Svar við grein: „Einvera barns – ómannúðleg framkoma við barn“

Þórhildur Halldórsdóttir, Hanna Steinunn Steingrímsdóttir og Berglind Sveinbjörnsdóttir svara grein Guðrúnar Ingu Torfadóttur og Perlu Hafþórsdóttur.

Þórhildur Halldórsdóttir, Hanna Steinunn Steingrímsdóttir og Berglind Sveinbjörnsdóttir
Auglýsing

Þann 25. júní 2021 birtist grein hér í Kjarnanum sem ber heitið „Einvera barns – ómannúðleg framkoma við barn“ skrifuð af Guðrúnu Ingu Torfadóttur og Perlu Hafþórsdóttur.

Við viljum byrja á að þakka höfundum fyrir að opna umræðuna um notkun einveru (e. time-out) á leikskólum. Í megindráttum erum við sammála mörgu af því sem höfundar hafa að segja t.d. um noktun refsingar til að breyta hegðun, skort á þjálfuðu fagfólki á leikskólum, mikilli starfsmannaveltu og að persónuverndarlögum sé ekki fylgt. Hins vegar þykir okkur mikilvægt að leiðrétta rangfærslur og fyrirbyggja misskilning varðandi atferlisgreiningu og sálfræðimeðferðir byggðar á henni.

Það fyrsta sem við viljum koma á framfæri er afstaða Skinners til refsingar. Skinner (1953) sagði að refsing væri vafasöm aðferð sem getur falið í sér margar óæskilegar neikvæðar afleiðingar (s.s. valdið kvíða og vanlíðan) og benti á að „þegar til lengra tíma er litið eru ókostir refsingar svo miklir að það gagnist engum, hvorki þeim sem er refsað, né þeim sem beita refsingu“ (p. 183). Það er því mikilvægt að árétta að Skinner og atferlisfræðingar eru talsmenn þess að nota aðrar leiðir til að takast á við krefjandi hegðun, til dæmis að foreldrar sýni barni þolinmæði í erfiðum aðstæðum og að kenna færni sem gæti gagnast barninu til að fá sínu fram. Það er því miður að refsing á borð við einveru sé það sem fólk hugsar um þegar tekist er á við hegðunarvanda með aðferðum atferlisgreiningar þegar raunin er sú að megin áherslan er á að skilja hvað veldur hegðunarvandanum og finna leiðir til að sporna við þeim vanda.

Auglýsing

Næsta atriði varðar hvernig atferlisfræðingar horfa á hegðun en greinahöfundar skrifa að „hegðunarsérfræðingar á borð við B.F. Skinner töldu börn vera alveg eins og dýr og að hegðun væri yfirborðskennd“. Hér er um algengan misskilning að ræða. Þeir sem vinna með fólki (atferlisfræðingar, sálfræðingar, kennarar o.fl.) og fræðimenn sem rannsaka hegðun (þar á meðal Skinner), vita að hegðun barna er mjög flókin og ekki sambærileg hegðun annarra dýra. Núverandi og fyrrum umhverfisaðstæður einstaklingsins, sem og erfðafræðilegar og líffræðilegar breytur hafa áhrif á bæði hegðun, tilfinningar og hugsun sem aðgreinir okkur frá öðrum dýrum. Við sem störfum með börnum og foreldrum þurfum að vera næm fyrir þeim fjölmörgu breytum sem hafa áhrif á hegðun hvers og eins um leið og við tökum tillit til hins mikla breytileika sem ríkir á milli einstaklinga.

Þriðja atriðið varðar þegar greinahöfundar skrifa að „barn sem er alið upp í atferlisstefnu, svo sem að það fari í time-out ef það slær annað barn, lærir ekki á aðstæður heldur lærir það einna helst á viðbrögð þeirra fullorðnu“. Atferlisfræðingar, meðal annars undirritaðar, hafa hlotið framhaldsmenntun í atferlisgreiningu og vinna eftir ströngum siðareglum þar sem meðal annars kemur fram að inngrip ber að byggja á ítarlegu mati á því hvað barnið er að tjá með hegðuninni. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að krefjandi hegðun orsakast meðal annars af því að einstaklingurinn á í erfiðleikum með að tjá þarfir og langanir, kröfur séu umfram getu o.s.frv. Þegar kemur að hegðunarvanda er því markmiðið alltaf að reyna að komast að því hvað veldur hegðunarerfiðleikunum og hvað viðkomandi er að reyna að segja, og hanna inngripið út frá þeim upplýsingum. Með þessu er því megin áherslan lögð á að reyna að skilja hegðun barnsins, að vinna fyrirbyggjandi vinnu, sem og að kenna færni sem barnið mögulega skortir og leiðbeina því þannig á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Í flestum tilvikum eru framangreindar aðferðir nægjanlegar til að takast á við þá erfiðleika sem koma upp. Hins vegar eru tilvik þar sem börn sýna hegðun sem reynist svo erfið að nauðsynlegt er að tryggja öryggi barnsins og þeirra sem eru í kringum barnið. Í þeim tilvikum getur verið best, líkt og greinahöfundar benda á, að fara afsíðis með barnið og hjálpa því að róa sig niður, samhliða því að kenna færni og minnka líkur á að barnið lendi í þessum aðstæðum aftur. Það er mjög mikilvægt, ef hegðun er talin vera það erfið að barnið sjálft og/eða aðrir gætu hlotið skaða af, að fá aðstoð fagaðila sem geta gert ítarlegt mat á því afhverju hegðunin er að gerast og vinna að því að koma í veg fyrir að þessar aðstæður koma upp aftur.

Við stöndum í þeirri trú að þeir sem starfa með börnum, sem og foreldrar barna, vinni öll að sama markmiði og teljum því samvinnu ólíkra fagstétta og foreldra mjög mikilvæga. Okkar tilraun hér er að leiðrétta rangfærslur varðandi atferlisgreiningu og þær aðferðir sem eru byggðar á þeirri fræðigrein og vonum við að þetta innlegg verði gagnlegt í áframhaldandi umræðu. Eins og flestar vísindagreinar þá hefur atferlisgreining vaxið og breyst í gegnum árin. Mikilvægt er að fagaðilar sem sinna börnum uppfæri sína þekkingu á þeim aðferðum sem eru notaðar. Að auki skiptir miklu máli að allir þeir sem vinna á leikskólum fái fræðslu um þær siðareglur sem gilda í þeirri vinnu sem og fræðslu um réttindi barna. Það voru mikil tímamót fyrir atferlisgreiningu á Íslandi þegar Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands byrjuðu að bjóða upp á meistaranám í hagnýtri atferlisgreiningu fyrir tveimur árum, með það markmið að bæta þekkingu og færni fagaðila í þessum fræðum. Við erum vongóðar um að þetta leiði til þess að meiri áhersla verði lögð á að skilja ástæður hegðunar og kenna færni út frá þörfum hvers og eins.

Berglind Sveinbjörnsdóttir, PhD í atferlisgreiningu, forstöðumaður MSc í Hagnýtri Atferlisgreiningu við Háskólann í Reykjavík, (berglindsv@ru.is).

Hanna Steinunn Steingrímsdóttir, PhD í atferlisgreiningu, dósent við Háskólann í Reykjavík, (hannasteinunn@ru.is).

Þórhildur Halldórsdóttir, PhD í klínískri barnasálfræði, lektor við Háskólann í Reykjavík, (thorhildurh@ru.is).

Heimildir

  • Skinner, B. F. (1953). Science and human behavior. New York: Macmillan.
  • Behavior Analyst Certification Board. (2014). Professional and ethical compliance code for behavior analysts. Littleton, CO: Author.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar