Novator verður áfram hluthafi í Nova

Björgólfur Thor Björgólfsson og viðskiptafélagar hans munu áfram eiga hlut í Nova, þrátt fyrir að tilkynnt hafi verið um sölu þeirra á Nova til bandarísks eignastýringarfyrirtækis í október.

Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar og viðskiptafélaga hans, verður áfram fjárfestir í fjarskiptafyrirtækinu Nova.  Tilkynnt var um það í byrjun október 2016 að Novator hefði selt allt hlutafé sitt í Nova, alls 94 prósent hlut, til bandaríska eignastýringafyrirtækisins Pt Capital Advisors.  Nú liggur fyrir að Novator mun halda áfram á hlut í Nova en ekki fást upplýsingar um hversu stór sá hlutur verður. Þetta kemur fram í svarið Novator við fyrirspurn Kjarnans um málið.

Þegar tilkynnt var um kaup Pt Capital Advisors á Nova í október var kaupverðið sagt trúnaðarmál. Heimildir Kjarnans herma hins vegar að það hafi verið yfir 15 milljarðar króna fyrir allan 94 prósent hlut Novator í íslenska fjarskiptafyrirtækinu, en stjórnendur Nova, meðal annars Liv Bergþórsdóttir, eiga sex prósent hlut.

Skömmu eftir að tilkynnt var um viðskiptin, sem meðal annars voru valin viðskipti ársins í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, var greint frá því í fjölmiðlum að viðskiptin væru ekki eins borðleggjandi og tilkynnt  var um. Til stæði að fá íslenska einkafjárfesta og lífeyrissjóði að Nova og til að taka um þriðjungshlut í fyrirtækinu. Þetta var einnig staðfest á vefsíðu Íslenskra verðbréfa, ráðgjafa Pt Capital Advisors, þar sem stóð að endanlegur hluthafahópur Nova myndi samanstanda af íslenskum fagfjárfestum, auk Pt Capital Advisors og stjórnenda Nova.

Morgunblaðið greindi frá því í upphafi árs að erfiðlega gengi að fá lífeyrissjóði landsins til að taka þátt í kaupunum og að enn væri leitað íslenskra fjárfesta til að ljúka fjármögnun. Þrír af fjórum stærstu lífeyrissjóðum landsins höfðu þegar, samkvæmt Morgunblaðinu, ákveðið að taka ekki þátt í viðskiptunum né neinn þeirra innlendu framtakssjóða sem Líf­eyr­is­sjóður versl­un­ar­manna hef­ur fjár­fest í.

Flókin viðskipti

Kjarninn beindi fyrirspurn til Novator um hvar málið stæði. Í svari frá upplýsingafulltrúa félagsins segir að samningar um kaup Pt Capital Advisors á Nova liggi fyrir. „Endanlegur frágangur sölunnar mun líklega verða í lok febrúar. Þetta eru fremur flókin viðskipti þar sem um er að ræða erlendan kaupanda að íslenskri eign í umhverfi þar sem gjaldeyrishömlur eru.  Auk þess spila inn í þættir eins og frágangur endanlegra skjala vegna fjármögnunar og kaupendahóps.  

Novator hefur samþykkt boð Pt Capital um að vera áfram fjárfestir í félaginu. Pt Capital taldi mikilvægt að vera með íslenskan samstarfsaðila sem hefði reynslu af fjárfestingum á Íslandi og farsímarekstri.  Pt Capital lítur á Novator sem besta „strategic partner“ sem hægt er að fá.

Novator  væntir mikils af samstarfinu við PT Capital, enda telur Novator Nova vera afar áhugaverðan fjárfestingarkost og vill auk þess styðja við stjórnendur Nova sem hafa ákveðið að fjárfesta áfram í félaginu.“

Þar sem samningar væru ekki enn frágengnir þá fengust ekki frekari upplýsingar um hvernig eignarhaldinu yrði háttað að þeim loknum, t.d. hversu stórum hlut Novator myndi halda áfram í Nova.

Pt Capital Advisors er dótt­ur­fé­lag Pt Capital, og er með aðsetur í Anchorage í Alaska. Félagið leggur meg­in­á­herslu á fjár­fest­ingar á norð­ur­slóð­um, en Nova er fyrsta fjár­fest­ing félags­ins hér á landi. Kaup­verðið á Nova er trún­að­ar­mál.

Nova með sterka stöðu á íslenskum fjarskiptamarkaði

Nova náði þeim áfanga á síðari hluta ársins 2015 að vera það fjarskiptafyrirtæki landsins sem er með mesta markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Síminn hafði haldið á þeim kyndli frá upphafi farsímatímabilsins hér á Íslandi. Bilið á milli Nova og Símans hefur aukist lítillega á fyrri hluta ársins 2016. Í lok júní var Nova með 149.850 viðskiptavini og 34,4 prósent markaðshlutdeild, en Síminn með 147.126 viðskiptavini og 33,7 prósent markaðshlutdeild. Þetta kemur fram í tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar sem sýnir stöðuna á fjarskiptamarkaði um mitt ár 2016.

Þótt föstum áskriftum hjá Nova fjölg­i alltaf ár frá ári er það enn svo að tæp­lega tveir af hverjum þremur við­skipta­vinum fyr­ir­tæk­is­ins eru með fyr­ir­fram­greidda þjón­ustu, svo­kall­að frelsi.

Nova er samt sem áður það fyr­ir­tæki á fjar­skipta­mark­aði sem tekur til­ sín nán­ast alla við­bót­arnot­endur sem bæt­ast við far­síma­mark­að­inn á ári hverju. Frá árs­lokum 2012 hefur við­skipta­vinum Nova til að mynda fjölgað um 37 þúsund, sem er nákvæmlega sama fjölgum og hefur alls orðið á farsímamarkaðnum frá þeim tíma.

Nova er líka með yfirburðastöðu þegar kemur að notkun gagnamagns á farsímaneti. Viðskiptavinir fyrirtækisins nota 68,2 prósent af öllu gagnamagni sem notað er á því neti. Viðskiptavinir Símans koma þar á eftir með um 18 prósent af heildarnotkuninni. Þeir sem versla við Vodafone nota 11,2 prósent og viðskiptavinir 365 2,4 prósent. 

Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um íslenskan farsímamarkað hér.

Hægt er að lesa fréttaskýringu Kjarnans um aukna gagnamagnsnotkun Íslendinga hér.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar