#fótbolti #em2016

Topp 10 ógleymanleg atvik á EM

Evrópumeistarmótið í knattspyrnu fer fram í fimmtánda sinn í ár. Kristinn Haukur tók saman tíu ógleymanleg atriði úr sögu keppninnar.

Þann 10. júní hefst Evr­ópu­meist­ara­mót karla í knatt­spyrnu í fimmt­ánda sinn. Í upp­hafi, árið 1960, var mótið smátt í sniðum og spilað á ein­ungis fjórum dög­um. En það hefur vaxið í gegnum ára­tug­ina og nú eru 24 lið sem taka þátt. Íslend­ingar taka þátt á stór­móti í fyrsta skipti i sög­unni sem og fleiri þjóðir sem hingað til hafa ekki unnið mörg afrek á knatt­spyrnu­vell­in­um. Mótið verður því vænt­an­lega sögu­legt. Hér eru 10 eft­ir­minni­leg­ustu atvikin á Evr­ópu­mót­inu til þessa.

10. Gazza

Enski miðju­mað­ur­inn Paul Gascoigne mátti þola ýmsi­legt á ferli sínum og oft var hann sinn versti óvin­ur. En stór­mótin tvö þar sem hann var inn­an­borðs, HM 1990 og EM 1996, eru þau einu þar sem Eng­lend­ingar hafa staðið undir vænt­ingum síðan þeir urðu heims­meist­arar árið 1966.....og Gazza var stærsta ástæðan fyrir því. Evr­óp­meist­ara­mótið 1996 var einmitt haldið í Englandi á 30 ára afmæli heims­meist­ara­tit­ils­ins. Eng­lend­ingar komust í und­an­úr­slit og minnstu mun­aði að hann tryggði þeim far­seð­il­inn í úrslita­leik­inn með svoköll­uðu gull­marki. Gascoigne spil­aði frá­bær­lega á öllu mót­inu og var val­inn í úrvalslið­ið. Eft­ir­minni­leg­asta atvikið var markið sem hann skor­aði gegn Skotum í riðla­keppn­inni. Skotar höfðu mis­notað víta­spyrnu og Eng­lend­ingar sóttu hratt fram. Með einni snert­ingu vipp­aði Gascoigne bolt­anum yfir varn­ar­mann­inn Colin Hendry og í þeirri næstu afgreiddi hann mark­vörð­inn Andy Goram. Gazza spil­aði alltaf með hjart­anu fyrir Eng­land og við­ur­kenndi að hafa grátið eftir mót­ið. 

9. Fimm víta­spyrnur í súg­inn

Fyrir Evr­ópu­meist­ara­mótið árið 2000 voru gest­gjaf­arnir Hol­lend­ingar taldir með allra sig­ur­strang­leg­ustu lið­un­um. Liðið hafði kom­ist í und­an­úr­slit á heims­meist­ara­mót­inu tveimur árum áður og skart­aði stjörnum á borð við Dennis Berg­kamp, Pat­rick Klui­vert, Edgar Dav­ids og Clarence Seedorf. Þeir unnu alla þrjá leik­ina í riðla­keppn­inni gegn Tékk­um, Dönum og heims­meist­urum Frakka áður en þeir völt­uðu yfir Júgóslava í 8-liða úrslitum 6-1. Það kom því ekki á óvart að þeir hefðu mikla yfir­burði í leiknum í und­an­úr­slit­unum gegn Ítöl­um. En inn vildi bolt­inn ekki. Gianluca Zambrotta var rek­inn út af í fyrri hálf­leik og Frank De Boer steig á punkt­inn. Ítalski mark­mað­ur­inn Toldo varði þá spyrnu. Seinna fengu Hol­lend­ingar aftur víti en Klui­vert skaut í stöng­ina. Í lok fram­leng­ingar var staðan ennþá 0-0.  Í víta­spyrnu­keppn­inni brenndu Hol­lend­ingar svo af þremur spyrnum og þar af varði Toldo tvær.

8. Lukka Ronnie Whelan

Írski miðju­mað­ur­inn Ronnie Whelan er stuðn­ings­mönnum Liver­pool að góðu kunnur enda spil­aði hann allan níunda ára­tug­inn og vel fram á þann tíunda með lið­inu. Hann spil­aði einnig með nokkuð sterku lands­liði Íra sem komst á þrjú stór­mót á aðeins sex árum. Árangur liðs­ins á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu 1988 er athygl­is­verð­ur. Liðið komst ekki upp úr riðl­inum þrátt fyrir sigur gegn Englandi og jafn­tefli gegn sterku liði Sov­ét­manna. Í síð­ar­nefnda leiknum skor­aði Whelan eitt minn­is­stæð­asta mark keppn­innar frá upp­hafi. Mick McCarthy fleygði löngu inn­kasti rétt inn fyrir teig Sov­ét­manna þar sem Whelan stóð. Hann lét sig falla til hliðar og spyrnti knett­inum yfir mark­vörð­inn Rinat Dasa­yev. Whelan segir:

„Ég veit ekki af hverju ég var þarna. Þetta var ekki mín staða... Ég gæti haft mig að algjöru fífli en mér er alveg sama. Þetta er Evr­ópu­meist­ara­mótið og ef hann lendir inni þá verð ég svo­lítil hetja.“

7. Sam­særi Skand­in­avíu

Evr­ópu­meist­ara­mótið árið 2004 situr eins og mara á þjóð­ar­sál Ítala. Fyrir loka­leik­inn í C riðli voru Danir og Svíar með 4 stig og Ítalir með 2. Ef Ítalir ynnu sinn leik kæmust þeir áfram svo lengi sem leikur Dana og Svía end­aði ekki í jafn­tefli, 2-2 eða hærra, sem er nú nokkuð óal­geng úrslit í knatt­spyrnu. En Ítalir van­treystu nor­rænu þjóð­unum og heimt­uðu meira eft­ir­lit með leikn­um. UEFA bættu við tveimur auka mynda­vélum á leik­inn til að róa taugar Ítala en þjálf­arar nor­rænu lið­anna brugð­ust reiðir við og minntu á að liðin eru fornir fjendur á knatt­spyrnu­vell­inum. Ítalir rétt mörðu sinn leik, gegn Búl­görum, en þá rætt­ist þeirra versti draum­ur. Allt leit út fyrir sigur Dana með tveimur mörkum Jon Dahl Tom­as­sonar gegn einu víta­marki Svía. En á 89. mín­útu jafn­aði Mattias Jon­son metin í 2-2. Allir sem sáu leik­inn vissu að þetta var ekk­ert sam­særi, ein­ungis til­vilj­un, en eftir jöfn­un­ar­markið sótti hvor­ugt lið­ið. Bæði sátt við að sjá Ítali fara heim.

6. Víta­spyrnu­keppnin riður sér til rúms

Á fyrstu ára­tugum Evr­ópu­keppn­innar komust ein­ungis 4 lið í loka­mótið og lið þurftu ein­ungis að vinna tvo leiki til að verða Evr­ópu­meist­ar­ar. Afrek Tékka á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu árið 1976 í Júgóslavíu verður þó ekki dregið í efa því að þeir sigr­uðu þá tvö bestu knatt­spyrnu­lið heims­ins, Hol­lend­inga og Vest­ur­-­Þjóð­verja. Tit­ill­inn hefur að miklu leyti verið eign­aður þjálf­ara liðs­ins, Vaclav Jezek, sem hafði þjálfað í Hollandi og náði að móta ein­staka liðs­heild innan tékk­neska lands­liðs­ins. Liðið var snautt af stór­stjörnum en tækni­legir hæfi­leikar þess og fjöl­hæfni leyndi sér ekki. Úrslita­leik­ur­inn gegn Vest­ur­-­Þjóð­verjum end­aði 2-2 eftir fram­leng­ingu og því þurfti að grípa til víta­spyrnu­keppni í fyrsta skipti á stór­móti. Uli Hoeness brenndi af fjórðu spyrnu Vest­ur­-­Þjóð­verja og því gat miðju­mað­ur­inn Ant­onin Panenka tryggt Tékkóslóvakíu tit­il­inn. Svell­kaldur vipp­aði hann bolt­anum í mitt markið og hafa slíkar spyrnur verið kenndar við hann æ síð­an.

5. Tryll­ingur Portú­gala

Árið 2000 var portú­galska lands­liðið komið í hóp þeirra bestu á ný eftir marga magra ára­tugi. Leik­menn á borð við Luis Figo, Rui Costa og Paulo Sousa, hin svo­kall­aða gullna kyn­slóð, voru á hápunkti fer­ils síns og það skil­aði sér á Evr­ópu­meist­ara­mót­inu í Hollandi og Belg­íu. Portú­galar unnu alla leik­ina í riðla­keppn­inni, þar á meðal Eng­lend­inga og Þjóð­verja, og Tyrki í 8-liða úrslit­um. Mikil spenna var því fyrir und­an­úr­slita­leiknum gegn heims­meist­urum Frakka. Nuno Gomes kom Portú­gölum yfir í fyrri hálf­leik en Thi­erry Henry jafn­aði í seinni. Leik­ur­inn var jafn og spenn­andi og Portú­galir ögn betri ef eitt­hvað var og leik­ur­inn var fram­lengd­ur. Undir lok fram­leng­ingar varði portú­galski bak­vörð­ur­inn Abel Xavier skot frá Syl­vain Wiltord með hend­inni og Zinedine Zidane tryggði Frökkum sig­ur­inn með víta­spyrnu. Portú­gal­arnir brugð­ust væg­ast sagt illa við og veitt­ust að dóm­ur­un­um. Þeir ýttu, klór­uðu og hræktu á þá sem olli því að nokkrir leik­menn liðs­ins fengu margra mán­aða leik­bann.

4. Vi er røøøøde....

Sagan af Evr­ópu­meist­aratitli Dana árið 1992 er flestum kunn. Danir komust inn á mótið ein­göngu vegna þess að Júgóslövum var vísað úr keppn­inni vegna stríðs­ins þar í landi. Fæstir bjugg­ust við miklu af þeim á mót­inu sem fram fór í Sví­þjóð og mótið byrj­aði brösu­lega fyrir þá. Eftir fyrstu tvo leik­ina höfðu þeir unnið sér inn ein­ungis eitt stig og ekki enn skorað mark. Danir voru einnig án sinnar helstu stjörnu, Mich­ael Laudr­up, sem stóð í deilum við lands­liðs­þjálf­ar­ann. En Danir unnu óvæntan sigur á Frökkum í loka­leik riðla­keppn­innar og komust í und­an­úr­slit­in. Danir knúðu fram víta­spyrnu­keppni gegn stjörnu­prýddum Evr­ópu­meist­urum Hol­lend­inga og þar varði Stóri Dan­inn, Peter Smeichel, víta­spyrnu frá Marco Van Basten á snilld­ar­legan hátt. Heims­meist­arar Þjóð­verja voru næstir á dag­skrá og pressan var stíf frá þeim í úrslita­leikn­um. En þrumufleygur frá John Jen­sen og gott mark fyrir utan teig frá Kim Vil­fort sjokker­aði heims­byggð­ina og tryggði Dönum tit­il­inn. 

3. Undra­mark Van Basten

Tíma­bilið 1987/1988 var erfitt fyrir hol­lenska fram­herj­ann Marco Van Bast­en. Hann eyddi sínu fyrsta tíma­bili fyrir AC Milan að mestu leyti á sjúkra­list­anum vegna þrá­látra ökkla­meiðsla. Þess vegna hóf hann EM 1988 í Vest­ur­-Þýska­landi sem vara­maður fyrir John Bosm­an. Hol­lend­ingar töp­uðu fyrsta leiknum gegn Sov­ét­mönnum og Van Basten fékk tæki­færi til að sanna sig gegn Englandi. Þar skor­aði hann þrennu. Van Basten skor­aði alls 5 mörk og var val­inn besti leik­maður móts­ins auk þess að tryggja Hol­lend­ingum sjálfan Evr­ópu­meist­ara­tit­il­inn. Mark hans í úrslita­leiknum þykir eitt það besta í sög­unni. Arnold Muhren gaf háa fyr­ir­gjöf frá vinstri kant­inum og Van Basten lagði bolt­ann í einni snert­ingu yfir sov­éska mark­vörð­inn Rinat Dasa­yev. Markið virð­ist vera eðl­is­fræði­lega bjag­að. Sjálfur segir hann:

„OK, ég gæti stoppað og átt við alla varn­ar­menn­ina eða ég gæti farið auð­veldu leið­ina, tekið áhættu og skot­ið.“

2. Yfir­burðir Plat­ini

Eng­inn leik­maður hefur spilað jafn vel á Evr­ópu­móti og miðju­mað­ur­inn Michel Plat­ini gerði árið 1984 í heima­landi sínu Frakk­landi. Miðju­spil Frakka á mót­inu var full­komið með Jean Tig­ana og Alain Giresse á könt­un­um, Luis Fern­andez baka til og Plat­ini fyrir fram­an. Plat­ini var útsjón­ar­samur leik­stjórn­andi og lunk­inn við að skapa sér færi. Hann tók frá­bærar auka­spyrnur og var stór­hættu­legur í teignum þar sem hann gat auð­veld­lega skorað með skall­an­um. Mörk hans komu á færi­bandi á mót­inu. Hann skor­aði sig­ur­mark í opn­un­ar­leiknum gegn Dönum og svo tvær þrennur til við­bótar í riðla­keppn­inni, gegn Belgum og Júgóslöv­um. Í und­an­úr­slit­unum skor­aði hann dramat­ískt sig­ur­mark á lokamín­útu fram­leng­ingar gegn Portú­göl­um. Hann kór­ón­aði svo frammi­stöð­una með marki í úrslita­leiknum gegn Spán­verj­um. Hann skor­aði alls 9 mörk á mót­inu en eng­inn annar leik­maður í sög­unni hefur skorað fleiri en 5. Hann var vita­skuld val­inn maður mótsins og tryggði þjóð sinni Evr­ópu­meist­ara­tit­il­inn.

1. Ösku­busku­æv­in­týri Grikkja

Evr­ópu­meist­ara­mótið árið 2004 var mót hinna minni þjóða. Lettar komust á mótið og komu öllum á óvart með jafn­tefli gegn Þjóð­verj­um. Þjóð­verjar, Rúss­ar, Spán­verjar og Ítalir duttu út í riðla­keppn­inni og Eng­lend­ingar og Frakkar í 8-liða úrslit­um. Hol­lend­ingar voru því fjöl­menn­asta þjóðin í und­an­úr­slitum með ein­ungis 16 millj­ónir íbúa. Það voru þó Grikkir sem stálu sen­unni. Gríska lands­liðið hafði um ára­tuga skeið verið hálf­gerður brand­ari og stolt Grikkja meira verið bundið við félags­liðin Olymp­i­akos og Pan­athinai­kos. Fyrir EM 2004 var veð­banka­stuð­ull­inn á sigur Grikkja 150 á móti 1. Grikkir komu þó öllum á óvart með sigri gegn gest­gjöf­unum frá Portú­gal í fyrsta leik en minnstu mun­aði að þeir kæmust ekki upp úr riðl­in­um. Þjálf­ar­inn Otto Rehha­gel, gam­all refur úr þýsku deild­inni, náði þó að þétta rað­irnar og Grikkir fengu ekki á sig fleiri mörk í keppn­inni. Þrír 1-0 sigrar í röð gegn Frökk­um, Tékkum og Portú­gölum tryggði þeim þann ótrú­leg­asta titil sem unn­ist hefur á stór­móti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar