Árið 2014: Namaste

arid2014-robertmarshall.jpg
Auglýsing

Fólk er alls konar. Engir tveir menn eru eins og enginn einn maður er alltaf eins og hann sjálfur. Það tekur flesta alla ævina að komast að því hvernig þeir vilja verða. Manni tekst ekki alltaf að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Mannskepnan getur verið í senn blíð og grimm og allt þar á milli.

Róbert Marshall Róbert Marshall

Stjórnmál eru heillandi, en á sama tíma erfið, vegna þess að þau snúast um samtöl milli fólks sem kemur með ólíka nálgun og ólíkt skapferli að borðinu. Það mætir til leiks með mismunandi útgáfur af sjálfu sér. Þess vegna skipta kurteisi og mannasiðir miklu máli. Þannig aukast líkurnar á því að fólk sé hátíðareintakið af sjálfu sér. Það sama má segja um vináttu. Það er eiginlega ekkert jafn gagnlegt í stjórnmálum og vinátta. Þeim mun fleiri vini sem maður á því betur gengur. Að ræða saman, leysa úr málum og finna málamiðlanir; allt verður þetta auðveldara ef fólk þekkist og getur gert grín, hlegið og virt hvort annað. Áferð stjórnmálanna verður líka betri. Það er allt annað mál að horfa á vini, með ólíkar skoðanir, ræða saman en fólk sem þekkist ekki.

Ein alvarlegustu tíðindi íslenskra stjórnmála


En stjórnmál snúast líka um að senda skýr skilaboð. Þannig hafði framganga eins stjórnmálaflokks í sveitarstjórnarkosningunum í ár, nánar tiltekið Framsóknarflokksins í Reykjavík, mikil og neikvæð áhrif á tíðarandann. Af málflutningi efstu manna þar mátti helst skilja að flokkurinn væri jú vissulega vinur flugvallarins en óvinur múslima. Þetta eru ein alvarlegustu tíðindi íslenskra stjórnmála í áratugi. Við vitum að fordómar spretta af fáfræði. Við vitum líka að þrátt fyrir hátt menntunarstig og opna umræðu fjölmenningarsamfélagsins verða ávallt til einhverjir fordómar. Það er verkefni þeirra sem stýra samfélaginu að umgangast fordóma sem þjóðfélagsmein því fái þeir að grassera geta afleiðingarnar orðið skelfilegar. Allir bera ábyrgð. Það getur ekki talist hlutverk fjölmiðla að umgangast fordómafullar skoðanir eins og gild sjónarmið. Þær eru það ekki. Nálgunin hlýtur að vera gagnrýnin. Rasismi á sér ekki málsvörn. Mismunun minnihlutahópa er ólögleg og siðlaus. Það sama á við um fordómafulla hatursumræðu. Hana má ekki umbera. Það hvort og hvar nokkur hundruð múslimar, sem hafa verið nágrannar okkar, vinir og samlandar, í áratugi byggja sér bænahús er ekki eitthvað sem „þarf að ræða“ umfram aðrar húsbyggingar í okkar landi. Múslimar eru alls konar, kristnir eru alls konar, fólk er alls konar.

Auglýsing

Ég hef áhyggjur af því að forysta Framsóknarflokksns vilji ekki senda skýr skilaboð vegna þess að hún vilji eiga það inni að láta skína í þennan kolsvarta spaðaás í erminni rétt fyrir næstu kosningar.

Þessi þróun mála er okkur í Bjartri framtíð áhyggjuefni. Við leggjum mikla áherslu á mannréttindi og frelsi einstaklinga til þess að vera eins og þeir kjósa sjálfir að vera. Fólk trúi því sem það vill trúa og elski þá sem það vill elska. Allir geti leitað hamingjunnar á sínum forsendum. Íslendingar eiga tugi orða sem lýsa snjókomu en bara eitt, frekar lélegt, yfir prinsipp. Þetta er grundvallarafstaða.

Munum ekki vinna með flokki sem gælir við fordóma


Vinátta getur verið hörð og mjúk. Harða sortin segir til vamms. Þess vegna urðu þeir margir hnuggnir og fálátir við mig og okkur í Bjartri framtíð framsóknarmennirnir þegar við sendum þau skýru skilaboð að engin flokkur væri jafnlangt frá okkur og sá flokkur sem fóstraði hatursumræðu. Við munum ekki starfa með flokki sem gælir við fordómafylgið. Ég fann að þeim fannst þetta ósanngjarnt og sumpart var það rétt. Það er vont að verða fyrir fordómum. Það er nefnilega svo sorglegt við þetta mál að fáir framsóknarmenn eru rasistar. Þeir eru auðvitað alls konar líka. Þess vegna er svo skrítið hvað viðbrögðin við ömurlegri framgöngu oddvitans í Reykjavík í vor voru máttleysisleg. Ein af þeim fyrstu sem ég hitti á þinginu þegar ég kom aftur til starfa í haust eftir langt veikindahlé, var fyrrnefndur oddviti. Mig rak í rogastanz. Framsóknarmönnum var þá ekki meira í nöp við málflutning hans í borgarstjórnarkosningunum en svo að hann var kallaður inn á þing sem varaþingmaður nokkrum mánuðum eftir að hafa teiknað flokkinn upp sem xenofóbíska poppúlistagrúppu gegnsýrða af umburðarleysi, útlendingaótta og fordómum. Ég hélt að slík framganga í öllum stjórnmálaflokkum á Íslandi kallaði snarlega á kröfu um afsögn, afsökunarbeiðni og skýra yfirlýsingu með fordæmingu flokksforystunnar á slíkum málatilbúnaði. Allavega yrði hún ekki verðlaunuð með innköllun á þing og klappi á bakið. Því að það er pólítísk ákvörðun hverjir koma inn á þing sem varaþingmenn. Það eru skilaboð.

Ég hef áhyggjur af því að forysta Framsóknarflokksns vilji ekki senda skýr skilaboð vegna þess að hún vilji eiga það inni að láta skína í þennan kolsvarta spaðaás í erminni rétt fyrir næstu kosningar. Samfélag okkar yrði veikara á eftir. Fordómafullir kjósendur myndu ekki aðeins kjósa slíkan málflutning heldur líka fá staðfestingu á að þeirra sjónarmið séu gildar og góðar skoðanir. Eitthvað sem „þyrfti að ræða“. Með því færu enn einar kosingarnar í súginn og framtíðarhagsmunum yrði fórnað á altari skammtímahagsmuna forystu stjórnmálaflokks sem virðist ekki hafa grundvallarafstöðu í mannréttindum. Er prinsipplaus. Það er verkefni allra að rétta þann kúrs strax. Sérstaklega þeirra sem kjósa að starfa með fulltrúum slíkra sjónarmiða.

Lífið of stutt fyrir kjaftæði


Ég slasaðist illa í ár. Dó næstum. Það breytir sýn manns á lífið. Maður sér betur um hvað þetta snýst allt saman: leit hverrar manneskju að hamingjunni. Á eigin forsendum. Lífið er of stutt fyrir kjaftæði eins og það sem boðið var uppá í vor. Fordómar bitna á fólki. Þeir sem búa til skjól fyrir fordóma takmarka og ganga á rétt minnihlutahópa til að leita hamingjunnar. Hver manneskja er sérstök og dýrmæt.

Allir jógaleiðbeinendurnir sem hafa tekið þátt í bata mínum enda sína kennslu á orðinu namaste sem á uppruna sinn í hindúisma. Internetið geymir margvíslegar útlistanir á raunverulegri þýðingu hugtaksins en fyrir mér snýst það um hneigja sig fyrir ljósinu í öðrum. Vita að allir eiga eitthvað gott inni í sér og að það er það sem maður á að virða. Kveikja á því. Sálin í mér, sér sálina í þér. Munum að kærleikurinn er lykilhugtak kristninnar sem á sinn hápunkt nú um jólin. Munum Pál: Kærleikurinn gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Allir eru alls konar. Namaste.

Höfundur er þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sema Erla telur að dómsmálaráðherra og staðgengill Útlendingastofnunar ættu að segja starfi sínu lausu.
„Ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar“ aðgerðir ÚTL
Formaður Solaris segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu okkur sem samfélagi til háborinnar skammar – að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um ólöglegar aðgerðir gegn fólki á flótta.
Kjarninn 22. júní 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt samstarfsaðilum frá Namibíu er þeir komu í heimsókn til Íslands.
Samherji „hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur“
Starfshættir Samherja í Namibíu, sem voru að frumkvæði og undir stjórn Jóhannesar Stefánssonar, voru látnir viðgangast allt of lengi og hefði átt að stöðva fyrr. Þetta kemur fram í „yfirlýsingu og afsökun“ frá Samherja.
Kjarninn 22. júní 2021
Afsökunarbeiðnin sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Undir hana skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Samherji biðst afsökunar á starfseminni í Namibíu: „Við gerðum mistök“
Forstjóri Samherja skrifar undir afsökunarbeiðni sem birtist í á heilsíðu í tveimur dagblöðum í dag. Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.
Kjarninn 22. júní 2021
Neyðarástandi vegna faraldurs kórónuveiru var aflétt í Tókýó í gær.
Allt að tíu þúsund áhorfendur á hverjum keppnisstað Ólympíuleikanna
Ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa áhorfendum að horfa á keppnisgreinar Ólympíuleikanna á keppnisstað en Japönum einum mun verða hleypt á áhorfendapallana. Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast þann 23. júlí.
Kjarninn 21. júní 2021
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Aðförin að lýðræðinu
Kjarninn 21. júní 2021
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Segir dálkahöfundinn Tý í Viðskiptablaðinu hafa haft sig á heilanum í meira en áratug
Guðrún Johnsen hagfræðingur segir allt sem hún hafi sagt í viðtali við RÚV um sölu á Íslandsbanka í byrjun árs hafa gengið eftir. Afslátturinn sem hafi verið gefinn á raunvirði bankans sé 20-50 prósent.
Kjarninn 21. júní 2021
Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna verið ógnað eða hótað á síðustu fimm árum
Samkvæmt frumniðurstöðum úr nýrri rannsókn um þær ógnir sem steðja að blaðamönnum kemur fram að helmingur blaðamanna hafi ekki orðið fyrir hótunum á síðustu fimm árum. Töluvert um að siðferði blaðamanna sé dregið í efa.
Kjarninn 21. júní 2021
Viðar Halldórsson
Má ekki bara sleppa þessu? Um verðlaunaafhendingar á skólaútskriftum
Kjarninn 21. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit
None