Mynd: Birgir Þór

Arðgreiðslur til eigenda í sjávarútvegi 66 milljarðar frá 2010

Samanlagt hefur hagur sjávarútvegsfyrirtækja vænkast um 366,8 milljarða króna á örfáum árum. Eigendur þeirra hafa notið góðs af því í gegnum háar arðgreiðslur. frá 2011 hafa veiðigjöld numið 45,2 milljörðum króna.

Sam­an­lagðar arð­greiðslur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja til eig­enda sinna frá árinu 2010 nema 65,8 millj­örðum króna. Eigið fé þeirra frá hruni hefur batnað um 300 millj­arða króna. Því hefur hagur sjáv­ar­út­veg­ar­ins vænkast um 365,8 millj­arða króna á síð­ast­liðnum árum. Þetta kemur fram í tölum úr Sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte vegna árs­ins 2016, sem kynntar voru á Sjáv­ar­út­vegs­deg­inum sem hald­inn var síð­ast­lið­inn þriðju­dag.

Þar kom fram að hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna frá árinu 2009 og út síð­asta ár hefur numið sam­tals 342 millj­örðum króna. Sú upp­hæð myndi duga fyrir 43,3 pró­sent áætl­aðra útgjalda íslenska rík­is­ins á næsta ári. Frá árinu 2011 hafa fyr­ir­tækin greitt 45,2 millj­arða króna til rík­is­sjóðs í formi veiði­gjalda.  Í reikn­ingum fyr­ir­tækj­anna er veiði­gjaldið talið með öðrum rekstr­ar­kostn­aði og því er búið að taka til­lit til þess þegar hreinn hagn­aður er reikn­aður út.

Veiði­gjöld lækk­uðu milli ára

Hagn­aður sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja í fyrra sló öll fyrri met. Hann var 55 millj­arðar króna og aðeins hærri en 2013, þegar hann var mjög sam­bæri­leg­ur. Sam­an­lagt hafa íslensku sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin hagn­ast um 342 millj­arða króna eftir hrun.

Bein opin­ber gjöld sem geir­inn greiddi í fyrra voru 19,1 millj­arðar króna og lækk­uðu um 3,5 millj­arða króna á milli ára. Veiði­gjöldin ein og sér voru 6,4 millj­arðar króna á síð­asta ári og lækk­uðu um 1,1 millj­arð króna frá árinu á und­an. Fyrir liggur að þau eigi að hækka vegna árs­ins í ár í um ell­efu millj­arða króna. Heiðrún Lind Mart­eins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, sagði í fréttum Stöðvar 2 á fimmtu­dag að útgerðin geti ekki staðið undir hærri veiði­gjöld­um.

Hagur geirans vænkast um 367 millj­arða

Alls er bók­fært eigið fé sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja 221 millj­arður króna. Það var nei­kvætt um 80 millj­arða króna í lok árs 2008 og hefur því auk­ist um 301 millj­arð króna síðan á hru­nár­inu. Þá á eftir að taka til­lit til arð­greiðslna sem hafa numið 65,8 millj­örðum króna frá árinu 2010. Sam­an­lagt hefur hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja því vænkast um 366,8 millj­arða króna á örfáum árum.

Þennan við­snún­ing hafa eig­endur þeirra meðal ann­ars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjár­fest­ingu í geir­an­um. Skuldir sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja voru 319 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót og höfðu þá lækkað um 175 millj­arða króna frá hruni. Fjár­fest­ingu í var­an­legum rekstr­ar­fjár­mun­um, sem eru til að mynda ný skip, var 22 millj­arðar króna í fyrra. Hún hefur verið um 25 millj­arðar króna að með­al­talið árlega á síð­ustu þremur árum.

Lendir að mestu hjá stærstu fyr­ir­tækj­unum

Í þeirri kosn­inga­bar­áttu sem nú stendur yfir eru ansi margir stjórn­mála­flokkar með það á stefnu­skrá sinni að auka gjald­töku á þá sem nýta sér auð­lindir lands­ins. Efst á blaði þar er sjáv­ar­út­veg­ur. Eins og kerfið virkar í dag eru um eitt þús­und fyr­ir­tæki sem greiða veiði­gjald og leggst það mis­mun­andi þungt á þau fyr­ir­tæki.

Ljóst er þó að geta þeirra allra stærstu í geir­anum til að standa undir umfram­greiðslum er til stað­ar, þótt að smærri fyr­ir­tæki eigi í erf­ið­leikum með slík­ar.

Þessi gíf­ur­lega bætti hagur sjáv­ar­út­veg­ar­ins lendir nefni­lega að að mestu hjá stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækjum lands­ins. Þannig hefur til að mynda Sam­herji, sam­stæða félaga sem starfa á sviði sjáv­ar­út­vegs hér­lendis og erlend­is, hagn­ast um 86 millj­arða króna á und­an­förnum sex árum. Hagn­aður Sam­herja fyrir afskriftir og fjár­magnsliði í fyrra var 17 millj­arðar króna. Helstu eig­endur Sam­herja eru frænd­­urn­ir, for­­stjór­inn Þor­­steinn Már Bald­vins­­son og útgerð­­ar­­stjór­inn Krist­ján Vil­helms­­son.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar