Borgarstjóri vill losna við dósafólkið

Kaupmannahöfn
Auglýsing

Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar vill breyta núgildandi lögum um endurgreiðslu drykkjarumbúða. Heimilislausum útlendingum sem draga fram lífið með dósa-og flöskusöfnun hefur fjölgað mikið í borginni á síðustu árum. Borgarstjórinn vill losna við dósafólkið.

Þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa komið til Kaupmannahafnar muna sjálfsagt vel gömlu bjórflöskurnar, sem Danir kalla reyndar ölflasker. Í laginu eins og Pilsnerflöskurnar sem Íslendingar drukku úr í áratugi. Grænar flöskur voru algengastar (þetta var löngu fyrir daga dósa og plasts) enda notaðar undir „Hof“ og „Grön“ eins og Danir kölluðu tvær langvinsælustu bjórtegundirnar, sú fyrrnefnda frá Carlsberg, Grön frá Tuborg. Margir íslenskir námsmenn muna líka vel eftir því að rogast með bjórkassana heim úr búðinni og svo til baka með sömu kassana og sömu flöskurnar, tómar, aftur út í búð. Og svo kannski aftur heim með „nýja áfyllingu“. Ástæðan fyrir þessari hringrás flasknanna var auðvitað sú að á þeim var skilagjald, tiltölulega hátt. Ef það hefði ekki verið til staðar hefðu flöskurnar sennilega endað í ruslatunnunni. 

Skilagjaldið var tekið upp í stríðinu

Árið 1942, í miðri síðari heimsstyrjöld, ákváðu dönsk stjórnvöld að taka upp skilagjald á bjórflöskur. Tilgangurinn auðvitað sá að nýta flöskurnar betur, henda þeim ekki frá sér þegar síðasta dropanum var kyngt. Og spara orku því glerframleiðsla er mjög orkufrek.Haft var eftir dönskum stjórnmálamanni að nauðsynlegt væri að hafa skilagjaldið hátt. Það reyndist rétt, Danir urðu strax mjög skilaglaðir og athuganir bjórframleiðendanna sýndu, nokkrum árum eftir að skilagjaldið var tekið upp að flöskurnar fóru að meðaltali 15 sinnum í gegnum áfyllingarvélarnar. Dæmi reyndar til um mun fleiri skipti.

Auglýsing

Síðar kom skilagjald á plastflöskur og árið 2002 á dósir. 


Þeir sem selja dósir og flöskur verða líka að taka við þeim tómu

Allt frá því að skilagjaldið var tekið upp hafa gilt um það ákveðnar reglur. Allir sem selja gosdrykkja- og öldósir verða að taka við umbúðum og borga þeim sem skilar „pantið“. Einungis 33 cl. bjórflöskur og 50 cl. gosdrykkjaflöskur eru í dag þvegnar og notaðar aftur undir „aðra umferð“. Annað gler, dósir og plast er endurunnið og þannig endurnýtt. Í því felst mikill orkusparnaður miðað við að framleiða nýtt gler, ál og plast frá grunni. Fólk er þess vegna eindregið hvatt til að skila öllum flöskum, eða dósum sem ekki eru seldar með skilagjaldi, í sérstaka endurvinnslugáma, sem alls staðar má finna.   

Sá sem skilar skilagjaldsskyldum umbúðum fær ávísun sem hann getur annaðhvort notað til vörukaupa í viðkomandi verslun eða fengið greitt í reiðufé.


Milljónir dósa og flaskna fara í ruslið

Þrátt fyrir að Danir séu mjög duglegir að skila umbúðum er þó gríðarlegur fjöldi flaskna og dósa sem enda í ruslinu. Fólk sem er „úti á lífinu“ t.d. í Kaupmannahöfn ber ekki tómu dósirnar eða flöskurnar með sér heim, það lætur umbúðirnar einfaldlega flakka í rusladallana. Allur sá mikli fjöldi ferðafólks sem röltir um götur borgarinnar er heldur ekki að velta fyrir sér skilagjaldinu. 

Hirðusamir einstaklingar gera sér svo mat úr öllum þessum aragrúa umbúða og nánast hvert sem farið er um í borginni má sjá áhugasama flöskusafnara á ferð, kíkjandi í ruslið og hirða svo þær umbúðir sem hægt er að breyta í peninga. 


Útlendir flösku- og dósasafnarar áberandi í borginni

Þótt margir hinna hirðusömu séu Danir hefur þeim útlendingum fjölgað sem beinlínis koma til Kaupmannahafnar til að safna umbúðum og afla þannig fjár. Stór hluti þessa hóps kemur frá Austur-Evrópu og er að flýja fátæktina heima fyrir. Flestir bláfátækir og hafa hvergi húsaskjól og hafast við víðsvegar í borginni, iðulega í almenningsgörðum. Blaðamaður dagblaðsins Politiken ræddi nýlega við tvo rúmenska flöskusafnara sem búa í tjaldi á afviknum stað í borginni. Þeir sögðust hafa komið til Kaupmannahafnar því þeir hefðu heyrt að þar væri hægt að skrapa saman aurum með því að safna flöskum og dósum. Þessir menn sögðust eiga fjölskyldur heima í Rúmeníu og peningarnir sem þeir söfnuðu færu að mestu leyti þangað. Ekki er nákvæmlega vitað hvað þeir útlendingar sem stunda þessa dósa- og flöskusöfnun eru margir en þeim hefur fjölgað mjög að undanförnu. Borgaryfirvöldum til lítillar ánægju.


Yfirborgarstjóri vill breytingar á skilagjaldslögunum

Frank Jensen yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar er ósáttur við þessa miklu fjölgun erlendra dósa- og flöskusafnara.  Hann vill gera breytingar á skilagjaldslögunum og hefur skrifað ráðherrum dóms- og umhverfismála bréf þess efnis. Hann vill að ekki verði hægt að fá reiðufé fyrir umbúðir sem skilað er, heldur verði einungis hægt að nota inneignarnótuna til vörukaupa í viðkomandi verslun. Inneignarnótan gildi einungis í mjög takmarkaðan tíma, t.d klukkustund. Það á að tryggja að ekki verði hægt að gera inneignarnótuna að verslunarvöru. Þetta eru ekki flóknar reglur og borgarstjórinn telur að þær myndu verða til þess að heimilislausir útlendingar sæju sér ekki hag í að koma til Kaupmannahafnar og afla tekna með dósa- og flöskusöfnun. Frank Jensen segir að þetta myndi ekki breyta neinu fyrir þá Dani sem safna umbúðum, þeir noti inneignina undantekningalítið til kaupa á mat og drykk.   

Skiptar skoðanir eru um þessar tillögur borgarstjórans sem ekki hafa verið teknar til skoðunar og afgreiðslu í ráðuneytum dóms- og umhverfismála. Þar hefur undanfarið verið í mörg önnur horn að líta, ekki síst vegna breytinga á ríkisstjórn landsins.    

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None