Fátækt er stundum ekki fátækt

Eggert Gunnarsson segir í aðsendri grein að við verðum horfast í augu við þá staðreynd að fátækt, léleg lífskjör og óréttlæti séu enn svo sannarlega til staðar – þó að árangri hafi verið náð þá sé enn langt í land.

Auglýsing

Fyrir stuttu var ég að skruna á flakki um Facebook, alls ekki að leita að neinu sérstöku svo sem. Þá rakst ég á þetta myndband þar sem Michael nokkur Parenti talar. Þetta er gömul ræða og honum er mikið niðri fyrir.

Ég kunni lítil deili á ræðumanninum og ætlaði bara að halda skruninu áfram en eitthvað hélt aftur af mér og ég horfði til enda á þetta myndskeið.

Michael Parenti þessi er bandarískur stjórnmálafræðingur og sagnfræðingur sem hefur rannsakað og skrifað bækur og greinar meðal annars um heimsvaldastefnu, kynjamismunun, kynþáttahyggju og loftslagsmál.

Hann lýsir því yfir að þriðja heims ríki séu ekki fátæk og segir jafnframt að ekki sé farið til fátækra ríkja til að vinna sér inn peninga. Myndbandið er frá níunda áratugnum svo að þetta eru ekki ný sannindi heldur hefur einhver grafið þetta myndskeið upp úr kompu gleymskunnar.

Auglýsing

Parenti heldur áfram og segir að í veröldinni séu í raun fá fátæk ríki. Þetta er nokkuð sem ég hef verið að velta fyrir mér. Margvísleg vandamál blasa við þeim ríkjum sem hafa verið skilgreind sem fátæk og þriðja heims ríki.

Vandamálin eru oft af völdum náttúruhamfara; þurrka, flóða og óveðurs. Þessi ríki stríða einnig við ýmis önnur vandamál sem ég ætla að snerta á hér lauslega.

Vandamálin sem við er að glíma víða í Afríku, í Suður-Ameríku og sums staðar í Asíu eru af sama eða svipuðum meiði. Þarna ríkir landlægur ójöfnuður og fátækt er mikil en auður einnig gríðarlegur.

Meirihluti íbúanna býr við fátækt, jafnvel örbirgð, fær ekki tækifæri til að mennta sig, heilsugæsla er af skornum skammti og leiðir til þess að hafa í sig og á eru oft torfærar. Þegar uppskerubrestur verður eru góð ráð dýr og oft fáar eða engar leiðir út úr vandanum.

Þegar það gerist senda alþjóðastofnanir og ríki heims neyðarhjálp til að halda íbúum svæðanna á lífi en litlar ráðstafanir eru gerðar til að hjálpa fólkinu að vinna sig út úr raunum sínum. Það stendur í besta falli í sömu sporum þegar hamförunum linnir.

Tónleikar til bjargar bágstöddum

Vel meinandi poppstjörnur hafa reynt að leggja hönd á plóg við að safna fé þegar neyðin kveður að. Það gerðu tónlistarmennirnir Bob Geldof og Midge Ure þegar þeir skipulögðu Live Aid-tónleikana til þess að safna fé fyrir bágstadda sem þjáðust vegna hungursneyðar í Eþíópíu á árunum 1983 til 1985.

Þurrkarnir voru ekki það eina sem íbúar Eþíópíu áttu við að glíma heldur hafði ríkisstjórnin takmarkaðan áhuga á að hjálpa þeim sem rak þarna í nauðir.

Live Aid

Laugardaginn þrettánda júlí 1985 voru tónleikar haldnir samtímis á Wembley-leikvanginum í London frammi fyrir um 72 þúsund manns og aðrir tónleikar á John F. Kennedy leikvanginum í Fíladelfíu í Bandaríkjunum. Þá tónleika sóttu 89.484.

Fámennari tónleikar voru haldnir til dæmis í Sovétríkjunum, Kanada, Júgóslavíu, Austurríki, Ástralíu og Vestur-Þýskalandi. Þetta var feikilega vel heppnað framtak og talið er að 1,9 milljarðar manna í um 150 löndum hafi horft á sjónvarpsútsendingu frá tónleikunum á meðan þeir stóðu.

Það var um 40% af íbúum jarðar á þessum tíma. Þrátt fyrir gott gengi Live Aid er enn deilt um hversu vel tókst til við að koma þeim 245 milljónum Bandaríkjadala sem söfnuðust, til þeirra sem sannarlega þurftu á hjálp að halda.

Nú er talið að mikið af fénu hafi ratað beint í vasa Mengistu Haile Mariam sem öllu réði í Eþíópíu, frá 1974 til 1991. Hann var leiðtogi marxista sem tóku völdin í landinu eftir að keisarinn Haile Selassie missti stjórn á ríkinu í kjölfar mikillar hungursneyðar.

Mengistu Haile Mariam Mynd: Wiki Commons

Árið 1991 flúði Mengistu land og leitaði hælis hjá Robert Mugabe í Zimbabwe en hæstiréttur Eþíópíu dæmdi Mengistu til dauða fyrir þjóðarmorð í heimalandinu árið 2008. Hann lifir þó enn.

Vitað er að hann var hinn mesti fauti sem gekk milli bols og höfuðs á þeim sem hann taldi vera óvini sína. Jafnvel er talið að eitthvað af söfnunarfénu hafi verið notað til að kaupa vopn en ekki mat fyrir þurfandi. Allar líkur eru einnig taldar á að Mengistu hafi hirt eitthvað til einkanota.

Live Aid er enn ein birtingarmynd afskipta vestrænna manna sem eru ekki eins heillavænlegar og ætla má, fyrir þau sem hjálpina þurfa. Geldof var að vísu aðlaður fyrir vikið af Elísabetu II Bretadrottningu sem honum þótti örugglega vænt um.

En sífelld birting skelfilegs lífs hungraðra íbúa Eþíópíu á sjónvarpsskjánum, olli því sem kalla mætti eins konar hörmunga-þreytu meðal Vesturlandabúa. Þreytan sú varð til þess að fjölmargir stungu hausnum endanlega í sandinn og vilja ekkert vita meira af ógnaratburðum sem eiga sér stað annars staðar í heiminum.

Hvað er þá til ráða?

Oft verður fátt um svör þegar stórt er spurt en hörmungar líkt og annað fela í sér mynstur og svipaðir atburðir endurtaka sig. Þá er kannski vert að líta til baka og spyrja hvers vegna auðnum er misskipt svona voðalega og hvers vegna sagan endurtekur sig á meðan eigendur fjármagns heimsins auðgast sífellt meira en þau sem sitja í súpunni á hinum endanum fá minna og minna í sinn hlut?

Eins og Michael Parenti kemur að er það ekki rétt að þriðja heims ríki séu fátæk heldur er misskipting mikil og gríðarlegir fjármunir og ríkidæmi safnast á fárra hendur. Ógrynni verðmæta hverfur frá þessum ríkjum sem arður og einnig með ólögmætum hætti í formi hráefna.

Eitt dæmi sem kemur upp í hugann er mál sem tengist indónesíska fyrirtækinu Rimbunan Hijau. Fyrirtæki hefur stundað skógarhögg í Papúa Nýju Gíneu og víðar og hefur verið sakað um að fella skóga án þess að færa til bókar hversu mikið magn. Ríkisstjórn Papúa Nýju Gíneu hefur verið sökuð um að leyfa fyrirtækinu að fara sínu fram.

Auglýsing

Mútur eru algengar til að liðka fyrir leyfisveitingum og öðrum fyrirgreiðslum. Það er að vísu vandamál sem landið hefur átt lengi við að glíma líkt og svo mörg þróunarlandanna. Nú eru hinir víðfeðmu skógar landsins farnir að láta verulega á sjá og spurningar um framferði fyrirtækisins verða áleitnari.

Hér er talað á breiðum grundvelli og þykkur pensill notaður til að reyna að finna það sem er sammerkt en ekki það sem er sértækt.

Rót vandans eða rætur hans?

Þau ríki sem falla undir skilgreininguna þriðja heims ríki, þróunarríki eða fátæk ríki voru nánast öll nýlendur undir stjórn vestrænna ríkja. Að vísu var Eþíópía aldrei nýlenda þó að Ítalir reyndu að koma henni undir sín yfirráð með innrás árið 1936.

Nýlendustefnan byggir í stórum dráttum á því að valdamikið ríki hafði völdin í valdaminna ríki til lengri eða skemmri tíma, einkum í ásókn eftir auðlindum. Þó var til að nýlenduveldin söfnuðu landsvæðum til að auka hróður sinn og iðulega urðu „eigendaskipti“ á landsvæðum eftir hernaðarbrölt eða í hrossakaupum milli ráðamanna.

Nýlendur lutu stjórn nýlenduvelda sem þýddi að íbúar þeirra höfðu lítið með það að gera að ákveða sín örlög. Landamæri eru oft kveikja deilna og hernaðarátaka í eftirmála nýlendustefnunnar.

Þeir stjórnmálamenn sem unnu fyrir og báru hag nýlenduveldanna fyrir brjósti höfðu í mörgum tilvikum lítið sem ekkert skynbragð á það hvernig ættbálkatengslum var háttað innan þeirra landsvæða sem þeir réðu og að með ákvörðunum sínum skáru þeir hreint og beint nána ættingja hvern frá öðrum með pennastrikum á pappír.

Í Afríku voru flest landamæri dregin á kort af nýlenduherrunum og víða ríkir sú skipting ennþá.

Kort frá árinu 1911

Hver var ástæða þess að stórveldi í Evrópu og síðar Bandaríkin, Japan og jafnvel Kína kepptust um að sölsa undir sig nýlendur? Jú, ríkin skorti til dæmis hráefni og auðvitað vinnuafl. Það vinnuafl sem var sótt til nýlendnanna var ekki bara ódýrt, þau sem voru hneppt í þrældóm fengu ekki vinnulaun, þau gengu kaupum og sölum og höfðu enga stjórn á eigin lífi.

Þó að nú sé horft til þess að þrælar hafi kostað sitt þegar þeir gengu kaupum og sölum þá má einnig hugsa sér að þeir sem keyptu þræla sendu þá út á akra, til vinnu í verksmiðjum og svo framvegis hafi auðgast á því að ræna manneskjur mannréttindum.

Þrælarnir eignuðust börn sem urðu eign þrælahaldaranna og áfram hélt þessi ljóta saga og sjaldnast varð þeim afturkvæmt þó að undantekningar hafi verið þar á. Okkar eigin Guðríður Símonardóttir, stundum kölluð Tyrkja Gudda – þó að ekki hafi hún verið hneppt í ánauð til Tyrklands heldur til Alsír, komst heim aftur.

Þrælahald var og er smánar blettur sem seint verður máður af þeim ríkjum sem tóku þátt í því. Enn er þeirri sögu ekki lokið þar sem þeir sem eru af öðrum kynþætti og eru afkomendur þræla verða iðulega fyrir miklu misrétti.

Raddir sem kalla eftir hreinum kynþáttum og trúa því að einn sé ofar öðrum vilja koma þessum svokölluðu vandræðagemlingum aftur til síns heima og vilja ekki heyra á það minnst að allt það sem hefur gerst og breyst síðan þrælahald var afnumið á vesturlöndum hafi ekki dugað til að gera upp það mál.

Þó margt hafi áunnist þá eru brotalamir í löggæslu og réttargæslu víða verulegar.

Þrælahald er tíðkað í heiminum í dag og það eru allar líkur á því að við höfum keypt vörur sem framleiddar voru af fólki sem hneppt var í þrældóm. Áður fyrr seldu þróunarlöndin hráefnin án þess að vinna þau á nokkurn hátt.

Á þessu hefur orðið breyting og oft eru vörur unnar í þeim ríkjum sem auðlindirnar eiga uppruna sinn í. Þetta hefur vitaskuld góð áhrif á efnahag ríkjanna en enn er fátæktin og óréttlætið mikið.

Við njótum góðs af þess, að því er virðist, þar sem þetta á samkvæmt kapítalískum kenningum að halda verðinu til neytenda niðri. Þessi þróun hefur auðvitað einnig mikil áhrif á auðsöfnun þeirra ofurríku.

Nýlendur öðlast sjálfstæði

Á seinni hluta 18. aldar kröfðust þrettán nýlendur í Norður-Ameríku sjálfstæðis og lýstu yfir stofnun ríkis árið 1776. Smám saman misstu Spánverjar og Portúgalar sínar nýlendur og æ fleiri nýlendur víða um heim tóku að krefjast sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarréttar.

Eftir að heimurinn allur hafði í tvígang háð blóðugar og gríðarlega kostnaðarsamar styrjaldir á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar var nokkuð af Evrópuríkjum dregið, enda þurftu þau flest að endurbyggja eigin innviði að síðari heimsstyrjöld lokið auk þess sem valdahlutföll færðust til. Þegar nýlendurnar vildu hver af annarri fá sjálfstæði þá var iðulega orðið við þeirri ósk.

Það sem hins vegar gerðist var að þau kerfi sem þessi lönd ætluðu að nota til að stjórna sér sjálf voru oft sett á laggirnar af vanþekkingu og vanmætti samanber það að þau erfðu oft landamærin sem nýlendurnar höfðu ákveðið sín á milli.

Evrópsku nýlenduveldin höfðu haldið í horfinu og stjórnað með harðri hendi, stundum deilt og drottnað rétt eins og Rómverjar forðum.

Auglýsing

Bretar, Frakkar og örugglega hin nýlenduveldin áttu það til að slátra innfæddum ef þeir vildu fá að hafa meiri stjórn á sínum málum. Útrýmingarbúðir voru fundnar upp á nýlendutímanum þó að Þjóðverjar hafi sannarlega fullkomnað það drápstól í seinni heimsstyrjöldinni. Sjálfstæðisbarátta er enn háð víða um heim.

Þegar nýlendurnar fengu sjálfstæði virtist framtíðin iðulega björt en fljótlega tók að fjara undan gleðinni og í sumum tilvikum bárust ættbálkar á banaspjótum, einræðisherrar steyptu kjörnum fulltrúum sem voru að vísu ekki alltaf barnanna bestir þó að þeir hafi sigrað í kosningum.

Oftar en ekki fór allt á versta veg. Það má til sanns vegar færa og segja að nýlenduveldin skiluðu ekki alltaf af sér góðu búi. Stórfyrirtæki tóku að sumu leyti við keflinu af ríkisvaldinu og vildu halda áfram að skara eld að eigin köku. Með ýmsum ráðum komust hjá því að greiða rétt og sanngjarnt verð fyrir það sem þau tóku.

Afríkuríki eru, eða voru, rík af auðlindum og ef sanngirni hefði ráðið ferð er líklegt að þróunarríkin eða þriðja heims ríkin hefðu komist betur á legg en raun ber oft vitni, en það varð því miður ekki raunin.

Græðgi þeirra sem sóttust í hráefni, hvort sem um var að ræða eðalmálma, aðra málma eða namibískan fisk var og er, ótæpileg. Fátækir íbúar landanna sitja eftir og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Fátæktin kemur því til vegna misskiptingar en ekki vegna skorts á skiptanlegum auði.

Nauru í Eyjaálfu er gott dæmi um takmarkalaust rán utanaðkomandi afla á náttúruauðlindum. Eyjan var alsett fosfati sem var undirstaða efnahagsins en eftir að síðustu molarnir voru numdir af yfirborði eyjunnar árið 1990 hefur efnahagurinn verið í rúst. Ástralía hefur séð um að reka hana og talað er um að lítið fari fyrir sjálfstæði eyjarskeggja um þessar mundir.

Ástralir vilja auðvitað fá eitthvað fyrir sinn snúð og fengu þá snjöllu hugmynd að setja á stofn búðir fyrir þá sem sóttust eftir því að setjast að í Ástralíu á eyjunni.

Það er flóttafólk sem beið þess að fá að vita hvort umsókn þess um landvistarleyfi yrði svarað játandi eða neitandi. Snjallræði fannst áströlskum stjórnvöldum en þessar búðir hafa sætt mikilli gagnrýni. Framtíð Nauru er mjög óviss og nú er svo komið að vegna þessara aðstæðna geta eyjaskeggjar enga björg sér veitt.

Þeir gerðu tilraun að koma eyjunni á kortið sem skattaskjóli en það gekk ekki alveg sem skyldi heldur og því lítur út fyrir að Nauru-búar séu heillum horfnir.

Kort af Eyjaálfu Mynd: Aðsend

Íbúar Bougainville sem heyrir undir Papúa Nýju-Gíneu samþykktu nýverið að lýsa yfir sjálfstæði. Í um þrjátíu ár hafa íbúar eyjunnar átt í átökum til að losa sig undan oki þess volduga fyrirtækis Rio Tinto sem rak koparnámu þar á bæ.

Sömuleiðis lögðu heimamenn kapp á að losna undan yfirráðum Papúa Nýju-Gíneu. Eyjaskeggjum þótti þeir bera harla lítið úr bítum, nema mengun og lélegan efnahag þar sem arðurinn af námunni komst aldrei til þeirra heldur fór að megninu til í vasa fyrirtækisins og í fjárhirslur Papúa Nýju-Gíneu.

Enn er er allt á huldu um hvort og hvenær sjálfstæði verður komið á og þá á eftir að ræða um það hvort opna eigi koparnámuna aftur.

Hverjir græða?

Auðvitað græða auðvaldið og stjórnarherrarnir á því ástandi sem skapast og spilling verður allsráðandi. Greiðslur sem koma hvergi fram ganga á milli manna til að smyrja hjól græðginnar.

Fyrirtæki eru mjög fær í að skjóta tekjum undan skatti og leggja þess vegna takmarkað til samneyslu og uppbyggingar þeirra ríkja þangað sem hráefnið og vinnuaflið er sótt. Þegar auðlind er uppurin verður fátt til bjargar þar sem ekki hefur verið hugað að því að byggja þjóðfélögin upp.

Menntunarstig íbúanna er lágt, heilsugæsla bágborin og innviðir landanna í molum. Fjölgun fólks og þau auknu vandamál sem henni fylgir bæta ekki úr skák. Trúarstofnanir eins og kaþólska kirkjan hafa verið mikill þrándur í götu við að stemma stigu við allt of miklu barnaláni.

Hér má finna hlekk á Worldometers, eina mögnuðustu vefsíðu okkar tíma. Að horfa á tölurnar tifa upp á við á fólksfjöldaklukkunni með miklum hraða skelfir mig. Hvernig og hvar mun þetta enda?

Íbúar jarðarinnar verða innan skamms 7,9 milljarðar. Á bakvið þessa tölu eru einstaklingar sem allir eiga rétt á að eiga gott líf, fá nóg að borða, hafa aðgang að ómenguðu vatni, að eiga vísa heilsugæslu, tækifæri til mennta og til atvinnu til að sjá sér og sínum farborða.

Það er þó ekki raunin og á meðan fólki er ekki bent á leiðir til að geta notið ásta án þess að úr verði barn þá er einsýnt að áfram haldi fjölgunin. Trúarstofnanir, sem mikill fjöldi leitar til, banna notkun getnaðarvarna og segja að þau skilaboð komi frá Guði sjálfum. Þetta hefur auðvitað einnig áhrif á útbreiðslu sjúkdóma. Sjúkdóma sem oft valda þjáningarfullum og ótímabærum dauðdaga.

Heimur versnandi fer, eða hvað?

Það er með þessa spurningu eins og allar aðrar að ekkert eitt ákveðið svar er til. Engin töfralausn, nema ef vera kynni að við tækjum okkur tak og reyndum að breyta því sem breyta þarf.

Það er ekki spurning að það kerfi sem við lifum við er komið í öngstræti og þeir sem ráða ríkjum vilja annað hvort ekki eða geta ekki fundið leið út úr vandanum. Hræðsluáróður óprúttinna manna er hávær, áróður sem snýst um það að verja það sem þeir eiga og neita að gefa eftir, já og vilja meira.

Barack Obama Mynd: EPA

Árið 2017 sagði Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, í viðtali við Harry Bretaprins á BBC að mannkynið lifi nú á bestu tímum allra tíma. „Já, það er margt sem við getum glaðst yfir. Mannkynið hefur fundið lækningu við mörgum sjúkdómum og dregið hefur úr örbirgð. Helsta ógn mannkyns felst í loftslagsbreytingum,“ sagði forsetinn.

Það má örugglega taka undir með Obama en það verður líka að horfast í augu við þá staðreynd að fátækt, léleg lífskjör og óréttlæti eru enn svo sannarlega til staðar. Þó að árangri hafi verið náð þá er enn langt í land og ekki vitum við enn hvaða áhrif óvæntur heimsfaraldur hefur til framtíðar víða um heim.

Allt tengist þetta, en ein helsta ástæða hnattrænu hlýnunarinnar er einmitt sú að við kaupum dót og drasl sem gengur fljótt úr sér, lendir á haugunum og við kaupum nýtt þess í stað.

Þörfin til að framleiða og auka gróða ár frá ári, svokallaður hagvöxtur, hefur komið okkur í mikinn vanda. Við heyrum um og sjáum afleiðingar þessa á hverjum degi. Hægt hefur gengið að snúa frá notkun olíu og enn eru kol brennd sem eykur á vandann.

Skógar eru ruddir, brenndir og höggnir til að framleiða timbur og að taka meira land undir matvælaframleiðslu. Þetta hefur allt áhrif á hnattræna hlýnun og nú heyrum við fréttir af miklum hitum, met falla um víða veröld.

Ástandið er ekki gæfulegt og eina leiðin sem er fær til að komast eitthvað áleiðis út úr því er að breyta um kúrs og vera samtaka um að bjarga því sem bjarga verður áður en það er um seinan.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar