Mynd: Birgir Þór

Framsókn orðinn valkostur fyrir stjórn til vinstri

Tveir möguleikar virðast vera til staðar við myndun ríkisstjórnar. Annars vegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, sem verið er að ræða óformlega um. Gangi það ekki er vilji til að mynda ríkisstjórn frá miðju til vinstri með aðkomu Framsóknarflokks.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn er eini flokk­ur­inn sem eng­inn annar stjórn­mála­flokkur virt­ist vilja mynda rík­is­stjórn með. Eng­inn flokkur hefur lýst því yfir opin­ber­lega að rík­is­stjórn með Fram­sókn inn­an­borðs væri eitt­hvað sem hann gæti hugsað sér. Sig­urður Ingi Jóhanns­son, starf­andi for­sæt­is­ráð­herra og for­maður flokks­ins, hefur þó sagt að hann sé reiðu­bú­inn til að starfa í rík­is­stjórn ef kallið kæmi og í sam­starfi við „hvern sem er“. Í sam­tali við mbl.is í gær, þegar hann var á leið á fund for­seta Íslands, sagði hann að sam­starf við aðra flokka hafi gengið vel á síð­ustu sex mán­uð­um, eftir að hann tók við sem for­sæt­is­ráð­herra.

Þetta er mjög í takt við það sem þing­menn flestra flokka segja. Vinnu­friður hafi kom­ist á á Alþingi og ólíkir flokkar hafi getað sam­mælst um að laga vinnu­brögð og veita völdum málum braut­ar­gengi. Sig­urður Ingi hafi komið með ró, virð­ingu, sam­starfsvilja og kurt­eisi inn í verk­stjórn­ina á lands­mál­unum eftir að hann tók við af Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni í apr­íl.

En af hverju hafa hinir flokk­arnir þá ekki viljað vinna með Fram­sókn, sem hefur átta þing­menn og er sögu­lega miðju­flokkur sem er opinn í báða enda? Við­mæl­endur Kjarn­ans í öllum flokkum segja þá ástæðu blasa við. Hún heitir Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son. Og það vanda­mál virð­ist vera að leys­ast.

Tak­ist ekki að mynda meiri­hluta­stjórn Sjálf­stæð­is­flokks, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar – sem hefði minnsta mögu­lega meiri­hluta – í þess­ari viku er ljóst að ein­ungis einn skýr val­kostur er á borð­inu. Það er rík­is­stjórn Vinstri grænna, Við­reisn­ar, Bjartrar fram­tíðar og Fram­sókn­ar­flokks með aðkomu eða stuðn­ingi Pírata og stuðn­ingi Sam­fylk­ing­ar. Slík rík­is­stjórn yrði með 42 manna þing­meiri­hluta að með­töldum stuðn­ings­þing­mönnum og myndi ein­angra Sjálf­stæð­is­flokk­inn í stjórn­ar­and­stöðu. Það væri líka hægt að mynda þessa stjórn án aðkomu Við­reisn­ar. Sam­an­lagður þing­manna- og stuðn­ings­manna­fjöldi yrði þá 35 þing­menn. Fari þessar við­ræður út um þúfur einnig stöndum við frammi fyrir störu­keppni í íslenskum stjórn­mál­um, og mögu­legri stjórn­ar­kreppu.

Sig­mundur Davíð er að ein­angra sig upp á eigin spýtur

Stríð hefur geis­aði í Fram­sókn­ar­flokknum und­an­farin miss­eri. Eftir að Sig­urður Ingi vann sigur í for­manns­kosn­ingum í Fram­sókn­ar­flokknum í byrjun októ­ber hefur verið nokkuð skýrt að Sig­mundur Davíð ætl­aði ekki að taka þeim ósigri þegj­andi. Hann rauk út úr Háskóla­bíói undir sig­ur­ræðu Sig­urðar Inga og næstu daga gaf hann það sterkt til kynna að and­stæð­ingar hans innan flokks hefðu haft rangt við til að tryggja Sig­urði Inga sig­ur.

Á end­anum ákvað hann þó að helga sig mál­efnum Norð­aust­ur­kjör­dæmis síð­ustu dag­anna fyrir kosn­ingar og birti meðal ann­ars sér­staka Norð­aust­ur-­stefnu á bloggi sínu.

Flestir aðrir þing­menn og leið­togar Fram­sókn­ar­flokks­ins sam­ein­uð­ust í kosn­inga­bar­átt­unni, utan við Gunnar Braga Sveins­son sem stóð áfram með Sig­mundi Dav­íð.

Kosn­ing­arnar fóru ekki vel fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn. Stefnu­mál hans sem kynnt voru í aðdrag­anda kosn­inga náðu engu flugi og þegar búið var að telja upp úr kjör­köss­unum var nið­ur­staðan versti árangur flokks­ins í kosn­ingum í 100 ára sögu hans, eða 11,5 pró­sent atkvæða. Þing­menn­irnir urðu átta tals­ins en höfðu verið 19.

Það vekur þó athygli að flestir her­ská­ustu og umdeild­ustu þing­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins eru horfnir á braut. Í raun má segja að ein­ungis Sig­mundur Davíð og Gunnar Bragi séu mjög umdeildir af þeim átta sem í þing­flokknum sitja. Ásýnd þing­flokks­ins hefur breyst mjög og er orðin álit­legri fyrir félags­hyggju­flokk­anna sem sam­starfs­mögu­leiki, sam­kvæmt við­mæl­endum Kjarn­ans.

Sig­mundur Davíð var með svör á reiðum höndum yfir því hvers vegna hefði farið svo sem fór í kosn­ing­un­um. Átökin á flokks­þingi, þar sem hann var felldur sem for­mað­ur, hafi verið helsta ástæða þess að flokk­ur­inn tap­aði svona miklu fylgi. „Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öfl­­ugri kosn­­inga­bar­áttu hefðum við getað hækkað fylgið um kannski fjög­ur ­pró­­sent­u­­stig og svo kannski tvö í við­­bót í kosn­­ing­unum sjálf­­um. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 pró­­senta fylg­i,“ sagði Sig­mundur Davíð við Frétta­blaðið á mánu­dag. Í sama blaði í dag er því haldið fram að hann sé að ein­angra sig frá öðrum þing­mönnum flokks­ins og að honum hugn­ist ekki að vinna með Sig­urði Inga og þing­flokknum í sátt.

Nið­ur­stöður kosn­ing­anna voru reyndar ekk­ert sér­stak­lega góðar fyrir Sig­mund Dav­íð, og virð­ast ekki styðja þessa kenn­ingu hans. Flokk­ur­inn fékk 20 pró­sent atkvæða í Norð­aust­ur­kjör­dæmi, sem er minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni fengið í kjör­dæm­inu frá því að hann hóf að bjóða fram. Þess utan var Sig­mundur Davíð sá fram­bjóð­andi kjör­dæm­is­ins sem var oft­ast strik­aður út af kjós­end­um.

Fram­sókn allt í einu stjórn­tækur flokkur

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn veit að eng­inn annar stjórn­mála­flokkur mun vinna með honum nema búið sé að taka á „Sig­mund­ar-­vanda­mál­in­u“. Bjarni Bene­dikts­son og Sig­mundur Davíð hafa varla talað saman síðan að Sig­mundur sagði af sér og innan raða Sjálf­stæð­is­flokks­ins er for­sæt­is­ráð­herr­ann fyrr­ver­andi almennt ekki hátt skrif­að­ur, utan hirð­ar­innar í kringum Davíð Odds­son, sem hefur mikið dálæti á hon­um. Staða hans er hins vegar enn verri hjá stjórn­ar­and­stöðu­flokk­un­um. Þar bæt­ist mikil per­sónu­leg óvild í garð Sig­mundar Dav­íðs við það að lyk­il­fólk í flokk­unum fjórum telur gjör­sam­lega ómögu­legt að starfa með for­sæt­is­ráð­herr­anum fyrr­ver­andi.

Óttarr Proppé virðir fyrir sér Katrínu Jakobsdóttur og Þorstein Víglundsson í umræðuþætti skömmu fyrir kosningar. Hans flokkur er nú í lykilstöðu til að velja hvort ríkisstjórn verði til hægri eða vinstri ef Framsóknarflokkurinn er orðinn vinstrivalkostur að nýju.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Sig­urður Ingi hefur lagt mikla áherslu á að koma því að í nær öllum umræðu­þáttum og við­tölum sem hann hefur mætt í und­an­farna daga að vel hafi tek­ist að vinna saman innan þings eftir að hann tók við sem for­sæt­is­ráð­herra í apr­íl. Stjórn­un­ar­stíll hans er öðru­vísi en Sig­mundar Dav­íðs. Stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn segja til að mynda að Sig­urður Ingi hafi verið kurt­eis og auð­mjúkur í sam­skiptum og sýnt mikla við­leitni til að eiga í sam­tali við stjórn­ar­and­stöð­una á sínum tíma, þótt ekki væri nema til að halda henni upp­lýstri. Allt hafi þetta verið þættir sem skort hafi alla þá tíð sem Sig­mundur Davíð stýrði þjóð­ar­skút­unni. Einn við­mæl­enda Kjarn­ans sagði að Sig­urður Ingi hefði gert meira til að gera Fram­sókn­ar­flokk­inn stjórn­tæk­ari á síð­ustu tveimur dögum en hann hefði gert á þeim sex mán­uðum sem hann hefur setið sem for­sæt­is­ráð­herra.

Í gær birti svo Gunnar Bragi Sveins­son, sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra, stöðu­upp­færslu á Face­book, en hann hafði stutt Sig­mund Davíð dyggi­lega í gegnum þann ólgu­sjó sem gengið hefur yfir Fram­sókn­ar­flokk­inn und­an­farin miss­eri. Þar segir Gunnar Bragi að þessir dagar séu flokknum erf­iðir „eftir slæm úrslit kosn­inga og mikla vinnu þarf til að græða sár og jafna deil­ur. Hvert og eitt þurfum við að líta í eigin barm og meta hvað við höfum getað gert öðru­vísi og bet­ur. Nú er ekki tími upp­hrópana heldur þarf að setja niður ágrein­ing. Oft hefur verið sagt að eng­inn sé stærri en flokk­ur­inn. Það á við nú sem áður enda verður flokk­ur­inn okkar ekki 100 ára af sjálfu sér.“

Með þess­ari yfir­lýs­ingu er Gunnar Bragi, sem hefur verið með her­skárri ráð­herr­unum á þessu kjör­tíma­bili, aug­ljós­lega að rétta fram sátt­ar­hönd og ein­angra Sig­mund Davíð þannig enn frekar innan þing­flokks­ins. Lilja Alfreðs­dótt­ir, vara­for­maður flokks­ins, hafði verið náinn sam­starfs­maður Sig­mundar Dav­íðs um langt skeið og stutt hann í for­manns­kosn­ing­un­um. Hún ákvað hins vegar strax eftir þær að vinna með nýjum for­manni og þau tvö voru and­lit flokks­ins í nýlið­inni kosn­inga­bar­áttu.

Miðju-vinstri stjórn gæti verið í kort­unum

Sig­mundur Davíð er því orð­inn nokkuð ein­angr­aður innan Fram­sókn­ar­flokks­ins og við­mæl­endur Kjarn­ans segja að þannig verði það áfram. Ætli flokk­ur­inn sér í rík­is­stjórn er ljóst að hann þarf að horfa til vinstri þar sem allir flokkar úti­loka, að minnsta kosti í orði, rík­is­stjórn sem inni­heldur bæði Sjálf­stæð­is­flokk og Fram­sókn­ar­flokk. Það er hins vegar sögu­lega ekk­ert vanda­mál fyrir Fram­sókn­ar­flokk­inn að vinna til vinstri. Það hefur hann margoft gert og félags­hyggju­á­herslur hans eiga í raun mun meiri sam­leið með flokk­unum þar en með Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Wintris-mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var ástæða þess að kosið var í október en ekki í vor. Hann er nú einangraður innan Framsóknarflokksins.
mynd: Birgir Þór Harðarson

Ef Sig­urði Inga tekst að selja það að Sig­mundur Davíð verði ekki vanda­mál og að restin af þing­flokknum sé sam­ein­aður að baki honum gæti það vel gerst að Fram­sókn yrði aftur val­kostur í rík­is­stjórn. Sér­stak­lega í miðju-vinstri stjórn sem mynduð yrði af Vinstri græn­um, Bjartri fram­tíð, Við­reisn og Fram­sókn­ar­flokki með aðkomu eða stuðn­ingi Pírata og mögu­lega stuðn­ingi Sam­fylk­ing­ar. Slík stjórn hefði 39-42 þing­menn eða stuðn­ings­menn og rúman meiri­hluta á þingi. Það væri meira að segja hægt að mynda þá stjórn án aðkomu Við­reisnar og hún væri samt með 35 manna meiri­hluta gegn 28 manna and­stöðu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar