Óflokkað

Tugir grunaðra skattsvikara sleppa við refsingu og sektir

Héraðssaksóknari hefur fellt niður um 60 mál gegn grunuðum skattsvikurum. Skattstofninn í skattsvikamálum sem eru til meðferðar hjá embættinu hleypur á milljörðum. Ástæðan er rof í málsmeðferð á meðan að beðið var niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu.

Hér­aðs­sak­sókn­ari hefur fellt niður um 60 mál þar sem grunur var um að ein­stak­lingar hefðu framið skatt­svik. Fyrstu málin voru felld niður fyrir tæpum mán­uði síð­an. Á meðal þeirra mála sem felld voru niður eru mál ein­stak­linga sem komu fyrir í Panama­skjöl­unum svoköll­uðu. Og stór hluti mál­anna snýst um ein­stak­linga sem geymdu fjár­muni utan Íslands til að kom­ast hjá skatt­greiðsl­um. Búist er við því að enn fleiri mál tengd ætl­uðum skattsvikum verði felld niður á næst­unni, en alls eru rúm­lega 150 mál til með­ferðar hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara. Alls er skatt­stofn­inn í öllum þeim málum yfir 30 millj­arðar króna.

Þegar er búið að end­ur­á­kvarða skatt­greiðslur á flesta þeirra sem undir eru í þeim rann­sókn­um. En í þeim málum sem felld hafa verið niður mun ekki verða hægt að leggja sektir á þá sem þau snú­ast um. Sekt fyrir skatt­svik getur verið frá því að vera tvö­föld sú skatt­fjár­hæð sem skotið var undan og upp að tífaldri þeirra fjár­hæð. Því er ljóst að íslenska ríkið verður af miklum fjár­hæðum vegna þessa og þeir sem sviku stór­fellt undan skatti munu enn fremur ekki þurfa að sæta refs­ingu fyrir að hafa framið hegn­ing­ar­laga­brot.

Bryn­dís Krist­jáns­dóttir skatt­rann­sókn­ar­stjóri segir að emb­ætti hennar muni óska eftir því að rík­is­sak­sókn­ari end­ur­skoði ákvörðun hér­aðs­sak­sókn­ara um nið­ur­fell­ingu í að minnsta kosti hluta mál­anna.

Sleppa vegna máls Jóns Ásgeirs

Ástæðan fyrir þess­ari stöðu er rof í máls­með­ferð sem varð vegna þess að ákæru­valdið og íslenskir dóm­stólar voru að bíða eftir nið­ur­stöðu í máli Jóns Ásgeirs Jóhann­es­sonar og Tryggva Jóns­sonar fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu, og síðan bið eftir því hvernig Hæsti­réttur túlk­aði þá nið­ur­stöð­u. 

Þann 18. maí síð­­ast­lið­inn komst Mann­rétt­inda­­dóm­­stóll Evr­­ópu að þeirra nið­­ur­­stöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn Jóni Ásgeiri Jóhann­essyni og Tryggva Jóns­­syni þegar þeir voru dæmdir í skil­orðs­bundið fang­elsi fyrir skatta­laga­brot í rekstri Baugs og fjár­­­fest­inga­­fé­lags­ins Gaums árið 2013, ásamt Krist­ínu Jóhann­es­dótt­­ur.

Þeir kærðu þann dóm til Mann­rétt­inda­­­dóm­stóls­ins á þeim for­­­sendum að þeir hefðu þegar hlotið dóm fyrir sömu brot. Þeir höfðu verið dæmdir til að greiða álag ofan á end­­ur­á­kvörðun skatta af yfir­­­skatta­­­nefnd árið 2007. Málin tvö hefðu verið byggð á sama grunn­i. Og því væri verið að refsa þeim tví­­­vegis fyrir sama brot­ið.

Fram að þeim tíma hafði það tíðkast hér­­­lendis að þeir sem sviku stór­­fellt undan skatti skyldu greiða hátt álag ofan á þá van­­goldnu skatta sem þeir skyldu end­­ur­greiða. Ef um meiri­háttar brot var að ræða þá var við­kom­andi einnig ákærður fyrir meiri háttar skatta­laga­brot, en við slíkum brotum liggur allt að sex ára fang­elsi auk þess sem við­kom­andi þarf að að greiða sekt.

Þegar Mann­rétt­inda­­dóm­­stóll­inn hafði kom­ist að nið­­ur­­stöðu þá þurfti að falla dómur í Hæsta­rétti um sam­­bæri­­legt efni til að fram komi hver áhrif nið­­ur­­stöð­unnar verði á íslenska dóma­fram­­kvæmd.

dómur féll í lok sept­em­ber síð­ast­lið­ins.

Þurftu að mynda eina sam­þætta heild

Hæsti­réttur var fjöl­skip­aður í mál­inu, sem sner­ist um stór­fellt skatta­laga­brot manns sem hafði ekki talið fram fjár­­­magnstekjur á árunum 2008 og 2009 upp á sam­tals 87 millj­­ónir króna á skatt­fram­tali sínu. Um var að ræða tekjur af sölu hluta­bréfa og upp­­­gjör á tugum fram­­virkra samn­inga.

Nið­ur­staða dóm­stóls­ins var að sak­fella mann­inn fyrir brotið og leggja á hann 14 millj­óna króna sekt­ar­greiðslu þrátt fyrir að skatt­yf­ir­völd hefðu þegar gert honum að greiða álag á vantalda skatta.

Í dómi Hæsta­réttar var því ekki tekið fyrir tvö­falda refs­ingu. Þar var hins veg­ar, með vísun í dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins í norsku máli sem féll fyrir um ári síðan og í mál Jóns Ásgeirs og Tryggva, sagt að sýna þyrfti fram á að sak­ar­efni sem sé til með­ferðar hjá bæði skatt­yf­ir­völdum og í saka­mála­rann­sókn séu þannig tengd að þau myndi eina sam­þætta heild að efni til. „Þetta feli ekki ein­göngu í sér að mark­miðin sem að er stefnt og aðferð­irnar til að ná þeim séu til fyll­ingar heldur jafn­framt að afleið­ingar þess lög­bundna fyr­ir­komu­lags feli það í sér að rekstur tveggja mála sé fyr­ir­sjá­an­legur og að gætt sé með­al­hófs,“ segir í dómi Hæsta­rétt­ar.

Um 150 mál með skatt­stofn upp á 30 millj­arða

Á meðan að beðið var nið­ur­stöður Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva, og á meðan að beðið var eftir því að sjá hver áhrif þeirrar nið­ur­stöðu yrði á íslenska dóma­fram­kvæmd, þá voru rúm­lega 150 mál sem voru til með­ferðar hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara, sem fer með rann­sókn­ar- og ákæru­vald í málum sem þessum, sett á bið. Um var að ræða mál sem eru í rann­­sókn, sem voru að bíða eftir að kom­­ast í rann­­sókn og mál sem búið var að rann­saka, og jafn­­vel ákæra í.

Eftir að emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara mát­aði þau mál sem það var með til með­ferðar við leið­bein­ingar Hæsta­réttar varð nið­ur­staðan sú að máls­með­ferð um 60 þeirra hjá ann­ars vegar skatt­yf­ir­völdum og hins vegar hér­aðs­sak­sókn­ara hafi ekki verið nægi­lega sam­tvinnuð í efni og tíma, aðal­lega vegna þess að þeim var slegið á frest vegna máls Jóns Ásgeirs og Tryggva sem var fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um.

Það rof sem varð vegna þess að málin voru sett á bið varð á end­anum til þess að þau voru látin niður falla.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar