 2008 tvær rit­gerðir um alþjóð­leg tengsl komm­ún­ista­hreyf­ing­ar­innar íslensku. Í Þjóð­málum skrif­aði ég um þá 23 Íslend­inga, sem hlutu árin 1929–1938 bylt­ing­ar­þjálfun á leyni­skólum Kom­interns í Moskvu, Vest­ur­skól­anum og Lenín­skól­an­um. Leið­rétti ég þar margar villur í rit­gerð Jóns um þessa leyni­skóla í Nýrri Sögu 1997 og gagn­rýndi hann fyrir að gera ekki við­fangs­efn­inu betri skil. Nokkrir nem­endur hefðu til dæmis farið fram hjá hon­um, þótt heim­ildir væru til um þá. Í ráð­stefnu­rit­inu Rann­sóknum í félags­vís­indum, IX. bindi, skrif­aði ég um þá erind­reka, sem Kom­intern sendi til Íslands. Þar leið­rétti ég líka margar villur í ritum Jóns, aðal­lega Kæru félögum. Í svari sínu í Sögu 2009 gerði Jón eins lítið úr aðfinnslum mínum og hann frekast gat. Kvað hann mig í rit­gerð­inni um leyni­skól­ana aðeins hafa leið­rétt „tvær dag­setn­ing­ar“, en síðan gert athuga­semdir við það, „hvort maður sem gegnir þing­mennsku fyrir flokk hljóti þá að telj­ast framá­maður [svo] hans“ og „hvort áherslu beri að leggja á bylt­ing­ar­þjálfun eða almennt flokks­starf“ í skrifum um þessa skóla. Jón bætti við: „Vart getur það heitið leið­rétt­ing á skrifum mínum að Hannes geti sér þess til að ákveðnir ein­stak­lingar sem ég taldi ekki í hópi flokks­skóla­nem­enda hafi verið það enda hvarflar ekki að mér að listi minn sé tæm­and­i.“ Sagði hann mig síðan í rit­gerð­inni um erind­reka Kom­interns aðeins hafa bent „á nokkrar prent­villur og mis­rituð ártöl“ í Kæru félögum og á það, að hann hefði haft rangt fyrir sér „um höf­und bréfs sem sent var til Moskvu snemma á þriðja ára­tugn­um“, auk þess sem „fleiri Kom­intern­full­trúar hafi komið til Íslands en fram kemur í bók­inn­i“.

Hér er gert miklu minna úr leið­rétt­ingum mínum en efni standa til. Í rann­sókn sinni á leyni­skól­unum í Moskvu kom Jón Ólafs­son ekki auga á þrjá nem­end­ur, sem þó eru til aðgengi­legar heim­ildir um: Hjalta Árna­son, Jóhannes Jós­eps­son og Elísa­betu Eiríks­dótt­ur. Heim­ild­irnar um Hjalta og Jóhannes eru minn­ing­ar­greinar um þá eftir menn, sem vel þekktu til þeirra. Þetta eru því ekki aðeins til­gátur mín­ar, eins og Jón gefur í skyn. En ein opin­ber heim­ild er óbein um Elísa­betu: Hún sagð­ist í blaða­við­tali 1954 hafa verið í Moskvu sautján árum áður. Lá þá beint við að álykta, að hún hefði verið þar í bylt­ing­ar­skóla, því að Moskva var ekki í alfara­leið þau ár og ekki getið um neinar sendi­nefnd­ir, sem hún gæti hafa tekið þátt í. Þessa ályktun fékk ég stað­festa í bréfi í skjala­safni Sós­í­alista­flokks­ins, þar sem Einar Olgeirs­son sagði hana hafa dvalist í eitt ár í Moskvu. Með því að skoða störf hennar á Íslandi tókst mér að tíma­setja Moskvu­dvöl hennar á bil­inu frá því í árs­lok 1935 fram í árs­byrjun 1937. Óþarfi er líka að gera lítið úr „dag­setn­ing­unum tveim­ur“, sem Jón Ólafs­son nefnir svo. Hann sagði í Kæru félögum (bls. 60), að Vest­ur­skóla­mað­ur­inn Jafet Ott­ós­son hefði snúið heim til Íslands haustið 1931. En hann fór vorið 1931, og því skiptir það máli, að einmitt þá um sum­arið fylgd­ust Íslend­ing­arnir í Moskvu með ógæti­legu tali hans heima á Íslandi og skrif­uðu sér­staka skýrslu um það, sem Jón ræðir tals­vert um. Hin villan er veiga­minni. Jón sagði á einum stað í Kæru félögum (bls. 60), að Vest­ur­skóla­mað­ur­inn Gísli Ind­riða­son hefði komið til Moskvu haustið 1931, en neð­ar­lega á sömu blað­síðu, að hann „hefði átt að útskrif­ast eftir eins árs kúrsus sum­arið 1931“. Hið síð­ara hlýtur að eiga að vera sum­arið 1932. Allir geta gert staf­vill­ur. En það ber vitni los­ara­legum vinnu­brögðum að nefna tvö ártöl um sama atvik á einni og sömu blað­síðu.

Dæmið af Jóhann­esi Jós­eps­syni, sem farið hafði fram hjá Jóni Ólafs­syni, svo að hann nefndi hann ekki í bók sinni, leiddi aðra síðan á villi­göt­ur. Birna Bernd­sen samdi 2011 B. A. rit­gerð í félags­fræði um Stein­unni Árna­dóttur frá Höfða­hól­um, og hafði Guð­björg Linda Rafns­dóttir umsjón með henni. Þótt meg­in­stefið í rit­gerð­inni sé komm­ún­ismi Stein­unn­ar, er eina ritið um íslensku komm­ún­ista­hreyf­ing­una, sem nefnt er í heim­ilda­skrá og notað í rit­gerð­inni, bók Jóns Ólafs­son­ar, Kæru félag­ar. Tveggja bóka Þórs Whiteheads, sem komnar voru út fyrir 2011, er að engu getið og því síður ýmissa rit­gerða minna, sem þá höfðu líka birst. Stein­unn var nátengd nokkrum for­ystu­mönnum komm­ún­ista, fasta­gestur í Unu­húsi og systir Hjalta Árna­son­ar. Hún bjó um skeið í Dan­mörku og átti danskan vin, Thorkild Hilst. Þau skrif­uð­ust á, eftir að hún fór til Íslands. Í bréfi frá 10. jan­úar 1936 sendir Hilst henni kveðju með „Jós­efs­syn­i“, sem komið hafi við í Kaup­manna­höfn á leið frá Ráð­stjórn­ar­ríkj­un­um. Hafi þeir farið saman í Tívolí. Í horn­klofa (bls. 39) upp­lýsir Birna, að þetta sé Lúð­vík Jós­efs­son. En það er frá­leitt. Engar heim­ildir eru til um, að Lúð­vík Jós­eps­son (svo að rétt sé farið með nafn hans) hafi farið þangað austur á þessum árum. Í jan­úar 1936 var hann 22 ára kenn­ari við Gagn­fræða­skól­ann á Nes­kaup­stað. Þetta hefur auð­vitað verið Jóhannes Jós­eps­son, sem hlaut þjálfun í Lenínskólanum í Moskvu 1934–1935. Umsjón­ar­maður hefði átt að vara nem­and­ann við að treysta aðeins á hina óáreið­an­legu bók Jóns Ólafs­son­ar.  

Skrif Jóns um erind­reka Kom­interns á Íslandi eru sama marki brennd. Þar eru vill­urnar sumar smá­vægi­leg­ar, aðrar alvar­legri. Neyð­ar­leg­asta villan snýr að bréfi því, sem Jón minnt­ist á. Það var sent frá Íslandi til Stokk­hólms í jan­úar 1921. Undir það var skrifað „Sill­inn“. Jón taldi í Kæru félögum (bls. 22), að hér hefði sænski komm­ún­ist­inn Hugo Sillén verið á ferð. En þetta var bréf frá Hend­rik Siem­sen Ottós­syni, sem gekk undir þessu nafni í góðra vina hópi. Ársæll Sig­urðs­son var til dæmis kall­aður þar „Sæl­inn“ og Brynjólfur Bjarna­son „Bill­inn“. Þessi villa stafar ekki af van­gá, heldur van­þekk­ingu. Þótt hún hafi marg­sinnis verið leið­rétt, hefur hún slæðst inn í bók Þor­leifs Frið­riks­son­ar, Við brún nýs dags (bls. 273), sem kom út árið 2007. Önnur villa Jóns sýn­ir, hversu vara­samt er að rann­saka ekki mál út í hörgul. Hann sagði í Kæru félögum (bls. 159) um Vasí­líj Ríbakov, sem var for­stöðu­maður sendi­ráðs Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna á Íslandi 1947: „Rybakov var auk þess fyrsti erlendi full­trú­inn til að fylgj­ast með störfum íslensku sós­í­alist­anna, frá því að Kom­intern­full­trú­inn Harry Levin sótti stofn­þing komm­ún­ista­flokks Íslands árið 1930.“ En eins og ég benti á í rit­gerð minni um erind­reka Kom­interns á Íslandi, kom þýski komm­ún­ist­inn Willi Miel­enz hingað sum­arið 1932 og fór ekki leynt, eins og sést á blöðum íslenskra komm­ún­ista. Hafði Jón ekki lesið þessi blöð? Einnig má í því sam­bandi benda á þá mik­il­vægu stað­reynd, sem Jón getur aðeins stutt­lega um neð­an­máls í bók sinni (bls. 312), að annar sendi­ráðs­rit­ar­inn í sendi­ráði Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna í Reykja­vík 1944–1947, Pavel Egorov, var starfs­maður leyni­þjón­ustu ráð­stjórn­ar­flot­ans. Vita­skuld hefur hann fylgst með störfum íslenskra sós­í­alista.

Enn beitti Jón Ólafs­son sömu brellu, þegar hann brást við bók minni, Íslenskum komm­ún­istum 1918–1998, en þar leið­rétti ég neð­an­máls margt í verkum hans. Hann vís­aði ekki neinni leið­rétt­ingu minni á bug, heldur benti á þá villu í bók minni, að árið 1951 hefði mið­stjórn Komm­ún­ista­flokks Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna veitt verka­manna­fé­lag­inu Dags­brún háan styrk, 50 þús­und pund. Kvað Jón þann styrk hafa verið veittan 1961. Fór Jón síðan mörgum orðum um það, að ég lifði sníkju­lífi á rann­sóknum hans. Leið­rétt­ingin var rétt­mæt. Styrk­ur­inn var veittur 1961, og segi ég raunar frá honum í bók minni, en eng­inn slíkur styrkur var veittur 1951. En hver var heim­ild mín? Hún var bókin Liðs­menn Moskvu eftir Árna Snæv­arr, en hann hafði þetta eftir Jóni Ólafs­syni! Villan er með öðrum orðum komin frá Jóni, og hann hafði haft nítján ár til að leið­rétta hana, því að bók Árna kom út 1992. Ég hafði lagt mig allan fram um að skýra sem rétt­ast og nákvæm­ast frá öllu og skera úr um vafa­at­riði í bók minni, og er þetta eina alvar­lega vill­an, sem ég hef fundið í henni. Og hún reynd­ist vera ættuð frá Jóni Ólafs­syni! Hér leiddi hann mig á villi­göt­ur. Því er við að bæta, að Kreml­verjar veittu raunar íslenskum sós­í­alistum styrk til verka­lýðs­bar­áttu þeirra 1952, en Alþjóða­sam­band verka­lýðs­fé­laga, sem var stjórnað frá Moskvu, var skrifað fyrir styrkn­um. Sá styrkur virð­ist ekki hafa verið greiddur út, þótt ekki sé það full­víst. Einnig er fróð­legt, að Eðvarð Sig­urðs­son skrif­aði í minniskompu sína, lík­lega 1952: „Ekki miklar upp­hæð­ir. Ekki sjóði eins og Com­intern.“ Af því má ekki aðeins ráða, að Kreml­verjar hafi veitt miklu rausn­ar­legri styrki til sós­í­alista á dögum Kom­interns 1919–1943 en síð­ar, heldur líka, að ýmis­legt er enn óupp­lýst um fjár­styrki að aust­an. 

Mér fannst þó óneit­an­lega skrýtið að sitja undir ámæli fyrir villu, sem Jón Ólafs­son gerði og hafði sjálfur ekki leið­rétt í nítján ár, í úrvinnslu rúss­neskra skjala, sem aðrir íslenskir fræði­menn höfðu engan aðgang að. Enn skrýtn­ara þótti mér, þegar það var kennt við sníkju­líf. Ég hef nýtt mér eftir föngum það, sem Jón hefur birt um sam­skipti íslenskra komm­ún­ista og sós­í­alista við Kreml­verja, þótt ég hafi um leið kostað kapps við að sann­reyna sem flest. Er ekki einmitt til­gang­ur­inn með því að birta nið­ur­stöður rann­sókna, að aðrir geti nýtt þær í sam­ræmi við fræði­legar regl­ur? Ásökun Jóns er sér­stak­lega ámæl­is­verð í ljósi þess, að hann hlaut rausn­ar­lega styrki frá íslenska rík­inu, ekki síst til að rann­saka rúss­nesk skjala­söfn. Rann­sókna­sjóður (áður Vís­inda­sjóð­ur) veitti honum ferða­styrk 1994 og rann­sókn­ar­styrk 1998 (700 þús­und kr.) til rann­sókna á komm­ún­isma. Rann­sókna­sjóður Atl­ants­hafs­banda­lags­ins veitti honum styrk einu sinni í sama skyni, og mennta­mála­ráðu­neytið styrkti hann sér­stak­lega til rann­sókna og afrit­unar á íslenskum skjölum í Moskvu sumrin 1994 og 1995. Eftir þetta fékk Jón sam­kvæmt opin­berum gögnum styrki úr Rann­sókna­sjóði 2004 (2 millj. kr.), 2005 (2 millj. kr.) og 2007 (2 millj. kr.) til að rann­saka komm­ún­isma. Einnig fékk hann styrk 2009 (2,1 millj. kr.) til að rann­saka einn þátt í sögu komm­ún­ism­ans. Að núvirði er þetta lík­lega sam­tals rösk­lega tutt­ugu millj­ónir króna. Var þetta fé af hendi reitt úr almanna­sjóðum til þess, að Jón Ólafs­son gæti brigslað mönnum um að lifa „sníkju­lífi“ á rann­sóknum hans, ef þeir leyfðu sér að vitna í verk hans? Jón hefur látið mörg þau gögn, sem hann fann í Moskvu (en samt ekki öll), á hand­rita­deild Lands­bóka­safns­ins. Ætl­að­ist hann ekki til, að þau yrðu not­uð?

Firrur Jóns Ólafs­sonar

Brellur Jóns Ólafs­son­ar, þegar hann þarf að bregð­ast við leið­rétt­ing­um, segja sína sögu. En hitt er verra, að í ritum sínum fer hann iðu­lega með firr­ur, en það orð má nota um stað­hæf­ing­ar, sem eru langsótt­ar, ber­sýni­lega óraun­hæf­ar, jafn­vel frá­leit­ar. Í skrifum sínum um hreyf­ingu komm­ún­ista og vinstri sós­í­alista á Íslandi horfir Jón jafnan fram hjá ofbeldiseðli hennar og reynir að gera eins lítið og hann getur úr tengslum hennar við Kreml­verja, þótt auð­vitað verði hann að við­ur­kenna þau að nokkru leyti. Á frægum fundi, sem Sagn­fræð­inga­fé­lagið hélt 23. nóv­em­ber 2011 til að deila á bækur okkar Þórs Whiteheads um komm­ún­ista­hreyf­ing­una, spurði ég fram­sögu­menn, hvort þeir þekktu eitt­hvert dæmi þess, að for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins hefðu bein­línis gengið gegn Kreml­verj­um, annað en það, að þeir voru ófá­an­legir til taka þátt í erjum innan hinnar alþjóð­legu komm­ún­ista­hreyf­ingar og for­dæma Tító í Júgóslavíu og Maó í Kína, eins og Kreml­verjar vildu, auk þess sem þeir birtu að vísu mála­mynda­mót­mæli (harma­tölu í Þjóð­vilja­leið­ara) við inn­rásinni í Ung­verja­land. Fram­sögu­menn­irnir gátu ekki bent á neitt slíkt dæmi. 

Ekki þurfti að efast um það, að Komm­ún­ista­flokk­ur­inn, sem hér starf­aði 1930–1938, laut boð­valdi frá Moskvu. Fór flokk­ur­inn ekki í neinar felur um það. Hann var deild í Kom­intern, Alþjóða­sam­bandi komm­ún­ista, en til þess að geta gengið í Kom­intern varð flokk­ur­inn að ját­ast undir inn­töku­skil­yrðin 21, sem sam­þykkt höfðu verið á þingi Kom­interns í Moskvu 1920. Þessi skil­yrði mót­uð­ust auð­vitað af því, að þetta var sam­band bylt­ing­ar­flokka. Meðal ann­ars segir í þriðja inn­töku­skil­yrð­inu: „Í nær öllum löndum Evr­ópu og Amer­íku er stétta­bar­áttan að breyt­ast í borg­ara­stríð. Við þær aðstæður geta komm­ún­istar ekki treyst borg­ara­legum lög­um. Þeir skuld­binda sig til að mynda alls staðar ólög­leg hlið­ar­sam­tök, sem geta á úrslita­stund aðstoðað flokk­inn við að gera skyldu sína gagn­vart bylt­ing­unn­i.“ Skýr­ara gat þetta ekki ver­ið. Það var bein­línis skylda íslenskra komm­ún­ista að mynda „ólög­leg hlið­ar­sam­tök“, sem gætu á úrslita­stund aðstoðað flokk­inn við að gera bylt­ingu, en með því var auð­vitað átt við valda­rán. Ísland var að vísu fámennt land og til­tölu­lega frið­sælt, en þess­ari skyldu sinni reyndu komm­ún­istar að gegna. Fyrst gerðu þeir það með Áhuga­liði alþýðu, sem stofnað var eftir Drengs­málið 1921. Snorri G. Bergs­son hefur vakið athygli mína á ummælum í bréfi frá Hend­rik S. Ottós­syni til Ein­ars Olgeirs­sonar 28. júlí 1923, sem varð­veitt er í bréfa­safni Ein­ars á Þjóð­arbókhlöðu: „Nú fer ég að armera ung­komm­ún­istana. Þeir ætla að kaupa sér rem­ingtona. Við erum óvið­búnir öllu nú, svo verður annað séð en að hvít­lið­arnir geti ráðið nið­ur­lögum okk­ar, þegar þeir vilja.“ Lítið varð að vísu úr Áhuga­liði alþýðu, enda var það harla ósam­stætt, en síðan var Varn­ar­lið verka­lýðs­ins stofnað opin­ber­lega eftir Gúttó­slag­inn í nóv­em­ber 1932, og hafði vísir að því verið til áður. Varn­ar­liðið starf­aði í nokkur ár, og skund­uðu liðs­menn um götur Reykja­víkur á 1. maí ár hvert. Sumir úr Varn­ar­lið­inu útveg­uðu sér líka skot­vopn, eins og Þór Whitehead upp­lýsir í bókum sín­um, en hann tók við­töl við nokkra menn úr lið­inu, þar á meðal for­ingja þess, Þor­stein Pét­urs­son. Þeir vildu vera við öllu bún­ir, eins og þeim var skylt að vera sam­kvæmt reglum Kom­interns.

Firrur Jóns Ólafs­sonar má flestar rekja til þess, sem er rauði þráð­ur­inn í skrifum hans, að komm­ún­istar á Íslandi hafi verið á ein­hvern hátt ann­ars eðlis en komm­ún­istar í öðrum lönd­um, miklu mein­laus­ari og frið­sam­ari, í raun­inni minni komm­ún­istar (en þá vaknar auð­vitað spurn­ing­in, af hverju þeir klufu Alþýðu­flokk­inn 1930 og gengu í Kom­intern). Eitt dæmi um þetta er, þegar Jón hélt því fram í App­el­sínum frá Abkasíu (bls. 383), að Hend­rik S. Ott­ós­son og Brynjólfur Bjarna­son hefðu ekki verið full­trúar á öðru heims­þingi Kom­interns 1920, heldur slæðst til Moskvu af ævin­týra­þrá. Taka þeir Skafti Ingi­mars­son í (óprent­aðri) dokt­ors­rit­gerð sinni um komm­ún­ista­hreyf­ing­una og Kjartan Ólafs­son í Draumum og veru­leika (bls. 30) þetta upp eftir Jóni. En Hend­rik og Brynjólfur sögðu síðar báðir frá því, að þeir hefðu verið full­trúar á heims­þing­inu, og tók Hend­rik sér­stak­lega fram, að hann hefði greitt atkvæði með inn­töku­skil­yrð­unum í Kom­intern. Ein­föld skýr­ing er til á því, að nöfn þeirra voru ekki á prent­aðri skrá um þing­full­trúa: þeir komu mjög seint til þings­ins, löngu eftir að það var haf­ið. Nöfn sumra ann­arra full­gildra félaga vant­aði líka í þing­full­trúa­skrána. Jón getur ekki vísað vitn­is­burði þeirra Hend­riks og Brynj­ólfs á bug fyr­ir­vara­laust. Gaf Hend­rik meira að segja fram­kvæmda­stjórn Kom­interns skýrslu um stjórn­mála­við­horfið á Íslandi, og þar minnt­ist Lenín á hern­að­ar­gildi Íslands. Aðrar heim­ildir stað­festa það, sem Hend­rik sagði síð­ar, að það var fram­kvæmda­stjórn Kom­interns, sem bauð ýmsum æsku­lýðs­sam­böndum að senda full­trúa á heims­þingið í Moskvu og á ung­komm­ún­ista­mót á eft­ir. Þessir æsku­lýðs­leið­togar fengu að sitja heims­þingið sem full­gildir full­trú­ar.Á ljós­mynd, sem prentuð er í bók eft­ir Willi Münzen­berg frá 1930, er einmitt birt ljós­mynd, þar sem þeir Brynjólfur og Hend­rik þekkjast, og er mynda­text­inn: „Di­e Ju­gend-Del­eg­ier­ten am 2. ­Kon­greß der Kommunistischen Internationa­le, Moskau 1920“.Ungir fulltrúar á öðru þingi Alþjóðasambands kommúnista, Moskvu 1920.

      

Þetta dæmi skiptir ef til vill ekki miklu máli. Annað dæmi miklu mik­il­væg­ara er af leyni­skól­unum í Moskvu. Jón sagði 1997 í Nýrri sögu (bls. 6): „Nor­rænir komm­ún­istar virð­ast litla þjálfun hafa fengið í öðru en bók­legum greinum marx-­lenín­isma.“ Hann hnykkti á þessu 1999 í Kæru félögum (bls. 52):  „Það er ekki að sjá af þeim heim­ild­um, sem aðgengi­legar eru úr Norð­ur­landa­deildum Lenín­skól­ans og Vest­ur­skól­ans, að sér­stök áhersla hafi verið lögð á praktíska bylt­ing­ar­starf­semi, svo sem njósn­ir, und­ir­róður og hvers kyns mold­vörpu­starf­sem­i.“ Sjö árum síðar var hann við sama hey­garðs­horn­ið. „Hvað sem líður vaf­stri ein­stak­linga þá höfum við engar heim­ildir sem leyfa okkur að draga þá álykt­un,“ sagði Jón í Les­bók Morg­un­blaðs­ins 2006, „að íslenskir komm­ún­istar hafi verið þjálfaðir í Moskvu til ofbeld­is­verka.“ En hver var til­gangur leyni­skól­anna í Moskvu, ef hann var ekki sá að þjálfa komm­ún­ista í að gera bylt­ing­ar? Af hverju voru þeir þá leyni­leg­ir? Hvernig er hægt að gera bylt­ingu án þess að beita ofbeldi? Auð­vitað var það alveg rétt, sem Jón lagði áherslu á, að í þessum skólum voru kenndar ýmsar bók­legar greinar eins og marxísk hag­fræði og saga Komm­ún­ista­flokks Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna. En það breytir því ekki, að jafn­framt var nem­endum kennt að bera vopn, stunda und­ir­róð­ur, skipu­leggja og stjórna götu­ó­eirð­um, falsa vega­bréf og önnur opin­ber skjöl, fara með ólög­legan fjar­skipta­bún­að, senda dul­máls­skeyti og skrifa dul­máls­skrift. Um þetta eru til nægar heim­ild­ir. Þrír íslenskir nem­endur skýrðu til dæmis frá því, að þeir hefðu lært vopna­burð í Kom­intern-­skól­un­um. „Í dag var fyrsta kennslu­stundin í Polit­ical Economy (Félagi Mek­any). Einnig tími í með­höndlun vopna,“ skrif­aði Andrés Straum­land í dag­bók sína 11. októ­ber 1930. „Nokkrum okkar var kennt að fara með skamm­byssu,“ sagði Helgi Guð­laugs­son, „við Hall­grímur [Hall­gríms­son] vorum tveir saman að æfa það.“ Benja­mín Eiríks­son hlaut einnig þjálfun í vopna­burði, eins og hann sagði í ævi­sögu sinni, sem ég skráði. Systir Þór­odds Guð­munds­sonar stað­festi enn fremur í sam­tali við Þór Whitehead, að bróðir sinn hefði að eigin sögn hlotið slíka þjálf­un. Jón gat þess vegna ekki annað en við­ur­kennt það, en gerði lítið út, taldi þetta aðeins hafa verið ein­hvers konar skotæf­ing­ar.

Leyni­skól­arnir í Moskvu voru engin mein­laus leik­fimi­fé­lög. Yfir­lýstur til­gangur þeirra var að búa nem­endur undir valda­töku komm­ún­ista. Hvers vegna hefðu íslensku nem­end­urnir átt að hafa ein­hverja sér­stöðu í þessu efni? Engar heim­ildir eru til um slíka sér­stöðu. Jón benti að vísu á, að Íslend­ing­arnir komu frá landi, þar sem starf­semi komm­ún­ista var lög­leg, og taldi, að nám þeirra hlyti að hafa verið svipað og nem­enda frá Sví­þjóð, Dan­mörku og Nor­egi. Öðru máli hefði gegnt um nem­endur frá lönd­um, þar sem starf­semi komm­ún­ista var ólög­leg. Þar hefði námið ef til vill mið­ast við óhjá­kvæmi­leg átök. En galli er á rök­færsl­unni: nægar heim­ildir eru til um það, að nem­endur frá Sví­þjóð, Dan­mörku og Nor­egi hafi hlotið hern­að­ar­þjálfun þar eystra. Til dæmis var skot­fimi aðeins einn lið­ur­inn í náms­skrá Lenín­skól­ans fyrir 1931, en einnig var nem­endum þá kennt um vopn­aðar upp­reisnir og almenna her­stjórn­ar­list, eftir því sem finnski fræði­mað­ur­inn Joni Krekola upp­lýs­ir, en hann hefur samið bók á finnsku um leyni­skól­ana. Krekola og norski fræði­mað­ur­inn Ole Martin Rønn­ing, sem rann­sak­aði sér­stak­lega þjálfun Norð­manna í leyni­skól­un­um, segja báðir (í tölvu­skeytum til Þórs Whiteheads) afar ólík­legt, að íslensku nem­end­urnir hafi verið und­an­þegnir hern­að­ar­þjálfun­inni. Enn fremur skrif­aði danski fræði­mað­ur­inn Niels Erik Ros­en­feldt í bók­inni Ver­dens­revolutions gener­al­stab. Kom­intern og det hemmelige apparat, sem kom út árið 2011 (bls. 131):  „Á námskrá voru meðal ann­ars nám­skeið í marx-­lenín­is­ma, stjórn­mála­hag­fræði, þróun hinnar alþjóð­legu verka­lýðs­hreyf­ingar og sögu Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna og komm­ún­ista­flokks­ins. En einnig voru haldnar skotæf­ingar og til­sögn veitt í notkun skot­vopna, und­ir­róðri, dul­máls­send­ingum og vopn­aðri skæru­liða­starf­sem­i.“

Þetta er ekki þvarg um smá­muni. Til­gangur Jóns Ólafs­sonar með því að gera lítið úr hern­að­ar­þjálfun Íslend­ing­anna á leyni­skól­unum í Moskvu er auð­sær. Hann hefur hvað eftir annað haldið því fram, að ótti íslenskra stjórn­valda við komm­ún­ista hafi verið ástæðu­lít­ill eða jafn­vel ástæðu­laus. Þess vegna hafi til dæmis hler­anir lög­reglu og annað eft­ir­lit með komm­ún­istum og vinstri sós­í­alistum verið órétt­mætt (en það var raunar miklu minna en eft­ir­lit yfir­valda með komm­ún­istum á öðrum Norð­ur­lönd­um). En sú firra Jóns, að íslenskir komm­ún­istar hafi í raun ekki verið alvöru­komm­ún­istar, stang­ast ekki aðeins á við heim­ild­ir, heldur líka alkunnar stað­reynd­ir. Í Drengs­mál­inu 1921, vinnu­deilum á kreppu­ár­un­um, þar á meðal fjórum Gúttó­slög­um, og í götu­ó­eirðum og upp­þotum vegna Kefla­vík­ur­samn­ings­ins 1946 og aðildar að Atl­ants­hafs­banda­lag­inu 1949 beittu íslenskir komm­ún­istar og vinstri sós­í­alistar ofbeldi til að reyna að koma í veg fyrir ákvarð­anir lög­legra stjórn­valda. Hér var rík­is­vald veikt, en komm­ún­ista­hreyf­ing sterk. Eftir rammasta Gúttó­slag­inn lá meiri hluti Reykja­vík­ur­lög­regl­unnar eftir slös­uð, og tveir lög­reglu­þjónar urðu öryrkjar alla ævi. Í óeirð­unum 1949 slös­uð­ust líka margir lög­reglu­þjón­ar, og er þetta allt rakið í bók Þórs Whiteheads, Sov­ét-Ís­landi. Áhyggjur stjórn­valda af komm­ún­istum voru svo sann­ar­lega ekki ástæðu­laus­ar. 

Önnur firra Jóns Ólafs­sonar er, að Kom­intern hafi verið and­vígt stofnun Sós­í­alista­flokks­ins haustið 1938. Heim­ild hans fyrir þessu er minn­is­blað, sem starfs­maður Kom­interns, Wil­helm Flor­in, sem fór með mál Norð­ur­landa, sendi í ágúst 1938 for­seta sam­bands­ins, áður­nefndum Dímítrov, þar sem hann lét í ljós efa­semdir um, að rétt væri að kljúfa Alþýðu­flokk­inn. Hafði Florin fengið bréf frá Ein­ari Olgeirs­syni fyrr í mán­uð­in­um, þar sem lýst var atburða­rás miss­er­anna á und­an, þegar hægri og vinstri örmum Alþýðu­flokks­ins hafði lostið sam­an, en vinstri arm­ur­inn undir for­ystu Héð­ins Valdi­mars­sonar síðan leitað eftir sam­ein­ingu við komm­ún­ista í nýjum flokki. Hugð­ist Komm­ún­ista­flokk­ur­inn sam­þykkja slíka sam­ein­ingu á flokks­þingi sínu í októ­ber og leggja sjálfan sig nið­ur. Einar benti á, að hinn nýi flokkur myndi starfa eftir þeim skil­yrð­um, sem Kom­intern hafði sett sam­starfi komm­ún­ista við jafn­að­ar­menn. Í minn­is­blaðinu spyr Florin Dímítrov, hvað gera skuli, og bendir á, hvernig koma megi boðum til Ein­ars um vænt­an­lega ákvörðun Kom­interns. En það blasir við, að sú ályktun Jóns af þessu minn­is­blaði, að Kom­intern hafi verið and­vígt stofnun Sós­í­alista­flokks­ins, fær ekki stað­ist. Þetta minn­is­blað var ekki nein loka­á­kvörðun eða sam­þykkt Kom­interns, heldur inn­an­húss­plagg. Það er nán­ast óhugs­andi, að þeir Brynjólfur Bjarna­son og Einar Olgeirs­son hefðu lagt niður Komm­ún­ista­flokk­inn í and­stöðu við Kom­intern. Jón Ólafs­son benti á, að Kom­intern hefði ekki sent Sós­í­alista­flokknum heilla­óska­skeyti við stofn­un­ina. En það gerðu komm­ún­ista­flokkar Sví­þjóðar og Dan­merk­ur, sem báðir voru hollir Kreml­verj­um, og er líka nán­ast óhugs­andi, að þeir hefðu gert það, hefði flokks­stofn­unin verið í and­stöðu við Kom­intern. 

Í rit­deilu Jóns við Þór Whitehead pró­fess­or, sem háð var í Sögu 2008–2010, sást, að Jón hafði ekki áttað sig á for­sögu máls­ins innan lands og utan. Innan lands var svo kom­ið, að Alþýðu­flokk­ur­inn var þegar klof­inn. Hann hafði klofnað af sjálfs­dáðum snemma árs 1938. Komm­ún­istar höfðu ekki klofið hann. Þeir gátu aðeins valið um tvo kosti, að hafna sam­starfi við vinstri arm Alþýðu­flokks­ins og starfa áfram einir eða ganga til sam­starfs við hann. Utan lands hafði Dímítrov með ræðu sinni á þingi Kom­interns 1935 lagt nýja línu fyrir komm­ún­ista­flokka á Vest­ur­lönd­um, að leita sam­starfs við jafn­að­ar­menn að full­nægðum ýmsum skil­yrð­um, til dæmis um skil­yrð­is­lausan stuðn­ing við Ráð­stjórn­ar­rík­in. Við stofnun Sós­í­alista­flokks­ins gættu komm­ún­istar þess vand­lega, að öllum þessum skil­yrðum væri full­nægt, en Jón virð­ist ekki hafa kynnt sér þau, eins og Þór benti á. 

Það sést best á eft­ir­leikn­um, hversu frá­leit sú skoðun er, að Sós­í­alista­flokk­ur­inn hafi verið stofn­aður í and­stöðu við Kom­intern. Sós­í­alistar lágu iðu­lega undir ámæli um að vera fylgi­spakir Kreml­verj­um. Hefðu þeir stofnað flokk sinn þvert á vilja Kom­interns, hefðu þeir þá ekki notað það til að reyna að hnekkja því ámæli? Hvers vegna var hvorki fyrr né síðar að þessu vik­ið? Þegar Krist­inn E. Andr­és­son gaf skýrslu í Moskvu vorið 1940, hálfu öðru ári eftir stofnun flokks­ins, var einn við­mæl­andi hans Wil­helm Flor­in. Ekki var þá minnst á það einu orði, að eitt­hvað hefði verið að athuga við stofnun flokks­ins. En síðan vildi svo til, að ég fann með aðstoð Snorra G. Bergs­sonar sagn­fræð­ings skjal í bréfa­safni Sós­í­alista­flokks­ins, sem varð­veitt er á Þjóð­skjala­safni. Það tekur af öll tví­mæli. Þetta er bréf árið 1939 frá aðal­rit­ara Alþjóða­sam­bands ungra komm­ún­ista, AUK, Michals Wolfs, til Æskulýðsfylk­ing­ar­innar á Íslandi, sem tekið hafði verið hlut­verki Sam­bands ungra komm­ún­ista, en það hafði átt aðild að Alþjóða­sam­band­inu. Þar er lýst yfir ánægju með stofnun Æsku­lýðs­fylk­ing­ar­innar og henni óskað heilla. Það er nán­ast óhugs­andi, að þetta bréf hefði verið sent, hefði Kom­intern verið and­vígt stofnun Sós­í­alista­flokks­ins. Hin alþjóð­lega komm­ún­ista­hreyf­ing laut ströngu mið­stjórn­ar­valdi. Þeir, sem óhlýðn­uð­ust (eða voru grun­aðir um villu­trú), voru hnepptir í fang­elsi, sendir í vinnu­búðir og skotn­ir, ef í þá náð­ist (eins og örlög eins þing­manns danska komm­ún­ista­flokks­ins, Arne Munch-Pet­er­sens, sýndi, en hann hvarf í Rúss­landi 1937 og dó í fang­elsi 1940).

Í þau þrjá­tíu ár, sem Sós­í­alista­flokk­ur­inn starfaði, var aldrei minnst á það einu orði, að hann hefði verið stofn­aður í and­stöðu við Kom­intern. Öðru nær. For­ystu­menn hans, þeir Ein­ar, Brynjólfur og Krist­inn, höfðu gott sam­starf, en oft­ast leyni­legt, við Kreml­verja, viku nán­ast aldrei út af lín­unni frá Moskvu og þáðu stórfé þaðan í styrki. Fóru þeir reglu­lega á alþjóða­þing komm­ún­ista, og var þar tekið á móti þeim sem full­gildum félög­um. Raunar starf­aði svip­aður flokkur í Finn­landi frá 1944, eftir að bann við sam­tökum komm­ún­ista var fellt úr gildi eftir ósigur Finna í fram­halds­stríð­inu við Ráð­stjórn­ar­ríkin 1941–1944. Hann kall­að­ist Lýð­ræð­is­banda­lagið og var sam­ein­aður flokkur komm­ún­ista og vinstri arms jafn­að­ar­manna, en komm­ún­istar höfðu þar tögl og hagldir eins og í Sós­í­alista­flokknum íslenska. (Þess má geta, að for­maður Lýð­ræð­is­banda­lags­ins 1944–1946, Car­l-Jo­han Sund­ström, sem komið hafði úr jafn­að­ar­manna­flokkn­um, varð síðar sendi­herra Finna í Moskvu, og í skjölum úr rúss­neskum söfnum sést, að hann veitti Kreml­verjum trún­að­ar­upp­lýs­ingar og gekk erinda þeirra.) Það var líka eitt fyrsta verk Stalíns eftir her­nám aust­ur­hluta Þýska­lands 1945 að knýja fram sam­ein­ingu komm­ún­ista­flokks­ins og vinstri arms jafn­að­ar­manna. Sam­setn­ing og starf­semi Sós­í­alista­flokks­ins áttu sér því hlið­stæður í hinni alþjóð­legu komm­ún­ista­hreyf­ing­u. 

Enn er til­gangur Jóns hins vegar auð­sær: Hann vill rök­styðja, að íslenskir komm­ún­istar og vinstri sós­í­alistar hafi átt það til að óhlýðn­ast Kreml­verj­um. Skjalið frá Florin er vissu­lega fróð­legt, en það hefur ekki að geyma neina þá loka­á­kvörðun Kom­interns, sem Einar Olgeirs­son hafði beðið um í bréfi sínu 1938. Ofá­lyktun Jóns er til marks um þá firru hans, að íslenskir komm­ún­istar hafi ekki verið alvöru­komm­ún­ist­ar.Mynd af frétt Morgunblaðsins 19. júní 1998.

     

Gloppur Jóns Ólafs­sonar

Fleiri galla er að finna á rit­smíðum Jóns Ólafs­sonar en brellur og firr­ur. Hann hirðir ekki um að rann­saka mál út í hörgul. Þess vegna eru margar gloppur í verkum hans. Versta og um leið furðu­leg­asta dæmið er, þegar hann sagði í Kæru félögum (bls. 141) um við­ræður Ein­ars Olgeirs­sonar og marg­nefnds Georgís Dímítrovs í Moskvu haustið 1945: „Ekki er ljóst af dag­bók­ar­færslu Dimitrovs hvað þeim Ein­ari fór á milli en þó hefur Einar rætt við hann um mögu­leika á við­skiptum land­anna því að Dimitrov hefur skrifað hjá sér að Einar ætli sér næsta dag að hitta Anastas Mikoj­an, utan­rík­is­við­skipta­ráð­herra.“ En sam­kvæmt dag­bók Dímítrovs sjálfs 25. októ­ber 1945 bað Einar „um ráð um afstöðu flokks­ins og rík­is­stjórn­ar­innar til stofn­unar banda­rískra her­stöðva (flug­valla o. sv. frv.) til tjóns fyrir sjálf­stæði Íslands, svo og um íslensk flokks­mál­efn­i“. Það er því full­ljóst, hvað þeim Ein­ari og Dímítrov fór á milli: Þeir ræddu auð­vitað um mál mál­anna á Íslandi um þær mund­ir, her­stöðvabeiðni Banda­ríkj­anna, sem sett hafði verið fram 1. októ­ber 1945 og valdið hafði upp­námi í íslenskum stjórn­mál­um, en ráð­stjórnin hlaut einnig að láta sig varða. Þeir ræddu enn fremur eins og kemur fram í færsl­unni um mál­efni Sós­í­alista­flokks­ins, sem ráða­menn í Kreml töldu vit­an­lega bræðra­flokk komm­ún­ista­flokks Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna. Það er óskilj­an­legt, af hverju Jón gat þessa ekki, en ári áður en hann gaf út bók sína, höfðu birst fréttir í íslenskum blöðum um, hvað þeim Dímítrov og Ein­ari fór í milli, en búlgarski sagn­fræð­ing­ur­inn Jor­dan Baev hafði flutt erindi á ráð­stefnu í Reykja­vík um upp­lýs­ingar um Ísland úr dag­bókum Dímítrovs. (Myndin hér er af frétt Morg­un­blaðs­ins 19. júní 1998.) Ég spurði Jón á fundi Sagn­fræð­inga­fé­lags­ins 2011, hvað valdið hefði þess­ari mis­sögn. Hann svar­aði því til, að þetta hefði verið yfir­sjón hjá sér, ekki til­raun til að afveiga­leiða les­endur sína. Um þetta verða aðrir að dæma.

Margar aðrar gloppur eru í verkum Jóns, þótt þær séu ekki eins alvar­leg­ar. Ein gloppan er í grein Jóns í Sögu 2007. Þar sagði hann (bls. 100), að Kom­intern hefði ákveðið að senda einn nem­anda til Íslands 1936, félaga John­son, sem ætti sæti í mið­stjórn komm­ún­ista­flokks­ins íslenska. Hann varp­aði því fram þar, að sendi­mað­ur­inn væri Ang­an­týr Guð­munds­son. Þetta kom mér und­ar­lega fyrir sjónir eftir rann­sóknir mín­ar. Ég hafði sam­band við Jón og spurði, hvort hann hefði eitt­hvað fyrir sér um þetta. Hann kvað svo ekki vera. Þetta væri aðeins til­gáta. En svo vill til, að Hjalti Árna­son sat í mið­stjórn komm­ún­ista­flokks­ins frá 1932, eins og sjá má í Kom­intern-skjöl­un­um, og hann var í skóla í Moskvu um þessar mund­ir. Hann er lang­lík­leg­astur til að vera félagi John­son. Ekki er vitað til þess, að Ang­an­týr hafi setið í mið­stjórn flokks­ins, og það er afar ólík­legt. Auk þess var Ang­an­týr rek­inn úr flokknum í hreinsun­unum 1934, eins og kemur fram í fjöl­rit­uðum blöðum komm­ún­ista (sem geymd eru í Þjóð­ar­bók­hlöð­u), svo að lík­leg­ast er, að hann hafi verið í bylt­ing­ar­skóla í Moskvu fyrir þann tíma, en ekki eftir það. Bréf frá Ein­ari Olgeirs­syni til Kom­interns haustið 1936, þar sem hann nefnir við­ræður við Hjalta, en vill frek­ari leið­bein­ingar frá Moskvu, stað­festir síðan þessa til­gátu mína.

Frá­sagnir Jóns af Íslend­ingum í leyni­skólum Kom­interns eru afar glopp­ótt­ar, eins og ég hef gagn­rýnt hann fyr­ir. Hann full­yrti í Kæru félögum (bls. 320), að Krist­ján Júl­í­us­son hefði í Moskvu gengið undir dul­nefn­inu „Jón Jóns­son“ (sem er raunar allt önnur full­yrð­ing en til­gáta hans í Sögu 2007 um Ang­antý Guð­munds­son). Hið rétta er, að Krist­ján bar dul­nefnið „Poul­son“ og stund­aði nám í Lenín­skól­anum 1933–1934. Er getið um nám hans og heim­komu í Morg­un­blað­inu 1934, og dul­nefnið má ráða af einu Kom­intern-skjal­inu frá sama ári. Enn fremur er sú til­gáta Jóns röng í sömu bók (bls. 320), að Lilja Hal­blaub hafi borið dul­nefnið „Karen Han­sen“ í Moskvu. Konan undir því nafni stund­aði nám í Lenín­skól­anum vorið 1936. Þá var Lilja Hal­blaub komin til Íslands, eins og sjá má í blöðum og gögnum komm­ún­ista­flokks­ins íslenska. Þetta hefur verið Elísa­bet Eiríks­dótt­ir, en nám hennar í Moskvu hafði farið fram hjá Jóni, eins og áður seg­ir. 

Það má líka telja gloppu, að Jón Ólafs­son minnt­ist í Kæru félögum hvergi á skýrslu Harrys Levins um Íslands­för sína, þótt hún sé í skjölum þeim, sem hann afhenti hand­rita­deild Þjóð­ar­bók­hlöð­unn­ar, og í þýskri þýð­ingu í öðrum Kom­intern-skjöl­um. Jón vitn­aði hins vegar um för Levins í Kæru félögum (bls. 307 og 314) í „Auszü­ge“, sem hann hefði gert, útdrætti úr gerða­bók fram­kvæmda­stjórnar Kom­interns, 15. 4. 1930 og 15. 10. 1930. Hér er ber­sýni­lega ein­hver rugl­ingur á ferð um fyrri dag­setn­ing­una (nema að hún sé prent­villa og þar eigi að standa 15. 10. 1930). 

Furðu­legar gloppur eru síðan í App­el­sínum frá Abkasíu, sem kom út ári á eftir bók minni um íslenska komm­ún­ista. Þar rakti Jón bréfa­skipti Benja­míns Eiríks­sonar við ást­konu sína Veru Hertzsch, eftir að Benja­mín fór í árs­lok 1936 frá Moskvu, en þá hafði hann getið Veru barn. Hreins­anir Stalíns voru þá hafn­ar, og lauk ævi Veru og lít­illar dóttur þeirra Benja­míns í fanga­búð­um. Síð­asta bréf Veru til Benja­míns var dag­sett 8. des­em­ber 1937. Þar skrif­aði hún: „Greve hefur líka verið hand­tekin [svo]“. Jón sagði (bls. 173), að ekki væri „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunn­áttu­mönnum ljóst: Ric­hard Greve (stundum staf­sett Grewe) var rit­stjóri Deutsche Zentral-Zeit­ung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaða­mað­ur. Hann var hand­tek­inn 14. nóv­em­ber 1937 og skot­inn 25. des­em­ber sama ár. Nafn Ric­hards Greves er nefnt í fjölda rita um hreins­anir Stalíns. Sjálfur vitnar Jón Ólafs­son í eitt slíkt rit, Sviknar hug­sjónir (Verra­tene Idea­le) eftir Oleg Dehl. Þar er sér­stakur kafli um Deutsche Zentral-Zeit­ung með stuttu ævi­á­gripi Greves og mynd af hon­um. Það er furðu­legt, að þetta skuli hafa farið fram hjá Jóni. Þetta er því lík­ast, að Jón sé að segja sögu manns, sem hafi verið blaða­maður á Morg­un­blað­inu um 1950. Þar myndi Jón vitna í stutta athuga­semd blaða­manns­ins í bréfi: „Val­týr er nýkom­inn frá útlönd­um“ — og bæta við, að ekki væri ljóst, hver Val­týr væri, en Val­týr Stef­áns­son var rit­stjóri Morg­un­blaðs­ins 1924–1963.

Bókin App­el­sínur frá Abkasíu er raunar eins konar nagla­súpa. Jón ætl­aði að skrifa um hin dap­ur­legu örlög Veru Hertzsch og dóttur þeirra Benja­míns, en fann lítið sem ekk­ert til við­bótar því, sem áður hafði komið fram (meðal ann­ars í rit­gerðum hans sjálfs), svo að hann drýgði bók­ina með frá­sögnum ann­arra kvenna af vist­inni í fanga­búðum Stalíns og marg­vís­legum öðrum fróð­leik, eins og hrapp­ur­inn í ævin­týr­inu, þegar hann þótt­ist gera súpu úr nagla. Jón minnt­ist til dæmis á fræga bók eftir Elinor Lipper (bls. 251): „Árið 1949 kom út bókin 11 ár í sov­éskum fanga­búðum eftir Elinor Lipp­er. Lipper kom til Moskvu 27 ára gömul árið 1937 í stutta heim­sókn.“ Í þessum tveimur stuttu setn­ingum eru þrjár vill­ur: Bók Lipp­ers kom fyrst út á þýsku snemma árs 1950 og í enskri þýð­ingu á Bret­landi það ár, en í Banda­ríkj­unum árið eft­ir. Í öðru lagi var Lipper að verða 25 ára, þegar hún kom til Moskvu vorið 1937. Hún var fædd í júlí 1912. Í þriðja lagi fór Lipper ekki til Moskvu í stutta heim­sókn, heldur til að vinna í þágu bylt­ing­ar­inn­ar. Hún bjó á Hotel Lux og starf­aði ásamt skráðum eig­in­manni sín­um, Kon­rad Vett­erli, í bóka­út­gáfu erlendra bóka undir dul­nefn­inu Ruth Zand­er. Í heim­ilda­skrá er getið bók­ar­innar Elf Jahre in Sowjet­ischen Gefängn­is­sen und Lag­ern eftir Lipp­er, Chicago 1950, hjá Oprecht. Hið rétta er, að þýska bókin kom út hjá Oprecht í Zürich. Hin banda­ríska þýð­ing kom út hjá Henry Regnery í Chicago ári síð­ar. Jón virð­ist síðan ekki vita, að bæði Tím­inn og Vísir birtu útdrætti úr bók Lipp­ers árin 1951 og 1953. Gat ég þess í bók minni um íslenska komm­ún­ista (bls. 149–150). 

Þetta er raunar ekki eina dæmið um, að bók­fræði­þekk­ing Jóns sé glopp­ótt. Í þýð­ingu á skýrslu um starf­semi Máls og menn­ingar frá 1959, sem birt­ist í Kæru félögum, not­aði Jón sem eðli­legt er hin íslensku heiti á ýmsum útgáfu­ritum Máls og menn­ingar (bls. 284), Jóhann Krist­ó­fer eftir Rom­ain Rolland, Þrúgur reið­innar eftir John Stein­beck og Vopnin kvödd eftir Ernest Hem­ingway. En tveimur blað­síðum aftar voru talin upp nokkur útgáfu­rit Almenna bóka­fé­lags­ins, og virt­ist Jón ekki vita af hinum íslensku heitum þeirra: Hann kall­aði Hina nýju stétt eftir Milovan Djilas „Nýju stétt­ina“ og Örlaga­nótt yfir Eystra­salts­löndum eftir Ants Oras „Sól­myrkva í Eystra­salts­lönd­um“. Raunar fór hann á sama stað rangt með nafn rúss­neska rit­höf­und­ar­ins Vladímírs Dúd­íntsev, sem hann kall­aði „Du­dentev“, hvort sem um er að kenna rúss­neska frum­text­anum eða glöpum Jóns sjálfs. Þá var bók Þórs Whitehead, Ófriður í aðsigi, nefnd í heim­ilda­skrá (bls. 330) „Óveður í aðsig­i“!

Skekkjur Jóns Ólafs­sonar

Gera má grein­ar­mun á glopp­um, skekkjum og vill­um. Gloppur verða, þegar eitt­hvað vantar í frá­sögn, sem á þó heima þar sam­heng­is­ins vegna, og er oft­ast um að kenna vangá eða van­þekk­ingu. Skekkjur eru hins vegar ástæðu­laus óná­kvæmni og stundum líka ómark­viss og reikul frá­sögn. Mikið er um slíkar skekkjur í verkum Jóns Ólafs­son­ar. Sumar virð­ast stafa af því, að hann treysti minni sínu og hirði ekki um að fletta upp stað­reynd­um. Í App­el­sínum frá Abkasíu sagði Jón til dæmis svo frá Vetr­ar­stríð­inu (bls. 285). „Það var stríð Rússa við Finna en þeir fyrr­nefndu réð­ust yfir landa­mærin haustið 1939 til að ná af Finnum þeim hluta Kar­elíu sem hafði fallið þeim í skaut 1918 þegar Finn­land varð sjálf­stætt rík­i.“ Hér er flest skakkt. Vetr­ar­stríðið skall ekki á haustið 1939, heldur í nóv­em­ber­lok, um hávet­ur, eins og nafnið sýn­ir. Það skiptir þó ekki eins miklu máli og hitt, að Finn­land varð ekki sjálf­stætt 1918, heldur 6. des­em­ber 1917, og við­ur­kenndu Kreml­verjar sjálf­stæði þess strax 18. des­em­ber það ár. Kjartan Ólafs­son gerir sömu villu um sjálf­stæði Finna í bók sinni (bls. 201), eflaust eftir Jóni. Í Tartu 1920 sömdu Finnar við Kreml­verja um end­an­leg landa­mæri ríkj­anna. Engin rúss­nesk svæði (önnur en Pet­samo við Íshaf) féllu þá í skaut Finna. Kreml­verjar við­ur­kenndu í Tart­u-­samn­ingnum 1920 að lang­mestu leyti landa­mærin frá 1809, þegar Finn­land gekk undan Svíum og varð stór­her­toga­dæmi, sem laut Rússa­keis­ara. Rússar höfðu þá skilað Finn­landi aftur svæðum í Kirjála­landi (Kar­el­íu), sem þeir höfðu unnið á önd­verðri átj­ándu öld eftir stríð við Svía. Þessi svæði voru byggð Finnum og hluti af Finn­landi nema tíma­bilið 1721–1809. Því fer þess vegna fjarri, sem var á Jóni að skilja, að í Vetr­ar­stríð­inu hefðu Rússar aðeins verið að end­ur­heimta land, sem þeir hefðu misst. 

Í verkum Jóns eru nöfn, tíma­setn­ingar og til­vís­anir mjög á reiki. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 346), að „Verka­lýðs­sam­band norð­ur­lands“ hefði verið „helsta vígi komm­ún­ista í verka­lýðs­hreyf­ing­unni fyrir 1930“. En þetta hét Verk­lýðs­sam­band Norð­ur­lands og var ekki aðeins vígi komm­ún­ista fyrir 1930, heldur ekki síður eftir 1930. Kjartan Ólafs­son fer einnig rangt með þetta nafn í Draumum og veru­leika (bls. 59, 87 og víð­ar), eflaust eftir Jóni. Þetta er auð­vitað smá­at­riði, en ég leyfi mér að minna á, að í umsögn í Tíma­riti Máls og menn­ingar 1993 um rit eftir Árna Snæv­arr um íslenska komm­ún­ista var sér­stak­lega fundið að því, að hann hefði jafnan rang­lega kallað mál­gagn þeirra „Verka­lýðs­blað­ið“, ekki „Verk­lýðs­blað­ið“, eins og rétt er. Annað dæmi um óná­kvæmni er, að Jón sagði í Kæru félögum (bls. 313), að Alþingi hefði svipt Hall­dór Kiljan Lax­ness rit­höf­und­ar­launum 1948. Það er ekki rétt. Sér­stök úthlut­un­ar­nefnd, sem Alþingi hafði val­ið, gerði það. Féll til­laga í nefnd­inni um að veita Lax­ness hæstu rit­höf­und­ar­laun á jöfnu, með tveimur atkvæðum gegn tveim­ur. Í sömu bók sagði Jón (bls. 315), að menn­ing­ar­tengsla­stofnun Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna, VOKS, hefði breytt um nafn 1952, en nýja nafnið hefði verið skamm­stafað SSDD. Af sam­hengi (hinu fulla rúss­neska nafni) er ljóst, að skamm­stöf­unin hlýtur að vera SSOD, og sú var raun­in. Nafn­breyt­ingin á stofn­un­inni var auk þess ekki 1952, eins og Jón full­yrð­ir, heldur í febr­úar 1958.

Fleiri dæmi má nefna um, hversu ósýnt Jóni virð­ist vera um að fara rétt með nöfn og tíma­setn­ing­ar. Í Kæru félögum kall­aði hann einn erind­reka Kom­interns á Íslandi, Haavard Lang­seth, ekki einu sinni, heldur tvisvar (bls. 38 og 340) Langes­eth. Jón sagði síðan á einum stað (bls. 38), að Lang­seth hefði komið hingað 1929, og á öðrum stað (bls. 340), að hann hefði komið hingað 1928. Hann kom hvor­ugt það ár til Íslands, svo að vitað sé. Hins vegar eru nægar heim­ildir til um, að Lang­seth kom hingað 1930, meðal ann­ars frá­sögn Ein­ars Olgeirs­sonar í minn­inga­bók­inni Krafta­verki einnar kyn­slóðar frá 1983. Þetta er óná­kvæmni, ekki mein­lausar prent­vill­ur. Hið sama er að segja um heim­ildir Jóns fyrir komu og störfum Lang­seths. Sam­kvæmt til­vísun nr. 49 við kafl­ann „Vinstri­hreyf­ingin á tímum Kom­intern“ í Kæru félögum (bls. 38 og 307) eru heim­ild­irnar þrjár. Í einni þeirra, bréfi frá 26. des­em­ber 1928, Kom­intern 495 177 16 (RSHS, nú RGA­SPI), kemur ekk­ert fram um Lang­seth. Í skjala­möpp­unni Kom­intern 495 3 79 (RSHS, nú RGA­SPI) er ekk­ert „bréf um hreins­anir á Akur­eyr­i“, sem á að vera til sam­kvæmt til­vís­un­inni. Þriðja skjal­ið, „Memorand­um“ í Kom­intern 495 31 110 (RSHS, nú RGA­SPI), hef ég ekki fundið í þeim gögnum úr rúss­neskum skjala­söfn­um, sem Jón vann úr fyrir verk sín og afhenti síðan hand­rita­deild Þjóð­ar­bók­hlöð­unn­ar.

Í Kæru félögum kall­aði Jón Olav Veg­heim, annan erind­reka Kom­interns á Íslandi, rang­lega Olaf (bls. 23). Jón minnt­ist í sömu bók þrisvar (bls. 123, 125 og 334) á breska þing­mann­inn William Gallacher, en kall­aði hann ætíð Callag­her, þótt hann vitn­aði í bók Ein­ars Olgeirs­son­ar, þar sem rétt er farið með nafn hans. Jón kall­aði í meg­in­máli sömu bókar (bls. 180) Fjodor Gúsjev sendi­full­trúa réttu nafni, en í Nafna- og atrið­is­orða­skrá (bls. 336) var hann orð­inn N. A. Gúsév. Einnig var hann sagður sendi­herra, sem hann var ekki. Jón kall­aði Ívan G. Kab­anov aðstoð­ar­ráð­herra (bls. 231 og 338) rang­lega N. G. Kab­anov.

Marg­vís­leg óná­kvæmni Jóns stafar ber­sýni­lega af því, hversu lítt hann hefur lagt sig eftir að kynna sér sögu íslenskra komm­ún­ista og vinstri sós­í­alista. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 334), að Egg­ert Þor­bjarn­ar­son hefði verið „einn helstu framá­manna [svo] íslenskra komm­ún­ista á þriðja og fjórða ára­tugn­um“. En Egg­ert fædd­ist 1911 (ekki 1910, eins og Jón seg­ir), svo að hann var aðeins 19 ára í lok þriðja ára­tug­ar. Hann var hins vegar fram­má­maður í flokki komm­ún­ista og sós­í­alista á fjórða, fimmta og sjötta ára­tug, starfs­maður Kom­interns og síðar fram­kvæmda­stjóri Sós­í­alista­flokks­ins. Annað dæmi um ókunn­ug­leika Jóns á innviðum íslensku komm­ún­ista­hreyf­ing­ar­innar er, að hann sagði í fram­lagi sínu til Guldet fra Moskva 2001 (bls. 191), að Hend­rik S. Ott­ós­son hefði verið „et af parti­ets mest aktive medlemmer i tredi­ver­ne“. Það er ekki nákvæmt. Hend­rik dró sig að mestu út úr starfi íslenskra komm­ún­ista um og eftir miðjan fjórða ára­tug, og olli því hvort tveggja, ann­ríki og ósætti við félaga. Einnig þarf að leið­rétta það, sem Jón sagði í Kæru félögum (bls. 340), að Lenín­skól­inn hefði starfað til 1937. Hann starf­aði til 1938, þótt ekki væri margir nem­endur þar síð­asta árið. Einn þeirra var þó íslenskur, Ásgeir Blön­dal Magn­ús­son.

Fleiri dæmi má nefna um skekkjur Jóns. Hann virð­ist hafa farið manna­villt í frá­sögn sinni af fjár­beiðnum Ein­ars Olgeirs­sonar og Krist­ins E. Andr­és­sonar fyrir hönd Máls og menn­ingar í árs­byrjun 1959. Hann sagði á einum stað (bls. 189), að þessar beiðnir Ein­ars og Krist­ins hefðu verið bornar upp við Aleksandr Aleksandrov sendi­herra. En einni blað­síðu aftar er svo að sjá, að þær hafi verið bornar upp við Pavel Ermos­hín, sem var sendi­herra á undan Aleksandrov! Vitn­aði Jón í bæði skiptin í sama skjal. Fyrri til­vís­unin (um Aleksandrov) er SSH: 5 50 159, bls. 22 (nú RGAN­I). Seinni til­vís­unin (um Ermos­hín) er SSH: 5 50 159 18. 1 1959, bls. 22–23 (nú RGAN­I). Þar sem ég hef ekki rúss­nesku frum­heim­ild­irnar við hend­ina, get ég ekki skorið úr þessu máli, en svo virð­ist þó sem fyrri útgáfa Jóns sé rétt og beiðnir þeirra Ein­ars og Krist­ins hafi verið bornar upp við Aleksandrov, því að hann var orð­inn sendi­herra á Íslandi í ársbyrjun 1959. 

Ýmsar fleiri skekkj­ur, stórar og smá­ar, getur að líta í Kæru félögum. Jón sagði til dæmis (bls. 199 og 293), að fyr­ir­tæki í Moskvu, Technoimport, hefði birt aug­lýs­ingar í íslenskum blöðum vorið 1954. En það var fyr­ir­tækið Technopromimport, sem birti þessar aug­lýs­ingar í blöðum 21. og 23. febr­ú­ar, og vorið er ekki komið í febr­ú­ar, heldur heitir sá tími á útmán­uð­um. Ein­hver rugl­ingur er líka á neð­an­máls­greinum á þessum blað­síð­um, sem eru um fyr­ir­tækja­rekstur sós­í­alista. Svo virð­ist sem fallið hafi niður til­vísun aft­an­máls, sem ætti að vera nr. 58, en þess í stað til­vísun nr. 59 verið tví­tekin og til­vísun nr. 61 færð aftar en ætti að vera (sú til­vísun er um skrif Ein­ars Olgeirs­sonar um atburði árs­ins 1954, en hún er tíma­sett 1952!). Raunar er líka ein­kenni­legt, að til­vís­an­irnar eru um við­ræður Krist­ins E. Andr­és­sonar við ráða­menn í Moskvu, og skýrsl­urnar eru þar tíma­settar 1952, en í meg­in­máli seg­ir, að við­ræð­urnar hafi farið fram vorið 1951 (og þá var Krist­inn vissu­lega í Moskvu sem for­maður sendi­nefndar MÍR). Þar sem ég hef ekki rúss­nesku frum­heim­ild­irnar við hend­ina, get ég ekki sagt til um, hver rugl­ing­ur­inn er. 

Þá sagði Jón (bls. 306), að gagn­rýni hefði borist á Einar Olgeirs­son frá aðal­skrif­stofu fram­kvæmda­nefndar Kom­interns 1921, en hún hefur vænt­an­lega verið sett fram 1931. Skjal það, sem Jón vís­aði í (495 18 897, RSHS, nú RGA­SPI), finnst ekki í Kom­intern-skjölum á Þjóð­ar­bók­hlöðu. Einnig sagði Jón frá ráð­stefnu komm­ún­ista á Siglu­firði 1928 (bls. 307). Skjal það, sem hann vís­aði í (495 33 373, RSHS, nú RGA­SPI), finnst ekki heldur í Kom­intern-skjölum á Þjóð­ar­bók­hlöðu, en þar er hins vegar fróð­legt skjal um ráð­stefnu komm­ún­ista á Siglu­firði 1930 (Lbs. 5228 4to, a-b. Kom­intern 495 177 18, 9–12. Referat av den kommunisti­ske kon­fer­ence paa Siglu­fjord, d. 6. juli 1930). Í bók sinni vitn­aði Jón tvisvar í skýrslu frá Brynjólfi Bjarna­syni frá 1937, „Ber­icht über die Lage in Island und die Aufga­ben der Partei,“ í Kom­intern-skjöl­unum (bls. 310), en notar tvær ólíkar töl­ur, 495 15 105 og 495 18 1224. Í rit­gerð sinni í Sögu 2007 (bls. 105) vís­aði hann í sama skjal með fyrr­nefndu töl­unni. En í þeirri möppu á hand­rita­deild Þjóð­ar­bók­hlöð­unnar er engin skýrsla Brynj­ólfs, heldur skýrsla Krist­ins E. Andr­és­sonar frá 1940, „Ber­icht des Gen­ossen Andresson über die Lage in Island.“ Virð­ist Jón hafa rugl­ast á þessum tveimur skýrsl­um.

Jón fer ekki aðeins manna­villt og skýrslu­villt, heldur er tíma­tal hans líka mjög los­ara­legt, eins og ég hef þegar nefnt. Fleiri dæmi má tína til. Jón sagði í Kæru félögum (bls. 65), að Andrés Straum­land hefði farið frá Moskvu 1932, en það gerði hann 1931. Í sömu bók sagði hann svo frá hrær­ingum í komm­ún­ista­flokknum árið 1934 (bls. 77, ská­letur mitt): „Að­al­skrif­stofa fram­kvæmda­nefndar sendi íslenskum félögum fyr­ir­mæli um það í skeyti í júní 1934 hvernig skipa ætti for­ustu flokks­ins. Brynjólfur var áfram for­mað­ur, en Einar Olgeirs­son var gerður að gjald­kera flokks­ins, Jón Rafns­son verka­lýðs­mála­full­trúi, Hjalti Árna­son skyldi vera yfir áróð­urs­málum og Jens Fig­ved yfir skipu­lags­málum flokks­ins. Jens var kall­aður til Moskvu um svipað leyti og honum kynnt stefna Kom­interns. Hann flutti félögum sínum boð­skap­inn um sum­arið.“ Les­and­inn er litlu nær um hið sögu­lega sam­hengi. Hvað gerð­ist? Eftir hörð inn­an­flokksá­tök á útmán­uðum 1934 og brott­rekstur margra flokks­manna var Jens Fig­ved kall­aður til Moskvu (sam­kvæmt ályktun Kom­interns 11. maí) og síðan sendur heim með boð­skap­inn (sem var skil­greindur í bréfum til fjög­urra ein­stak­linga, dags. 31. maí, og ályktun Kom­interns 3. jún­í). Um miðjan júní hættu „hreins­an­irn­ar“ í komm­ún­ista­flokknum snögg­lega, eftir að ný lína hafði borist með Jens Fig­ved. Raunar er það, sem Jón segir um þetta, óná­kvæmt efn­is­lega: Kom­intern setti með ályktun sinni 3. júní í raun mið­stjórn komm­ún­ista­flokks­ins af og skip­aði nýja stjórn­mála­nefnd, þar sem sátu Brynjólfur Bjarna­son for­mað­ur, Jón Rafns­son, sem sinnti verka­lýðs­bar­áttu, Jens Fig­ved, sem ann­að­ist áróð­ur, Einar Olgeirs­son, sem sá um fjár­mál flokks­ins og útgáfu­mál, „Guð­munds­son“ (vænt­an­lega Þór­oddur Guð­munds­son) og „Stef­áns­son“ (væntanlega Bene­dikt Stef­áns­son). Hjalti Árna­son átti að hafa á hendi rit­stjórn flokks­blaðs­ins (Verk­lýðs­blaðs­ins) með þeim Brynjólfi Bjarna­syni og Ein­ari Olgeirs­syn­i. 

Enn eitt dæmi um los­ara­legt tíma­tal er, að Jón skipti Kæru félögum í tvo hluta, Kom­inter­nár og Kalda­stríðs­ár. Seinni hlut­inn hefst á kafla um það, þegar menn úr leyni­þjón­ustu flot­ans ræða við Einar Olgeirs­son sum­arið 1942! Þessi skipt­ing er vit­an­lega óeðli­leg. Deila má um, hvenær kalda stríðið hóf­st, en það var svo sann­ar­lega eftir seinni heims­styrj­öld­ina. Jón sagði í Sögu 2007 (bls. 107), að bréf Ein­ars Olgeirs­sonar til Kom­interns 1938 hefði verið sent „snemma í ágúst“, en það var dag­sett 21. ágúst. Hann vís­aði í þrjú ólík safn­merki um það, á einum stað í bók hans frá 1999 (bls. 311) er það 495 15 105, á öðrum stað í sömu bók (bls. 267) er það 21 (1/4) 74 265, ágúst 1938, á þriðja staðn­um, í rit­gerð­inni í Sögu 2007 (bls. 107) er það 495 24 265. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Jóns sjálfs er síð­asta safn­merkið með prent­villu og á að vera 495 74 265, en mun­ur­inn á þeirri til­vísun og hinni fyrstu sé, að annað skjalið sé úr fórum Wil­helms Flor­ins, en hitt sam­hljóða því frá Georgí Dímítrov. Má nærri geta, að erfitt er að sann­reyna kenn­ingar Jóns með því að skoða frum­heim­ildir hans, þegar svo illa er að verki stað­ið. 

Það má síðan kalla skekkjur frekar en gloppur eða vill­ur, að orða­lag Jóns Ólafs­sonar er iðu­lega ómark­visst og ein­kenni­legt, jafn­vel við­van­ings­legt. Hann sagði til dæmis í Kæru félögum (bls. 175) frá hinni frægu leyniræðu Khrúst­sjovs 1956. Þar slædd­ist raunar inn hjá honum smá­villa, að komm­ún­ista­flokkur Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna hefði haldið þing sitt í mars. Þingið stóð 14.–24. febr­ú­ar. Jón hélt áfram: „Egg­ert [Þor­bjarn­ar­son] tók þessi tíð­indi mjög nærri sér, enda var hann einn heil­steyptasti stalínist­inn í flokknum og ákaft hat­aður af banda­rískum sendi­mönnum sem fylgd­ust með þróun stjórn­mála í land­in­u.“ Það er almennt talið lof­sam­legt að vera „heil­steypt­ur“. Menn eru til dæmis ekki taldir „heil­steyptir nas­istar“. Hér hefði verið eðli­legra að segja „ein­dreg­inn“ eða „harð­ur“. Það er líka hæp­ið, að sendi­menn Banda­ríkj­anna á Íslandi hafi „hatað“ Egg­ert, þótt þeir hafi eflaust talið hann hættu­legan komm­ún­ista. Annað dæmi um und­ar­legt orða­lag er, þegar Jón sagði í sömu bók frá heims­móti æskunn­ar, sem haldið var reglu­lega eftir stríð og ung­liða­sam­tök Sós­í­alista­flokks­ins skipu­lögðu ferðir á (bls. 194): „Stundum voru svik­arar í hópnum sem birtu níð­greinar eða jafn­vel bæk­linga um her­leg­heitin þegar heim var kom­ið.“ Neð­an­máls vís­aði Jón í bæk­ling Magn­úsar Þórð­ar­son­ar, þá blaða­manns á Morg­un­blað­inu, Mótið í Moskvu, sem kom út 1957. En í hvaða skiln­ingi var Magnús „svik­ari“? Öllu ungu fólki var frjálst að fara á mót­ið. Þátt­taka var ekki bundin við sós­í­alista. Og greina­flokkur Magn­úsar um mótið í Morg­un­blað­inu var síður en svo neitt níð, þótt þar væri gert góð­lát­legt gys að ýmsu austan járn­tjalds.

Enn eitt dæmið um ein­kenni­legt orða­lag er, þegar Jón Ólafs­son skrif­aði í Kæru félögum (bls. 225): „Það er lík­legra að óvissa um áform rík­is­stjórn­ar­innar hafi valdið bakslagi sem kom í her­náms­málið í árs­byrjun 1957, en að það hafi stafað af lin­kind sós­í­alista í her­mál­in­u.“ Fyrst í setn­ing­unni not­aði Jón orðið „her­náms­mál“, en síðan orðið „her­mál­ið“. Ísland var hernumið af Bretum 1940–1941. Eftir það naut það her­verndar Banda­ríkja­manna sam­kvæmt samn­ing­um. Óeðli­legt var að nota orðið „her­náms­mál­ið“ um deil­urnar hér­lendis um dvöl banda­ríska varn­ar­liðs­ins á Mið­nes­heiði. Af sam­heng­inu má hins vegar ráða, að hugs­an­lega hafi átt að standa „lána­mál­ið“ í stað „her­náms­máls­ins“, enda var kafl­inn um umleit­anir um lán frá Kreml­verjum til íslenska rík­is­ins. Allt virð­ist hér skekkt og skælt og les­and­anum látið eftir að geta sér til um merk­ingu text­ans. 

Villur Jóns Ólafs­sonar

Ýmsar villur í verkum Jóns Ólafs­sonar er erfitt að skýra. Þær birt­ast eins og skratt­inn í sauð­ar­leggnum og þjóna ekki einu sinni þeim til­gangi að gera lítið úr ofbeldiseðli komm­ún­ista­hreyf­ing­ar­inn­ar. Strax í upp­hafi meg­in­máls í Kæru félögum (bls. 15) er rang­hermi. Jón sagði þar frá för Hend­riks Ott­ós­sonar og Brynj­ólfs Bjarna­sonar á annað þing Kom­interns 1920: „Ferða­lang­arnir þurftu að fara norður alla Sví­þjóð og yfir landa­mæri Nor­egs til Rúss­lands. Þaðan svo aftur suður á bóg­inn, fyrst til Petr­ograd þar sem þingið var sett og svo austur til Moskvu.“ En sam­kvæmt frá­sögn Hend­riks, sem ástæðu­laust er að rengja, fóru þeir fyrst frá Kaup­manna­höfn til Stokk­hólms til að ná í gögn og farar­eyri hjá erind­reka Kom­interns þar í borg. Síðan sneru þeir aftur til Kaup­manna­hafnar og fóru með skipum vestur og norður Noreg til Mur­m­ansk. Var þessi för hin mesta svað­il­för. Urðu þeir að smygla sér í litlum báti norður að landa­mærum Nor­egs, því að þeir höfðu ekki far­ar­leyfi þang­að, og þaðan til Rúss­lands. Þeir misstu raunar af fyrstu dögum þings­ins í Pét­urs­garði, því að það hafði verið flutt til Moskvu. Komu þeir mjög seint á þing­ið, eins og ég minnt­ist á hér á und­an. Frá­sögn Hend­riks er í minn­inga­bók hans, Frá Hlíð­ar­húsum til Bjarma­lands (bls. 199–222), en Jón vís­aði þó í þá bók á tveimur stöðum í Kæru félögum (bls. 15 og 305).

Jón sagði í Kæru félögum (bls. 26), að Brynjólfur Bjarna­son hefði sótt þing Kom­interns 1924 „fyrir hönd Jafn­að­ar­manna­fé­lags Reykja­vík­ur“, en hann sótti það sem full­trúi Sam­bands ungra komm­ún­ista (sem átti ólíkt Jafn­að­ar­manna­fé­lagi Reykja­víkur óbeina aðild að Kom­intern, þar eð það var tengt Alþjóða­sam­bandi ungra komm­ún­ista, þó ekki sem full­gilt aðild­ar­fé­lag, að því er virð­is­t). Þetta er ekk­ert smá­at­riði, því að það rann upp fyrir Kom­intern-­mönnum í Moskvu 1922, að Ólafur Frið­riks­son hafði á þing­inu í Moskvu 1921 stór­lega ýkt eðli og áhrif Jafn­að­ar­manna­fé­lags­ins, þar sem hann hafði und­ir­tök­in. Enn fremur sagði Jón í Kæru félögum (bls. 338), að Jafn­að­ar­manna­fé­lag Reykja­víkur hefði verið „rekið úr Alþýðu­sam­band­inu eftir að komm­ún­istar komust í meiri­hluta í félag­in­u“. Þetta er rangt. Komm­ún­istar voru ásamt stuðn­ings­mönnum Ólafs Frið­riks­sonar í meiri hluta þar allt frá 1922, og var það skýr­ingin á því, að jafn­að­ar­menn gengu úr því félagi og stofn­uðu Jafn­að­ar­manna­fé­lag Íslands. Jafn­að­ar­manna­fé­lag Reykja­víkur var ekki rekið úr Alþýðu­sam­band­inu fyrr en 1926 og þá vegna ógold­inna félags­gjalda. Þá lágu leiðir komm­ún­ista og Ólafs Frið­riks­sonar ekki lengur sam­an. Sam­kvæmt nafna- og atrið­is­orða­skrá (bls. 338) virð­ist Jón ekki heldur gera grein­ar­mun á þessu Jafn­að­ar­manna­fé­lagi Reykja­vík­ur, sem Ólafur Frið­riks­son hafði öll tök á, og Jafn­að­ar­manna­fé­lagi Reykja­vík­ur, eins og Jafn­að­ar­manna­fé­lag Íslands (sem svo hét 1922–1937) kaus að kalla sig frá 1937. Í nafna- og atrið­is­orða­skránni (bls. 343) segir enn fremur rang­lega, að málgagn ungra íslenskra komm­ún­ista, Rauði fán­inn, hafi komið út 1924–1927. Hann kom einnig út 1930–1937.

Und­ar­legar villur eru einnig í Kæru félögum, þegar Jón birti bréf íslenskra komm­ún­ista til Kom­interns frá 1927 í heild sem við­auka (bls. 255–256). Jón sagði framan við við­aukann, að bréfið væri frá Brynjólfi Bjarna­syni og Hend­rik Ottós­syni og skrifað í mars eða apríl 1927. Í meg­in­máli sagði hann hins vegar (bls. 30), að bréfið væri frá Brynjólfi Bjarna­syni og Ársæli Sig­urðs­syni og skrifað í apr­íl. Þýddi hann sömu klausu öðru vísi í meg­in­máli en í við­auk­an­um. Í gögnum Kom­interns kemur hins vegar skýrt fram, að bréfið er skrifað 14. apríl 1927 og mót­tekið í Moskvu 6. maí sama ár (RGA­SPI 495 177 16, 11–13. Lbs. 5228 4to). Óná­kvæmni Jóns hefur slæðst inn í (óprent­aða) dokt­ors­rit­gerð Skafta Ingi­mars­son­ar, en þar segir Skafti, að Brynjólfur og Ársæll hafi skrifað bréf­ið.  

Furðu­margar villur Jóns í Kæru félögum tengj­ast Menn­ing­ar­tengslum Íslands og Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna, MÍR, sem Jón kallar rang­lega (t. d. bls. 181 og 340) „Menn­ing­ar­sam­band Íslands og Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna“ (þótt hann fari rétt með nafnið á bls. 179). Jón segir (bls. 181) og vísar um það í rúss­neska skýrslu, að í sendi­nefnd MÍR til Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna haustið 1951 hafi verið Sig­valdi Thordar­son húsa­teikn­ari, Jón Magn­ús­son frétta­stjóri, Bolli Thorodd­sen verk­fræð­ing­ur, Arn­finnur Jóns­son skóla­stjóri og „Björn Jóhanns­son verk­fræð­ing­ur“. Eng­inn Björn var í sendi­nefnd­inni haustið 1951. Fimmti mað­ur­inn var Áskell Snorra­son tón­list­ar­kenn­ari, sem skrif­aði síðan bók um ferð­ina, Í landi lífs­gleð­inn­ar, og lætur Jón þess einmitt getið á öðrum stað (bls. 192), að sendi­ráð Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna í Reykja­vík hafi greitt útgáfu­kostnað henn­ar. Björn Jóhann­es­son jarð­vegs­fræð­ingur (ekki Jóhanns­son) fór hins vegar í ferð nokk­urra íslenskra vís­inda­manna á vegum MÍR 1954. Þá er þess að geta, að til­vitn­anir frá þess­ari blað­síðu (181) og hinum næstu á undan og eftir virð­ast hafa rugl­ast. Ráða má af sam­heng­inu, að til­vís­anir aft­an­máls nr. 17 og 18 eigi að vera nr. 13 og 14, en síðan eigi nr. 13 til 16 að vera nr. 15 til 18. Jón er þó ekki alveg skil­inn að skiptum við sendi­nefnd­ina 1951. Í mynda­texta á móts við bls. 129 í bók­inni Kæru félagar segir Jón, að myndin sé af Íslend­ingum í Moskvu 1951. En hún er af sendi­nefnd, sem fór til Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna vorið 1953. Raunar gerir Jón enga til­raun til að nafn­greina alla á mynd­inni, þótt það sé auð­velt, þar eð vitað er, hverjir nefnd­ar­menn voru: Níu manns auk kventúlks, en það má kalla gloppu frekar en villu.

Fleira hefur brengl­ast í kafla Jóns Ólafs­sonar um MÍR, til dæmis til­vís­anir í rúss­nesk skjala­söfn (sjá aft­an­máls­greinar nr. 27, 28 og 29 og síðan 47, 48 og 49). Enn fremur sagði Jón (bls. 185) um átök í MÍR árin 1958–1960: „Þessi átök end­uðu með því að Krist­inn E. Andr­és­son missti ítök sín í MÍR og var bolað út úr félag­in­u.“ Þessu var þver­öf­ugt far­ið, eins og nægar opin­berar heim­ildir eru til um. And­stæð­ingar Krist­ins misstu ítök sín í MÍR og var bolað út úr félag­inu. Eftir að Sig­ur­vin Öss­ur­ar­son, Adolf Pet­er­sen og fleiri menn úr Reykja­vík­ur­deild MÍR höfðu haustið 1958 upp­lýst menn frá Ráð­stjórn­ar­ríkj­unum um, að þeir vissu frá Kristni af fjár­hags­legum stuðn­ingi Moskvu­manna við MÍR, varð órói í félag­inu. Beittu for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins sér fyrir því, að Reykja­vík­ur­deild MÍR væri tekin úr höndum þess­ara manna á aðal­fundi hennar 26. febr­úar 1960. Þeim tókst ætl­un­ar­verk sitt. Varð Árni Böðv­ars­son for­maður félags­deild­ar­innar í stað Sig­ur­vins, og annar banda­maður Krist­ins, Þor­valdur Þór­ar­ins­son, tók sæti í stjórn­inni. Einn þeirra manna, sem felldir voru úr stjórn, Adolf Pet­er­sen, skrif­aði um þetta í blöð. Málið er líka rakið nokkuð í einni SÍA–­skýrsl­unni, sem Jón Ólafs­son vitnar raunar sjálfur í (Rauða bókin (R­vík 1984), bls. 126). Krist­inn E. Andr­és­son og aðrir for­ystu­menn Sós­í­alista­flokks­ins réðu alla tíð yfir sjálfum heild­ar­sam­tök­un­um, enda varð Krist­inn for­seti MÍR á eftir Hall­dóri Lax­ness 1968.

Hitt er annað mál, að svo virð­ist eftir skjölum þeim, sem Jón Ólafs­son rakti efn­is­lega, að sendi­menn Ráð­stjórn­ar­ríkj­anna í Reykja­vík hafi um skeið tekið meira mark á and­stæð­ingum Krist­ins úr Reykja­vík­ur­deild MÍR en á honum sjálf­um. Jón gefur eft­ir­far­andi skýr­ingu á því (bls. 186): „Í stað þess að halda í lengstu lög tengslum við þá for­ustu­menn sem eitt­hvað var í spunnið og ráku sjálf­stæða stefnu, voru hinir þægu og und­ir­gefnu teknir fram yfir þá.“ En þessi skýr­ing átti ekki við á Íslandi. Krist­inn E. Andr­és­son og liðs­menn hans voru jafn­und­ir­gefnir Kreml­verjum og hóp­ur­inn í kringum Sig­ur­vin Öss­ur­ar­son. Ástæðan til þess, að sendi­ráðs­menn undu um skeið illa vinnu­brögðum Krist­ins E. Andr­és­son­ar, var ber­sýni­lega sú, að hann not­aði MÍR sem féþúfu. Rekur Jón þá sögu í bók sinni án þess þó að virð­ast átta sig á henni. Í lok sjötta ára­tugar var mán­að­ar­legt fram­lag sendi­ráðs­ins til MÍR átján þús­und krón­ur. Það nægði vel fyrir tveimur starfs­mönnum og hús­næð­is­kostn­aði, en félagið hafði á leigu hús­næði í Þing­holts­stræti 27, sem var í eigu fyr­ir­tæk­is­ins Hóla hf. Krist­inn E. Andr­és­son rak það fyr­ir­tæki, og var það eins konar hlið­ar­fyr­ir­tæki Máls og menn­ing­ar. Það var með öðrum orðum Krist­inn E. Andr­és­son, sem leigði MÍR og safn­aði húsa­leigu­skuld­um. Sendi­ráðs­menn hlutu að spyrja: Hvert rann þá féð, sem hann fékk mán­að­ar­lega til MÍR? Jafn­framt til­kynnti Krist­inn sendi­ráðs­mönn­um, að við­gerð á hús­næð­inu hefði kostað 107 þús­und krón­ur, sem var stórfé á þeirri tíð, og skuld­aði MÍR það fé. Það auð­veldar les­and­anum að vísu ekki að skilja mál­ið, að tíma­röð í þeim skýrslum sendi­ráðs­ins um MÍR–­mál­ið, sem Jón ræðir um (bls. 182–185), er óljós. Þó virð­ast þessar skýrslur vera frá hausti 1958 til sum­ars 1959, en þá var Mál og menn­ing að und­ir­búa og smíða stór­hýsi sitt við Lauga­veg 18 og mjög fjár þurfi.

Óáreið­an­leg verk Jóns Ólafs­sonar

Af þessu yfir­liti um brell­ur, firr­ur, glopp­ur, skekkjur og villur í verkum Jóns Ólafs­son­ar, sem ég hef tekið saman í til­efni greinar hans í Kjarn­anum, má svo sann­ar­lega sjá, að hann er í hópi þeirra, sem „hjálpa err­ori­bus á gáng“, eins og Árni Magn­ús­son orð­aði það forð­um. Verkum hans er alls ekki að treysta, og leið­in­legar villur slæð­ast inn hjá þeim, sem fara eftir þeim. Er ærið verk að leið­rétta missagnir hans og þeirra, sem honum treysta. „Hafa svo hverjir tveggja nokkuð að iðja.“ 



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar