#fótbolti #em2016

Topp 10 ógleymanleg atvik á EM

Evrópumeistarmótið í knattspyrnu fer fram í fimmtánda sinn í ár. Kristinn Haukur tók saman tíu ógleymanleg atriði úr sögu keppninnar.

Þann 10. júní hefst Evrópumeistaramót karla í knattspyrnu í fimmtánda sinn. Í upphafi, árið 1960, var mótið smátt í sniðum og spilað á einungis fjórum dögum. En það hefur vaxið í gegnum áratugina og nú eru 24 lið sem taka þátt. Íslendingar taka þátt á stórmóti í fyrsta skipti i sögunni sem og fleiri þjóðir sem hingað til hafa ekki unnið mörg afrek á knattspyrnuvellinum. Mótið verður því væntanlega sögulegt. Hér eru 10 eftirminnilegustu atvikin á Evrópumótinu til þessa.

10. Gazza

Enski miðjumaðurinn Paul Gascoigne mátti þola ýmsilegt á ferli sínum og oft var hann sinn versti óvinur. En stórmótin tvö þar sem hann var innanborðs, HM 1990 og EM 1996, eru þau einu þar sem Englendingar hafa staðið undir væntingum síðan þeir urðu heimsmeistarar árið 1966.....og Gazza var stærsta ástæðan fyrir því. Evrópmeistaramótið 1996 var einmitt haldið í Englandi á 30 ára afmæli heimsmeistaratitilsins. Englendingar komust í undanúrslit og minnstu munaði að hann tryggði þeim farseðilinn í úrslitaleikinn með svokölluðu gullmarki. Gascoigne spilaði frábærlega á öllu mótinu og var valinn í úrvalsliðið. Eftirminnilegasta atvikið var markið sem hann skoraði gegn Skotum í riðlakeppninni. Skotar höfðu misnotað vítaspyrnu og Englendingar sóttu hratt fram. Með einni snertingu vippaði Gascoigne boltanum yfir varnarmanninn Colin Hendry og í þeirri næstu afgreiddi hann markvörðinn Andy Goram. Gazza spilaði alltaf með hjartanu fyrir England og viðurkenndi að hafa grátið eftir mótið. 

9. Fimm vítaspyrnur í súginn

Fyrir Evrópumeistaramótið árið 2000 voru gestgjafarnir Hollendingar taldir með allra sigurstranglegustu liðunum. Liðið hafði komist í undanúrslit á heimsmeistaramótinu tveimur árum áður og skartaði stjörnum á borð við Dennis Bergkamp, Patrick Kluivert, Edgar Davids og Clarence Seedorf. Þeir unnu alla þrjá leikina í riðlakeppninni gegn Tékkum, Dönum og heimsmeisturum Frakka áður en þeir völtuðu yfir Júgóslava í 8-liða úrslitum 6-1. Það kom því ekki á óvart að þeir hefðu mikla yfirburði í leiknum í undanúrslitunum gegn Ítölum. En inn vildi boltinn ekki. Gianluca Zambrotta var rekinn út af í fyrri hálfleik og Frank De Boer steig á punktinn. Ítalski markmaðurinn Toldo varði þá spyrnu. Seinna fengu Hollendingar aftur víti en Kluivert skaut í stöngina. Í lok framlengingar var staðan ennþá 0-0.  Í vítaspyrnukeppninni brenndu Hollendingar svo af þremur spyrnum og þar af varði Toldo tvær.

8. Lukka Ronnie Whelan

Írski miðjumaðurinn Ronnie Whelan er stuðningsmönnum Liverpool að góðu kunnur enda spilaði hann allan níunda áratuginn og vel fram á þann tíunda með liðinu. Hann spilaði einnig með nokkuð sterku landsliði Íra sem komst á þrjú stórmót á aðeins sex árum. Árangur liðsins á Evrópumeistaramótinu 1988 er athyglisverður. Liðið komst ekki upp úr riðlinum þrátt fyrir sigur gegn Englandi og jafntefli gegn sterku liði Sovétmanna. Í síðarnefnda leiknum skoraði Whelan eitt minnisstæðasta mark keppninnar frá upphafi. Mick McCarthy fleygði löngu innkasti rétt inn fyrir teig Sovétmanna þar sem Whelan stóð. Hann lét sig falla til hliðar og spyrnti knettinum yfir markvörðinn Rinat Dasayev. Whelan segir:

„Ég veit ekki af hverju ég var þarna. Þetta var ekki mín staða... Ég gæti haft mig að algjöru fífli en mér er alveg sama. Þetta er Evrópumeistaramótið og ef hann lendir inni þá verð ég svolítil hetja.“

7. Samsæri Skandinavíu

Evrópumeistaramótið árið 2004 situr eins og mara á þjóðarsál Ítala. Fyrir lokaleikinn í C riðli voru Danir og Svíar með 4 stig og Ítalir með 2. Ef Ítalir ynnu sinn leik kæmust þeir áfram svo lengi sem leikur Dana og Svía endaði ekki í jafntefli, 2-2 eða hærra, sem er nú nokkuð óalgeng úrslit í knattspyrnu. En Ítalir vantreystu norrænu þjóðunum og heimtuðu meira eftirlit með leiknum. UEFA bættu við tveimur auka myndavélum á leikinn til að róa taugar Ítala en þjálfarar norrænu liðanna brugðust reiðir við og minntu á að liðin eru fornir fjendur á knattspyrnuvellinum. Ítalir rétt mörðu sinn leik, gegn Búlgörum, en þá rættist þeirra versti draumur. Allt leit út fyrir sigur Dana með tveimur mörkum Jon Dahl Tomassonar gegn einu vítamarki Svía. En á 89. mínútu jafnaði Mattias Jonson metin í 2-2. Allir sem sáu leikinn vissu að þetta var ekkert samsæri, einungis tilviljun, en eftir jöfnunarmarkið sótti hvorugt liðið. Bæði sátt við að sjá Ítali fara heim.

6. Vítaspyrnukeppnin riður sér til rúms

Á fyrstu áratugum Evrópukeppninnar komust einungis 4 lið í lokamótið og lið þurftu einungis að vinna tvo leiki til að verða Evrópumeistarar. Afrek Tékka á Evrópumeistaramótinu árið 1976 í Júgóslavíu verður þó ekki dregið í efa því að þeir sigruðu þá tvö bestu knattspyrnulið heimsins, Hollendinga og Vestur-Þjóðverja. Titillinn hefur að miklu leyti verið eignaður þjálfara liðsins, Vaclav Jezek, sem hafði þjálfað í Hollandi og náði að móta einstaka liðsheild innan tékkneska landsliðsins. Liðið var snautt af stórstjörnum en tæknilegir hæfileikar þess og fjölhæfni leyndi sér ekki. Úrslitaleikurinn gegn Vestur-Þjóðverjum endaði 2-2 eftir framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni í fyrsta skipti á stórmóti. Uli Hoeness brenndi af fjórðu spyrnu Vestur-Þjóðverja og því gat miðjumaðurinn Antonin Panenka tryggt Tékkóslóvakíu titilinn. Svellkaldur vippaði hann boltanum í mitt markið og hafa slíkar spyrnur verið kenndar við hann æ síðan.

5. Tryllingur Portúgala

Árið 2000 var portúgalska landsliðið komið í hóp þeirra bestu á ný eftir marga magra áratugi. Leikmenn á borð við Luis Figo, Rui Costa og Paulo Sousa, hin svokallaða gullna kynslóð, voru á hápunkti ferils síns og það skilaði sér á Evrópumeistaramótinu í Hollandi og Belgíu. Portúgalar unnu alla leikina í riðlakeppninni, þar á meðal Englendinga og Þjóðverja, og Tyrki í 8-liða úrslitum. Mikil spenna var því fyrir undanúrslitaleiknum gegn heimsmeisturum Frakka. Nuno Gomes kom Portúgölum yfir í fyrri hálfleik en Thierry Henry jafnaði í seinni. Leikurinn var jafn og spennandi og Portúgalir ögn betri ef eitthvað var og leikurinn var framlengdur. Undir lok framlengingar varði portúgalski bakvörðurinn Abel Xavier skot frá Sylvain Wiltord með hendinni og Zinedine Zidane tryggði Frökkum sigurinn með vítaspyrnu. Portúgalarnir brugðust vægast sagt illa við og veittust að dómurunum. Þeir ýttu, klóruðu og hræktu á þá sem olli því að nokkrir leikmenn liðsins fengu margra mánaða leikbann.

4. Vi er røøøøde....

Sagan af Evrópumeistaratitli Dana árið 1992 er flestum kunn. Danir komust inn á mótið eingöngu vegna þess að Júgóslövum var vísað úr keppninni vegna stríðsins þar í landi. Fæstir bjuggust við miklu af þeim á mótinu sem fram fór í Svíþjóð og mótið byrjaði brösulega fyrir þá. Eftir fyrstu tvo leikina höfðu þeir unnið sér inn einungis eitt stig og ekki enn skorað mark. Danir voru einnig án sinnar helstu stjörnu, Michael Laudrup, sem stóð í deilum við landsliðsþjálfarann. En Danir unnu óvæntan sigur á Frökkum í lokaleik riðlakeppninnar og komust í undanúrslitin. Danir knúðu fram vítaspyrnukeppni gegn stjörnuprýddum Evrópumeisturum Hollendinga og þar varði Stóri Daninn, Peter Smeichel, vítaspyrnu frá Marco Van Basten á snilldarlegan hátt. Heimsmeistarar Þjóðverja voru næstir á dagskrá og pressan var stíf frá þeim í úrslitaleiknum. En þrumufleygur frá John Jensen og gott mark fyrir utan teig frá Kim Vilfort sjokkeraði heimsbyggðina og tryggði Dönum titilinn. 

3. Undramark Van Basten

Tímabilið 1987/1988 var erfitt fyrir hollenska framherjann Marco Van Basten. Hann eyddi sínu fyrsta tímabili fyrir AC Milan að mestu leyti á sjúkralistanum vegna þrálátra ökklameiðsla. Þess vegna hóf hann EM 1988 í Vestur-Þýskalandi sem varamaður fyrir John Bosman. Hollendingar töpuðu fyrsta leiknum gegn Sovétmönnum og Van Basten fékk tækifæri til að sanna sig gegn Englandi. Þar skoraði hann þrennu. Van Basten skoraði alls 5 mörk og var valinn besti leikmaður mótsins auk þess að tryggja Hollendingum sjálfan Evrópumeistaratitilinn. Mark hans í úrslitaleiknum þykir eitt það besta í sögunni. Arnold Muhren gaf háa fyrirgjöf frá vinstri kantinum og Van Basten lagði boltann í einni snertingu yfir sovéska markvörðinn Rinat Dasayev. Markið virðist vera eðlisfræðilega bjagað. Sjálfur segir hann:

„OK, ég gæti stoppað og átt við alla varnarmennina eða ég gæti farið auðveldu leiðina, tekið áhættu og skotið.“

2. Yfirburðir Platini

Enginn leikmaður hefur spilað jafn vel á Evrópumóti og miðjumaðurinn Michel Platini gerði árið 1984 í heimalandi sínu Frakklandi. Miðjuspil Frakka á mótinu var fullkomið með Jean Tigana og Alain Giresse á köntunum, Luis Fernandez baka til og Platini fyrir framan. Platini var útsjónarsamur leikstjórnandi og lunkinn við að skapa sér færi. Hann tók frábærar aukaspyrnur og var stórhættulegur í teignum þar sem hann gat auðveldlega skorað með skallanum. Mörk hans komu á færibandi á mótinu. Hann skoraði sigurmark í opnunarleiknum gegn Dönum og svo tvær þrennur til viðbótar í riðlakeppninni, gegn Belgum og Júgóslövum. Í undanúrslitunum skoraði hann dramatískt sigurmark á lokamínútu framlengingar gegn Portúgölum. Hann kórónaði svo frammistöðuna með marki í úrslitaleiknum gegn Spánverjum. Hann skoraði alls 9 mörk á mótinu en enginn annar leikmaður í sögunni hefur skorað fleiri en 5. Hann var vitaskuld valinn maður mótsins og tryggði þjóð sinni Evrópumeistaratitilinn.

1. Öskubuskuævintýri Grikkja

Evrópumeistaramótið árið 2004 var mót hinna minni þjóða. Lettar komust á mótið og komu öllum á óvart með jafntefli gegn Þjóðverjum. Þjóðverjar, Rússar, Spánverjar og Ítalir duttu út í riðlakeppninni og Englendingar og Frakkar í 8-liða úrslitum. Hollendingar voru því fjölmennasta þjóðin í undanúrslitum með einungis 16 milljónir íbúa. Það voru þó Grikkir sem stálu senunni. Gríska landsliðið hafði um áratuga skeið verið hálfgerður brandari og stolt Grikkja meira verið bundið við félagsliðin Olympiakos og Panathinaikos. Fyrir EM 2004 var veðbankastuðullinn á sigur Grikkja 150 á móti 1. Grikkir komu þó öllum á óvart með sigri gegn gestgjöfunum frá Portúgal í fyrsta leik en minnstu munaði að þeir kæmust ekki upp úr riðlinum. Þjálfarinn Otto Rehhagel, gamall refur úr þýsku deildinni, náði þó að þétta raðirnar og Grikkir fengu ekki á sig fleiri mörk í keppninni. Þrír 1-0 sigrar í röð gegn Frökkum, Tékkum og Portúgölum tryggði þeim þann ótrúlegasta titil sem unnist hefur á stórmóti.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar