Mynd: Birgir Þór

Arðgreiðslur til eigenda í sjávarútvegi 66 milljarðar frá 2010

Samanlagt hefur hagur sjávarútvegsfyrirtækja vænkast um 366,8 milljarða króna á örfáum árum. Eigendur þeirra hafa notið góðs af því í gegnum háar arðgreiðslur. frá 2011 hafa veiðigjöld numið 45,2 milljörðum króna.

Sam­an­lagðar arð­greiðslur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja til eig­enda sinna frá árinu 2010 nema 65,8 millj­örðum króna. Eigið fé þeirra frá hruni hefur batnað um 300 millj­arða króna. Því hefur hagur sjáv­ar­út­veg­ar­ins vænkast um 365,8 millj­arða króna á síð­ast­liðnum árum. Þetta kemur fram í tölum úr Sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte vegna árs­ins 2016, sem kynntar voru á Sjáv­ar­út­vegs­deg­inum sem hald­inn var síð­ast­lið­inn þriðju­dag.

Þar kom fram að hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna frá árinu 2009 og út síð­asta ár hefur numið sam­tals 342 millj­örðum króna. Sú upp­hæð myndi duga fyrir 43,3 pró­sent áætl­aðra útgjalda íslenska rík­is­ins á næsta ári. Frá árinu 2011 hafa fyr­ir­tækin greitt 45,2 millj­arða króna til rík­is­sjóðs í formi veiði­gjalda.  Í reikn­ingum fyr­ir­tækj­anna er veiði­gjaldið talið með öðrum rekstr­ar­kostn­aði og því er búið að taka til­lit til þess þegar hreinn hagn­aður er reikn­aður út.

Veiði­gjöld lækk­uðu milli ára

Hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í fyrra sló öll fyrri met. Hann var 55 millj­arðar króna og aðeins hærri en 2013, þegar hann var mjög sam­bæri­leg­ur. Sam­an­lagt hafa íslensku sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin hagn­ast um 342 millj­arða króna eftir hrun.

Bein opin­ber gjöld sem geir­inn greiddi í fyrra voru 19,1 millj­arðar króna og lækk­uðu um 3,5 millj­arða króna á milli ára. Veiði­gjöldin ein og sér voru 6,4 millj­arðar króna á síð­asta ári og lækk­uðu um 1,1 millj­arð króna frá árinu á und­an. Fyrir liggur að þau eigi að hækka vegna árs­ins í ár í um ell­efu millj­arða króna. Heiðrún Lind Mart­eins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtu­dag að útgerðin geti ekki staðið undir hærri veiði­gjöld­um.

Hagur geirans vænkast um 367 millj­arða

Alls er bók­fært eigið fé sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja 221 millj­arður króna. Það var nei­kvætt um 80 millj­arða króna í lok árs 2008 og hefur því auk­ist um 301 millj­arð króna síðan á hru­nár­inu. Þá á eftir að taka til­lit til arð­greiðslna sem hafa numið 65,8 millj­örðum króna frá árinu 2010. Sam­an­lagt hefur hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja því vænkast um 366,8 millj­arða króna á örfáum árum.

Þennan við­snún­ing hafa eig­endur þeirra meðal ann­ars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjár­fest­ingu í geir­an­um. Skuldir sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja voru 319 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót og höfðu þá lækkað um 175 millj­arða króna frá hruni. Fjár­fest­ingu í var­an­legum rekstr­ar­fjár­mun­um, sem eru til að mynda ný skip, var 22 millj­arðar króna í fyrra. Hún hefur verið um 25 millj­arðar króna að með­al­talið árlega á síð­ustu þremur árum.

Lendir að mestu hjá stærstu fyr­ir­tækj­unum

Í þeirri kosn­inga­bar­áttu sem nú stendur yfir eru ansi margir stjórn­mála­flokkar með það á stefnu­skrá sinni að auka gjald­töku á þá sem nýta sér auð­lindir lands­ins. Efst á blaði þar er sjáv­ar­út­veg­ur. Eins og kerfið virkar í dag eru um eitt þús­und fyr­ir­tæki sem greiða veiði­gjald og leggst það mis­mun­andi þungt á þau fyr­ir­tæki.

Ljóst er þó að geta þeirra allra stærstu í geir­anum til að standa undir umfram­greiðslum er til stað­ar, þótt að smærri fyr­ir­tæki eigi í erf­ið­leikum með slík­ar.

Þessi gíf­ur­lega bætti hagur sjáv­ar­út­veg­ar­ins lendir nefni­lega að að mestu hjá stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum lands­ins. Þannig hefur til að mynda Sam­herji, sam­stæða félaga sem starfa á sviði sjáv­ar­út­vegs hér­lendis og erlend­is, hagn­ast um 86 millj­arða króna á und­an­förnum sex árum. Hagn­aður Sam­herja fyrir afskriftir og fjár­magnsliði í fyrra var 17 millj­arðar króna. Helstu eig­endur Sam­herja eru frænd­­urn­ir, for­­stjór­inn Þor­­steinn Már Bald­vins­­son og útgerð­­ar­­stjór­inn Krist­ján Vil­helms­­son.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar