Spurningum Jóhannesar svarað

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar bar fram nokkrar spurningar til hagfræðinga um sóttvarnaraðgerðir á landamærunum. Hér er tilraun til að svara þessum spurningum.

Auglýsing

Hagfræði er líklegast ekki uppáhaldsfræðigrein Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Í ágúst í fyrra sagði hann greinina þurfa „stundum að taka aðeins meira mið af raunveruleikanum“ þegar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, varaði við áhættunni sem fylgdi því að opna landamæri Íslands fyrir túristum.

Jóhannes gagnrýndi einnig ummæli Gylfa í Kastljósviðtali í síðustu viku, en þar varaði prófessorinn við því að stefna 90 prósentum hagkerfisins, sem væru utan ferðaþjónustunnar og hefðu ekki borið mikinn skaða af kreppunni, í hættu með frekari opnun landamæranna.

Í Facebook-færslu sem Jóhannes skrifaði í kjölfar viðtalsins bar hann fram „nokkrar spurningar til hagfræðinga“. Sjálfsagt er að svara þessum spurningum, þótt óvíst sé hvort svörin muni styrkja traust hans til hagfræðinnar.

Hallinn kemur frá ferðaþjónustunni

Meðal þess sem Jóhannes veltir fyrir sér er hvort það sé virkilega rétt hjá Gylfa að kreppan nái ekki mikið út fyrir þau 10 prósent hagkerfisins sem eru háð ferðaþjónustunni, þar sem ríkissjóður sé rekinn með svo miklum halla.

Ef betur er að gáð virðist þó engin þversögn vera fólgin í þessu. Hallinn í ríkisfjármálum er vissulega mikill, en hann virðist fyrst og fremst stafa af minni skatttekjum frá ferðaþjónustufyrirtækjum og aukinni greiðslu atvinnuleysisbóta hjá þeim sem unnu í greininni.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni jókst halli hins opinbera um 170 milljarða króna í fyrra, þar sem tekjur drógust saman um 30 milljarða króna á meðan útgjöldin jukust um 140 milljarða króna.

Auglýsing

Hægt er að útskýra nær allan tekjusamdráttinn, eða um 27 milljarða króna, með minni greiðslu virðisaukaskatts fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Hér er ótalinn samdrátturinn í tekjuskattsgreiðslum einstaklinga innan ferðaþjónustufyrirtækjanna, en ætla má að hann hlaupi á tugum milljarða þar sem launatengd gjöld atvinnugreinarinnar drógust saman um 100 milljarða króna í fyrra. Ef ferðaþjónustan væri talin frá hefðu tekjur hins opinbera því líklega aukist – ekki minnkað – í fyrra.

Aukin útgjöld ríkisins má svo að miklu leyti rekja til aukinna greiðslna atvinnuleysisbóta og hlutabóta. Hér er hlutur greinarinnar einnig stór, en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar má rekja allavega um 40 prósent alls aukins atvinnuleysis í fyrra til ferðaþjónustunnar eða tengdra greina. Einnig má nefna sértæk úrræði ríkisstjórnarinnar, líkt og frestun skattgreiðslna, lokunarstyrki, ferðagjöf og brúarlán, en alls runnu tvær af hverjum þremur krónum til atvinnugreinarinnar, samkvæmt nýlegri frétt RÚV.

Sá mikli halli sem Jóhannes nefnir er því ekki merki um að kreppan hafi náð að dreifa sér um allt hagkerfið. Hallinn sýnir frekar hversu langt ríkisstjórnin hefur gengið til að styðja við ferðaþjónustuna nú þegar rekstrargrundvöllur hennar hefur horfið.

Við erum ekki að fórna ferðaþjónustunni

Í Facebook-færslunni sinni spyr Jóhannes einnig hvort í lagi sé að fórna ferðaþjónustunni þar sem hin 90 prósent hagkerfisins séu í góðum málum, þrátt fyrir öll þau góðu áhrif sem atvinnugreinin hefur haft á íslenskt efnahagslíf síðustu árin.

Það er rétt hjá honum að ris ferðaþjónustunnar hafi verið jákvætt fyrir íslenskan efnahag. Vaxandi fjöldi ferðamanna hefur aukið útflutningstekjur landsins, viðhaldið viðskiptaafgangi við önnur lönd og styrkt krónuna, auk þess sem hann hefur skapað þúsundir starfa.

Sem betur fer hef ég þó ekki áhyggjur af því að verið sé að fórna ferðaþjónustunni fyrir heildarhagsmuni hagkerfisins. Líkt og sjá má á aðgerðum ríkisstjórnarinnar, sem renna að mestu leyti til ferðaþjónustunnar, hefur áhersla frekar verið lögð á hið gagnstæða. Stjórnvöld hafa styrkt atvinnugreinina svo að efnahagslegur viðsnúningur verði hraðari þegar faraldrinum lýkur og hægt verði að taka á móti miklum fjölda ferðamanna aftur á ný.

Sömuleiðis er erfitt að sjá að atvinnugreininni sé fórnað með því að viðhalda ströngum sóttvörnum á landamærunum, þar sem ávinningur ferðaþjónustunnar við að draga úr þessum vörnum er óljós.

Slakar varnir myndu auka hættuna á fleiri smitum innanlands, sem stjórnvöld myndu bregðast við með ströngum takmörkunum, líkt og samkomubönnum, fjöldatakmörkunum og lokunum. Þessar takmarkanir kæmu sér jafnilla fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem og önnur fyrirtæki.

Einnig er óvíst hvort margir ferðamenn myndu vilja koma til landsins þótt slakað yrði á sóttvörnum á landamærunum. Ferðavilji hefur verið lítill um allan heim á meðan faraldurinn hefur geisað, hvernig sem takmarkanirnar hafa verið á meðal komufarþega. Á Spáni eru til að mynda litlar takmarkanir á landamærunum, en þar geta ferðamenn sem ekki koma frá áhættusvæðum komist inn í landið án smitprófs og sóttkvíar. Samt sem áður var 89 prósenta samdráttur í komu ferðamanna til landsins í janúar, miðað við árið á undan.

Enginn græðir á fleiri smitum

Aðgerðir stjórnvalda í þessum faraldri snúast ekki um að „fórna“ 10 prósentum hagkerfisins innan ferðaþjónustunnar til að vernda hin 90 prósentin. Líkt og aukinn hallarekstur hins opinbera sýnir er frekar verið að reyna að vernda ferðaþjónustuna fyrir áhrifum faraldursins, svo hún nái sér fyrr á strik að honum loknum.

Á meðan þurfa stjórnvöld að sjá til þess að efnahagsleg áhrif kreppunnar, sem hafa hingað til verið fyrst og fremst í ferðaþjónustunni og tengdum greinum, smitist ekki út í allt hagkerfið. Líta má á harðar sóttvarnaraðgerðir á landamærunum sem lið í slíkri aðgerð, þar sem enginn myndi hagnast á auknum fjölda innanlandssmita.

Höfundur er ritstjóri Vísbendingar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Einkarekstur í forgrunni – Umhverfisstefna Sjálfstæðisflokksins
Kjarninn 19. september 2021
Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.
Segir gæði vísindastarfs á Landspítala hafa hrakað á síðustu árum
Prófessor við læknadeild Háskóla Íslands segir að öfugþróun hafi átt sér stað í vísindastarfi á Landspítala eftir að hann var gerður að háskólasjúkrahúsi árið 2000, og að ekkert skilgreint fjármagn hafi fengist til að sinna því.
Kjarninn 19. september 2021
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdraganda alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiÁlit