Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þetta gerðist árið 2017: Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem sat í átta mánuði

Í janúar 2017 var mynduð ríkisstjórn sem fáir vildu, en enn færri studdu. Hún rataði í hvert erfiðleikamálið á fætur öðru og á stundum virtist andstaða innan úr henni vera sterkari en sú sem minnihlutinn veitti. Stjórnin varð skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar.

Hvað gerðist?

Kosið var á Íslandi í lok október 2016. Ástæðan var fyrst og fremst opinberun Panamaskjalanna í apríl sama ár og vera leiðtoga fyrri ríkisstjórnar, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar, í þeim skjölum.

Kosningarnar skiluðu engri skýrri niðurstöðu. Sjálfstæðisflokkurinn styrkti sig á milli kosninga og Píratar, sem höfðu farið með himinskautunum í aðdraganda þeirra, hríðféllu á lokametrunum. Ekki var hægt að mynda neina tveggja flokka ríkisstjórn og sjö flokkar áttu sæti á Alþingi, fleiri en nokkru sinni áður.

Fyrst eftir kosningar var reynt að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Flokkarnir voru með eins manns meirihluta og minnihluta atkvæða á bak við sig. Sú myndun gekk ekki eftir og strandaði aðallega á Evrópumálum og breytingum á sjávarútvegskerfinu.

Í kjölfarið var tvívegis reynt að mynda fimm flokka stjórnir sem samanstóðu af öllum þáverandi þingflokkum utan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en það gekk ekki heldur eftir. Óformlegar viðræður Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks um að mynda öxul í samstarfi skiluðu heldur engu og tilraunir Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að fá Samfylkinguna til liðs við sig í fjórflokkastjórn skömmu fyrir áramót 2016/2017 var líka hafnað.

Niðurstaðan varð því ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð, með minnsta mögulega meirihluta á þingi, var kynnt til leiks 10. janúar 2017.


Hvaða afleiðingar hafði það?

Ljóst var frá byrjun að í ríkisstjórninni var leitt saman fólk með mjög mismunandi nálgun og áherslur í stjórnmálum. Og efasemdir eða andstaða stjórnarþingmanna – aðallega úr Sjálfstæðisflokknum – um aðgerðir og orð hinna ýmsu ráðherra hafa nánast verið vikulegur viðburður.

Ekki hjálpaði til að ríkisstjórnin var ein sú óvinsælasta sem setið hafði frá upphafi. Í maí voru einungis 31,4 prósent landsmanna ánægðir með hana. Það voru færri en voru ánægðir með síðustu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks daginn fyrir kosningarnar haustið 2016, sem hrökklaðist frá völdum áður en kjörtímabilið kláraðist vegna hneykslismála. Raunar hafði ríkisstjórn aldrei byrjað feril sinn með jafn lítinn mældan stuðning og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Auglýsing

Varla leið heldur vika án þess að upp hafi komið ágreiningur milli stjórnarflokkanna og hluti þingmanna Sjálfstæðisflokks virtust skæðari í stjórnarandstöðu en stjórnarandstöðuflokkarnir. Þegar leið á árið sýndu kannanir að Björt framtíð væri við það að hverfa af þingi og að Viðreisn yrði við það líka, ef blásið yrði skyndilega til kosninga.

Stjórnarliðum tókst að vera ósam­mála um Reykja­vík­ur­flug­völl, um hvernig ætti að leysa sjó­manna­verk­fall­ið, áfeng­is­frum­varp­ið, end­ur­skipun á nefnd um end­ur­skoðun búvöru­samn­inga, jafn­launa­vottun og um sölu á hlut í Arion banka til erlendra vog­un­ar­sjóða, einka­rekstur í heil­brigð­is- og mennta­kerf­um, svo fátt eitt sé nefnt. Þeim tókst meira að segja að vera ósammála um lykilforsendur fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Við lok vorþings varð svo allt vitlaust þegar Landsréttarmálið knúði litlu flokkanna tvo til að standa við bakið á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra, þrátt fyrir að margir innan þeirra hafi í einkasamtölum síðar sagt að þeir hafi haft megna andstyggð á málsmeðferðinni. Hæstiréttur dæmdi síðan í desember 2017 að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún fór gegn mati hæfnisnefndar við skipun dómara við Landsrétt.

Ríkisstjórnin virtist fegin að sleppa inn í sumarfrí Alþingis sem átti að standa í um þrjá og hálfan mánuð. Fríið varð þó ekki jafn friðsælt og reiknað hafði verið með þegar fjölmiðlar fóru að greina frá því að dæmdir kynferðisbrotamenn hefðu fengið uppreist æru haustið 2016. Þolendur og aðstandendur þeirra, ásamt fjölmiðlum og þingmönnum stjórnarandstöðu, fóru að kalla eftir gögnum um málin. Mestur fókus var á tveimur þeirra. Annars vegar uppreist æru Róberts Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, og hins vegar uppreist æru Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Krafist var aðgengis að meðmælabréfum sem skilað var inn þegar mönnunum var veitt uppreist æra, en dómsmálaráðuneytið hafnaði að afhenda gögnin. Í september komst úrskurðarnefnd um upplýsingamál síðan að þeirri niðurstöðu að þau ættu að verða opinber. Þann 13. september kynnti Benedikt Jóhannesson, þá fjármála- og efnahagsmálaráðherra, fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Daginn eftir sendi Bene­dikt Sveins­son, faðir Bjarna Bene­dikts­sonar þá for­sæt­is­ráð­herra og for­manns Sjálf­stæð­is­flokks­ins, frá sér yfirlýsingu þar sem hann gekkst við því að vera einn þeirra sem skrif­uðu undir með­mæla­bréf með upp­reist æru Hjalta Sig­ur­jóns Hauks­son­ar. Dómsmálaráðherra greindi frá því síðar sama dag að hún hefði greint Bjarna frá því í júlí að faðir hans væri á meðal meðmælenda Hjalta, en á þeim tíma fengu aðrir ekki upplýsingar um málið.

Skömmu eftir miðnætti 15. september tók stjórn Bjartrar framtíðar þá ákvörðun að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna alvarlegs trúnaðarbrests.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar reyndist því skammlífasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar. Hún sat í 247 daga.

Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar