Mynd: Birgir Þór Harðarson Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur 2017

Vinsældir til að byrja með tryggja ekki endilega langlífi ríkisstjórna

Sú ríkisstjórn sem tók við völdum fyrr í þessum mánuði mælist með prýðilegan stuðning. Ef frá er talin sú stjórn sem sprakk í september 2017, og var sú óvinsælasta á lýðveldistímanum, þá er slíkur stuðningur vani. Og hann þýðir alls ekki að ríkisstjórnarsamstarf verði langlíft.

Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur hafið líftíma sinn með töluverðan byr í seglin. Í könnun MMR, sem birt var í vikunni, kom fram að 66,7 prósent þeirra sem tóku afstöðu styðja ríkisstjórnina. Það eru umtalsvert fleiri en gætu hugsað sér að kjósa þá flokka sem standa að henni. Samtals mældist fylgi þeirra 48,4 prósent, sem er töluvert frá niðurstöðu þingkosninganna þegar Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur fengu samtals 52,9 prósent atkvæða.

Vert er að taka fram að könnun MMR var gerð áður en niðurstaða Hæstaréttar Íslands í Landsréttarmálinu svokallaða lá fyrir, en samkvæmt henni gerðist Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra brotleg við ákvæði stjórnsýslulaga þegar hún breytti tillögu hæfisnefndar um skipun 15 dómara við nýtt millidómstig. Forsætisráðherra hefur lýst því yfir að ekki verði farið fram á afsögn Sigríðar vegna þessa. Um er að ræða fyrsta stóra átakamálið þar sem reynir á nýju ríkisstjórnina.

Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar er sögulega mjög svipaður og stuðningur við nýjar ríkisstjórnir hefur verið. Hann er nánast sá sami og stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var í byrjun (65 prósent) og aðeins meiri en stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (59,9 prósent) í var samkvæmt fyrstu könnun eftir að hún tók við. Því fær ríkisstjórn Katrínar þann titil að vera sú ríkisstjórn eftirhrunsáranna sem byrjar með mestan stuðning.

Þeim sem standa að ríkisstjórninni er þó hollt að muna að báðar ofangreindar ríkisstjórnir enduðu líftíma sinn með mun minna fylgi. Ríkisstjórn Jöhönnu naut einungis stuðnings 31,5 prósent kjósenda þegar hún fór frá og þegar Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra var stuðningur við þá stjórn einungis 26 prósent. Hann braggaðist lítillega eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við forsætisráðuneytinu en endaði samt sem áður í einungis 35 prósentum þegar kosið var til þings haustið 2016. Og báðar þessar stjórnir kolféllu í næstu kosningum sem haldnar voru eftir að þær tóku við.

Ríkisstjórn Katrínar á hins vegar langt í að ná stuðningi eins og hans þekktist á árunum fyrir hrun. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde tók við sumarið 2007 mældist stuðningur við hana 83 prósent. Sú ríkisstjórn náði ekki að sitja hálft kjörtímabil.

Mikill stuðningur fyrir hrun

MMR birtir einungis tölur á heimasíðu sinni sem sýna stuðning við ríkisstjórnir aftur til þess þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde sat að völdum. Gallup hefur hins vegar mælt stuðning við ríkisstjórnir mun lengur. Þótt aðferðarfræði fyrirtækjanna tveggja sé ekki nákvæmlega sú sama þá skeikar ekki miklu á niðurstöðum þeirra þegar bæði hafa mælt stuðning á svipuðum tíma.

Gallup á mælingar á stuðningi áratugi aftur í tímann. Í gögnum fyrirtækisins er til að mynda hægt að finna upplýsingar um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þar sem Davíð Oddsson var forsætisráðherra, hafi mælst með stuðning um 74 prósent kjósenda skömmu eftir Alþingiskosningarnar 1995. Fjórum árum síðar, þegar flokkarnir tveir endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt á ný undir forsætis Davíðs, mældist stuðningurinn aftur um 74 prósent.

Auglýsing

Í þingkosningunum 2003 tapaði ríkisstjórnin fjórum þingmönnum og tæplega átta prósent af sameiginlegu fylgi sínu. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn héldu samt sem áður áfram samstarfi sínu og stuðningur við þá ríkisstjórn mældist 61 prósent í fyrstu mælingu eftir að hún tók við.

Fjórum árum síðar tók hins vegar nýtt fólk við keflinu og annars konar samstarf varð til. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde leiddu turnanna tvo í íslenskum stjórnmálum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, saman í sterka ríkisstjórn. Árið var 2007 og góðærið stóð sem hæst. Smjör virtist drjúpa af hverju strái og íslensk fjármálastarfsemi virtist vera í slíkum blóma að fram undan væri stanslaus efnahagsvöxtur. Stuðningur við hana mældist fordæmalaust mikill í júní 2007, mánuði eftir að hún tók við völdum. Alls sögðust 83 prósent aðspurðra styðja ríkisstjórnina.

Vinstri stjórnin byrjaði í meðbyr

Næsta ríkisstjórn, sem leidd var af Jóhönnu Sigurðardóttur, tók við völdum við ansi breyttar aðstæður. Bankakerfi landsins hafði hrunið og gjaldmiðillinn með. Þúsundir starfa höfðu horfið, lífsgæði landsmanna höfðu dregist stórkostlega saman og raunveruleg óvissa var uppi um hvort að Ísland gæti staðið við skuldbindingar sínar eða ekki. Áður óþekkt mótmæli, hin svokallað búsáhaldarbylting, hafði leitt til þess að Samfylkingin og Vinstri græn mynduðu minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokks sem sat í nokkra mánuði fram að kosningum. Þegar minnihlutastjórnin tók við mældist stuðningur við hana 65 prósent. Eftir kosningarnar í apríl 2009 mældist hann 61 prósent.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók svo við völdum vorið 2013. Í fyrstu stuðningsmælingu Gallup mældist stuðningur við hana 62,4 prósent.

Stuðningskannanir MMR voru ekki langt frá því sem fram kom í könnunum Gallup. Þar mældist stuðningur við ríkisstjórn Jóhönnu 56,1 prósent í fyrstu mælingu og stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs 59,9 prósent þegar hann var fyrst mældur í byrjun júní 2013.

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde naut fordæmalaus stuðnings þegar hún tók við. Sú ríkisstjórn náði ekki að sitja hálft kjörtímabil.
Mynd: EPA

Því hafa allar ríkisstjórnir síðustu rúmlega 20 ára byrjað sinn feril með því að vera með stuðning tæplega 60 prósent þjóðarinnar hið minnsta og allar höfðu þær skýran meirihlutastuðning að baki sér. Þ.e. þar til að ný ríkisstjórn tók við völdum í janúar 2017.

Sú óvinsælasta

Sú ríkisstjórn var undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Að henni stóðu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. Hún hafði minnihluta atkvæða á bakvið sig og minnsta mögulega meirihluta á þingi. Sú stjórn var mynduð eftir að búið var að reyna nánast öll önnur stjórnarmynstur í rúmlega tveggja mánaða langri grunnri stjórnarkreppu. Og sú ríkisstjórn hóf setu sínu með vindinn í fangið.

Fyrsta könnun MMR sem var birt eftir að ríkisstjórn Bjarna tók við sýndi að einungis 35 prósent kjósenda studdi hana. Það var sama hlutfall og studdi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í síðustu könnun sem MMR gerði fyrir kosningarnar í október 2016. Ríkisstjórn sem hafði gengið í gengum fordæmalaus hneykslismál, afsögn forsætisráðherra og logandi innanflokksdeilur innan Framsóknarflokksins. Ríkisstjórn sem kolféll í þeim kosningum og tapaði níu þingmönnum.

Raunar hafði engin ríkisstjórn komist nærri því að mælast með svona lítinn stuðning í sinni fyrstu mælingu eftir að hafa tekið við síðastliðin 20 ár hið minnsta.

Ástandið skánaði heldur ekki þegar leið á kjörtímabilið. Í síðustu könnunum áður en hún sprakk var stuðningurinn samkvæmt könnunum MMR komin niður fyrir 30 prósent. Og eftir að stjórnarsamstarfinu var slitið, en stjórnin sat áfram sem starfsstjórn, náði ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar áður óþekktum lægðum í stuðningi. Þann 11. október studdu einungis 21,8 prósent þjóðarinnar hana. Það er lægra hlutfall en studdi hrunstjórn Geirs H. Haarde í janúar 2009 (24,2 prósent), færri en studdu vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í miðju Icesave-málinu (22,8 prósent) og færri en studdu ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í kjölfar opinberunar á Panamaskjölunum (26 prósent).

Þegar ríkisstjórnin lét af störfum var hún sú óvinsælasta sem starfað hefur, að minnsta kosti frá því að stuðningsmælingar hófust. Enda varð hún á endanum skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar og sat í einungis átta mánuði.

Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar