MYND:EPA

Þetta gerðist árið 2017: Ísland tryggði sér þátttökurétt á HM (staðfest)

Íslenska karlalandsliðið er komið á lokamót HM í Rússlandi eftir sigur á liði Kósóvó í Laugardalnum í október. Lið sem hefur þegar skráð sig á spjöld knattspyrnusögunnar bætti enn við þann kafla. Með gylltu letri.

Hvað gerð­ist?

Fyrst skulum við spóla aðeins til baka. Íslensk knatt­­spyrna hefur tekið ótrú­­legum fram­­förum á und­an­­förnum árum. Það þekkja ansi margir sög­una um litlu eyþjóð­ina, með aðeins fleiri íbúa en Bergen, sem átt­aði sig á því rétt fyrir alda­­mótin síð­­­ustu að hún myndi lík­­­lega ekki ná neinum árangri í knatt­­spyrnu með því að spila á mal­­ar­­völlum í aftaka­veðri og myrkri átta mán­uði á ári. Þess vegna var ráð­ist skipu­­lega í að byggja tíu knatt­­spyrn­u­hallir og á þriðja tug gervi­­gras­valla. Sam­hliða bættri aðstöðu þá hefur menntun þjálf­­ara verið aukin þannig að meira segja þeir sem þjálfa yngstu iðk­enda eru margir með UEFA A- eða B-gráðu. Upp­­skeran lét þó á sér standa. Íslenska lands­liðið hélt áfram að geta ekk­ert árum sam­­an. Eitt­hvað var samt sem áður að gerj­­ast í mold­­inni sem sáð hafði verið í. Sá árangur birt­ist fyrst í und­ankeppni úrslita­keppni EM U-21 árs liða, sem fram fór í Dan­­mörku sum­­­arið 2011.

Íslenska liðið vann leik eftir leik og tryggði sig á loka­­mót­ið. Burða­rás­arn­irnar í lið­inu voru strákar sem notið höfðu góðs af bættu aðstöð­unni, bættu þjálfun­inni og hinum aukna metn­aði sem settur hafði verið settur í íslenska knatt­­spyrnu. Á meðal þeirra sem léku lyk­il­hlut­verk í þessu liði voru Gylfi Sig­­urðs­­son, Aron Einar Gunn­­ar­s­­son, Birkir Bjarna­­son, Jóhann Berg Guð­­munds­­son og Kol­beinn Sig­þór­s­­son. Nær allir aðrir leik­­menn þessa U-21 árs liðs hafa síðar leikið A-lands­liðs­­leiki. Þótt lið­inu hafi ekki gengið neitt sér­­stak­­lega vel á mót­inu í Dan­­mörku þá var flestum ljóst að þetta voru sér­­stakir dreng­­ir. Gullna kyn­slóð íslenskrar karlaknatt­­spyrnu var að fæð­­ast.

Þetta sama sumar var Lars Lag­er­bäck ráð­inn lands­liðs­­þjálf­­ari Íslands. Hann var fyrsti útlend­ing­­ur­inn til að þjálfa liðið frá því að landi hans Bo Johans­­son lét af störfum 20 árum áður. Íslenska knatt­­spyrn­u­­sam­­bandið hafði gefið það út að stórt nafn yrði ráðið og á meðal þeirra sem rætt var við var Roy Keane. Í dag eru Íslend­ingar ákaf­­lega fegnir að þær áætl­­­anir hafi verið lagðar á hill­una. Lars og gullna kyn­­slóðin breyttu nefn­i­­lega öllu.

Í fyrstu und­ankeppni sinni byggði Lars Lag­er­bäck liðið sitt í kringum þessa ungu leik­­menn. Hann bland­aði þeim saman við veðr­aða og granít­harða járn­­menn eins og Kára Árna­­son og Ragnar Sig­­urðs­­son og skóp vel smurða 4-4-2 vél sem hefur ekki slegið feiltakt síð­­­an. Leik­­menn­irnir báru áður óþekkta virð­ingu fyrir Sví­­anum og hann inn­­­leiddi bæði fag­­mennsku og aga sem hafði ekki verið til stað­­ar. Í und­ankeppni síð­­asta heims­­meist­­ara­­móts komst liðið alla leið í umspil gegn Kró­a­­tíu þar sem grát­­legt tap á úti­­velli stóð á milli þess og Bras­il­­íu. Margir héldu að þar með hefði eina tæki­­færi Íslands til að kom­­ast á loka­­mót runnið lið­inu úr greip­­um. Þeir höfðu rangt fyrir sér.

Í næstu und­ankeppni komst Ísland beint upp úr riðl­in­um, án umspils. Ís­land vann sjálft Hol­land tvisvar á leið sinni til að tryggja sér rétt­inn til að spila í Frakk­landi í sum­­­ar. Þrátt fyrir það átti eng­inn von á því að liðið gerði neinar rósir á mót­inu. Flestir sér­­fræð­ingar voru sam­­mála um að Ísland, ásamt mög­u­­lega Ung­verj­um, væri það lið sem hefði minnst gæði.

Gæði eru hins vegar alls kon­­ar. Það eru til að mynda gæði að geta fylgt skipu­lagi út í þaula. Það eru gæði að búa yfir nægum klókindum og skyn­­semi til að stýra þróun leikja án þess að vera með bolt­ann nema tæp­­lega 30 pró­­sent leiks­ins. Það eru gæði að geta bætt upp fyrir skort á hraða og tækni með því að nýta hvern ein­asta eig­in­­leika sem hver leik­­maður hefur til hins ítrasta. Það eru gæði að geta myndað sterk per­­són­u­­leg sam­­bönd við liðs­­fé­laga sína sem gera það að verkum að leik­­menn eru til­­­búnir að ganga í gegnum veggi fyrir hvern ann­­an. Það eru gæði að vera ekki bara menn sem spila saman í liði, heldur nánir vin­­ir. Íslenska liðið leikur kannski öðru­­vísi knatt­­spyrnu en þykir hefð­bundið í dag. En það spilar ekk­ert annað lið í heim­inum hina full­komnu ljótu knatt­­spyrnu jafn vel og það ger­­ir. Sú knatt­spyrna skil­aði Íslandi í átta liða úrslitin á EM og skóp eina eft­ir­minni­leg­ustu knatt­spyrnu­sögu sam­tím­ans.

Heimir Hallgrímsson byrjaði sem aðstoðarþjálfari landsliðsiins, varð síðan meðþjálfari og að lokum einn aðalþjálfari. Hann hefur náð hreint mögnuðum árangri.
Mynd: EPA

25 mán­uðum og tveimur dögum eftir að tauga­veiklað jafn­­tefli tryggði Íslend­ingum þann sög­u­­lega árangur að verða fámenn­asta þjóð nokkru sinni til að ná að kom­­ast á loka­­mót karla­lands­liða var liðið mætt aftur með sam­­bæri­­legt verk­efni fyrir framan sig. Lag­er­bäck var horf­inn á braut og Heimir Hall­gríms­son, sem hafði stýrt lið­inu með honum síð­ustu árin var tek­inn einn við. Það breytti engu nema síður væri.

Í þetta sinn hafði liðið ýtt Króa­tíu, Úkra­ínu, Tyrk­landi og Finn­landi úr vegi. Eina sem stóð í vegi fyrir því að Ísland ynni sinn riðil í und­ankeppni heims­meist­ara­móts­ins og kæm­ist í fyrsta sinn á loka­mót þess var leikur við Kósóvó kaldan októ­ber­dag í Laug­ar­daln­um.

Jafn­­vel tap var nóg til að kom­­ast á loka­mótið í Rús­s­landi næsta sum­ar. En íslenska liðið pældi ekk­ert í því og vann öruggan 2-0 sig­ur. Og framdi um leið eitt mesta, ef ekki mesta, afrek sem íslenskt íþróttalið hefur fram­­kvæmt.

Hvaða áhrif hafði það?

Það hefur allskyns áhrif. Í fyrsta lagi liggur fyrir að þús­undir Íslend­inga eru á leið­inni til Rúss­lands að horfa á fót­bolta. Og geð­heilsu þjóð­ar­innar verður örugg­lega bjargað enn einu sinni ef liðið stendur sig eins og það hefur gert hingað til.

Í öðru lagi munu fjár­hags­legu áhrifin verða feiki­leg. Árið 2016, þegar Ísland tók þátt í loka­mót EM, fór velta KSÍ úr rúmum millj­­arði króna í þrjá millj­­arða, og nam rekstr­ar­hagnð­ur­inn 861 millj­­ón. Bón­us­greiðslur til leik­­manna og þjálf­­ara námu 846 millj­­ónum og greiðslur til aðild­­ar­­fé­laga fjór­­föld­uð­ust.

Nú opn­­ast dyrnar að jafn­­vel enn meiri pen­ing­um, en verð­­launa­­féð á HM hefur verið hækkað um meira en fjórð­ung frá síð­­­ustu keppni í Bras­­ilíu.

Fyrir það eitt að ná mark­mið­inu og kom­­ast áfram fær lands­liðið sam­tals tólf millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, eða sem nemur 1,3 millj­­örðum króna. Þar af skipt­­ast tvær millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, eða um 210 millj­­ónir króna, í und­ir­­bún­­ings­­upp­­hæð vegna loka­keppn­inn­­ar, og svo fara tíu millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, eða um 1.050 millj­­ónir króna, til allra liða fyrir það eitt að vera með í riðla­keppn­inni.

Töl­­urnar verða síðan enn hærri, eftir því sem lengra er komið í keppn­inni. Fyrir kom­­ast í 16 liða úrslit eru tólf millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, um 1,3 millj­­arðar króna, til við­­bótar í boði og 18 millj­­ónir Banda­­ríkja­dala, um tveir millj­­arðar króna, fyrir kom­­ast í 8 liða úrslit, eins og Ísland gerði í fyrra á EM.

Í þriðja lagi er feiki­lega góð og mik­il­væg land­kynn­ing fólgin í árangri „Strák­anna okk­ar“. Heims­­byggðin horfir til lands­ins, agn­­dofa. Við­brögð heims­­pressunnar við sigrinum á Kósóvó í októ­ber sýndu það svart á hvítu. Erlendir fjöl­miðlar lýstu afrek­inu sem „ein­­stöku“ og „sög­u­­legu“ og í umsögn breska rík­­is­út­­varps­ins BBC sagði að Ísland sé eina þjóðin í sög­unni sem kemst á HM, sem er með færri íbúa en eina millj­­ón.

Trín­i­dad og Tóbagó átti met­ið, en þar búa 1,3 millj­­ónir manna. Ólík­­­legt verður að telj­­ast að nokkur land geti nokkurn tím­ann slegið metið sem Ísland heldur nú, bæði fyrir EM og HM.

Albert Bunjaki, þjálf­­ari Kósóvó, sagði í við­tali við BBC að árangur Íslands væri mikil hvatn­ing fyrir litlar þjóð­­ir.

Ísland verður í D-riðli með Argent­ínu, Króa­tíu og Nígeríu á loka­mót­inu næsta sum­ar. Fyrsti leikur Íslands verður við Argent­ínu laug­ar­dag­inn 16. júní í Moskvu. Þar mun Kári Árna­son nær örugg­lega mæta besta knatt­spyrnu­manni heims, Lionel Messi. Liðið mætir svo Nígeríu í Vol­gograd föstu­dag­inn 22. júní og þriðju­dag­inn 26. júní mætir Ísland Króötum í Rostov-on-Don.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar