Níu þingmenn hyggjast ekki ætla að bjóða fram krafta sína í næstu alþingiskosningum.
Mynd: Birgir Þór
#alþingi #stjórnmál #kosningar2016

Níu þingmenn ætla að hætta og fimm eru óákveðnir með framhaldið

Níu sitjandi þingmenn, þar af einn ráðherra, nefndarformaður og forseti Alþingis, ætla að hætta á þingi eftir núverandi kjörtímabil. Tveir öflugir Framsóknarmenn úr Reykjavíkurkjördæmi norður ætla segja skilið við Alþingi.

Línur eru farnar að skýrast varðandi áætlanir sitjandi þingmanna í næstu Alþingiskosningum. Þó að kjördagur hafi enn ekki verið ákveðinn er ljóst að langflestir þingmenn ætla að gefa kost á sér áfram, þó að nokkrir séu að hellast úr lestinni.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks, þeir Brynjar Níelsson, Vilhjálmur Bjarnason og Birgir Ármannsson voru allir óákveðnir þegar Kjarninn spurði þá í apríl hvort þeir ætluðu að halda áfram, en þeir hafa nú ákveðið sig og ætla að gefa kost á sér í prófkjörum flokksins fyrir næstu þingkosningar. Það sama á við um Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmann Vinstri grænna. 

Þá hafa fregnir borist af fleira fólki sem vill gefa kost á sér til þings í næstu kosningum, þar á meðal norðausturkjördæmismennirnir Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, og Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri, sem vill fara á þing fyrir Pírata. 

Þeir Brynjar Níelsson og Birgir Ármannsson ætla að halda áfram á þingi. Katrín Júlíusdóttir og Einar K. Guðfinnsson ætla að hætta.
Mynd: Birgir Þór

Tveir sitjandi þingmenn Bjartrar framtíðar af sex ætla að hætta; Brynhildur Pétursdóttir þingflokksformaður og Róbert Marshall. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og 2. þingmaður Framsóknarflokks í Reykjavíkurkjördæmi norður, ætlar líka að segja skilið við þingið, en hann hafði áður sagt við Kjarnann hann ætlaði að halda áfram. Honum hefur því snúist hugur. Sigrún Magnúsdóttir, auðlinda- og umhverfisráðherra og 7. þingmaður Reykjavík norður, ætlar líka að hætta. Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Framsóknar, hefur ekki gefið út hvort hún ætli að bjóða sig fram í í næstu kosningum, en með fjarveru Sigrúnar og Frosta er ljóst að það opnast tækifæri fyrir hana í Reykjavíkurkjördæmi norður. 

Fimm af núverandi þingmönnum Framsóknarflokksins ætla annað hvort ekki að halda áfram eða eru óákveðnir um áframhaldandi setu á þingi. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn eiga einungis einn þingmann hvor sem ætlar að hætta. 

Spurt var: Ætlar þú að gefa kost á þér áfram í næstu Alþingiskosningum? 

Brynhildur Pétursdóttir Nei
Norðausturkjördæmi
Einar K. Guðfinnsson Nei
Norðvesturkjördæmi
Frosti Sigurjónsson Nei
Reykjavíkurkjördæmi norður
Katrín Júlíusdóttir Nei
Suðvesturkjördæmi
Kristján Möller Nei
Norðausturkjördæmi
Páll Jóhann Pálsson Nei
Suðurkjördæmi
Róbert Marshall Nei
Reykjavíkurkjördæmi suður
Sigrún Magnúsdóttir Nei
Reykjavíkurkjördæmi norður
Ögmundur Jónasson Nei
Suðvesturkjördæmi

Nokkrir þingmenn eru enn óákveðnir með framhaldið, þar á meðal Guðmundur Steingrímsson, fyrrverandi formaður Bjartrar framtíðar, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður velferðarnefndar Alþingis. 

Guðmundur Steingrímsson Óákveðin/n
Suðvesturkjördæmi
Haraldur Einarsson Óákveðin/n
Suðurkjördæmi
Karl Garðarsson Óákveðin/n
Reykjavíkurkjördæmi suður
Lilja Alfreðsdóttir Óákveðin/n
utan þings
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Óákveðin/n
Reykjavíkurkjördæmi suður

Þá hafa aðrir þingmenn ekki viljað svara fyrirspurn Kjarnans. Þar af eru tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokks, þau Ragnheiður Elín Árnadóttir og Illugi Gunnarsson. Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknar, hefur heldur ekki viljað gefa upp áform sín. Línan hjá ráðherrunum tveimur og formanni VG hefur verið sú að tilkynna fyrst um áætlanir innan flokka sinna, en ekki í fjölmiðlum. 

Ekki hefur náðst í Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, eða Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar og þingmann Framsóknarflokks. Ekki náðist heldur í Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, en hún sagðist í apríl vera óákveðin með framhaldið. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Valgerðardóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar